föstudagur, 24. október 2025

Kvennabaráttan og kynhvötin

24. október 2025. Fimmtíu ár síðan kvennafrídagurinn var haldinn og konur flykktust út í hópum um allt land til að gera kröfur. Dagur sem við minnumst allar með lotningu vona ég og er fyrir löngu orðinn að einhvers konar minni sem við allar horfum til. Þetta var dagurinn sem markaði upphafið. Dagurinn þar sem allt breyttist og ekkert varð aftur samt. 

Þennan dag árið 1975 var ég 12 ára og bjó á Melum í Hrútafirði. Mamma var að leysa af á símanum í Brú á þessum tíma og hún tók sér ekki frí. 

Mér finnst táknrænt að hugsa til þess að á þessum tíma var ég tólf ára. Mér lá alltaf rosalega mikið á að verða fullorðin og mér fannst ég rosalega þroskuð. Ég var þá þegar komin með skoðanir á öllu milli himins og jarðar og ég fylgdist andaktug með þessum baráttufundi. Hann hafði djúp og mikil áhrif á mig þó ég fylgdist bara með úr fjarlægð. Ég spilaði plötuna „Áfram stelpur“ endalaust og kunni hvern einasta texta utanbókar. Held að ég kunni þá enn. 

Ég var stuðningsmaður kvennabaráttunnar frá fyrstu stundu en samt er það svo undarlegt að ég gekk aldrei alla leið. Ég gekk aldrei í Kvennalistann og ég syrgi það ævina á enda. Hvernig stendur á því að ég gerði það aldrei?

Mig langar til að segja ykkur það, því það er ástæða fyrir því. Mig langaði – langaði mjög mikið – en ég gat það ekki. Hef alltaf verið „sérvitur“ eins og pabbi sagði alltaf um mig á góðlátlegan hátt og sú sérviska birtist með margvíslegum hætti. 

Það var vegna þess að ég upplifði að kvennabaráttunni fylgdi að ég mætti ekki vera kynvera. Þegar ég var tólf ára gömul var ég nýbúin að gera stórkostlega uppgötvun – uppgötvun sem breytti öllu fyrir mig og gaf mér leyfi til að finna til þeirra kennda sem ég fann fyrir. Mér er ómögulegt að segja frá því nákvæmlega hér hver uppgötvunin var en hún skipti mig öllu máli. Hún bókstaflega, í orðsins fyllstu merkingu, sagði mér að ég væri ekki óeðlileg. Ég var í lagi. Ég mátti vera kynvera. Ég mátti finna til þeirra kennda sem ég fann fyrir og ég mátti stunda sjálfsfróun án þess að skammast mín. Þessi staðreynd var „breakthrough“ fyrir mig sem tólf ára gamla stelpu. Hún valdefldi mig með þeim hætti að ég kann ekki einu sinni að lýsa því. Þetta var eitthvað sem skipti mig gríðarlega miklu máli og ég var ekki til í að láta neinn segja mér að væri ljótt.

Hér er mikilvægt að segja jafnframt að með þessu er ég ekki að segja að tólf ára gamlar stelpur séu orðnar að leyfilegum „viðföngum“ karlkynsins. Aldeilis ekki. Það er langur vegur þar frá. Það er aftur á móti mikilvægt að við leyfum stelpum að kynnast þessari hvöt innra með sér og kennum þeim ekki að skammast sín fyrir hana. 

Kvennaframboðið og Kvennalistinn börðust alltaf hart fram gegn klámi og feministahreyfingar dagsins í dag gera það enn. Svo langt var gengið að ég minnist Helgu Thorberg mótmæla listasýningu á Hótel Borg þar sem um var að ræða japanska list sem sýndi fólk í ýmsum samfarastellingum. (Held að rétt sé með farið en það getur vel verið að smáatriðin séu misminni). Þetta þótti í lagi að líta á sem argasta klám. Ég upplifði þetta sem púritanisma og þoldi það ekki. Þennan hluta af baráttu Kvennalistans átti ég alltaf mjög erfitt með að þola og gat ekki staðið með. 

Á sama hátt þoli ég ekki í dag þegar farið er taka niður listaverk í opinberum stofnunum sem sýna ber brjóst kvenna. Ég hef hreinan ímugust á púritanisma og lít svo á að hann verði fyrst og fremst til að þagga niður í konum. 

