þriðjudagur, 27. október 2009

Hugleiðing um læriföður og íslenskt viðskiptaumhverfi

Áframhaldandi umræður á fésbókarsíðu bróður míns í dag um skattgreiðslur fyrirtækja minntu mig á samtal sem ástæða er til að rifja upp.

Þetta var samtal sem ég átti við Kristján heitinn Jónsson stofnanda og eiganda K. Jónssonar niðursuðuverksmiðjunnar á Akureyri. Eitt skipti af mörgum þar sem hann var í hlutverki læriföðursins og ég nemandans sem drakk í mig allt sem hann hafði að segja.

Hann var að ganga mér um verksmiðjusvæðið og segja mér sögu fyrirtækisins og bakgrunn. Hann sagði mér að ég áttaði mig kannski ekki á því en fyrir ekki svo mörgum árum hefðu Íslendingar varla þekkt hugtök eins og "eigið fé" eða "hagnað".

Bókhaldsþekking hefði verið af mjög skornum skammti og sannarlega ekki verið aðalatriði í rekstri fyrirtækja eins og hans. Því miður man ég ekki samtalið í smáatriðum og get því ekki endurtekið það en það sem stimplaðist inn var þessi vitneskja hversu stutt var síðan að íslenskt samfélag fór að þróast fyrir alvöru.

Kristján dáði Dani og Þjóðverja og naut þess að segja mér reynslusögur af þeim og hversu miklar fyrirmyndir þeir væru í rekstri fyrirtækja. Þeir væru fagmenn. Kynnu rekstur og hefðu þekkingu á viðskiptum og síðast en ekki síst kynnu að selja en það var eitthvað sem Kristján taldi Íslendinga alls ekki kunna. Hann sagði mér margar sögur af því hversu ótrúlega snjallir Danir væru í að versla með alla skapaða hluti. Fengju hugmyndir að samsetningu einhverra hluta og selja þá aftur með öllum þeim virðisauka sem í samsetningu þeirra fólst.

Danir eiga engar auðlindir og því hafa þær ekkert verið að þvælast fyrir þeim. Þeir hafa því þurft að sýna útsjónarsemi og hugvit til lífsviðurværis og auðvitað hafa þeir búið að staðsetningunni sem kannski má til sanns vegar færa að sé "auðlind" í sjálfu sér.

Það skemmtilega var að ég var sammála Kristjáni. Vann í umhverfi þar sem ég gat myndað mér skoðanir á því sem hann var að segja og ég var algjörlega sammála honum. Þessar tvær þjóðir hafa alltaf verið mitt uppáhald í viðskiptum og ég óskaði þess oft í bægslaganginum sem landar mínir viðhöfðu að þeir hefðu nú vit á því að læra meira af þessum nágrannaþjóðum, ég óska þess oft enn... í hljóði.

Þegar ég fór svo löngu síðar í Viðskiptaháskólann á Bifröst og fór að takast á við ýmiss lög og reglur viðskiptaumhverfisins áttaði ég mig á að allt var þetta meira og minna komið inn í íslenskan rétt vegna EES samningsins. Lög um bókhald (ef ég man rétt...), og nú brestur mig minni... man þetta ekki en meira og minna allt sem komið hafði reglu á íslenskt fyrirtækjaumhverfi kom inn vegna EES. Erlend áhrif höfðu þannig haft gríðarleg áhrif á þróun laga og reglna utan um íslenskt viðskiptaumhverfi á örfáum árum. Þó reyndar væri líka mjög áberandi hversu oft íslenski löggjafinn misskildi meginmálið og gerði afdrifaríkar vitleysur.

Þessi reynsla sem vísað er til hér að ofan kenndi mér margt. Hún kenndi mér að Íslendingar mættu svo gjarna að ósekju hætta oflátungshætti og sýna meiri auðmýkt og vilja til að læra af öðrum þjóðum sem í flestum tilfellum byggja á árhundraða reynslu umfram þá í viðskiptum. Þeir mættu líka að ósekju læra að bera virðingu fyrir fagmennsku og þeim atvinnugreinum sem hafa gert þeim kleift að lifa af og ekki bara það - heldur búa þeim lífskjör á við þau bestu í heimi.

