föstudagur, 21. október 2016

Stjórnmálin í aðdraganda kosninga

Stjórnmálin á Íslandi eru mér endalaus uppspretta hugleiðinga. Mig dreymir um breytingar í íslensku samfélagi Hefur dreymt um þær breytingar lengi. Veit um leið að þær breytingar verða ekki á einum degi, ekki einu sinni á einu kjörtímabili. Þær breytingar munu verða á löngum tíma.

Breytingarnar snúast um að við öll fáum tækifæri til að búa með með reisn. Jafnt einstæða móðirin sem barnið hennar sem hinn auðugi sem hinn fátæki. Við öll. Fáum tækifæri til að lifa eins og manneskjur. Manneskjur sem hafa val um eigið líf. Val um námsleiðir. Val um störf. Val um að gera mistök.

Ég bý í samfélagi þar sem þetta val er ekki til staðar. Mér er troðið í aðstæður sem ég kæri mig ekkert um að vera í og ef mér hugnast ekki að taka þátt í leiknum er mér útskúfað. Kerfið allt er á einhvers konar sjálfsstýringu þar sem einstaklingurinn er aukaatriði. Kerfið er til fyrir sig sjálft og fyrir þá sem eiga peninga.

Þeir sem deila með mér pólitískum hugsjónum um breytingar hafa kosið að trúa á töfralausnir. Hvert tækið á fætur öðru er búið til sem á að bjarga heiminum. Í staðinn fyrir að nota tímann til að þróa tækið sem tók áratugi að búa til erum við í því að sparka í það. Sundra því. Henda því.

Af því að minn kandídat varð ekki formaður er tækið ónýtt. Af því að konur eru vondar við karla er tækið ónýtt. Af því að einn frambjóðandi er ekki sammála mér um eitt atriði er tækið ónýtt. Af því að stuðningsmaður er ekki sammála mér um forgangsröðun er tækið ónýtt.

Ég er fullkominn og ætlast til fullkomnunar tækisins. Það má ekki fá tíma til að þroskast. Ekki fá andrými eða svigrúm til eins eða neins. Tækið á að koma fram á völlinn fullskapað og að mínu höfði.

Svona horfi ég á samherja mína í pólitík. Kjósendur sem vilja eins og ég sjá breytingar á íslensku samfélagi.

miðvikudagur, 12. október 2016

Endurtekning og afturhvarf

Mælikvarðinn á gæði samfélags er maðurinn sjálfur. Líðan hans. Svo megið þið svara hvort að vel hafi tekist til á Íslandi á þessari öld. Hvort að líðan einstaklingsins í íslensku samfélagi sé dæmi um fyrirmyndarsamfélagið. Hvort að sú pólitík sem rekin hefur verið hér á þessari öld sé umfram allt sú pólitík sem skuli viðhaldið.

Fyrirsögnin hér að ofan vísar til minnar skynjunar á því hvaða afstöðu við höfum tekið. Við viljum afturhvarf og við viljum endurtekningu. Það er okkar ályktun. Ekki hægt að skilja niðurstöður skoðanakannana nú í aðdraganda kosninga neitt öðruvísi.

Afnám hafta hefur verið samþykkt á Alþingi. Það er nú aldeilis til að blása manni í brjóst bjartsýni að blessuð íslenska krónan verði bráðum aftur frjáls í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Alþjóðlegu fjármálaumhverfi þar sem skammtímagróðahyggjan er drifkrafturinn.

Stöðugleiki segja menn. Stöðugleiki er það sem við öll keppum að. Stöðugleiki um hvað? Áframhald þeirra stjórnmála sem hér hefur ráðið ríkjum alla mína ævi?

Stöðugleiki í raun er sannarlega eftirsóknarverður, stöðugleiki hagstjórnar þannig að við öll venjulegt fólk getum einbeitt okkar að því að lifa. Með öllum þeim fjölbreytileika sem það felur í sér. Slíkur stöðugleiki hefur aldrei verið til staðar í landinu og verður ekki á meðan við kjósum endurtekninguna. Mögulega stöðugleiki um það að hinur ríku verði ríkari og hinir fátæku fátækari. Vissulega ákveðin tegund af stöðugleika.

