föstudagur, 30. janúar 2009

Bjartur og íslenska þjóðin

„Enn einu sinni höfðu þau brotið bæ fyrir einyrkjanum, þau eru söm við sig öld frammaf öld, og það er vegna þess, að einyrkinn heldur áfram að vera samur við sig öld frammaf öld. Stríð í útlöndum getur stælt í honum bakfiskinn ár og ár, en það er aðeins sýndarhjálp; blekkíng; einyrkinn kemst ekki úr kreppunni um allar aldir, hann heldur áfram að vera til í hörmúng, eins leingi og maðurinn er ekki mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins. Líf einyrkjans, líf hins sjálfstæða manns, er í eðli sínu flótti undan öðrum mönnum sem ætla að drepa hann. Úr einum næturstað í annan verri... Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu..."

Ég elska þessa sögu. „Sjálfstætt" fólk Halldórs Laxness er skáldsaga sem hefur snert mig meir en flestar aðrar sögur. Ég sem alin er upp í íslenskri sveit hef alla ævi þráð svo mjög að komast út úr þrönsýni íslenskrar sveitar að ég leitaði alltaf í þýðingar, annan heim umfram allt annað. Það var ekki fyrr en ég kynntist Halldóri Laxness sem ég lærði að meta íslenskan skáldskap. Fyrst var það Íslandsklukkan leikverk Þjóðleikhússins sem ég hlustaði á aftur og aftur og aftur þannig að ég kunni það næstum orðrétt og kann næstum enn. Síðar Sjálfstætt fólk en sú bók hefur meiri þýðingu í mínum huga en allar aðrar bækur sem ég hef lesið.

Ég man enn eftir upplifuninni vorið 1984. Ég í Kvennaskólanum í Reykjavík og var að fara að taka stúdentspróf. Hafði verið í verkefnum úr „Sjálfstæðu fólki" alla önnina án þess nokkurn tíma að hafa lesið hana og var að fara í vorpróf. Hafði tekist að fá fínar einkunnir út úr öllum verkefnum án þess en neyddist til að lesa bókina - annað gekk ekki fyrir lokaprófið. Fyrstu 40 blaðsíðurnar fannst mér ótrúlega leiðinlegar - var alveg við það að gefast upp... en þá... þá kom upplifunin. Þessi dásamlega saga sem lýsti þjóð minni og samfélagi betur en ég hafði nokkurn tíma komist í kynni við. Þvílíkur skilningur, þvílík næmni á íslensku samfélagi en um leið þvílíkar tilfinningar yfir og allt um kring. Það er skemmst frá því að segja að ég kolféll. Ég varð ástfangin af þessari sögu og hef verið allar götur síðan. Bjartur í Sumarhúsum er þvílíkur snilldarfulltrúi íslenskrar þjóðar að ég mun gráta það alla ævi að fá ekki að hitta Halldór Laxness til að segja honum það.

Engin önnur bók á þann stað í huga mínum sem þessi bók. Bjartur í Sumarhúsum er Jón á Melum bróðir föður míns og margir aðrir Íslendingar allt um kring. Hann er „sjálfstæður" maður umfram allt. Alveg sama þó að „sjálfstæðið" leiði hann til glötunar - „sjálfstæður" skal hann vera.

Ég hef þörf fyrir að tala um þetta í dag og gerist þannig persónulegri en ég á vanda til hér á þessu „bloggi" (sem enginn les). Ég er svo hrædd, svo miður mín, svo svartsýn á að Íslendingar muni nokkurn tíma á minni lífsævi komast út úr Bjarti. Landar mínir vilja svo gjarna vera hann og það virðist algjörlega óyfirstíganlegt að hafa áhrif á það.

Það sem fyrir mér liggur virðist án undankomu vera að bjóða 19 ára dóttur minni upp á framtíð Bjarts í Sumarhúsum til langrar framtíðar. Framtíð „sjálfstæðrar" þjóðar umfram allt annað. Jafnvel hrun íslensks samfélags sem rekja má til „sjálfstæðis" áráttu þjóðarinnar fær hana ekki til að skipta um skoðun. „Sjálfstæð" skal íslenska þjóðin vera umfram allt.