Guðbergur Bergsson á einhverju sinni að hafa sagt "Íslendingar hafa alltaf hatast út í það sem þeir lifa á" Ég hallast að því að sú skilgreining sé rétt hvort sem rétt er eftir haft eða ekki. Íslendingar kunna fátt betur en að hatast út í þær atvinnugreinar sem fyrst og síðast hafa búið til undirstöður fyrir þau lífskjör sem við öll njótum. Er ekki kominn tími til að við förum að horfast í augu við það?

laugardagur, 24. október 2009

Meira um góðar og vondar atvinnugreinar

Vegna óbilandi áhuga á málefninu langar mig að halda aðeins áfram með hugleiðingar um góðar og vondar atvinnugreinar og gagnsleysi umræðu á þeim forsendum.

Átti lítið samtal um þetta á fésbókarsíðu bróður míns í dag en viðkomandi bróðir minn er Framsóknarmaður sem ég er ekki. Við erum þó oft sammála þegar að því kemur að ræða almennt um atvinnugreinar enda bæði alin upp í sveit sem er sá bakgrunnur sem við bæði höfum og hefur óhjákvæmilega mótað okkur þó niðurstaðan um hvar við staðsetjum okkur í pólitík sé ekki sú sama. Það er rétt að halda því til haga að þó það leyni sér ekki að ég styð ákveðinn flokk þá er ég ekki aðili að stjórnmálaflokki og þetta efni sem hér er til umræðu er einmitt ástæða þess.

Umræðan sem blossað hefur upp síðustu misseri um nauðsyn þess að skattleggja tilteknar atvinnugreinar umfram aðrar er umræða sem ég skil ekki. Er alveg tilbúin að hlusta á rök fyrir því og heyra af samanburði við skattlagningu sambærilegra atvinnugreina í öðrum löndum en ég er ekki tilbúin að hlusta á tilfinningaþrungna umræðu á þeim nótum að sjávarútvegurinn sé "þjóðareign" og þess vegna eigi þessi atvinnugrein að greiða sértæka skatta í ríkissjóð umfram aðrar atvinnugreinar. Það sama er uppi á teningnum hvað varðar orkuskatta á stóriðju. Það eru ekki nægileg rök að heyra hástemmdar yfirlýsingar um að áliðnaður sé svo "vond" framleiðsla að þess vegna eigi þessi atvinnugrein að greiða sértæka skatta í ríkissjóð.

Ég kaupi alveg þær hugmyndir að það sé ekki skynsamlegt að við förum úr einum öfgunum í aðrar. Förum úr því að lifa á sjávarútvegi, bankastarfsemi í skamman tíma og svo sé það stóriðjan. Mjög skynsamlegt að skoða þessa hluti heildstætt og stefna að því að Ísland verði ekki algjörlega háð einni atvinnugrein. Á þeim nótum er í góðu lagi að gagnrýna stóriðjuuppbyggingu. Ég kaupi líka rök sannra náttúruverndarsinna sem gagnrýna þá stefnu að leggja mikið land og fagra náttúru undir orkuver. Móðir mín er ein þeirra og ég ber fulla virðingu fyrir því.

En þegar sömu aðilar taka upp á áróðurskenndum yfirlýsingum um að þessi fyrirtæki skili svo litlum "arði" til þjóðarinnar og eigi á þeim forsendum ekki að eiga sér tilverurétt hér lokast á mér eyrun. Það sama gerist þegar talað er um að þessi fyrirtæki séu ekki of góð til að greiða skatta til okkar aumingja almúgans. Þá hætti ég að hlusta.

Fyrir mér er atvinnurekstur atvinnurekstur og verður alltaf. Atvinnurekstur er ekki góðgerðarstarfsemi og fyrirtæki hér verða ekki rekin á þeim forsendum hér frekar en annars staðar í heiminum. Almennt ganga fyrirtæki út á það að hámarka hagnað sinn og það er fullkomlega eðlilegt og rétt að þannig sé það. Eins og ég hef leyft mér að segja frá upphafi hruns er sjálfsagt að gera þá kröfu til atvinnurekstrar að skynsemin sé með í för. Gróðahyggja sem gengur út yfir öll mörk er vond hvar sem hún ber niður. En að fyrirtæki leiti mestu mögulegu hagkvæmni og leiti allra leiða til að búa til sem mest verðmæti kemur mér sem launþega fyrst og fremst til góða.

