sunnudagur, 30. nóvember 2008

Sjálfgefið réttlæti ríkisins

Hávær umræða fjöldans síðustu vikur hefur markast af fyrirsögninni hér að ofan - eða þannig hef ég upplifað hana. Að vald íslenska ríkisins tryggi að mest réttlæti sé viðhaft í hverju því sem verið er að takast á við. Umræða af þessum toga veldur mér meiri skelfingu og ótta en ég get með orðum lýst. Ég hef aldrei séð íslenskt ríkisvald viðhafa meira réttlæti en aðrir nema síður sé og raunar hefur íslenskt ríkisvald jafnan komið mér fyrir sjónir sem vont vald. Af þessum sökum hef ég ekki tekið þátt í einni mótmælauppákomu þetta haustið. Ég get ekki hugsað mér að sitja undir málflutningi fólks sem talar fyrir þjóðnýtingu eða að með sem mestu eignarhaldi og afskiptum ríkisins sé réttlæti best tryggt. Tala nú ekki um þann málflutning að það sé sjálfgefið að þannig sé það.

Ég skil ekki umræðu sem markast af því að þar sem „ríkið" eigi nú bankana þá „eigi" ég þá og eigi þar af leiðandi að hafa mikið með það að segja hvernig hlutum þar er ráðstafað. Ég skil yfirhöfuð ekki og hef aldrei skilið þann málflutning að um leið og íslenska ríkið eigi eitthvað „eigi ég" það þar með. Það að vera íslenskur þjóðfélagsþegn er eitt, það að vera fjárfestir eða „eigandi" að einhverju er annað.

Ég man mjög vel þegar Steingrímur J. Sigfússon mætti á aðalfund Símans forðum og talaði þar eins og hann væri sem íslenskur þjóðfélagsþegn þar með „fjárfestir" í íslenska símanum. Steingrímur talaði á þessum fundi eins og hann væri hluthafi í hlutafélagi sem íslenskur ríkisborgari og þar af leiðandi einn „eigenda" Símans sem var í eigu ríkisins. Ég get ekki betur séð en að umræðan þessa dagana markist af þessu sama viðhorfi. Við öll íslenska þjóðin erum „eigendur" að bönkunum og guð má vita hvaða fyrirtækjum öðrum í gegnum þá.

Ríkið er auðvitað ekkert annað en vald okkar þjóðfélagsþegnanna en það er kerfislægt vald - vald sem við ég og þú og allir hinir einstaklingarnir höfum yfirleitt afskaplega lítið með að gera hvernig farið er með. Ríkisvaldið er ekki lýðræðislega kjörið vald eða vald sem verður til vegna þess að þeir sem þar sitja séu best til þess fallnir að sitja þar. Ég sem íslenskur þjóðfélagsþegn hef nákvæmlega ekkert með það að gera hverjir sitja í forsvari fyrir ríkisvaldið á hverjum stað á hverjum tíma. Ég kem ekki að þeirri ákvarðatöku eða hvernig þeir fara með valdið.

Verstu dæmin um vont vald íslenska ríkisins eru að mínu mati kröfur þeirra síðustu ár um eignaupptöku lands á grundvelli laga um „þjóð"lendur. Á grundvelli þeirra laga hefur íslenska ríkið farið offari í valdníðslu gagnvart einstaklingum og það án þess einu sinni að reyna að fela það. Ég hef ekki séð að ég sem íslenskur ríkisborgari hafi getað haft mikil áhrif á þessa skelfilegu gjörninga. Ríkisvaldið hefur í þessu máli vaðið áfram í fullkomlega ósanngjörnum kröfum sínum og notað til þess allan mögulegan og ómögulegan rökstuðning. Ekkert hefur verið ríkisvaldinu heilagt í þessari eignaupptöku. Í þessum gjörningi hefur ríkisvaldið sýnt sitt rétta andlit - fullkomlega miskunnarlaust og ranglátt vald til að gera nákvæmlega það sem því sýnist án aðhalds eða réttsýni af nokkru tagi.

