sunnudagur, 29. mars 2009

Takk Jóhanna!

Fyrir að tala skýrt í dag. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að stjórnmálaforingjar tali skýrt . Við þurfum skýra valkosti í kosningunum framundan og það var ekki hægt að skilja Jóhönnu öðruvísi en að ESB aðild væri forgangsmál íslenskra stjórnmála eftir kosningar. Það var langþráð og tímabær yfirlýsing.

Ég treysti því að það sé að marka hana og að ESB aðild verði skýlaus krafa Samfylkingarinnar um setu í ríkisstjórn eftir kosningar. Samfylkingin á að fara í kosningar á eigin forsendum og úrdráttur úr ræðu Jóhönnu benti til þess að það stæði til.

TAKK!

þriðjudagur, 17. mars 2009

Það vantar eitthvað inn í þessa mynd – veit einhver svarið?

Grein birt í Morgunblaðinu 24. mars 2009

Ég var nemandi í Viðskiptaháskólanum á Bifröst í lok nóvember 2001 þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson kom þangað með fyrirlestur og kynnti fyrir okkur nemendur hvernig Ísland gæti orðið ríkasta land í heimi svipað Luxemburg og Sviss. Mér kom þessi fyrirlestur mjög undarlega fyrir sjónir þar sem bannað var að fjárfesta í þeim eina atvinnuvegi sem ég gat ímyndað mér að útlendingar hefðu áhuga að fjárfesta í - íslenskum sjávarútvegi. Á þessum sama tíma höfðu lífeyrissjóðirnir fengið heimild til að fjárfesta í útlöndum og afleiðingar þess voru að blessuð krónan veiktist mjög sem aftur leiddi af sér verðbólgu sem olli mér ótta. Fátt gat ég hugsað mér verra en að fara aftur til þess tíma þegar ég var að alast upp og það eitt skiipti máli að losa við peninga jafnharðan og þeirra var aflað.

Ég þekkti vel hvaða áhrif sterk bankakerfi höfðu á þessi tvö lönd sem Hannes Hólmsteinn talaði svo fjálglega um í fyrirlestri sínum. Ég þekkti það að í Luxemburg voru launakjör almennt mun hærri en í nágrannalöndunum og að þar voru erfitt að fá gott verkafólk til starfa. Í Sviss var verðlag á þeirri þjónustu sem ég seldi miklum mun hærra en í öðrum löndum meginlandsins. Þessi tvö lönd skáru sig úr öðrum löndum meginlandsins sem ég seldi þjónustu frá fyrir þá staðreynd að bankastarfsemi var þeirra aðalatvinnuvegur sem augljóslega hafði mikil áhrif á viðkomandi samfélög. Atvinnulíf þeirra og velmegun almennings í þessum löndum.

Ég trúði ekki Hannesi Hólmsteini á þessum tíma. Mér fannst fráleitt að Ísland gæti orðið „ríkasta land í heimi" vegna bankastarfsemi.

Ég var reið stjórnmálamönnum á þessum tíma fyrir að tala fjálglega um að þeir hefðu leyst vandann hvað varðaði erlendar fjárfestingar á Íslandi án þess nokkurn tíma að tala um aðild að Evrópusambandinu.

Við þekkjum öll hvað gerst hefur síðan. Ísland varð „ríkasta land í heimi" eða þar um bil. Og bankastarfsemi varð stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar... um tíma.

Krónan styrktist sem aldrei fyrr. Í byrjun vegna framkvæmdad við Kárahnjúkavirkjun sem var erlend fjárfesting af stærðargráðu sem við höfðum aldrei komist í kynni við áður. Efnahagsreikningar íslensku bankanna sem nýlega höfðu verið einkavæddir bólgnuðu út vegna styrkingar krónunnar. Þá gátu íslensku bankarnir nýtt sér alla helstu kosti þess að vera með pínulítinn örgjaldmiðil í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi þar sem allt var á floti í peningum.

Aðrir atvinnuvegir áttu í vök að verjast. Þeir voru ekki samkeppnishæfir í neinu tilliti. Íslenskur sjávarútvegur hrökklaðist meira og minna út úr íslenskri kauphöll með árunum því enginn hafði áhuga á að fjárfesta í atvinnuvegi sem skilaði svona litlu af sér. Þá var nú meira vit í að fjárfesta í bönkunum sem skilaði arði upp á tugi prósenta ár eftir ár að ekki sé nú talað um hækkun á gengi hlutabréfa þeirra.