Illa rekin fyrirtæki greiða ekki há laun eða eru líkleg til að gera vel við starfsmenn sína. Rekstur sem skilar litlum eða engum arði er ekki líklegt til að gera mikið fyrir það samfélag sem hann starfar í.

Ef að íslensk stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu að rétta leiðin núna sé að skattleggja "auðlindir" sérstaklega og leggja þannig umfram álögur á tilteknar atvinnugreinar þá hljóta þau að hafa skotheld rök fyrir því. Ísland er ekki í tómarúmi í heiminum. Ísland er í hörðu samkeppnisumhverfi alþjóðlegs markaðar og allar ákvarðanir stjórnvalda hljóta að taka mið af því. Skattlagning á hráefni eða orkukaup er ekki venjuleg skattheimta heldur skattheimta sem hefur afgerandi áhrif á niðurstöðu rekstrarins og þar með á möguleika viðkomandi atvinnugreina til að skila hagnaði og nýta þá fjármuni í annars konar uppbyggingu eða starfsemi.

Svona mikill einfeldningur er ég nú í viðhorfi mínu til atvinnurekstrar. Ég hef brennandi áhuga á uppbyggingu samfélagsins okkar og ef það er eitthvað sem mig dreymir um þá er það að geta einhvern tímann rætt um atvinnulíf og rekstur almennt með þessum gleraugum.

Kostir og gallar í stað með og á móti

Ég hef lengi haft ástríðufullan áhuga á að umræða um atvinnulíf hér landi komist upp úr þeim hjólförum sem hún hefur meira og minna allt mitt líf verið í en það er að umræða um "góðar" atvinnugreinar annars vegar og "vondar" atvinnugreinar hins vegar.

Því miður hefur umræðan um góðar og vondar atvinnugreinar einungis orðið djúpstæðari með árunum og engin teikn á lofti um að það muni breytast.

Grunninn að áhuga mínum á þessu fyrirbæri má rekja til þess að ég ólst upp í atvinnugrein sem á þeim tíma var "vond". Landbúnaður og bændur voru afætur samfélagsins og vitræn umræða um kerfi greinarinnar, möguleikum hennar, kostum og göllum komst aldrei upp á yfirborðið.

Umræða um "vondar" atvinnugreinar og "góðar" leiðir af sér að aldrei er hægt að tala um það sem skiptir máli. Upphrópanirnar einar duga. Við þekkjum þetta vel og höfum séð afleiðingarnar.

Sjávarútvegur er dæmi um atvinnugrein sem ekki hefur verið hægt að eiga vitræna umræðu um í áratugi. Hvert hefur "með og á móti" umræða um kvótakerfið leitt okkar í áratugi? Jú tilfinningaþrungin umræða um eitthvað óskiljanlegt fyrirbæri eins og "sameign þjóðarinnar" hefur leitt okkur á þann stað að ákveðinn hópur samfélagsins trúir því statt og stöðugt að þessi atvinnugrein skuldi okkur öllum svo og svo mikið og því eigi þessi atvinnugrein umfram aðrar að greiða þá skuld til baka til okkar allra í formi sértækra skatta.

Það sama virðist uppi á teningnum núna hvað varðar álver og stóriðju. Þetta er "vond" starfsemi í augum ákveðins hóps og þess má hún gjöra svo vel að borga okkur öllum sértækan skatt.

Nú eru landbúnaður og ferðaþjónusta hæstmóðins og voðalega sætar og góðar atvinnugreinar slíkar atvinnugreinar má ekki gagnrýna fremur en það má tala um kosti "vondu" atvinnugreinanna. (Enginn minnist t.d. á að ferðaþjónusta verður seint talin í hópi þeirra atvinnugreina sem greiða hæstu launin. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir greininni um leið og þetta er að sjálfsögðu atriði sem skiptir máli þegar teknar eru ákvarðanir um stefnumótun atvinnulífs okkar til framtíðar.)