Á sama tíma tek ég fram að ég hef hreina fyrirlitningu á þegar strákar ganga fram í því að gera stúlkur að kynlífsviðföngum fyrir þá til að hafa gaman. Íslenskt samfélag hefur oft á 21. öldinni gengið gjörsamlega fram af mér í aðra hvora áttina. Í þá átt að ala á og upphefja greddu strákanna á kostnað stelpna. Eða þess að útskúfa drengjum fyrir það eitt að vera klaufalegir í umgengni við þessa hvöt – kynhvötina. Stúlkur hafa gengist upp í því að vera púritanískar verur og ég spyr mig hverjum það gagnist. Er það gott fyrir þær? Ég er ekki sannfærð. 

Ég skil ekki af hverju við þurfum alltaf að vera á þessum stað. Alltaf í öfgunum í aðra hvora áttina? Er alveg ómögulegt að við leyfum ungu fólki að hafa kynhvöt? Kenna því að það þurfi að læra að umgangast hana og læra að sýna öðrum virðingu númer eitt. Að kynhvötin gefur aldrei leyfi til að níðast á öðrum. Aldrei. Þau bera ábyrgð hvert og eitt á sjálfum sér og því að sýna öðrum virðingu?

Ég veit það ekki. Veit ekki hvernig á að vera hægt að tala um kynhvötina án þess að allt fari til fjandans. Veit ekki hvernig á að vera hægt að tala um þessa hluti án þess að allt fari til fjandans. 

Ég veit það bara að mér hefur fundist Ísland á leiðinni á þann stað í kjölfar „MeToo“ að stúlkur séu orðnar að fullkomlega púritönskum verum fram á fullorðinsár. Og ég er ekki sannfærð um að það verði þeim til góðs. Ég held að það þýði að stúlkur séu að gangast upp í því að hafa vald yfir strákum til að segja þeim hvernig þeir eigi að haga sér. Og ég held að það sé ekki gott. Ekki fyrir þær og ekki fyrir þá. Ég er ekki sannfærð um að þetta fyrirkomulag leiði til góðs samfélags fyrir neinn.

Við erum með múslimasamfélagið á aðra hliðina. Samfélag kaþólsku kirkjunnar á hina. Allt gengur út á að halda stúlkum og konum niðri. Kynhvöt þeirra. Þær eru ekki til. Ósýnilegar. Þarf að ganga svo langt að hylja þær frá toppi til táar til að verja aumingjans karlana fyrir því að falla fyrir feistingum þeirra. 

Hér fyrr á öldum drekktum við konum fyrir glæpi sem karlar frömdu á þeim. Þær þurftu að greiða fyrir glæpi þeirra með lífi sínu. Ég gleymi aldrei áhrifamiklu verki Rúríar sem sýndi þetta. Íslenskum þjóðbúningum stillt upp með nöfnum og ártölum kvenna sem drekkt hafði verið í Drekkingarhyl vegna þess að feður þeirra, bræður eða frændur höfðu misnotað þær.

Gæti kannski verið að þetta sé næsta mál í feministabyltingunni? Gæti verið kominn tími til að við tækjumst á við kynhvötina? Ekki með þeim formerkjum að banna hana eða fela, heldur umfaðma hana? Leyfa unga fólkinu okkar að hafa kynhvöt og viðurkenna það? Viðurkenna að það er kynhvötin sem býr okkur öll til? Að takast á við kynferðisglæpina og ofbeldið með ákveðnum og markvissum hætti en rugla því ekki saman við að ungt fólk megi ekki hafa kynhvöt?

Ég get bara talað fyrir mig. Ég er búin að bíða eftir þessu augnabliki frá því ég var tólf ára stelpa. Ég held að það sé löngu kominn tími til að við vöndum okkur meira í þessari baráttu. Að við opnum meira og umföðmum meira. Sýnum meiri kærleika og minna valdboð. 

Ég held að valdboðið geri engum gott – allra síst samfélaginu sem við lifum í. Kærleikurinn gerir það hins vegar. Alltaf. 

Ég held að við þurfum að gangast við kynhvötinni. Að hún er þarna frá unga aldri. Og hún er hluti af því að vera strákur og hún er líka hluti af því að vera stelpa. Hún er ekki ljót í sjálfri sér. 

Það þarf ekki að verja ungar stúlkur fyrir kynhvötinni. En við búum í samfélagi sem hefur kennt ungum strákum frá aldaöðli að stúlkur séu kynferðisleg viðföng þeirra. Þann þátt í samfélagsgerðinni þurfum við að takast á við. Því það er ekki í lagi. 


mánudagur, 20. október 2025

Valdefling karlrembunnar

Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangri að nú tala karlremburnar um það fullir sjálfstrausts að að sjálfsögðu eigi konur ekki að vinna fullan vinnudag frá ungum börnum sínum. Það sé hneyksli. Svona er talað á árinu 2025. Á Íslandi. Landi jafnréttisins. Að upplifa þetta verður til þess að það stendur í mér. Mig langar að hlaupa út og hafa hátt á torgum.