Annað skýrt dæmi sem sýnir fáránleikann sem upp getur komið þegar ríkisvaldið á að tryggja mest réttlæti og sanngirni er dæmið um útgáfuréttinn ástkærum rithöfundi vorrar þjóðar Halldóri Kiljan Laxness. Ríkisvaldið ákvað að taka útgáfuréttinn af þeim aðila sem hafði hann, það gerði ríkið á þeim forsendum að með því væri það að tryggja mest réttlæti. Ríkisvaldið gerði það án þess að hafa nokkrar forsendur fyrir því að aðrir væru í stakk búnir til að taka þennan útgáfurétt yfir. Nú er staðan sú að enginn er með útgáfuréttinn að Halldóri Kiljan Laxness og sú staða getur komið upp að bækur hans verði ekki fáanlegar innan skamms tíma. Getur verið að þeir menn sem þarna tóku ákvarðanir hafi ekki haft neinar forsendur til að taka þær ákvarðanir? Getur verið að þarna hafi einhverjir menn fengið allt of mikið vald - vald sem þeir fóru illa með og veldur okkur öllum mun meiri skaða en ef þeir hefðu látið vera að hafa afskipti af?

Í upphafi hrunsins í október hafði ég á orði að ég vildi ekki „túngarð" Davíðs Oddssonar, Steingríms J. Sigfússonar, Guðna Ágústssonar og þeirra félaga. Ég vildi ekki horfa til þess að íslenskt samfélag yrði eins og samfélagið sem ég ólst upp í. Samfélag pólitískrar spillingar þar sem viðskipti voru viðhöfð á grundvelli þess hvar menn skipuðu sér í flokk en ekki á grundvelli heilbrigðrar samkeppni. Ég get ekki betur séð en ég sé komin í þennan túngarð og guð einn veit hvort, hvenær og hvernig verður aftur snúið. Vonin um að fram á völlin kæmu raddir heilbrigðrar skynsemi dofnar sífellt meir og er að engu orðin. Íslenskt samfélag hefur hrapað aftur á bak um a.m.k. 50 ár og einu raddirnar sem ég heyri opinberlega af fundum eru raddir þjóðnýtingar og afskipta ríkisvalds á öllum sviðum og að það muni tryggja okkur gott, sanngjarnt og réttlátt samfélag til framtíðar. Hvaða röksemdafærsla er að baki þessum upphrópunum? Síðan hvenær tryggja sem mest afskipti íslenska ríkisins mest réttlæti? Getur einhver upplýst mig um það?

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Ef Davíð hefði nú bara verið treyst til að ráða öllu...

Mikið er það nú gott að búa í samfélagi þar sem valdmörkin eru á hreinu. Verst að það skildi ekki vera hægt að koma því á fyrr að Davíð Oddsson fengi formleg völd til að ráðaöllu - þá værum við nú ekki stödd í þessum vanda núna - þvílíkt eindæma klúður!

Aumingja Davíð. Mikið rosalega á hann skilda mikla samúð að hafa verið í þessu valdalitla hlutverki öll þessi ár. Það hefði nú verið betra að treysta honum fyrir þessu öllu saman - eignarhaldi á fjölmiðlum, stjórn á því „hverjir" mega eiga og „hverjir" mega stjórna fyrirtækjunum í landinu. Þá væri nú aldeilis önnur staða uppi í íslensku samfélagi í dag.

Saksóknari
Dómari
Alvitur
...algjörlega valdalaust og saklaust fórnarlamb illra afla

Það eru ekki margar þjóðir sem hafa á skipa þvílíkum seðlabankastjóra.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Vonleysi

Það er vont að eygja ekki von en þannig er ástatt með mig núna. Það er áreiðanlega best að hætta þessu rausi hér á vefinn og snúa sér að því að reyna að lifa þetta af. Búa sér til þröngan heim sem gengur út á að hætta að fylgjast með, fara í vinnuna, sinna starfinu og fara heim og sinna sínum nánustu. Svartnætti það sem ég upplifi í þessu samfélagi í augnablikinu á ekkert erindi við aðra en sjálfa mig.