Íslendingar voru flottastir, snjallastir og bestir. Þeir kunnu allt betur en allir aðrir. Fyrirtæki á markaði hækkuðu öll meira og minna í verði um marga tugi prósenta á ári. Ég veit ekki hvort að einhverjum datt í hug að íslensk fyrirtæki væru svona miklu betur rekin en önnur fyrirtæki - alla vega ekki mér - en þetta var nú staðreyndin. Dansinn í kringum gullkálfinn virtist engan endi ætla að taka. Oflæti landans á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar fór út yfir öll mörk.

Við vitum öll hvað síðan gerðist. Við vitum öll hvaða afleiðingar þessi dans í kringum gullkálfinn, þessi ofvöxtur í krónunni og í verðmyndun fyrirtækja á markaði hafði á okkur öll . Það varð hrun - algjört hrun efnahags fyrirtækja og heimila í landinu. Gjaldmiðilinn er nú bæði varinn af okurvöxtum og gjaldeyrishöftum.

Í öll þessi ár var Sjálfstæðisflokkurinn við stjórnvölinn. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem sá aldrei neina ástæðu til að einu sinni ræða aðild að Evrópusambandinu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem talaði fyrir því að „Ísland yrði ríkasta land í heimi" með því að byggja hér upp stórt og öflugt bankakerfi. Það var og er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur í öll þessi ár neitað staðfastlega að Ísland þyrfti kannski á því að halda að vera með annan gjaldmiðil.

Það vantar eitthvað inn í þessa mynd. Nú spyr ég Sjálfstæðismenn að því 17. mars 2009 og ég bið þá um að svara mér:
  • Hver haldið þið að sé raunveruleg ástæða þess að íslensku bankarnir náðu þeim vexti sem þeir náðu á þessum fyrstu árum 21. aldar á Íslandi?
  • Hafði stefna ykkar þar ekkert að segja?
  • Hafði íslenska krónan á floti í alþjóðlegum fjármálaheimi þar ekkert að segja?
  • Höfðu háir vextir hér á landi þar ekkert að segja?
  • Var það bara „vondum mönnum í íslensku viðskiptalífi" um að kenna?
  • Hvernig ætlið þið að koma í veg fyrir að „vondir menn" fái starfað í íslensku viðskiptalífi?
  • Hvernig ætlið þið að sjá til þess að það sama gerist ekki aftur?
  • Hvernig ætlið þið að tryggja dóttur minni lífvænlegt umhverfi hér á landi til framtíðar?
  • Hvernig ætlið þið að tryggja henni fjölbreytt atvinnutækifæri hér á landi?
  • Hvernig ætlið þið að sjá til þess að við sem búum hér á landi getum búið við stöðugan gjaldmiðil?
  • Skiptir stöðugur gjaldmiðill engu máli?
  • Eru hagsveiflur eins og lýst er hér að ofan eftirsóknarverðar til framtíðar að ykkar áliti?
  • Ætlið þið í kosningar með óbreytta stefnu?
  • Þarf ekkert að ofangreindu neinnar endurskoðunar við?

sunnudagur, 15. mars 2009

Jarðvegur fyrir þröngsýni og smáa hugsun

Jarðvegur íslensks samfélags í dag í miðjum marsmánuði 2009 er jarðvegur þröngsýni og smárrar hugsunar.

Síendurteknar fréttir af stórskuldugri þjóð sem á sér ekki viðreisnar von leiðir til þess eins að við verðum þjóð sem á sér ekki viðreisnar von. Með því er ekki verið að gera lítið úr skuldastöðu þjóðarinnar - hún er án efa alvarleg og áhyggjuefni - en það liggur ekki fyrir hver hún er né heldur er skuldastaðan ein og sér aðalatriði íslenskra stjórnmála nú um stundir.

Fréttaskýringarþættir fjalla um kostnað ráðuneytanna við kaup á ráðgjöf og annarri þjónustu eins og þar sé um helberan óþarfa að ræða. Tekin eru viðtöl við fólk sem býr við sjálfsþurftabúskap og allir eru einstaklega hamingjusamir og lausir við streitu hins vestræna neyslukapphlaups.