Þjóðernisrembingur og sjálfsblekking eru ríkari þættir í íslenskri þjóð en nokkuri annarri þjóð sem ég hef kynnst. Þrátt fyrir ástríðufullan vilja sem ekki verður með orðum lýst virðist vonlaust að ætla sér að hafa áhrif á þessa þætti í þjóðarsálinni.

Eina leiðin fyrir dóttur mína og hennar líka er að afneita ættjörðinni og flýja annað. Það er morgunljóst að íslensku þjóðinni er ekki við bjargandi.

föstudagur, 16. janúar 2009

Í tilefni af Framóknarflokksþingi, hugleiðingar mínar til Framsóknarmanns í upphafi 2009

Fyrir mér er þessi leit okkar margra aftur til fortíðar til að finna gömlum skoðunum stað slæm árátta og ekki líkleg til að vera til nokkurs gagns. Það var ekki síst niðurstaða mín eftir að hafa unnið verkefnið um bresku samvinnuhreyfinguna. Stjórnmál eiga að fjalla um samfélagsleg málefni dagsins í dag og framtíðina. Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur sögu fortíðar og læra af henni en við megum ekki verða svo föst í gömlum hugmyndum að við gerum þær að aðalatriði. Það er fráleitt að Framsóknarflokkurinn í dag geti byggt sérstöðu sína til framtíðar á gömlu „samvinnuhugsjóninni" - það er að mínu mati mjög mikilvægt fyrir flokkinn að gera sér grein fyrir því. Samvinnufélögin voru börn síns tíma og gerðu margt gott og ég efast ekkert um að þau skiptu sköpum um uppbyggingu margra samfélaga út um land á sínum tíma. En þau eiga ekkert erindi í dag annað en að þau eru til sem félagaform sem getur vel verið að sé nýtilegt til einhvers rekstrar þar sem tilgangi viðkomandi félags, stofnunar eða rekstrar er betur náð fram með samvinnufélagsforminu en öðru rekstrarformi. Þessi árátta að fjalla alltaf um stjórnmál eins og þau eigi að snúast um að „eitt" rekstrarform sé hið eina sanna og að heilu stjórnmálaflokkarnir séu til á grundvelli þess að eitt rekstrarform sé öðru betra leiðir okkur ekki þangað sem við þurfum að stefna nú í upphafi 21. aldar. Það eru einfaldlega allt aðrir tímar núna en voru á sínum tíma þegar Jónas frá Hriflu teiknaði umhverfi íslenskra stjórnmálaflokka og það er beinlínis þarfara en nokkuð annað að þeir sem gefa sig að íslenskums stjórnmálum átti sig á því.

Ég ólst upp í umhverfi þar sem verslað var við „kaupfélögin" og það er algjörlega fráleitt að ég sjái eitthvað sérstaklega lýðræðislegt eða „sætt" við það félagaform umfram önnur nema síður sé. Fyrir mér er umræða á þeim nótum að eitt rekstrarform umfram annað sé eitthvað sérlega „mjúkt" eða „gott" og annað „hart" og „vont" hreinlega röng umræða. Það er ekki þannig í raunveruleikanum og verður aldrei. Þar sem menn koma saman í félagi hvort heldur það er í „hlutafélagi" eða „samvinnufélagi" þar eru mannlegir eiginleikar upp á borðum og mannlegir eiginleikar eru alltaf alla vega. Eiginlega kristallast mín skoðun best í greinaskrifum mínum um þetta skelfilega hugtak „sameign þjóðarinnar". Það er umræða sem ég skelfist meir en margt annað í íslensku samfélagi því með þeirri umræðu hefur íslenska ríkið slegið eign sinni á land sem er í viðurkenndri eigu einstaklinga og það algjörlega fyrir opnum tjöldum án þess að blygðast sín einu sinni. Ríkið á Íslandi hefur semsagt þjóðnýtt landið og miðin á Íslandi á síðustu árum og það meira að segja án þess að sú gjörð hafi nokkurn tíma komið til umræðu. Lögin voru sett 1998 algjörlega án umræðu og framkvæmd ríkisins síðan á grundvelli þeirra er með hreinum ólíkindum. Þetta hefur ríkið gert á grundvelli þess að það sé eitthvað sérlega „rómantískt" og gott við þetta hugtak „sameign þjóðarinnar" þó það þýði þegar upp er staðið ekkert annað en hið ágæta hugtak sem við öll skiljum „ríkiseign". Grundvöllurinn á bak við þetta allt saman er einhver óskilgreind ósk okkar allra um að til sé eitthvað voðalega sætt og gott hugtak utan um „eignarrétt" sem er þó grjóthart fyrirbrigði og fer best á að sé algjörlega skýrt kveðið á um. Við Íslendingar áttum og eigum að ræða slík grundvallaratriði eins og hvað við viljum að íslenska ríkið eigi og hvað ekki. Við eigum ekki láta blekkja okkur með einhverjum óskilgreindum hugtökum sem höfða til okkar af því að þau eru svo „sæt" og góð í eðli sínu eins og virðist vera með þetta „sameignarhugtak".