Og mig langar ekkert að taka þátt í Kvennafrídegi þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir messar. Þið verðið að fyrirgefa – en svona líður mér.

Það eru svo sem engar fréttir. Ég tók ekki þátt í kvennafrídeginum árið 2023 enda fann ég enga tilfinningu fyrir því að tilheyra og þegar maður tilheyrir ekki þá langar mann ekki að vera memm.

Ég bjó í samfélagi framan af ævi þar sem lengst af ein kona sat á Alþingi hverju sinni. Engin kona sást í stjórnunarstöðu – nema þá um væri að ræða fjölskyldufyrirtæki. Konur skrifuðu ekki greinar. Konur voru ósýnilegar. Alveg eins og þær eru enn í stórum hluta heimsins.

Ótrúlega kjarkmikill hópur kvenna tók sig saman og var í forystu fyrir Kvennafrídeginum á Íslandi 24. október 1975. Rauðsokkur. Konur sem þurftu að þola ótrúlegt mótlæti – þar sem þær voru talaðar niður og gert lítið úr þeim. Eitthvað sem við getum fræðst um með því að horfa á myndina sem sýnd var á RÚV í gær „Dagurinn sem Ísland stöðvaðist“. Stórkostleg mynd sem blæs manni brjóst baráttuanda.

Í kjölfar Rauðsokkanna varð Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn til. Kvennalistinn sem umbreytti – kollvarpaði – stöðu kvenna á Íslandi. Ísland fyrir konur í dag er ekki sams konar samfélag og ég ólst upp í. Það er gjörbreytt. Konur eru helmingur þingmanna. Það eru konur í öllum æðstu embættum ríkisins. Það eru konur alls staðar – hver sem litið er. Nema kannski helst í æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja. Þar ræður karlkynið enn ríkjum að mestu.

Þetta samfélag er ekki einu sinni líkt því samfélagi sem ég ólst upp í. Og ástæðan fyrir því er ekki síst leikskólarnir.

Uppbygging heilsdagsleikskóla fyrir börn var grundvallarkrafa Kvennalistans og síðar R-listans. Það var byltingin sem R-listinn lagðist í og það var það mál sem breytti öllu. Það eru konur sem ganga með börn og það eru konur sem stóðu – og standa – frammi fyrir því að þurfa að koma barninu fyrir vilji þær fara út að vinna. Heilsdags leikskóli er grundvallarmál jafnréttis kynjanna. Það var það árið 1994 og það er það enn 30 árum síðar árið 2025.

Hvernig talað er til kvenna í almannarýminu í dag er óþolandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Að heill barnsins sé undir því komin að þau séu ekki lengur en 5-6 stundir í leikskóla á dag er skáldskapur til þess eins fallinn að brjóta niður áunnin réttindi.

Næst verður það gamla fólkið. Reyndar er það líklega ekkert „næst“. Mér skilst það hafi komið út bók á dögunum sem fjallar um nákvæmlega það. Hvernig konum er send skömmin ef þær hugsa ekki nógu vel um foreldra sína.

Að senda konum skömmina er ekkert nýtt. Það er elsta verkfærið í töskunni. Það hefur alltaf verið gert – í gegnum aldirnar.

Í gær hlustaði ég á þátt Önnu Sigríðar Þráinsdóttur og Guðrúnar Línberg Guðjónsdóttur þar sem þær gera grein fyrir því hversu mörg orð eru til í íslenskunni til að lýsa konum með niðrandi hætti. Þetta var bráðskemmtilegur þáttur um leið og hann er svo dásamlega lýsandi fyrir það samfélag sem við búum í. Hlustið á hann – mana ykkur!

Og hér eru það konur sem eru hlutverki dómaranna. Það eru konur sem eru að senda konum skömmina. Það eru þær sem eru forystu fyrir því að gera lítið úr kynsystrum sínum.

Ætlum við að hafa þetta svona? Ætlum við að kyngja því að við séum „vondar mæður“ ef við höfum persónulegar þarfir? Ætlum við að hlusta á ræður í þá veru á Kvennafrídaginn 25. október 2025? Á 50 ára afmælinu?

mánudagur, 13. október 2025

Meira um stétt leikskólakennara og stjóra

Það er ábyrgðarhluti að tala niður stofnanir með þeim hætti sem ég hef hlustað á leikskólakennara og stjóra gera síðustu ár um leikskólann. Þær (langflestar konur) tala eins og þessar stofnanir sem þær stýra séu stofnanir myrkursins.