Ég hélt um stund á fimmtudaginn eftir að hafa lesið ræður Þórs Sigfússonar og Vilhjálms Egilssonar frá fundi Samtaka atvinnulífsins að eitthvað verulega jákvætt væri að gerast. Sú von sem þessar ræður þeirra kveiktu slökknaði snarlega aftur eftir hádegi á föstudaginn þegar ljóst var að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að stofna enn eina nefndina um Evrópumál og flýta landsfundi flokksins fram í janúar til að taka þar afstöðu til Evrópusambandsaðildar. Skilaboðin sem ég hafði lesið í leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu á miðvikudaginn og foyrstumanna Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn um að gefa þyrfti út afdráttarlausa stefnu tafarlaust urðu með þessari niðurstöðu að engu. Ég hef væntanlega misskilið herfilega þessi skilaboð.

Það er alveg ljóst að flokkakerfið okkar gerir það að verkum að engar ákvarðanir eru teknar si svona sem brjóta í bága við útgefna stefnu flokkanna. Svo sem auðvitað ekki við því að búast en mikið er það vond staða fyrir þjóð í alvarlegri krísu að þurfa að horfast í augu við að hagsmunir stjórnmálaflokka ganga ofar heildarhagsmunum þjóðar. Stjórnmálaflokkar sem hafa reynst algjörlega ófærir um að takast á við stefnu sem blasað hefur við að þyrfti að taka á árum saman. Jafnvel þegar þetta getuleysi þeirra hefur beðið algjört skipbrot og leitt þjóðina í alvarlegri stöðu en nokkur gat ímyndað sér að gæti gerst - jafnvel þá eru flokkarnir enn í veginum.

Ég geri mér grein fyrir því að nú er ekki eins og öll þjóðin sé sammála mér um að gefa eigi út að stefnt skuli að Evrópusambandsaðild. Það er samt svo að alveg síðan ég horfði á yfirlýsingar Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í Kastljósi kvöldið minnistæða í október hefur það verið algjörlega skýrt fyrir mér að þessi yfirlýsing stjórnvalda væri eina leiðin til að eygja von um komast út úr krísinu ekki síður eina leiðin til að geta verið bjartsýnn til framtíðar.

Mér er alveg gjörsamlega ómögulegt að sjá hvernig hægt er að vera bjartsýnn og rólegur á meðan eldarnir eru slökktir ef engin er framtíðarsýnin. Hvernig á íslenskt hagkerfi með sinn ótrúverðuga gjaldmiðil að ná sér á strik ef sýnin um breytingar til lengri tíma er engin? Hvernig er hægt að bíða rólegur fram í janúar í þessari stöðu?

Mér þykir það verulega leitt en yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá á föstudag um aðgerðir til að hjálpa heimilinum vöktu mér enga von. Yfirlýsingar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um flýtingu flokksfunda fram í janúar gerðu það ekki heldur. Ég er hætt að tjá mig um íslenskt samfélag í bili og ætla að snúa mér að því að reyna að lifa þetta af.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Áskorun til þingmanna á Alþingi Íslendinga 11. nóv. 2008!

Ég á rætur mínar í Framsóknarflokknum, er félagi í Samfylkingunni , hef lengst af starfað fyrir fólk sem aðhyllist Sjálfstæðisflokkinn. Ég trúi ekki á flokka. Ég trúi á blöndu hugmynda, raunsæis og skynsemi í afstöðu til stjórnmála.

Ég hef lengst af starfað í viðskiptalífinu - í þjónustu við fyrirtæki í landinu. Ég trúi af heilum hug að frelsi í viðskiptum sé besta leiðin til farsældar hverju samfélagi. Því frelsi þarf þó að fylgja skynsemi og raunsæi sem eru eiginleikar sem maðurinn má aldrei sleppa höndinni af.