Alveg sama á við um hugtakið um „samvinnufélög". Þó að íslenskt hagkerfi hafi hrunið á haustmánuðum þá er kolröng niðurstaða að álykta sem svo að með því sé hlutafélagaformið dautt og eitthvað annað taki við. Samfélag dagsins í dag snýst einfaldlega ekki um eitt rekstrarform öðru fremur og stjórnmálaflokkarnir á Íslandi verða að átta sig á því. „Kapítalisminn" er ekki hruninn - að halda því fram er algjörlega fráleitt. Kapítalismi án ábyrgðar, skynsemi og raunsæis er aftur á móti örugglega hruninn en hvort að heimurinn eigi eftir að átta sig á því er annað mál. Það er algjörlega skýrt og hefur auðvitað alltaf verið ef grannt er skoðað að þetta ofurlaunakapphlaup og skammtímahugsun í rekstri er óheilbrigt umhverfi og getur ekki gengið upp til lengri tíma. En hvort að takist að vinda ofan af því er annað mál og það er algjörlega ljóst að það mun taka langan tíma. T.d. á eftir að koma á daginn að hér landi hafa ofurlaunin smitað út frá sér út um allt. Ég er viss um að meira og minna allir framkvæmdastjórar - samtaka jafnt sem stærri og minni fyrirtækja eru meira og minna komnir með laun sem lítil skynsemi er í ef tekið er mið að heildinni. Slíkt mun taka langan tíma að leiðrétta - ef það tekst einhvern tímann. Það er gaman að því að rifja það upp að forsprakki þessara ofurlauna hér á landi var Guðjón B. Ólafsson (fer vonandi rétt með nafnið) forstjóri Sambandsins á sínum tíma eins og þú kannski manst. „Samvinnufélagaformið" var semsagt engin forsenda fyrir því að tryggja þar meira réttlæti en annars staðar.

Mín skoðun er sú að eina sérstaðan sem Framsóknarflokkurinn getur byggt á til framtíðar sé pólitík raunsæis og skynsemi. Það er gallinn við Samfylkinguna og veikleiki sem Framsóknarflokkurinn getur aðgreint sig frá. Annað hvort það eða sameinast Samfylkingunni og gefið henni þannig þá jarðtengingu sem hún þarf svo mjög á að halda! Sem væri reyndar óskandi að yrði tekið til skoðunar af alvöru!

Trúðu mér - fyrir Framsóknarflokkinn í leit að sérstöðu til framtíðar - er algjörlega út úr korti að horfa til Samvinnuhreyfingarinnar - samvinnuhreyfingin tilheyrir fortíðinni og á ekkert erindi sem aðalatriði við pólitík framtíðar!

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Önnur lítil dæmisaga frá íslensku heimili í byrjun árs 2009

Verslaði í Nóatúni í gær, keypti vöru sem um langa hríð hefur verið hluti af eðlilegri innkaupakörfu heimilsins: Queens hvítlauksbrauð (notabene, 1 brauð, ekki 2 í pakka) 328 kr (kaupi þessa tegund umfram íslenskar því mér finnst hún mun betri og alltaf söm að gæðum - kemur „crunchy" út úr ofninum eins og ég vil hafa það), Filippo Berio Special selection 994 kr (kaupi hana líka því mér finnst hún góð), Pik-Nik kartöflustrá 575 kr, 0,575 kg blá vínber 569 kr... Það er ljóst að áframhaldandi innkaup af þessu tagi munu ekki verða til að lækka yfirdráttinn sem um nokkurt skeið hefur staðið í 500 þúsundum á hinum dásamlegu séríslensku vöxtum u.þ.b. 20%.