Atvinnustefna minnar ævi: Stóriðja, loðdýrarækt, fiskeldi, spilavíti (fjármálaþjónusta), ferðaþjónusta, svo nokkuð sé nefnt. Græðgi alltaf í forgrunni. Sjávarútvegurinn sker sig úr. Þar hefur átt sér stað raunveruleg hagræðing, raunveruleg verðmætasköpun. En þar hafa menn kosið að deila um keisarans skegg í 25 ár með tilheyrandi afleiðingum fyrir samfélagið allt. Deilan um fyrirkomulag fiskveiða og útgreiðslu arðs af auðlindinni er úrlausnarefni. Úrlausnarefni þar sem menn með gagnstæða hagsmuni þurfa að setjast niður og hlusta hver á annan. Ræða sig niður á lausn þar sem allir geta sætt sig við. Þar er það landsbyggðin fyrst og fremst sem á mismunandi hagsmuni. Reykvíkingar eiga ekki aðra hagsmuni um sjávarútveg en að hann sé sem best rekinn og sem arðbærust atvinnugrein.

Ég ætla að vera eins ósmart og hægt er að hugsa sér í komandi kosningum. Alveg eins ósmart og ég var í þeim síðustu. Ég ætla að kjósa Samfylkinguna. Það ætla ég að gera vegna þess að ég treysti henni. Treysti henni til að hafa fókusinn þar sem hann þarf að vera nú þegar loksins er kominn tími til að byggja upp eftir 8 ár í tiltekt.

Síðustu kosningar voru mikilvægar, ótrúlega mikilvægar. Kosningarnar nú eru það ekki síður. Samt er það svo að ég kýs að horfa ekki á pólitískar umræður. Reyndi, en ég get það ekki. Læt öðrum eftir að álykta hvers vegna.

Ég trúi á skynsama, raunhæfa langtímahugsun í afstöðu til mála. Trúi á að góð pólitík sé pólitík þar sem horft er til þess hvernig samfélag við viljum búa til og veltum upp hugmyndum um hvernig sé best að komast þangað.

Ég sem fyrr vil samfélag víðsýni, fjölbreyttra atvinnutækifæra þar sem öllum er gert mögulegt að lifa með reisn. Öldruðum, sjúkum, heilsuhraustum, ungum, öllum.

Samfélag kærleika og uppbyggingar fyrir manninn.

mánudagur, 10. október 2016

8 ár liðin

frá hruni. 8 ár frá hruni íslenska hagkerfisins. 8 ár sem hafa farið í tiltekt. Uppbygging innviða hefur verið á hold á meðan.

Margir liggja í valnum. Margir sem voru veikir fyrir eru bognir eða brotnir en öll höldum við áfram að hlaupa. Hlaupa eins og ekkert sé, því við erum töffarar. Töffarar af guðs náð.

Ungt fólk getur ekki flutt að heiman því húsnæði er svo dýrt. Hvort heldur að kaupa eða leigja. Á sama tíma og stórir árgangar komu inn á húsnæðismarkaðinn lá allt í láginni. Engir peningar til að byggja upp, ekki einu sinni til að halda í horfinu. Ekkert hægt að gera annað en að taka til. Meira að segja ríkissjóður notaður til að taka til.

Samgöngumál svelt. Málaflokkur sem hreinlega hvarf út af borðinu og hefur ekkert sést til síðan.

Stærstu fyrirtæki landsins meira og minna í fangi lífeyrissjóðanna, sjóðanna sem við höfum greitt í frá því við byrjuðum að vinna. Skv. tilkynningu sem mér barst frá sjóðnum mínum í dag má ég gera ráð fyrir lífeyri upp á 234.000 krónur á mánuði þegar ég verð 67 ára.

Stuðningur ríkisins allur á því formi að ganga út frá að ég sé glæpamaður. Glæpamaður sem svífst einskis til þess að svindla á kerfinu. Svindla á kerfinu sem ég hef greitt til frá því ég hóf störf.