Ég trúi ekki að eitt form á eignarhaldi sé endilega öðru fremra eða yfirhöfuð að „trú á eignarform" eigi að vera leiðarljós okkar í stjórnmálum dagsins í dag. Ég trúi að tilgangur fyrirtækja og stofnana sé meginmarkmiðið og að eignarhaldið eigi að ráðast því hvað hentar þeim tilgangi best.

Ég upplifði breytinguna við upptöku Evrunnar og hrun „landamæra" innan Evrópu.Ég upplifði þann lúxus að geta borið saman flutningskostnað frá öllum löndum Evrópu í stað þess að umreikna svissneska, belgíska, franska franka, hollensk gyllini, ítalskar lírur, spænska peseta, þýsk mörk... yfir í íslenskar krónur. Allt í einu varð það mögulegt að gera kröfur á að sama þjónusta væri seld sama verði í öllum þessum löndum. Það varð mér strax ljóst að helstu kostir Evrunnar kæmu fram á löngum tíma.

Ég hef lengi verð sannfærður Evrópusambandssinni. Ekki vegna þess að ég „trúi á" Evrópusambandið - ekki frekar en ég „trúi á" Alþingi Íslendinga. Ég er sannfærð um að Evrópusambandið hefur skipt sköpum um þróun Evrópu. Viðskiptaleg tengsl - ekki síst vegna sameiginlegs gjaldmiðils skipta sköpum. Á sama tíma held ég að Evrópusambandið sé á skelfilegri leið um margt. Eina leiðin til að hafa áhrif á leiðina er að verða fullur þátttakandi .

Ég hef síðustu ár upplifað upptöku Evróputilskipana og reglugerða í íslenskan rétt. Ég hef upplifað gagnrýnisleysi og einhliða upptöku þessara laga og reglna sem alþingismenn og stjórnsýsla þvo hendur sínar af og segja að þeir geti ekkert gert við „þetta komi frá Evrópusamabandinu".

Ég hef nú í tvö ár verið í starfi þar sem megnið af vinnunni fer í að gagnrýna Evróputilskipanir og reglugerðir sem greininni sem ég starfa fyrir er gert að taka upp hvað sem tautar og raular. Þessi atvinnugrein starfar undir löggjafarvaldi í Evrópu - löggjafarvaldi sem íslenski löggjafinn þrástagast við að hafa nokkuð með að gera. Meirihluti alþingismanna á Íslandi heldur því statt og stöðugt fram að við getum ekki gerst aðilar að Evrópusambandinu vegna þess að „því fylgi svo mikið reglugerðarfargan"!

Ég verð að játa að ég skil þetta ekki. Hvernig í ósköpunum er hægt að heyja margra ára baráttu sem byggir á því að þurfa ekki að taka upp eitthvað sem þegar er verið að taka upp? Hvernig stendur á því að Íslendingar mega bara fá gallana af Evrópusambandsaðild en þeim er algjörlega meinað að fá að upplifa kostina? Landamæraleysið og „innanlandsviðskipti" við lönd Evrópusambandsins og upptöku evru? Hvaða skynsemi er í stjórnmálum af þessu tagi?

Íslenska hagkerfið er hrunið. Gjaldmiðill okkar er búinn að vera og er raunverulega ekki til sem stendur. Ég sé ekki að ég muni sakna hans* enda af verðbólgukynslóðinni og hef aldrei skilið af hverju mér ætti að vera eitthvað sérstaka hlýtt til íslensku krónunnar. Íslenska krónan hefur gert mér lífið leitt alla mína ævi og fátt myndi gleðja mig meir í daglegu lífi en að þurfa ekki hugsa stöðugt um „gengismál".

Að þessu sögðu er áskorun mín til þingmanna eftirfarandi!