Og sjálfstæðismaður - góður vinur - sem ég talaði við í vikunni hafði miklar efasemdir um að við ættum að stefna á Evrópusambandsaðild. Hann hafði allt á hornum sér og málflutningur hans var eins og bergmál af orðræðu fyrrum forsætisráðherra vor: „Getur verið að „hrunið" sé EES samningnum að kenna? Að ekki sé talað um hlut „útrásarvíkinganna". Já, fjölmiðlalögin hefðu betur náð í gegn. Íslenska krónan já - við verðum líklega að taka upp annan gjaldmiðil - en hver segir að það þurfi að vera evra?"

Ég féll í þunglyndi eftir þetta samtal. Þurfti ekki meira. Getur það virkilega verið að Sjálfstæðismenn eigi ekki eftir að taka stefnuna á Evrópusambandsaðild á landsfundinum? Hvað á þá að verða til þess að gefa manni framtíðarsýn á að þetta ástand eigi einhvern tíma í nánustu framtíð eftir að breytast? Hver hefur trú á að íslenskt hagkerfi rétti úr kútnum með því einu að skipta um gjaldmiðil (því jú öllum nema kannski Davíð og co. virðist ljóst að annan gjaldmiðil verðum við að fá). Hver hefur trú á íslenskum atvinnurekendum eða atvinnulífi? Hver á eftir að geta hugsað sér að fjárfesta hér eftir allt það sem á undan er gengið? Í samfélagi þar sem allir atvinnurekendur virðast meira og minna bölv... skúrkar? (Ályktun dregin af fyrirsögnum fjölmiðlanna og umræðunni þessa dagana). Hver hefur trú á íslensku stjórnkerfi? Íslenskum stjórnmálum? Íslensku samfélagi? Og á hvaða markaði eiga íslensku fyrirtækin að starfa? Hvar eiga þau að eygja möguleika á verða samkeppnisfær?

Það er fráleitt að aðild að ESB muni leysa allan okkar vanda til skemmri tíma en guð minn góður hvar í ósköpunum er framtíðarsýnin án þess að stefnan sé tekin á aðild? Hvaðan á trúverðugleikinn að koma? Hvernig á ég að trúa því að þetta bilaða verðlag muni (sem þó er engan veginn komið komið í þær hæðir sem það á eflaust eftir að fara) muni einhvern tíma lagast aftur? Hvernig á íslenska krónan sem nú er varin af 18% stýrivöxtum OG gjaldeyrishöftum (! en veikist samt) að rétta sig af til skemmri tíma án þess að stefnan sé tekin á breytingar til framtíðar?

Hvernig á ég að segja dóttur minni að trúa á framtíðina við óbreytta stefnu? Hvaða framtíðarsýn hafa Davíð og co? Er það gamli góði túngarðurinn? Aftur til baka til þess tíma þegar ég var að alast upp? Aftur til þess tíma þegar pólitískar skoðanir ráða því hvar þú verslar? Aftur til þess tíma þegar „venjulegt fólk" lætur sig ekki dreyma um að fara til útlanda - nema kannski einu sinni á ævinni (já það þótti nú óþarfa bruðl með gjaldeyrir í minni sveit að vera að þvælast þetta til útlanda alltaf).

Ég spurði þennan sama vin minn - hvort hann hefði lesið umfjöllun Morgunblaðsins um ESB. Nei, það hafði hann ekki gert - þetta er svo mikil lesning! Tek það fram hef spurt marga fleiri - fæstir lesa, (nema jú ég sem er algjörlega sannfærð um að Ísland eigi að gerast aðili að ESB og þarf því ekki að lesa hana).

Hvaða framtíðarsýn hafa þeir sem hæst láta í umræðunni? Hvert eigum við að fara?

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Dæmisaga síðustu ára

Átti umræður um pólitík og umræðuna í íslensku samfélagi þessa dagana við dóttur mína í kvöld. Og eins og ég hef komið inn á áður veit ég fátt skemmtilegra. Þroski hennar og sýn á samfélagið er mun meiri en flestra þeirra radda sem háværastar eru þessa dagana. Henni tekst að vekja með mér bjartsýni og trú á framtíðina betur en margur annarr.