Ætlum við að halda svona áfram lengi enn? Gagnast umræða af þessum toga eitthvað framtíðarkynslóðum þessa lands eða okkur sjálfum?

Ég hef ákveðnar skoðanir á því að þegar að uppbyggingu atvinnulífs kemur þá sé ekki hægt að tala um Ísland sem eina heild. Við sem búum á Reykjavíkursvæðinu erum ekki á sama stað og landsbyggðin og það er grundvallaratriði að átta sig á því.

Maslow píramídinn er ágætis tæki til að skýra hvað ég á við. Mín skoðun er sú að landsbyggðin sé enn neðarlega í Maslow píramídanum á meðan Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er komið mun ofar. Þarfirnar eru ólíkar og af því verður að taka mið í allri pólitískri stefnumótun þ.m.t. orkunýtingu og uppbyggingu stóriðju eða ekki.

Ég hef starfað í heimi inn- og útflutningsviðskipta allt mitt líf, innan flutningagreinarinnar mestan part sem er þjónustugrein við atvinnulífið fyrst og fremst. Sú reynsla hefur kennt mér hversu gríðarleg margföldunaráhrif erlendar fjárfestingar í uppbyggingu stóriðju hafa haft hér á landi. Eins og Ólafur Teitur sagði í þætti í Vikulokunum áðan "álversframleiðsla er peningamaskína". Það er hárrétt hjá honum og slík peningamaskína er gríðarlega mikilvægur grunnur fyrir ákveðin landssvæði til að komast ofar í Maslow píramídann. Peningamaskína af þeim toga sem stóriðja er býr til forsendur fyrir aðra fjölbreytta starfsemi að verða til. Ferðaþjónusta, landbúnaður eða gróðurhús hafa engin slík margföldunaráhrif.

Hvað sem hver segir um kvótakerfið þá er ekki vafi á að það kerfi hafði gríðarleg áhrif á styrk atvinnugreinarinnar sjávarútvegs sem aftur hafði gríðarleg áhrif á þróun hátæknigreina. Þannig er ekki vafi á því í mínum huga að sterk fjárhagsleg staða sjávarútvegsfyrirtækja sem var afleiðing kvótakerfisins byggði upp atvinnugreinina hátækni sem hefur þróast og er að þróast í margar áttir.

Það er mikilvægara en flest annað að við komumst upp úr skotgröfunum sem einkennir alla umræðu um framtíðarstefnumótun atvinnulífs hér á landi. Það gerum við með því að opna augun fyrir því að þarfir okkar og staða er ólík eftir því hvort við búum á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Horfum raunsætt á stöðu okkar og tökum ákvarðanir út frá því.

Hættum að tala um atvinnugreinar sem "vondar" eða "góðar" atvinnugreinar. Allar atvinnugreinar hafa kosti og galla og þær byggja hver á annarri. Fjölbreytni í atvinnutækifærum hlýtur að vera markmið sem við öll - hvar sem við búum á landinu - getum sameinast um.

mánudagur, 19. október 2009

Hugsum um börnin okkar…

Sagði Þorgerður Katrín í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Þessi orð samhengi það sem þau eru sögð í lýsa skilningi á einhverjum allt öðrum heimi en undirrituð lifir í og gefa ástæðu til að fara yfir það.

Það eru fleiri sem hafa áhyggjur af því hvaða framtíð stjórnmálamenn Íslands ætla að búa börnunum okkar. Það á meðal annars við um þá sem þetta ritar. Hvaða framtíð skyldi það svo vera sem flokkurinn hennar Þorgerðar Katrínar ætlar að bjóða dóttur minni upp á?

Jú það er óbreytt staða. Þorgerður Katrín og Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um óbreytta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Ísland skal vera áfram aðili að EES og standa utan Evrópusambandsins. Íslenska krónan er framtíðargjaldmiðill íslensku þjóðarinnar að mati þessa flokks. Gjaldmiðill sem hefur skaðað lífskjör íslensku þjóðarinnar stórkostlega síðustu áratugi og engar líkur eru á öðru en muni gera það áfram.