Þar er húsnæðið allt of lítið og þröngt. Þar er allt of fátt starfsfólk pr barn. Þar er stór hætta á að alvarlegir hlutir gerist vegna þessa. Manneklu og vondra aðstæðna.

Leikskólarnir eiga að stýrast að þeirri hugmynd að vantraust sé normið. Enginn starfsmaður á nokkru sinni að fá að vera einn með barni. Það er stórhættulegt og býður hættunni heim. Bandaríska hugmyndafræðin þar sem við vantreystum öllum þar til annað sannast.

Hverjum líður vel í slíku umhverfi?
Þar sem vantraust er normið?
Þér?

Eins og ég kom inn á í grein minni í gær þá sat ég Þjóðarspegilinn fyrir sennilega tveimur árum þar sem „sérfræðingar“ um málefni leikskóla frá Háskólanum á Akureyri töluðu þessar stofnanir svo niður að ég gekk út. Þær voru komnar á þann stað að tala um aðstæður í leikskólum á Íslandi í dag væru hliðstæðar við vöggustofurnar sem við höfum öll heyrt hryllingsfréttirnar um.

Hvert okkar hefur þessa reynslu af leikskóla barnsins síns? Setjum við börnin okkar á hverjum degi í faðm stofnana þar sem við eigum öll von á að eitthvað illt gerist?

Ég spyr – hver vill vinna á svona stað? Hver sækist eftir að vinna í svona aðstæðum?

Í tengslum við þessa umræðu þar sem leikskólarnir eru orðnir svona hættulegir er því beint til foreldra að þeir séu svo vondir ef þeir vilja hafa barnið sitt allan daginn á leikskóla. Því slegið föstu að það sé eftirsóknarverðast og best fyrir barnið að „eiga sem stystan vinnudag“ og látið eins og það séu einhverjar rannsóknir þarna úti sem styðja málstað þeirra. Það er vert að geta þess að þær rannsóknir finnast ekki. Það er ekkert sem styður þá hugmynd leikskólakennara og stjóra að það sé börnunum fyrir bestu að vera sem styst á leikskólanum. Það eru hins vegar til fullt af rannsóknum sem sýna að gæði leikskólans skipta máli fyrir heill barnsins.

Að síðustu – á árum áður var mjög almenn ánægja foreldra með leikskólana. 90% eða þar um bil var ánægð með leikskólana ef ég man rétt. Því sama var hreint ekki að heilsa þegar skólarnir voru annars vegar. Óánægja með skólana hefur verið landlæg á Íslandi í áratugi á minni ævi. Nú vilja leikskólakennarar og stjórar endilega gera skólann að fyrirmynd sinni og vinna að því öllum árum að við öll lítum á þessar stofnanir – leikskólana – sem við höfum fyrst og fremst litið á sem stofnanir til að gæta barnanna okkar á meðan við erum úti að vinna – sem skóla.

Ég skrifa þessar greinar vegna þess að mér er annt um leikskólann – mjög annt um hann. Og ég elska börn – meira en annað fólk. Ég hef verið miður mín lengi yfir þeirri vegferð sem ég hef horft á leikskólakennara og stjórana vera á og nú er komið nóg.

Það er ekki þeirra hlutverk að vera í forystu einhverrar teboðshreyfingar á Íslandi. Að vera í því hlutverki að senda skömmina vegna þarfar fyrir gæslu barna yfir á mæður. En það er hlutverkið sem þær hafa tekið að sér síðustu ár.

Það er ekki heldur þeirra hlutverk að tala niður stofnanirnar sem þær starfa hjá og búa til þá mynd í huga okkar allra að þær séu stofnanir myrkursins. Leikskólar á Íslandi hafa lengst af verið yndislegar stofnanir sem foreldrunum og tala nú ekki um börnunum hefur þótt vænt um. Þannig viljum við áreiðanlega öll hafa það áfram.

Þess vegna biðla ég til leikskólakennara og stjóra – segið okkur hvað er að? Hvert vandamálið er? Og tökum á því.

sunnudagur, 12. október 2025

Leikskólinn og skólinn


Leikskólakennarar og stjórar vilja að við kokgleypum hugmyndina um lengingu „skólastigsins“ niður á við um 5 ár. Ég er hjartanlega ósammála þeim og ætla að gera grein fyrir þeim skoðunum hér.