Eitt af því sem við ræddum voru ummæli bróður míns en hann hafði heyrt hluta af útvarpsþætti Bubba Morthens í fyrradag. Ef rétt er eftir haft hringdi þar inn maður sem kvartaði sáran yfir því að hafa ekki fengið frystingu í bankanum sínum á lán sem hann tók fyrir hjólhýsi á sínum tíma. Mér fannst þetta skemmtileg og góð dæmisaga um þá þjóð sem ég tilheyri. Þennan eiginleika þjóðarinnar þekki ég og kannast betur við en margt annað og er mér tilefni til hugleiðinga.

Sem starfsmaður í flutningum stærstan part lífs míns er óhjákvæmilegt annað en ég hafi kynnst mjög vel dæmalausri neysluhyggju landans. Neysluhyggju sem á sér engan sinn líka og er áreiðanlega einn stærsti hluti þess hversu hratt okkur hefur tekist að búa til allsnægasamfélag eftir að hafa búið við sára fátækt og allsleysi í aldir. Neyslubrjálæði sem aldrei hefur náð þvílíkum hæðum og á síðustu árum - þökk sé íslenskum bönkum m.a.

Ég hef þjónustað landann við að flytja inn „herbalife" og „nu skin" í tonnavís með flugi. Svo mikið var magnið að einn æðsti stjórnandi Nu skin keðjunnar sem kom hingað frá Belgíu hafði aldrei nokkurn tíma komist í kynni við annað eins. Á sama tíma og dreifingarmiðstöðin sem var í Brussel dreifði kannski einu eða tveimur brettum til Svíþjóðar fóru 12 til Íslands. Já þetta var sko „gullæði" í lagi. Íslendingar „venjulegt fólk" með dollaramerki í augum. Allir sem einn ætluðu þeir að verða ríkir og eflaust tókst þeim það sumum.

Ég þjónustaði líka landann við að flytja inn heilu farmana af fellihýsum með flugi vorið 2003. Þessa vörutegund höfðu kollegar mínir hinum megin hafsins aldrei heyrt af að væri flutt með flugi - hvorki fyrr né síðar. En Íslendingar létu ekki að sér hæða, það voru ekki eitt og ekki tvö - heilu flugvélarnar komu þetta vorið full af fellihýsum handa landanum fyrir sumarfríin. Á meðan biðu jepparnir í röðum á kajanum... en þeir voru líka fluttir í tugatali með flugi. Hafa eflaust náð einhverjum hundruðum síðan ef ekki þúsundum.

Þetta er bara ein lítil mynd af íslensku samfélagi síðustu ár. Samfélagi neysluhyggju í hærri hæðum en áður hefur þekkst. Samfélagi sem einkenndist fyrst og fremst af „gullæði" - eltingaleik í kringum gullkálfinn sem meirihluti alls almennings tók fullan þátt í.

Meira að segja ég „miðaldra einstæð móðirin" (sem þá var) gerðist svo áhættusækin að breyta húsnæðisláninu í erlent lán og búa með þeim hætti til aukaeyrir til neyslu. Já ég gerði það algjörlega upp á eigin spýtur og algjörlega án þess að bankinn minn sem ég hef haft viðskipti við í 25 ár hafi gert eina einustu tilraun til að hvetja mig til þess nema síður væri. Já ég var algjörlega einfær um þennan gjörning og get ómögulega hversu mjög sem ég reyni gert bankann minn ábyrgan fyrir því. Bankinn minn gerði enga tilraun til að hvetja mig til eins eða neins í þessa veru. Svei mér ef það var ekki reynt með kurteisum hætti að telja mér hughvarf. En mér var ekki þokað. Þetta gat ekki verið svo mikil áhætta. Átti að vera með eign í höndunum sem allt í einu var orðin hátt í 30 milljóna virði (var keypt 2004 fyrir tæplega 14 milljónir) og erlenda lánið sem tekið var ekki upp á nema 12. Gengisvísitalan 125 - meðaltal síðustu áratug var einhvers staðar þar um bil. Já þetta var þetta átti að vera nokkuð „öruggt". Gat ekki farið svo mjög illa, ef gengið veiktist og verðbólgan færi af stað myndi íslenska lánið mitt hækka svo og svo mikið hvort eð er.