Tilgangurinn leynir sér ekkert. Allt er á sömu bókina. Að búa með öllum árum til jarðveg í samfélaginu þar sem við öll förum í það far að hugsa smátt. Íslenskt samfélag framtíðarinnar skal byggt upp á sjálfsþurftabúskap og þjóðernishyggju. Íslendingar þurfa ekkert á samstarfi við aðrar þjóðir að halda, nei við ætlum að koma okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í einir og sjálfir og óstuddir.

Þessi hugsunarháttur gegnsýrir fljótt allt samfélagið. Allir skulu hugsa smátt. Kaup á „óþarfa" þjónustu eru ekki liðin. Mikið lifandis skelfing er þetta óskemmtileg framtíðarsýn í byrjun árs 2009.

Það er ástæða til að minna á að það er ekkert nýtt fyrir íslenska þjóð að vera skuldug upp fyrir haus. Ég ólst upp í samfélagi þar sem það var ítrekað í fréttum endalaust að hver og einn einstaklingur íslensku þjóðarinnar skuldaði svo og svo mikið. Ég minnist þess ekki að þessi skuldastaða hafi haft áhrif á mitt daglega líf. Áróður af þessu tagi er þó ómetanlegt stjórntæki. Ómetanlegt stjórntæki fyrir íslenska stjórnmálamenn sem þverskallast við að breyta stefnu sinna flokka. Með því að hafa fókusinn sífellt á því hvað við erum skuldug og illa sett er tryggt að við þegjum um það sem skiptir máli.

Það vill svo til að unga kynslóðin í dag er ekki kynslóð sem ólst upp í sama umhverfi og eldri kynslóðir. Unga kynslóðin mun ekki sætta sig við það samfélag sem íslensku stjórnmálaflokkarnir virðast ætla að búa henni til framtíðar. Ung fólk mun ósköp einfaldlega flytja héðan unnvörpum ef fram fer sem horfir. Hún gerir sér eflaust ekkert grein fyrir því núna - skilur ekki samhengi þess að Ísland taki sér stöðu í samfélagi þjóðanna og þess að búa til fjölbreytni í atvinnutækifærum. Eflaust er einmitt unga kynslóðin besti jarðvegurinn fyrir þjóðernisrembinginn sem tröllríður öllu núna.

En það er samt hún sem mun verða fyrst til að fara þegar hún áttar sig á afleiðingunum. Ábyrgðarleysi þeirra sem leyfa sér að segja að „það sé ekkert að fara" því ástandið sé svo slæmt annars staðar er algjört. Það er alvarlegt ástand í heiminum öllum nú um stundir en það mun ekki verða þannig að eilífu. Heimurinn mun komast út úr þessari stöðu hversu langt sem er í að það gerist og með hvaða ráðum.

Það hvernig Ísland spilar úr þeim tækifærum sem það hefur núna skiptir öllu máli. Jarðvegur þröngsýni og smárrar hugsunar er öruggasta leiðin til að okkur takist það ekki og verðum land lítils hagvaxtar um langa framtíð. Land fárra og ekki síður fábreyttra atvinnutækifæra.

Ísland framtíðarinnar þarfnast athafnamanna og stjórnmálamanna sem hugsa stórt en skynsamlega. Það eru tækifæri í þeirri stöðu sem erum í nú. Tækifæri sem skipta sköpum um stöðu okkar til framtíðar. Stjórnmálaflokkarnir virðast enn einu sinni ætla að klúðra því að horfa raunsæjir og með opin augu á það tækifæri. Þeir ætla í kosningar einu sinni enn - eftir algjört hrun íslenska hagkerfisins - án nokkurrar stefnubreytingar sem skiptir máli.

Íslenska þjóðin er fyrst og fremst ábyrg fyrir því að ætla að leyfa þeim það.

Hættulegt meðvitundarleysi íslensks almennings

Forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hélt fína ræðu á Viðskiptaþingi í vikunni. Ræðu á jákvæðum nótum þar sem hún reyndi að höfða til skynsemi og ábyrgðar stjórnenda atvinnulífsins. Það sem fyrst og fremst hreif mig í ræðu hennar var að hún talaði um það sem gerst hafði á almennum nótum. Hún benti ekki á einhverja tiltekna aðila sem sökudólga fyrir því að svo fór sem fór.