Gjaldmiðill sem ég sem íslenskur þjóðfélagsþegn hef þurft að þola afleiðingarnar af síðustu áratugi ætlar Þorgerður Katrín og Sjálfstæðisflokkurinn hennar dóttur minni og jafnöldum hennar að þola afleiðingarnar af áfram.

Gjaldmiðill sem þýðir að hver og einn einstaklingur þjóðarinnar þarf að greiða svo og svo mikið í kostnað fyrir að reka á hverjum einasta degi, hvern einasta mánuð, hvert ár, heilu mannárin. Gríðarlega háir vextir, óþolandi óstöðugleiki og sveiflur, verðtrygging, áttahagafjötrar. Já allt það skulu börnin okkar þurfa að þola til langrar framtíðar til að völd Sjálfstæðisflokksins séu tryggð.

Icesave er aukaatriði fyrir framtíðarkynslóðir þessa lands núna. Þar er margt annað svo miklu, miklu mikilvægara. Þó ekkert eins mikilvægt eins og það að búa kynslóðum þessa lands framtíð sem er öðruvísi en sú fortíð og nútið sem við þekkjum svo vel. Framtíð stöðugleika í hagkerfinu. Framtíð þar sem hægt er að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf - einmitt vegna stöðugleika. Framtíð þar sem venjulegt fólk hefur efni á að komast úr landi reglulega. Framtíð þar sem hægt er að kaupa vörur og þjónustu á mannsæmandi verði.

Framtíð án Sjálfstæðisflokksins og hans afturhaldsafla við stjórn landsins - það er óskaframtíð barnsins míns og annarra barna á Íslandi!

föstudagur, 16. október 2009

Hættum heimskunni...

Undirrituð hefur lengi undrað sig á mikilvægi þjóðernisins í pólitískri umræðu á Íslandi. Hefur aldrei skilið þjóðerniskenndina og í raun haft skömm á henni. Langar að reyna að skýra með dæmum hér að neðan hvað ég á við.

Dæmi um hversu fráleit sú fullyrðing er að Íslendingar "séu svo litlir að þeir geti ekki haft áhrif innan Evrópu".

Ekki sagt í þeirri fullvissu að undirrituð sé sú sem Danir líta til í hugmynd sinni heldur til þess að opna augu Íslendinga fyrir því hversu fráleit þessi fullyrðing er í umræðunni.

Hver einstaklingur heimsins hvaðan sem hann kemur hefur þau áhrif sem hann vill. Hvaðan svo sem hann kemur. Það vita Íslendingar sem haft hafa samskipti í alþjóðasamfélaginu lengi. Það er fyrir löngu kominn tími til að Íslendingar hætti að hafa stærrimáttarkennd eins og þeir hafa í íslenskri stjórnsýslu þegar þeir vilja endilega vera á undan öllum öðrum til að innleiða hér tilskipanir og reglugerðir ESB og gera það með meira íþyngjandi hætti en þarf.

Og það er á sama hátt ástæða til að hætta að hafa minnimáttarkennd "vegna þess að við getum ekki haft áhrif". Hvoru tveggja er óþolandi staða og algjörlega óþörf. Við Íslendingar höfum nákvæmlega jafnmikil áhrif og við viljum hafa og við eigum líka að gera þær skýru kröfur til stjórnsýslunnar að hún hugsi um íslenska hagsmuni og enga aðra þegar hún innleiðir hér ESB reglugerðir og tilskipanir. Það að vera Íslendingur er einfaldlega ekki svona merkilegt eins og allir vilja vera láta.

Við erum öll "manneskur" þegar við hittumst við borð 27 þjóða sem tölum saman á erlendu tungumáli.

Við erum öll í sömu stöðu. Sama hvort að "þjóðin" á bak við okkur er 300 þúsund eða 90 milljónir.