Já hvernig skyldi nú staða mín vera í dag? 12 milljóna skuldin hoppar þetta á milli 23 - 25 milljóna flesta daga. Veit ekki hvers virði eignin er - sennilega einskis virði í dag - enda markaðurinn í kyrrstöðu.

Ef ég hefði eitthvert peningavit (sem ég telst sennilega seint sek um) hefði ég auðvitað breytt aftur yfir í íslenskt lán á þeim tíma þegar höfuðstóllinn stóð í 9 milljónum en æ það þýddi lántökukostnað og vextir á íslenskum húsnæðislánum voru hærri en þeir höfðu verið lengi. Samt vissi ég alveg eins og meirihluti íslensku þjóðarinnar að eitthvað skelfilegt vofði yfir. Það hefur legið ljóst fyrir í langan tíma eða allar götur frá síðustu kosningum að það var langt frá því allt í lagi í íslensku efnahagslífi EN samt...

Já þetta er nú umhverfið sem „venjulegt fólk" eins og ég meira að segja hef látið leiða mig út í. Mér er alveg gjörsamlega ómögulegt að skilja af hverju ég á að gera „íslenska auðmenn" að sökudólgum fyrir þessari stöðu. Eða íslenskum bönkum. Mér er líka gjörsamlega ómögulegt að skilja hvernig hægt er að halda því fram að „þetta hefði allt saman gerst samt - þrátt fyrir að við hefðum verið með evru". Hvernig er hægt að halda því fram? Hvar annars staðar en hér á landi þar sem fer saman neyslubrjáluð þjóð, pínulítill veikur gjaldmiðill og galopið alþjóðlegt viðskiptaumhverfi getur slíkt gerst? Hvernig hefðum við öll „venjulegt fólk" getað leikið okkur svona með gengisáhættu nema vegna gjaldmiðilsins sem gerði okkur það kleift? Með evru hefði íslenska þjóðin ekki getað farið á neyslufyllirí út á gengismun, en það er nákvæmlega það sem hún gerði og það ekki bara örfáir einstaklingar - heldur fjölmargir einstaklingar.

Það getur vel verið að einhverjir „íslenskra auðmanna" hafi farið offari í fjárfestingum og reyndar meira en líklegt. Það getur líka vel verið að einhverjir þeirra hafi farið gáleysislega og jafnvel glæpsamlega að ráði sínu. Það kemur í ljós einhvern tíma en það liggur alls ekki ljóst fyrir núna og því síður liggur það ljóst fyrir að „íslenskir auðmenn" séu allir sem einn „sakamenn" sem hengja má í hæsta gálga.

Ofurlaunin og skammtímahugsun í fyrirtækjarekstri eru alþjóðlegt fyrirbrigði sem íslenskir athafnamenn hafa tekið fullan þátt í. Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að réttlæta slíkt háttalag en það er viðurkennt háttalag og hefur verið í viðskiptaheiminum í áratugi, því miður. (Hér á landi kannski síðustu 15 ár en ef ég man rétt var það Guðjón B. Ólafsson heitinn fyrrum forstjóri Sambandsins sem reið á vaðið með að taka sér „ofurlaun" að fyrirmynd Bandaríkjamanna.) Kannski á eftir að koma á daginn að beinlínis þessi hugmyndafræði sé ástæðan fyrir alheimskreppunni nú. Stjórnun fyrirtækja sem gengur út á þann fókus að búa til peninga til skamms tíma er viðurkennd í öllum viðskiptafræðum heimsins og beinlínis hvatt til þess að viðhafa þessa tegund stjórnunar. Því getur ekki verið sanngjarnt að hengja íslenska athafnamenn eina fyrir það. Það er mein sem heimurinn þarf vonandi að takast á við í kjölfar kreppunnar en það verður ekki auðvelt eða sársaukalaust svo mikil áhrif hefur þessu hugsun haft inn í samfélagsgerðina alla að hún verður ekki leiðrétt „si svona".