Eitt fór hún þó rangt með í ræðu sinni að mínu mati og það er erindi mitt hér. Það er hversu lítið er gert úr hlut stjórnmálamanna í því sem gerðist. Stjórnmálamenn á Íslandi bera fyrst og fremst ábyrgð á því sem hér gerðist - miklu og mun meiri ábyrgð en allir aðrir.

Það voru stjórnmálamennirnir sem bjuggu hér til það umhverfi sem viðskiptalífið hefur starfað í. Það voru stjórnmálamennirnir sem þverskölluðust við að taka afstöðu í grundvallarviðfangsefni íslenskra stjórnmála. Stjórnmálamenn hafa það hlutverk að sjá um umgjörðina í samfélaginu, það eru þeir sem eiga að skynja hvað þarf að gera og taka afstöðu til á hverjum tíma til að tryggja öryggi okkar borgaranna. Þegar þeir þverskallast við þeirri ábyrgð fer illa. Það ættum við Íslendingar að hafa lært af því sem gerst hefur og ekkert annað.

Með einhverjum óskiljanlegum hætti tókst Davíð Oddssyni og félögum að stýra alfarið afstöðu íslensku þjóðarinnar til þess sem gerðist í haust. Honum tókst að gera sjálfa sig og flokkinn sinn að fórnarlambi illra afla í viðskiptalífi og því trúir að því er virðist þjóðin öll sem nýju neti. Fáir sjá ástæðu til að tala um aðalástæðu þess að svo fór sem fór. Nei þá er miklu betra að benda á einstaka menn sem sökudólga. Þetta er slæm niðurstaða og leiðir okkur ekkert áfram.

Íslensku bankarnir hefðu ekki náð að vaxa svo óskaplega sem raunin varð nema vegna þess að þeir voru staðsettir á Íslendi með íslenska krónu - ofursterkan gjaldmiðil vegna erlendra fjárfestinga hér af algjörlega nýrri stærðargráðu vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar og í framhaldi fjárfestingum í krónunni sem gjaldmiðli. Beinlínis vegna stöðu krónunnar bólgnuðu efnahagsreikningar íslensku bankanna út og það vissu stjórnmálamennirnir - þ.e. þeir sem höfðu vit til. Hinir sem vilja dansa ábyrðgarlausir gerðu það sem aldrei fyrr og lofuðu Íslendingum gulli og grænum skógum sem aldrei fyrr.

Það er ótrúlegt að enginn fjölmiðill skuli tala um af hverju Landsbankinn náði þeim árangri sem hann náði með innlánsreikninga ICESAVE. Af hverju náði bankinn þessum ótrulega árangri á skömmum tíma? Auðvitað var það vegna þess gríðarlega háa vaxtastigs sem hér var umfram vaxtastig annarra þjóða. Af hverju var vaxtastig hér svo hátt? Vegna fáránlegrar stöðu íslensku krónunnar auðvitað í umhverfi þar sem peningar virtust á hverju strái og íslenska hagkerfið í þvílíkum dansi sem allir héldu að mundi endast að eilífu.

Ábyrgðarleysi stjórnmálaflokkanna nú að tala ekkert um nákvæmlega þetta er algjörlega óþolandi. Það er líka óþolandi að íslenskur almenningur skuli ekki gera kröfu á stjórnmálamenn að tala um nákvæmlega þetta.

Það sem hér gerðist allar götur frá 2003 er eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn hefðu þeir staðið vaktina hefðu mjög einfaldlega getað komið í veg fyrir. Þeir hefðu getað gert sér grein fyrir því að íslenska krónan á floti í alþjóðlegum fjármálaheimi gekk ekki upp. Íslenskir stjórnmálamenn áttu að gera sér grein fyrir því að það tvöfalda gjaldmiðilsumhverfi sem hér var komið upp gekk ekki upp. Þeir áttu að átta sig á því þegar íslenskur almenningur var farin að taka erlend lán í stórum stíl og njóta þannig vaxtakjara utan íslensks fjármálakerfis gekk ekki upp.