Í guðs bænum hristið af ykkur „flokks"fjötrana! Gefið okkur framtíðarsýn! Leyfið okkur að eygja von um að Ísland verði áfram í samfélagi þjóðanna! Takið afstöðu til þess sem taka þarf afstöðu til og það strax! Við getum ekki beðið! Þið eruð fulltrúarnir sem við kusum til að stjórna þessu samfélagi. Þetta samfélag er nú í verri krísu en við höfum nokkurn tíma horfst í augu við. Þið berið ábyrgð gagnvart okkur sem kusum ykkur - meiri og mikilvægari ábyrgð en gagnvart flokkunum sem þið tilheyrið! Flokkar eru mannanna verk og þeir mega breytast og þróast eins og önnur mannanna verk! Í guðs bænum... talið við okkur og gefið okkur sýn!


• Þó ég játi að hann má alveg lifna við til skamms tíma til að við eigum möguleika á að losna við hann endanlega og getum jarðað hann með reisn, án þess að hann geri okkur öll gjaldþrota.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Hverjum eigum við að treysta? Hvar er forystan?

Nú er kominn sunnudagur 9. nóv. 2008. Vinnuvika framundan - vika númer sex síðan Hrunið byrjaði með þjóðnýtingu Glitnis. Hvað hefur gerst síðan? Hvað eru stjórnvöld að gera til að efla trú okkar á að þetta samfélag okkar eigi sér framtíð? Það er alveg rétt að það hefur verið ástæða til hrósa Geir H. Haarde fyrir þá yfirvegum sem hann hefur sýnt síðan áfallið reið yfir en öllu má nú ofgera... er það nægilegt að sýna yfirvegun í slíkum aðstæðum viku eftir viku eftir viku?

Hvar í ósköpunum sér þess stað að einhver sé að stjórna landinu? Er einhver áætlun í gangi? Er einhver „strategía í gangi"? Er einhvern að vinna að almannatengslum fyrir Ísland einhvers staðar? Er einhver að tala við bresk, hollensk, þýsk yfirvöld til að reyna að leysa mál okkar gagnvart þeim? Er einhver að vinna í því að Ísland muni einhvern tíma eiga sér viðreisnar von í alþjóðasamskiptum aftur? Er einhver að vinna í því að sá skaði sem við höfum orðið fyrir leiði ekki til þess að við verðum brennimerkt til langrar framtíðar og dæmd til að skammast okkar fyrir þjóðernið?

Í kvöldfréttum var það ítrekað einu sinni enn að stórþjóðirnar innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vinni gegn því að sjóðurinn veiti okkur lán nema gengið verði frá Icesavereikningunum. Þetta eru hræðilegar fréttir - svo hræðilegar að ég get ekki hugsað þá hugsun til enda. Getur það í alvörunni verið að þetta sé staðan? Eru Bretar og Hollendingar að vinna gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti okkur lán? Ef það er raunin geta stjórnvöld þá verið svo væn að segja mér hvernig í ósköpunum Ísland getur unnið sig út úr þessu hruni? Hvernig á krónan að geta orðið til aftur? Er gjaldeyrisskömmtun komin til að vera? Er Ísland orðið lokað land til framtíðar og er það sýnin sem við eigum að venja okkur við? Á það fyrir Íslandi að liggja að verða samfélag hliðstætt við Kúbu eða Albaníu?

Er til of mikils mælst af stjórnvöldum að þau hafi haft einhverja áætlun í höndunum þegar þau þjóðnýttu Glitni og settu neyðarlög til að halda utan um hagsmuni ÍSLENSKS hluta bankanna? Héldu þau í alvörunni að þessar ráðstafanir hefðu engar afleiðingar? Héldu íslensk stjórnvöld í alvörunni eins og seðlabankastjóri lýsti yfir í frægu Kastljósviðtali að „þetta væri ekkert mál - við Íslendingar myndum bara byggja skjaldborg utan um íslenskan hluta bankanna og klippa erlendar skuldir frá - kannski greiða svona 5 - 15% þeirra"!!! Hvers konar samfélag er það sem er enn með þennan sama seðlabankastjóra við stjórnvölinn? Hvaða trausts nýtur þessi maður eða þessi stjórnvöld hjá þeim þjóðum sem urðu fyrir þessum gjörningi? Gerðu þau enga áætlun um hvað þetta mundi leiða af sér og starfa þau ekki enn eftir neinni áætlun um hvernig unnið skuli úr þessu?