Til að særa nú engan hvarflar ekki að undirritaðri að það skipti engu máli hver stærð þjóðarinnar er í alþjóðlegum samskiptum. Auðvitað skiptir það máli. En að láta eins og Íslendingar þurfi að hafa einhverja sérstaka minnimáttarkennd vegna stærðar þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum er algjörlega fráleitt. Sú hugsun leiðir okkur ekkert annað en að samfélag okkar verður "smátt" í raunveruleikanum. Hættum heimskunni!

mánudagur, 12. október 2009

Verð að gæta heildarhagsmuna...


„Ég er ekki í umhverfisráðuneytinu til að draga taum einstakra fyrirtækja, sjónarmiða eða hagsmunaaðila. Ég er í umhverfisráðuneytinu til að tala máli komandi kynslóða og umhverfisins - heildarhagsmuna." Þetta segir umhverfisráðherra í viðtali í Fréttablaðinu um helgina. Jafnframt segir hún „Ég hef fullan skilning á öllum þeim aðilum sem eru að spila sína stöðu á vellinum, ef svo má segja, fara fram með hagsmuni síns fyrirtækis, eða svokölluðum aðilum vinnumarkaðarins. Verkefni þessara aðila er að sinna og sjá um hagsmuni sinna umbjóðenda."

Er einhver til í að skýra þessi orð umhverfisráðherra fyrir mig? Hvaða forsendur eru að baki ákvarðanatöku hennar? Hvernig veit hún hvað eru heildarhagsmunir og hvað eru sérhagsmunir? Ef aðilar vinnumarkaðarins berjast bara fyrir „sér"hagsmunum hverjir eru það sem tala fyrir „heildar"hagsmunum?

sunnudagur, 4. október 2009

Raunsæi í stjórnmálin takk!

Ég er ein fimm systkina sem ólst upp á sveitbæ sem verið hafði í eigu ættarinnar í 400 ár. Faðir minn seldi jörðina þegar ljóst varð að ekkert okkar vildi taka við, það var erfið ákvörðun en raunsæ.

Bróðir minn sem fór í Bændaskólann á Hvanneyri sölsaði um og ákvað að fara í tölvufræði. Starfar í þeim geira í dag með hærri laun en hann hefði nokkurn tíma getað vænst að hafa sem bóndi. Annarr bróðir minn er líffræðingur. Um það leyti sem hann útskrifaðist voru kollegar hans ekki með miklar væntingar til hárra launa. Það gjörbreyttist þegar De Code kom hingað og þessi sérfræðigrein varð allt í einu eftirsóknarverð og ígildi hárra launa.

Við höfum öll fylgst með gríðarlegu breytingu sem orðið hefur í íslensku samfélagi síðustu áratugina. Samfélagi þar sem fjölbreytni atvinnutækifæra (á Stór Reykjavíkursvæðinu alla vega) - hafa aukist gríðarlega. Síðustu ár reyndar í fullkomnu gullæði sem augljóslega byggði á sandi en það breytir ekki því að við erum á öðrum stað núna en við vorum fyrir tuttugu árum síðan og ég er sannfærð um að við viljum ekki fara til baka.

Við viljum öll fjölbreytt atvinnutækifæri. Ástæða þess að ég tek dæmi af fjölskyldu minni hér að ofan er að í mínum huga getur hún verið fulltrúi fyrir þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi og sem ég vil sjá að við horfumst í augu við.

Að landbúnaður á Íslandi er ekki og verður ekki undirstaða fjölbreyttra atvinnutækifæra til framtíðar. Landbúnaður verður áreiðanlega stundaður á Íslandi til langrar framtíðar og hann þarf að hafa skilyrði til þess eins og aðrir atvinnuvegir en hann á ekki að upphefja eða tala um í umræðunni eins og hann eigi að vera í forgrunni atvinnustefnu til framtíðar litið.

Það sama á við um sjávarútveg. Við skulum bera virðingu fyrir sjávarútvegi sem atvinnugrein en látum ekki eins og hann komi til með að standa undir þeim lífskjörum sem við viljum horfa til í framtíðinni.