Meðvitundarleysi íslensks almennings núna að gera sér grein fyrir að það sem gerðist hefði ekki þurft að gerast er alvarlegasta ógn íslensks samfélags nú um stundir. Það er jarðvegur sem gerir íslenskum stjórnmálamönnum kleift að halda áfram stefnuleysi og ábyrgðarleysi til framtíðar. Stefnuleysi og ábyrgðarleysi árum saman sem hefur leitt okkur í þær ógöngur sem við erum nú í. Það er ófyrirgefanlegt að þetta skuli vera staðan sem íslenskur almenningur kýs framtíðarkynslóðum þjóðarinnar.

föstudagur, 6. mars 2009

Innköllum kvótann...

...var fyrirsögn á grein eftir Björgvin G. Sigurðsson sem ég las á Pressuvefnum í dag. Minnti mig óþyrmilega á af hverju ég sagði mig úr Samfylkingunni á haustmánuðum. Hvernig dettur stjórnmálamönnum sem vilja láta taka sig alvarlega í hug að segja svona lagað í dag? Í dag þegar fyrirtækin í landinu eru meira og minna komin í ríkiseigu og einu raunverulegu verðmætin eru kannski sjávarútvegsfyrirtækin sem til eru? Mér verður hreinlega allri lokið þegar ég heyri svona hugmyndir.

Í greininni er talað um þetta hróplega „óréttlæti" sem átti sér stað þegar kvótanum var úthlutað á sínum tíma.

Stjórnmálamenn sem tala í þessa veru mættu gjarna gera sér grein fyrir því að hugmyndir Evrópusambandsins í dag um að fella flugfélögin undir mengunarkvóta ESB eru byggðar á nákvæmlega sömu hugmyndafræði og kvótakerfið íslenska. Nákvæmlega sama „óréttlætið" er þar uppi á teningnum. Það eina sem skilur þessar tvær hugmyndir að er að í hugmyndum ESB á verðið fyrir kvótann að falla til ríkisins - ríksins þar sem loftfarið er skráð sem kaupir kvótann.

Það verð ég að segja og segi það algjörlega tæpitungulaust að mér finnst þó skárra að verðið fyrir kvótann sé inni í atvinnugreininni og fari á milli manna þar heldur en að það falli í ríkissjóð. Það er þó betra að þeir peningar sem með þessum hætti eru búnir til haldist innan greinarinnar sjálfrar heldur en að þeir falli í hendur ríkissjóðs sem síðan eyðir þeim í auglýsingar um að við eigum öll að bursta tennurnar eða þaðan af fánýtari hluti.

Það er kominn tími til að menn geri sér grein fyrir því að takmörkun á auðlind þýðir „óréttlæti". Hjá því verður ekki komist. Orðið „takmörkun" eitt og sér ber í sér merkingu sem engum hugnast sérstaklega vel. Það á sannarlega við um mengunarkvóta ESB og fáir ættu að gera sér betur grein fyrir því en Íslendingar. Með kvótasentingu sem meiningin er að miðist við árin 2004 - 2006 er verið að setja flugfélögunum sem við notum til að komast til og frá landinu veruleg takmörk. Það er verið að bút til kerfi utan um starfsemi flugfélaga eins og hún var á þessum árum 2004 - 2006. Hvaða „réttlæti" er það? Hvaða réttlæti er fólgið í því að þau flugfélög sem voru sterk á þessum árum njóti einhverra forréttinda umfram önnur flugfélög sem voru sterk á árum áður eða hafa orðið sterk síðan? Svarið er - ekkert „réttlæti". Það er yfirhöfuð ekkert kerfi til sem tryggir „réttlæti" í takmörkun af þessu tagi.

Ég tek það fram að ég er ekki sérfræðingur um kvótakerfið íslenska. Efast ekki um það eitt augnablik að það má lagfæra og bæta. En þegar því er haldið fram að okkur öllum Íslendingum sé best borgið með því að koma þessum atvinnuvegi líka í hendur ríkisins segi ég - NEI með stórum stöfum. Það að ríkið fái verðmætin af sölu á kvóta tryggir ekkert réttlæti í mínum huga og ég neita slíkum hugmyndum alfarið.

Hugmyndir Samfylkingarinnar um „sameign þjóðarinnar" eru ástæðan fyrir því að ég hef aldrei verið sannfærð í flokknum sem er aftur ástæðan fyrir því að ég sagði mig úr honum á haustmánuðum.