Það er beinlínis grátlegt að horfa upp á íslenska þjóð firra sig allri ábyrgð á því sem gerst hefur síðustu ár. Forsendan fyrir því að eitthvað breytist hér til batnaðar er að við öll lítum í eigin barm og horfum á það sem gerst hefur í samhengi. Að við könnumst við ábyrgð okkar á því að svo fór sem fór - því ábyrgð okkar er mikil. Ábyrgð okkar er sú að kjósa yfir okkur valdhafa sem neituðu staðfastlega að takast á við þau vandamál sem blöstu við - árum saman - já árum saman. Við kusum þá meira að segja þegar þeir lofuðu okkur meira í budduna á árinu 2003 þegar allar aðstæður í samfélaginu kölluðu á virkt aðhald í peningamálum. Nei það hugnaðist okkur ekki - við vildum meira... og það fengum við... um tíma.

mánudagur, 5. janúar 2009

Enn af umræðunni

Var að enda við að lesa opið bréf Víglundar Þorsteins til Þorsteins Pálssonar og í kjölfarið ræðu Einars Más Guðmundssonar frá mótmælafundi á laugardaginn.

Af ræðu Einars Más skil ég það eitt að hann sé orðinn byltingarforingi að hætti þeirra í Rússlandi 1917. Það vekur mér ugg að þetta sé það sem fjöldi fólks mætir til að hlusta á Íslandi í upphafi árs 2009. Höldum við að kommúnismi sé svarið við uppbyggingu samfélagsins til framtíðar? Hvað annað má skilja af þessum málflutningi? Hvert leiðir svona málflutningur okkur svo sem? Til þess að kjósa Vinstri græna í næstu kosningum? Hvert mun það svo leiða íslenskt samfélag til framtíðar? Ég get ekki að því gert að ég fæ hroll af tilhugsuninni einni saman.

Það er með ólíkindum hvað Davíð Oddsson er klár spunameistari. Orðræðan öll í íslensku samfélagi er að hans óskum. Hrunið - allt saman - er „óreiðumönnum" um að kenna. Já og núverandi stjórnvöldum. Ég sé ekki að stjórnvöld síðustu áratuga amk ekki Davíð Oddsson beri nokkra einustu ábyrgð á því sem gerst hefur. Um það talar amk enginn.

Hvernig í ósköpunum má það vera? Hvernig getur það verið að hægt sá að heilasvo heila þjóð á örskömmum tíma að hún verði algjörlega blinduð á það sem gerst hefur og trúi því sem einn maður að hrun íslenska bankakerfisins megi rekja til einnar ástæðu - „vondra útrásarmanna"? Að íslenskir athafnamenn síðustu ára séu allir sem einn „vondir menn" sem þurfi að passa upp á að fái hvergi að koma nálægt neinu í íslensku samfélagi nútímans eða framtíðarinnar. Hverjum ætlum við að treysta til að stjórna fjármálastofnunum og fyrirtækjum framtíðarinnar? Hverjir munu fá „hreint sakavottorð" frá þeim rannsóknarrétti sem ríður nú yfir? Og það sem meira er - hverjir eru þess umkomnir að vera í „rannsóknarréttinum"? Eru það Agnes Bragadóttir og Egill Helgason sem við eigum að treysta til að segja til um hverjir mega koma nálægt fyrirtækjarekstri á Íslandi framtíðarinnar?

Og þá að Víglundi Þorsteinssyni og bréfaskriftum hans við Þorstein Pálsson. Bréfritaranum hugnast illa þetta daður Þorsteins við Evrópusambandið - talar um „kjánalegu Evrópu og evruumræðu" . Það er ekki að sjá á málflutningi Víglunar að íslenska krónan hafi haft nokkuð með það að gera sem gerst hefur. Hvað þá að það skipti nokkru máli fyrir íslenska þjóð til framtíðar að stjórnmálamennirnir ákveði að læra af því sem gerst hefur og gefi út nýja stefnu - breytta stefnu - gefi okkur þjóðfélagsþegnunum eitthvað til að trúa á. Nei - ónei - óbreytt stefna - Íslandi allt -íslenska krónan áfram sem gjaldmiðill til framtíðar og engu breytt (nema jú stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja eiga að sýna ráðdeild héðan í frá). Það er framtíðarsýnin. Framtíðarsýn 19 ára gamallar dóttur minnar (sem rétt í þessu kom inn og tilkynnti um kaup á tannbursta í 10-11 sem kostaði 800 krónur) og hennar kynslóðar. Sjálfstætt Ísland að hætti Bjarts í Sumarhúsum - það er framtíðarsýn komandi kynslóða.