Við þurfum á raunsæi að halda í umræðunni meira en nokkurs annars. Því hef ég haldið fram frá upphafi hruns og geri staðföst enn. Við eigum umfram allt að hætta að flokka atvinnuvegi í „góða" atvinnuvegi og „vonda" atvinnuvegi. Við eigum að vera raunsæ og horfa heildstætt á möguleika okkar og tækifæri og taka raunsæjar ákvarðanir.

Við eigum að styðja við uppbyggingu atvinnulífs í landinu hvaða nafni sem það nefnist. Það hugarfar sem hefur verið byggt undir síðustu mánuði að atvinnurekendur og fjárfestar séu glæpamenn þar til annað sannast er stórhættulegur jarðvegur og leiðir okkur ekkert nema afturábak.

Fréttir af fjárlagafrumvarpinu á föstudaginn var sannarlega ekki tilefni til bjartsýni. Frumvarp sem gerir ráð fyrir skattlagningu „auðlinda" búið til að því er virðist í fullkomnu tómarúmi innan veggja fjármálaráðuneytisins. Útfærsla hugmynda í þessa veru byggir á þeim jarðvegi sem byggt hefur verið undir í samfélaginu síðustu misseri. Jarðvegi fullkomins óraunsæjis til atvinnulífs í landinu. Höfum hugfast að til að „auðlindir" séu verðmæti þurfa að vera til kaupendur að þeim.

Við þurfum ekki á uppákomum af þessu tagi að halda. Við þurfum á því að halda að vita að stjórnmálamennirnir okkar viti í hvers konar samfélagi við lifum og hvaða tækifæri eru til staðar til að við komust einhvern tíma út úr því ástandi sem nú ríkir.

Grunnforsenda þess er uppbygging atvinnulífsins. Það er atvinnulífið sem býr til gæði þess samfélags sem við búum í. Það er styrkur fyrirtækjanna til athafna, greiðslu launa sem býr til þau samfélagslegu gæði sem við öll leitum eftir. Svo einfalt er það og það vitum við öll.

Okkar persónulega afkoma verður ekki til í tómarúmi heldur byggir á því hvaða atvinnustarfsemi er til í landinu. Þess vegna er skýlaus krafa til stjórnmálamanna að þeir átti sig á nákvæmlega því og vandi til þeirra ákvarðana sem teknar eru. Ákvarðanir núna til skemmri tíma skipta öllu máli. Við erum í vanda og eina leiðin til að komast út úr þeim vanda á sem skemmstum tíma er hröð uppbygging atvinnulífsins. Það er alveg sama hvað við heyrum margar útfærslur á afskrift lánanna okkar - það er aukaatriði ef að hjól atvinnulífsins komast ekki í gang.

Það er aðalatriði og það eiga þeir sem eru við stjórnvölinn - og líka hinir að hafa hugfast.

Raunsæi og samstöðu í stjórnmálin takk!

fimmtudagur, 1. október 2009

Forgangsmál 2004 og er enn 2009

Skrifað í tengslum við nefndarstarf í Framtíðarhópi Samfylkingarinnar 2004 eða 2005 en birt á bloggi 1. október 2009

Pistill skrifaður árið 2004 í ákveðnum tilgangi. Áminning um það sem ég vil ekki að verði viðvarandi viðfangsefni fyrirtækja og almennings á Íslandi til langrar framtíðar:

Ísland er lítið hagkerfi með sjálfstæða mynt – hverjir eru kostir þess?

Hvað er til umræðu á meðal forystumanna í íslensku atvinnulífi þessa dagana?
Hvað er það í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sem veldur þeim mestum áhyggjum?
Hvar er óvissuþátturinn mestur?

Gengi íslensku krónunnar. Það er sama í hvaða atvinnuvegi borið er niður, iðnaði, sjávarútvegi, ferðamennsku. Allar atvinnugreinar lifa við óstöðugt rekstrarumhverfi vegna íslensku krónunnar. Gríðarleg fjárfesting í virkjana- og stóriðjuframkvæmdum þessi misserin skiptir sköpum um styrk hennar. Hagkerfið er óstöðugt, Seðlabankinn hækkar vexti til að stemma stigu við verðbólgu sem heyrist að ekki sé fráleitt að nái tveggja stafa tölu á næsta ári. Áhrifavaldurinn – gríðarleg hækkun húsnæðisvísitölu.