Þessar gælur flokksins við kommúnisma í formi óræðrar umræðu um grunvallaratriði þoli ég ekki. Gallinn er að allir hinir flokkarnir láta eins og þeir séu sammála þessu. Þannig að skjólið er ekkert. Það er ekki til valkostur þegar kemur að því að vera ósammála þessari arfavitlausu umræðu landans um „sameign þjóðarinnar". Þess vegna er best að standa utan flokka og leyfa sér að hafa sjálfstæðar skoðanir á því sem frá þeim kemur.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Hlífið okkur - í guðs bænum...

Ég er hrædd um að ég hefði ekki náð að leysa vandamál viðskiptavina minna hjá TVG-ZIMSEN í gamla daga ef ég hefði tekið á þeim með sama hætti og þingmenn taka á hruni íslenska hagkerfisins. Mikið lifandis skelfing er það niðurlægjandi og mikið virðingarleysi þingmanna í okkar garð að tala með þeim hætti sem heyrðist í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Sigurður Kári, Ásta Möller, Katrín Júlíusdóttir.

Sigurður Kári samur við sig þegar kemur að því að finna höggstað á formanni Samfylkingarinnar og næra þannig andlegan leiðtoga sinn. Ásta Möller með því að endurtaka orð hans. Katrín Júlíusdótti með því að kenna Sjálfstæðisflokknum um.

Að eyða tímanum í að velta því fyrir sér hverjum er um kenna er ekki forgangsatriði fyrir Íslendinga núna. Allra síst þegar það snýst um að búa til sökudólg úr einhverjum einum flokki umfram annan. Það er enginn flokkur þess umkominn að þvo hendur sínar af því sem gerst hefur. Meira að segja Vinstri grænir bera ábyrgð með ábyrgðarlausri innihaldslausri andstöðu sem gerir þá vægt frá sagt oft hjákátlega nú þegar þeir eru komnir við stjórnvölinn.

Það að hlusta á stjórnmálamenn - hvar í flokki sem þeir standa - tala í þessu veru núna er óþolandi.

Okkar ábyrgð núna felst í því að búa til framtíð fyrir okkur öll í þessu landi. Það verður ekki gert með því að eyða allri orku í að eltast við sökudólga og næra hatrið. Það að finna hverjum var um að kenna að svo fór sem fór leysir ekki vanda okkur. Hvorki nú né síðar. Það færir okkur ekki framtíð, ekki von, ekki einu sinni frið í sálinni.

Svo ég haldi áfram með samlíkinguna sem ég byrjaði á. Þegar viðskiptavinur hringdi brjálaður í mig hjá TVG-ZIMSEN vegna þess að pakkinn hans var týndur eða fastur einhvers staðar þá var atriði númer eitt að finna út úr því hvar vandamálið lá. Hver var staðan? Það var ekki hægt að leysa neitt fyrr en það lá fyrir hver staða málsins var. Þegar það var ljóst var hægt að snúa sér að því að leysa það. Það var lausnin sem skipti viðskiptavininn öllu máli - það að finna rót vandans og leysa hann. Það var það eina sem raunverulega skipti máli.

Það er alveg eins með Íslendinga núna. Það er lausnin á vandanum sem við er að etja sem skiptir okkur öllu máli. Það er það eina sem þingmenn á Alþingi Íslendinga eiga að eyða tíma sínum í núna:

Að gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem við erum í og í framhaldi af því finna lausnir til að leiða okkur út þeim vanda. Er til of mikils mælst að biðja alþingismenn að gera sér grein fyrir því?

sunnudagur, 1. mars 2009

Hugleiðingar 1. mars 2009

Fyrir mér lýsir Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins frá í dag forgangsatriði íslenskra stjórnmála - stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna til framtíðar. Það er það sem skiptir öllu máli og það er sú stefna sem mun ráða því hvaða flokk ég kýs í kosningunum í vor. Framsóknarflokkurinn var ekki sannfærandi með yfirlýsingum formanns í kjölfar landsfundar. Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að gefa út hvaða stefnu hann tekur á landsfundi. Samfylkingin er enn eini flokkurinn sem hefur ESB aðild á dagskrá. Það skiptir máli hvernig flokkurinn heldur á því máli fram að kosningum - hversu mikla áherslu hann mun leggja á það stefnumál.