Íslenskur almenningur sýnir reiði - botnlausa reiði sem snýr að „auðmönnum", bankastjórnendum, jafnvel bankastarfsmönnum. Háværir alþingismenn taka undir þennan söng, eru með yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um „auðmenn" og „fallista í viðskiptalífi" og ala þar með á sundrungu þjóðarinnar á verstu krísutímum sem orðið hafa síðustu áratugi. Ekkert er lengur heilagt. Fólk sem hefur notið virðingar er gert tortryggilegt. Jafnvel reynt að þagga niður í því með þeim orðum að nú sé það orðið „Ríkis"starfsmenn og megi því ekki lengur segja hug sinn!

Gera stjórnvöld og Alþingi sér grein fyrir hvað er að gerast í íslensku samfélagi? Eru einhverjir þarna sem neita að taka þátt í þessu og opna munninn? Vita stjórnmálamenn á Íslandi ekki hvaða hlutverk þeir hafa? Hvar er ábyrgðin? Hvar er forystan?

mánudagur, 3. nóvember 2008

Sökudólgaleit og afneitun

Það er undarleg árátta að sitja við og setja gamlar greinar inn á bloggsíðu á tímum eins og þessum. Nánast eins og að sitja við skriftir á meðan húsið brennur ofan af manni. Læt staðar numið við þá „sagnfræði" að sinni.

Nú eru liðnar fjórar vikur síðan bankakerfið okkar hrundi og samfélagið fór í „biðstöðu". Það er enn í biðstöðu og ekki að sjá hvenær því linnir. Gjaldmiðillinn okkar er ekki til amk ekki á sama gengi báðum megin við hafið og viðskipti við útlönd eru öll í uppnámi. Alþingismennirnir okkar - þeir sem við eigum að treysta til að leiða okkur út úr krísunni og fyrir framtíð okkar deila hvor á annan - eru með háværar yfirlýsingar um „auðmenn" eða viðra hugmyndir sínar um að taka upp norska krónu eða einhverjar víðlíka nærtækar lausnir á því vandamáli sem við er að etja!

Á meðan bíðum við... Eftir hverju erum við að bíða? Og hvað eigum við að bíða lengi?

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Skynsemisraddirnar...

Nú sem aldrei fyrr þrái ég að fá að heyra skynsemisraddir . Skynsemisraddir um hvar við erum, hvað þarf að gera í þeirri stöðu og síðast en ekki síst framtíðarsýn. Ég held reyndar að skortur á framtíðarsýn stjórnvalda núna sé stórhættulegt til skemmri tíma og ætla að færa rök fyrir því hér.

Í tvígang í síðustu viku hef ég lent í þeim aðstæðum að orð mín hafa orðið til þess að vekja þvílíka reiði áheyrenda að ég hef fengið skýra aðvörun um það hversu eldfimt ástandið í samfélaginu er nú um stundir. Í flugvél á leið frá Akureyri á sunnudaginn var las ég stuttan kafla úr viðtali við Björgúlf í Morgunblaðinu upphátt fyrir ferðafélaga minn. Það leyndi sér eflaust ekki að ég var sammála því sem fjallað var um. Orð mín urðu til þess að kona ein í næstu sætaröð stóð upp og bað mig lengstra orða „að halda þessum skoðunum fyrir mig". Ég fékk semsagt skýr skilaboð um það að „þessar skoðanir" mínar voru ekki leyfilegar . Í seinna skiptið sat ég á kaffihúsi ásamt fleirum þegar ein okkar byrjaði að tala um það „að einkavæðingunni væri um að kenna þetta ástand". Ég brást ákveðin við og sagði „að svona mættum við einmitt ekki hugsa". Þessi orð mín urðu til þess að viðkomandi fuðraði upp í reiði og sagði að svona væri einmitt íslenskt samfélag og hefði alltaf verið „maður mætti ekki hafa skoðanir" og þar með stóð hún upp og var rokin. Það skipti engu þó ég bæðist margfaldlega afsökunar og reyndi að leiðre´tta orð mín sem höfðu hugsunarlaust hrokkið af vörum mér. Þetta eru einungis tvö lítil dæmi um það hvernig ástandið í íslensku samfélagi er núna í vetrarbyrjun 2008. Fólk er að springa úr reiði, ótta og hræðslu og óbreyttir borgarar - venjulegt fólk er að springa. Óvissan - óöryggið er algjört.