Mín pólitíska hugsjón gengur út á breytingar á þessu. Ég vil búa í samfélagi þar sem pólitíkin snýst um að búa í haginn fyrir okkur öll. Samfélag þar sem gengið er út frá því að einstæðar mæður og einstæðir feður séu til. Samfélag sem gengur út frá því að fólk misstígi sig í lífinu og þarfnist stuðnings.

Samfélag sem vill búa vel að öldruðum og börnum. Samfélag sem byggir á kærleika og því að byggja upp og styðja. Samfélag sem virðir alla til jafns. Samfélag sem gengur út frá því að það gangi misjafnlega. Samfélag sem gengur út frá því að styðja mig og þig þegar á móti blæs á sama tíma og það lítur á það sem meginhlutverk sitt að við fáum öll jöfn tækifæri til að velja okkur leiðir. Velja okkur líf.

Ég vil segja skilið við pólitík sem gengur út frá því að meginhlutverk hennar sé að byggja undir forréttindi hinna ríku á kostnað okkar hinna. Pólitík þar sem við hringsnúumst endalaust í biluðu Parísarhjóli. Eins og hamstrar.

Hrunið var ekki lítilvægur atburður. Hrunið hafði gríðarleg áhrif á samfélag okkar og þau áhrif eru ekki horfin. Hrunið breytti öllu og ekkert verður aftur samt.

Við höfum eytt 8 árum í að trúa á töfralausnir séu til á vanda okkur. Stöndum enn í þeirri trú. Ég trúi ekki á töfralausnir. Sannfærð um að töfralausnir séu ekki til.

Það er bara til raunveruleiki. Raunveruleiki sem verður að taka á af skynsemi, trúverðugleika og kærleika. Raunveruleiki þar sem við horfum á samfélagið okkar eins og það er og tökum ákvarðanir um hvernig við viljum sjá í framtíðinni. Með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

Langtímasjónarmið þar sem markmiðið er gott samfélag. Samfélag fyrir alla.

Þórarinn Eldjárn orðar draum minn um íslenskt samfélag framtíðarinnar:
Fagurfræði mín er einföld; fegrar allt.

föstudagur, 7. október 2016

Stjórntæki valdhafa

Þú mátt ekki vera memm!

Við skemmtum skrattanum á hverjum degi.
Birtingarmyndir þess eiga sér engin takmörk.

Ofbeldi, að sjálfsögðu ekki líkamlegt ofbeldi heldur andlegt, einelti og yfirlæti vinsæl stjórntæki og óspart notuð.

Munið þið eftir „gáfumennunum“ á menntaskólaárunum? Þessum sem voru yfir aðra hafnir af því að þeir voru svo gáfaðir og miklu betur gerðir en annað fólk? Það viðhorf og sú framkoma er í góðu lagi núna. Upphafin á hverjum degi og samþykkt. Viðhorfið flokkar fólk í „gott fólk“ og „vont fólk“. Yfirlæti. Gott orð – lýsir því sem við er átt.

Ofbeldi sem lýsir sér í því að tiltekin tegund manna má ekki vera sú sem hún er. Það er bannað. Bara ákveðin tegund manna leyfð. Fjöldinn á vaktinn. Komin upp á tærnar um leið og einhver verður uppvís að ótilhlýðilegri hegðun. Lætur í ljós skoðun t.d. sem má ekki hafa. Oftar en ekki eru konur beittar ofbeldinu. Þær mega ekki vera þær sjálfar. Þær mega bara eins og ég vil að hún sé. Hafa þá skoðun sem ég vil að hún hafi og þar er engin málamiðlun leyfð. Engin. Konur eiga að hlýða. Punktur.

Eineltið megið þið reikna út sjálf. En það bókstaflega grasserar í opinberu rými á Íslandi sem aldrei fyrr. Stjórntæki sem konur kunna betur en aðrir, eru sérfræðingar í.

Ég hélt ekki að það væri hægt að komast á lægra pólitískt plan en við fórum síðast en í þúsandasta sinn skjátlaðist mér um það. Það eru engin mörk á því hversu lágt við erum tilbúin að fara með pólitíkina.