Hvenær er þess að vænta að menn fari að tala opinskátt um hvaða hlutverk íslenska krónan hafði í þessu hruni og aðdraganda þess? Á árunum 2002 - 2004 og ekki síst í aðdraganda kosninganna 2003 sótti ég alla fundi sem ég komst yfir um íslensku krónuna. Ég minnist þess að þá þegar höfðu menn áhyggjur af því hvaða áhrif staða krónunnar gagnvart öðrum myntum hefði á efnahagsreikninga bankanna. Á fundi undir yfirskriftinni „Stenst íslenska krónan samkeppnina" hélt Vilhjálmur Egilsson erindi þar sem hann velti því upp "hvort að Seðlabankinn ætti að smíða sérstök hagstjórnartæki í kringum hinn öfluga íslenska gjaldmiðil verðtryggðu krónuna? Hvort það ætti að breyta uppgjörsreglum eða eiginfjárkröfum banka þannig að gengissveiflur mögnuðu ekki hagsveifluna. Ég man enn hvað það vöknuðu margar spurningar í kolli mér í kjölfar þessa erindis - spurningar sem ég fór með heim og fékk engin svör við en hef svo sem oft hugsað til núna eftir að hrun bankakerfisins er komið á daginn.

Þá þegar höfðu menn í innsta hring á hægri væng stjórnmálanna áhyggjur af því hvernig staða krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum magnaði upp hagsveifluna. Samt sáu þeir aldrei nokkurn tíma ástæðu til að tala af alvöru um þá stöðu og takast á við hana. Ef þeir sjá það ekki heldur nú - þegar bankakerfið er hrunið og við stöndum frammi fyrir þeim raunveruleika að meirihluti fyrirtækja og heimila er "tæknilega gjaldþrota" - þá er þeim ekki við bjargandi.

laugardagur, 3. janúar 2009

Kjarkleysi og fortíðarhyggja

Geir H. Haarde hefur upplýst að hann sé tilbúinn til að skoða þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu. Einhvern veginn kom þessi yfirlýsing ekki sérlega á óvart í ljósi þess hversu óskaplega hræddur maðurinn augsýnilega er við að hafa sjálfstæðar skoðanir. Maðurinn sem er formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins. Það er ekki nóg að láta flokkinn um að búa sér til skoðun - þjóðin öll þarf að gera það fyrir hann.

Hver konar stjórnmál eru þetta? Hvers konar stjórnmál þykir orðin sjálfsagt að bera á borð fyrir mann í þessu landi? Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Er ekki meginhlutverk þeirra að hafa skoðanir? Um hvað snúast stjórnmál annað en það að hafa skoðanir?

Ég verð að spyrja.

Flokksræðinu á Íslandi hefur tekist að sjá til þess að stjórnmál síðustu áratuga hafa snúist um aukaatriði, pólitískt dægurþras um eitthvað sem engu máli skiptir. Á meðan hafa stóru málin sem augljóst hefur verið að taka þyrfti afstöðu til verið látin liggja á milli hluta. Hvers vegna? Vegna þess að um þau hafa verið skiptar skoðani r innan FLOKKANNA!

Hvenær ætla Íslendingar að átta sig á hvers konar eindóma vitleysa þetta er? Getur það verið rétt að vegna þess að einhver félög voru stofnuð fyrir áratugum síðan utan um ákveðnar hugmyndir þá verði þessi sömu félög að lifa endalaust án þess að þróast eða breytast ? Og ekki nóg með það heldur á samfélagið sem slíkt að snúast um að leyfa þessum stofnunum - FLOKKUNUM - að lifa í óbreyttri mynd.

Frá Framsóknarflokknum heyrast raddir sem vilja leita aftur til fortíðar í leit að hugmyndafræði til að sameinast um. Gömul sérstaða flokksins sem sem flokks samvinnufélagaformsins virðist heilla.

Hvar eru einstaklingarnir - foringjarnir í þessu samfélagi hafa samfélagslega sýn? Aðra en þá að leita aftur til fortíðar í leit að lausnum? Eru þeir til?

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...