Þetta ástand er eitthvað sem stjórnmálamennirnir og við öll verðum að taka alvarlega. Við getum ekki haldið út í margar vikur með enga stefnu til framtíðar - aðra en þá að slökkva elda. Við verðum öll að eygja einhverja von um breytingar í nánustu framtíð. Ég segi fyrir mig að mig hefur langað mikið til að taka þátt í opnum fundum um ástandið síðustu vikur en ég hef ekki treyst mér til þess vegna þess að það skiptir mig öllu máli hvernig þar er haldið á málum. Það skiptir mig öllu máli hverjir eru frummælendur á slíkum fundum - ég vil t.d. ekki sitja undir hugmyndafræði sem gengur út á að „einkavæðing" sé slæm og „ríkisvæðing" sé góð. Ég vil ekki sitja á fundi sem gengur út á að lausn vandans sem við er að glíma felist í að hengja „auðmennina". Ég vil hlusta á leiðtoga sem tala af skynsemi . Leiðtoga sem horfa fram á við og segja mér að samfélagið Ísland verði áfram alþjóðlegt samfélag. Opið og betra samfélag þar sem við öll höfum leyfi til að hafa pólitískar skoðanir.

Það getur vel verið að í þessu felist mótsagnir. Að ég segi í einu orðinu að ég vilji ekki hlusta á tilteknar skoðanir og í hinu að einungis ákveðnar skoðanir séu leyfilegar. Það verður að hafa það. Ég stend við það. Ég þrái heilbrigt samfélag. Samfélag sem ræðst ekki af flokkadráttum heldur heilbrigðri skynsemi. Ég hef síðustu vikur drukkið í mig skynsemisraddir. Ég les leiðara Þorsteins Pálssonar og Jóns Kaldal í Fréttablaðinu af áfergju. Ég hlusta á Eddu Rós Karlsdóttur hvar sem færi gefst. Ég les bloggið hans Björns Inga á vefnum daglega. Ég heyrði augnablik í Jóni Ormi Halldórssyni í útvarpinu um daginn og leið eins og þar færi gamall vinur. Ég les og hlusta á það sem þetta fólk hefur að segja vegna þess að mér finnst það skynsamlegt. Ég horfi ekki á það sem þetta fólk segir og skrifar í gegnum „flokkspólitísk" gleraugu heldur sem fólk sem höfðar til mín.

„Skynsemisraddirnar" verða að gefa færi á sér. Við sem ekki viljum aðhyllast skoðanir Bjarna Harðarsonar, Jóns Magnússonar, Ögmundar Jónassonar, Steingríms J. Sigfússonar, Einars Más Guðmundssonar, Guðna Ágústssonar... við verðum einhvers staðar að eiga aðgang að öðrum röddum.

Því er áskorun mín til fólks sem vill ekki að Ísland verði einangrað land í samfélagi þjóðanna: Leggjum „flokkslínur" til hliðar um stund! Höldum stóran fund opinn fund - þvert á flokka - þar sem frummælendur eru fylgismenn þess að Ísland verði áfram í samfélagi þjóðanna! Veitum stjórnvöldum það aðhald sem þeir þurfa nú sem aldrei fyrr! Sendum þeim skýr skilaboð um hvernig við viljum sjá Ísland framtíðarinnar!

Ég býð mig fram sem sjálfboðaliða í skipulagningu slíks fundar!

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...