Sú staða sem við erum í er ekki á neinna annarra ábyrgð en okkar sjálfra. Það erum við og engir aðrir sem höfum búið til þá mynd af stjórnmálunum sem við horfum upp á núna.

Stjórnmál þar sem hægri mennirnir einir hafa sjálfstraust til að vera til.
Þeir hafa sjálfstraust til þess af því að við gefum þeim það.

fimmtudagur, 6. október 2016

Heilindi

Hvaðan kemur þetta orð heilindi? Hvað þýðir það?
Sundrung. Er það ekki andstæða heilinda?

Raunveruleiki, óraunveruleiki.
Sannleikur, lygi.
Fegurð, ljótleiki.
Sköpun, skrifræði.
Traust, vantraust.
Merking, merkingarleysi.
Auðmýkt, dramb.

Hvað þýða þessi orð?
Hvað standa þau fyrir?

Ef við tökum dæmi; vantraust annars vegar og traust hins vegar.
Hvaða líðan stendur hvort orð fyrir?

Er ekki rétt hjá mér að orðið eitt, vantraust, láti okkur líða einhvern veginn?
Og traust einhvern veginn öðruvísi?

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er fjallað um ungar stúlkur sem þjást af kvíða og þunglyndi. Fylgni er á milli aukins kvíða og þunglyndis og mikillar notkunar á samskiptamiðlum.

Fyrir ekki svo löngu síðan var forsíðufrétt á Fréttatímanum að við værum að brenna út. Kulnun af völdum streitu væri raunverulegt vandamál í samfélaginu.

Visku-ást – hvaðan kemur það orð?
Sókrates þegar hann dó fyrir sannleikann – hvað þýddi það?
Hvaða sannleikur var það sem hann dó fyrir?

Þegar Hanna Arendt benti okkur á að Eichmann - væri ekki skrímsli - heldur maður.
Hvað var hún að meina með því?

Og með þessar spurningar liggjandi hér opnar á minni persónulegu samskiptasíðu fer ég í próf í reglum Guðsins.

þriðjudagur, 4. október 2016

Kjósum gott líf...

er yfirskrift fundar Samtaka iðnaðarins sem stendur yfir núna um atvinnulíf í aðdraganda kosninga. Fyrirsögn fundarins vekur sérstakan áhuga minn og er tilefni hugleiðinga.

Hver kýs ekki gott líf?
Kjósum við ekki öll gott líf?
Höfum við val um það?

Er komið að því að búa í haginn fyrir okkur? Okkur öll?
Búa til efnahagsumhverfi þar sem við sjálf erum við stjórnvölinn í eigin lífi?

Svo það sé sagt einu sinni enn, stjórnmálin alla þessa öld hafa snúist um að búa í haginn fyrir strákana, strákana að leik með gjaldmiðilinn, hlutabréf í fyrirtækjunum, og okkur hin. Það umhverfi þýðir ekki gott líf og mér finnst að það megi tala um það. Tala um það upphátt. Núna þegar forsvarsmenn fundarhaldara, Samtaka iðnaðarins mæta með fulltrúa á pólitíska fundi til að styðja illa samið frumvarp til breytinga á umhverfi um Lánasjóð íslenskra námsmanna svo dæmi sé tekið. Það frumvarp þýðir ekki gott líf. Nema fyrir fáa.

Ég er ekki í stríði við Samtök iðnaðarins, svo það sé nú sagt. Ég er í stríði við hagsmunaöfl sem vinna að því öllum árum að tryggja sömu pólitík áfram við lýði og þar eru öll samtökin í Húsi atvinnulífsins fremst í flokki. Samtökin í Húsi atvinnulífsins haga sér eins og það sé fullkomlega eðlilegt að þau styðji pólitíska stefnu stjórnmálaflokka sem þau hafa alltaf stutt. Ég ætla að segja þeim það núna að það er ekkert eðlilegt við það.

Fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins skrifar grein nýlega, um það sem hann kallar „nýlendustefnu höfuðborgarsvæðisins“ gagnvart landsbyggðinni. Hann minnist ekki á það einu orði um hvað pólitíkin hefur snúist á Íslandi síðustu 8 árin. Ekki einu. Það er ekki hægt að lesa annað út úr greininni en hér hafi verið fullkomlega eðlilegar pólitískar aðstæður síðustu 8 árin og staða landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu sé nýtilkomin.

Skrif af þessu tagi kalla á viðbrögð. Skýr viðbrögð. Margt má taka undir í greininni en það vantar alveg kjarna málsins. Um hvað stjórnmálin á Íslandi hafa snúist síðustu ár og hvaða hagsmuni er verið að verja með málatilbúnaði af þessu tagi.

Á Íslandi býr fólk á landsbyggð og á höfuðborgarsvæði. Á Íslandi býr ungt fólk, miðaldra fólk og gamalt fólk. Á Íslandi búa öryrkjar, margir af völdum atvinnulífs sem kemur fram við fólk eins og skepnur, ekki menn. Auðlindin mannauður er þurrausin, ekki sjálfbær á Íslandi nútímans. Miðaldra konum og körlum er hent á haugana hægri, vinstri og þykir hið besta mál.

Á Íslandi býr fólk sem á í alls kyns tímabundnum vandræðum. Er atvinnulaust, stríðir við sjúkdóma, andlega vanlíðan af öllu tagi. Á Íslandi býr líka fólk sem líður vel í öllum meginatriðum, sem betur fer. Í landinu býr allskonar fólk, í allskonar aðstæðum. Tímabundnum og langvarandi. Allskonar.

Stjórnmál eiga að snúast um aðstæður og umhverfi fyrir allt þetta fólk. Að búa í haginn þannig að við öll getum við lifað mannsæmandi lífi með reisn.

Mannsæmandi líf með reisn.

Er líf þar sem ekki ríkisvaldið lítur ekki á það sem hlutverk sitt að berja einstaklinga niður í svaðið sem eiga í vandræðum heldur styður þá til sjálfsbjargar. Bannar þeim ekki að líða illa heldur hjálpar þeim til að líða vel.

Lánasjóðsfrumvarpið kristallar allt það sem er vont í framkomu ríkisvaldsins gagnvart einstaklingnum á Íslandi. Það er í fínu lagi og besta mál að ríkisvaldið veiti styrki til náms. Það er gott markmið og það skal ég styðja. En allt annað í þessu frumvarpi er vont. Það er samið fyrir ríkisvaldið og hagsmunir borgarans komast ekki að. Frumvörp, lagasetning á Alþingi á að snúast um hag heildarinnar, ekki hag ríkisins.

Með samtryggingu samtaka í Húsi atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins verður til andrúmsloft þar sem litið er á það sem sjálfsagt að Húsið styðji allt sem frá Flokknum kemur. Það fór til að mynda ekki mikið fyrir stuðningi samtaka Hússins við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu á sínum tíma. Það var ótækt. Vitlaus flokkur var í forsvari.

Ríkið er ekki til fyrir sjálft sig. Ríkið er til fyrir okkur. Lög eiga að vera samin fyrir okkur og með hagsmuni okkar í huga, ekki ríkisins. Ríkið á að vinna eftir lögunum. Ekki koma að samningu þeirra, efnislega. Við kjósum okkur stjórnmálamenn til að hafa skoðanir og það eru þeir sem eiga að búa til umhverfið. Kerfið á ekki að vera á sjálfsstýringu.

Kerfi þar sem ríkið býr til lögin sem það á sjálft að fara eftir þýðir samfélag sem er illþolanlegt að búa í. Kerfi sem þýðir ekki gott líf fyrir flesta.

Heilbrigð stjórnsýsla. Heilbrigt atvinnulíf. Stuðningur við þá sem minna mega sín og þurfa á stuðningi að halda. Þannig samfélag vil ég sjá. Það samfélag verður aldrei til ef samtrygging ráðandi afla á kostnað hagsmuna heildarinnar verður ráðandi um langa hríð enn.

Hagsmuni heildarinnar.
Manngæsku gagnvart þeim sem á þurfa að halda.
Umhverfi þar sem við getum öll átt gott líf.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...