Jens Stoltenberg á heiður skilinn fyrir að segja svo afdráttarlaust að aðild Íslendinga að mynsamstarfi um norsku krónuna kæmi ekki til greina. Það voru vonandi nægilega skýr skilaboð til að þagga niður í þeirri fánýtu umræðu. Íslendingar þurfa aðstoð forystumanna annarra þjóða til að komast út úr sjálfsblekkingunni. Árátta þjóðarinnar í að leita lausna á gjaldmiðilsvandanum annarra en þeirra að sækja um aðild að ESB er þreytandi og í því samhengi var þetta framlag norska forsætisráðherrans okkur til hjálpar vel þegið.

Ég sat í gær fund undir yfirskriftinni „The Way Ahead: Challenges and opportunities for Iceland". Um nákvæmlega þetta snýst sannfæring mín um aðild Íslands að ESB. Íslendingar standa á tímamótum. Við þörfnumst tækifæra, þörfnumst þess að búa hér til aðstæður sem opna möguleika á raunverulegri fjölbreytni í atvinnulífi. Aðild að ESB er slíkt tækifæri. Það snýst um aðild að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins fyrst og síðast og stefnu á upptöku evru til framtíðar.

Það þarf ekki flóknari upplýsingar til að taka afstöðu með aðild. Íslendingar þurfa ekki að gerast sérfræðingar í ESB til að taka ákvörðun um hvað þeir vilja. Þeir þurfa ekki að leggjast í lestur fræðigreina um sambandið til að taka afstöðu eins og oft er látið að liggja í umræðunni. Það er og verður ekki til eitt rétt eða rangt svar um hvaða afleiðingar aðild að ESB mun hafa.

Það sem þarf er að átta sig á þeirri stöðu sem Ísland hefur í dag og hversu mikil áhrif þessi eina ákvörðun getur haft á þá stöðu. Það þarf ekki annað en hugsa um hvaða áhrif það hefur á íslenskt atvinnulíf að í stað þess að Ísland sé "heimamarkaðurinn" verður Evrópusambandið allt "heimamarkaðurinn". Það er ekki flókið að sjá fyrir sér hversu mikil breyting fælist í þeirri breytingu einni saman. Tala nú ekki um fyrir rekstur hvaða fyrirtækja sem er að hafa tekjur og kostnað að stærstum hluta í sama gjaldmiðli til framtíðar litið en langstærsti hluti Íslendinga við útlönd er við lönd Evrópusambandsins.

Fyrir okkur einstaklingana í íslensku samfélagi skiptir þessu ákvörðun sköpum um framtíðina. Aðild að ESB þýðir fjölbreyttari atvinnutækifæri til framtíðar litið, meiri möguleika á raunverulegri samkeppni fyrirtækja á innanlandsmarkaði, meiri möguleika á fjölbreytni í erlendum fjárfestingum hér og svo mætti lengi áfram telja. Aðild að ESB styrkir sjálfstæði þjóðarinnar hvernig sem á málið er litið. Aðild að EES má með réttu kalla fullveldisafsal, aðild að ESB yrði skref í átt til endurheimtar fullveldisins.

Það er augljóst að staðan í íslenskum stjórnmálum er þannig núna að allt getur gerst. Hvaða stefnu flokkarnir taka hvað varðar stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna skiptir öllu máli. Röðun fólks á lista flokkanna skiptir líka öllu máli. Þetta tvennt mun fyrst og fremst ráða því hvaða val verður um að ræða í kosningunum í vor. Ég á þá ósk heitasta að íslenska þjóðin muni hafa þá skynsemi til að bera að kjósa sterka lista í komandi prófkjörum til að auðvelda okkur eftirleikinn í kosningunum í vor.

Afstaða flokkanna og fólksins sem verður þar í forystu í kosningunum í vor skiptir öllu máli um framtíðarmöguleika okkar Íslendinga til framtíðar.. Mun meira máli en allar fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar og breytingar á stjórnskipulagi til samans. Það er ekki til patentlausn á íslenskum stjórnarfarsvanda en það er til lausn sem leiðir okkur á rétta braut hraðar en okkur órar fyrir.

Gerum aðild að ESB að sameiginlegri forgangskröfu okkar um breytingar til framtíðar!

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...