Það þarf ekki stóriðjuframkvæmdir eða hækkun á húsnæðisverði til að íslenska krónan taki dýfu. Það er ekki lengra síðan en þrjú ár að verðbólgan fór úr böndum, þá vegna stóraukinnar fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis á sama tíma og erlend lántaka dróst saman. Íslenska krónan er lítil mynt í alþjóðlegum heimi – er von til þess að fyrirtæki hér búi einhvern tíma við stöðugleika með hana sem gjaldmiðil?

Óstöðugleiki í gengi gjaldmiðilsins leiðir af sér óstöðugleika í rekstri þeirra fyrirtækja sem eru með tekjur sínar og/eða kostnað í öðrum gjaldmiðlum. Rekstur hvaða fyrirtækis sem er gengur út á að gera áætlanir fram í tímann og leitast við að ná markmiðum þeirra. Áætlanir þar sem tekjur og gjöld eru í stöðugri óvissu er erfiður, stundum óviðráðanlegur. Þetta á ekki síst við um minni fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum sem eiga minni möguleika á að tryggja sig fyrir gengisbreytingum en þau sem stærri eru.

Auk þess að losna við íslensku krónuna opnar innri markaður Evrópu Íslendingum ótal tækifæri í auknum viðskiptum. Markaður með sameiginlega mynt eykur viðskipti innan hans. Viðskiptakostnaður minnkar, gagnsæji eykst og síðast en ekki síst má gera ráð fyrir að sameiginleg mynt virki örvandi fyrir fjármálamarkaðinn. Sérfræðingar á sviði fjármála hafa oft talað um að íslenska krónan, sérregur eins og verðtryggingin virki fælandi á erlenda fjárfesta. Grundvöllurinn að aukinni fjölbreytni í fjárfestingum erlendra aðila hér á landi er mynt sem markaðurinn þekkir. Meiri fjölbreytni í erlendri fjárfestingu er eftirsóknarverð fyrir íslenskt atvinnulíf og ekki síður launþega og neytendur. Erlend fjárfesting kemur inn með nýja þekkingu og eykur aðhald á íslenskum fjármálamarkaði.

Aðild að EMU er mikilvægasta atvinnumálið. Engin aðgerð hefði jafnmikil áhrif í þá átt að tryggja jafnræði atvinnugreina eða auka gagnsæji og auðvelda samanburð á markaði. Áætlanagerð verður mun einfaldari og markvissari þar sem stærsta óvissuþættinum í rekstrinum væri að miklu leyti eytt – gengisáhættunni. EMU-aðild kemur ekki til greina án Evrópusambandsaðildar. Í ljósi þess óstöðugleika sem íslensk fyrirtæki búa við vegna íslensku krónunnar er augljós þörf á að ræða Evrópusambandsaðild í því samhengi.

Forsvarsmenn atvinnulífsins hafa þörf fyrir að opnað sé fyrir þetta samhengi hlutanna.

Birt til að minna á vanda síðasta áratugar og hvað er enn forgangsmál íslenskra stjórnmála í október 2009:

Ein af mörgum ástæðum þess að við eigum að stefna á aðild að ESB. Staða myntarinnar í dag er að gengi hennar er 20% veikara í dag en það hefur orðið veikast áður 1983 og 2001. Ástæðan er ekki veikar undirstöður heldur fullkomið vantraust markaðarins.

Spurningar sem ástæða er til að velta upp:
Hver væri "skuldavandi heimilanna" ef þessi staða krónunnar væri ekki raunveruleikinn?
Hver væri "skuldastaða sveitarfélaganna" í landinu?
Hver væri "skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja"?
Af hverju er öll áhersla umræðunnar á að afskrifa eða bjóða upp á skammtímalausnir í stað þess að gefa okkur von til framtíðar um lausn þessa vandamáls?

Ætlum við götuna fram á veg með sama vandamál á bakinu til langrar framtíðar?

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...