Leikskólinn snýst um allt aðra hluti en grunnskólinn og hann á að snúast um allt aðra hluti. Börn á aldrinum 1 til 5 ára hafa ekkert með „skólagöngu“ í þeim skilningi að gera og við eigum ekki að fjalla um þessar stofnanir leikskólana sem slíka. 

Ég sendi ekki barnið mitt í leikskóla vegna þess að sú stofnun þyrfti að kenna því. Ég sótti um fyrir barnið mitt á leikskóla vegna þess að ég þurfti á gæslu að halda allan daginn á meðan ég sinnti störum mínum utan heimilis. Í 40 tíma á viku. Ég var og er kvenkyns og ég fæddi barnið. Barnið kom út úr mér og var á mína ábyrgð. 

Ég hafði mikinn metnað og langaði til að ná langt í starfi og það hvarflaði aldrei að mér að sinna hlutastarfi. Ég skammast mín ekki fyrir þessa afstöðu. Ekki þá og ekki núna. 

Ég elskaði barnið mitt takmarkalaust og geri enn. Ég reyndist henni ekki fullkomið foreldri – langt því frá. Ég gerði sannarlega mitt besta og sárin á hennar sál eru engin vegna þess að „hún var svo lengi á leikskóla“. Hún ber örugglega sár á sálinni vegna mín og vegna okkar foreldranna en þau eru ekki til staðar „vegna þess að hún var svo lengi á leikskóla“ á hverjum degi á aldrinum 3ja-5 ára. 

Leikskólinn er til orðinn vegna þess að konur börðust grimmt fyrir honum á síðustu áratugum síðustu aldar. Hér var kvennafrídagur 24. október 1975. Grundvallaratriði þeirrar baráttu sem í hönd fór var leikskólavist  fyrir börn allan daginn. Það atriði var allan tímann í forgrunni baráttunnar. Augljóslega. Vegna þess að til þess að konan sem ber barnið undir belti – geti farið að vinna að fæðingu lokinni þarf hún að eiga kost á gæslu fyrir barnið. Hún fer ekki langt án þess. 

Virðingarleysið sem leikskólakennarar og stjórar – sem flestar eru kvenkyns – sýna kynsystrum sínum í dag með því að kannast ekkert við þessa baráttu er ótrúleg. Þær halda því fram án þess að blikna að forgangsatriði dagsins í dag ársins 2025 sé að stytta leikskólatíma barnsins eins og kostur er „því langur leikskóladagur er svo óhollur fyrir sálarheill barnsins“! 

Þær stinga upp á því að „kennsla“ barnanna fari fram fyrstu 5-6 klst dagsins og eftir það sé einhvers konar „frístund“ í gangi. Sem sagt leikskólakennarar og stjórar vilja að grunnskólinn verði hafður til fyrirmyndar að módeli leikskólans. Þeirra starf er orðið fyrst og fremst „kennsla“ og við eigum að horfa á leikskólana eyðilagða sem stofnanir vegna þess að leikskólakennarar og stjórar vilja fá styttri vinnudag. 

Leikskólar í þeirri mynd sem við búum við á Norðurlöndum eru ekki til staðar í öðrum Evrópulöndum. Jafnrétti kynjanna er langt frá því að vera á sama stað í Evrópu almennt og það er á Norðurlöndunum. 

Atvinnuþátttaka kvenna er ekki sú sama í Evrópu og hún er á Íslandi. Ísland hefur trónað á toppnum fyrir jafnrétti kynjanna um árabil og sú staða er fyrst og fremst tilkomin vegna leikskólanna. Vegna þess að almenn leikskólavist barna á Íslandi náðist fyrir áralanga baráttu kvenna fyrir henni.

Nú vilja leikskólakennarar og stjórar brjóta niður þessa mynd. Þeir eru forgrunni þeirrar baráttu að tala um hvað „lengd“ leikskólavistarinnar skipti öllu máli fyrir heill barnsins. Alveg sama þó að engar rannsóknir styðji þær hugmyndir. Rannsóknir sýna allar að það eru gæði leikskólavistarinnar sem skipta öllu máli. Ekki lengd. 

Sérhagsmunagæsla leikskólakennara og stjóra er fullkomnuð í þessari baráttu. Þær eru tilbúnar að tala um leikskólana svo niður núna að ég hefði aldrei haft hugmyndaflug í annað eins einu sinni. 

Sat á fyrirlestri Þjóðarspegilsins um árið þar sem „sérfræðingarnir“ hver um annan þveran töluðu um leikskólann eins og stórhættulegar stofnanir og voru komnar á þann stað að tala um „vöggustofurnar“ í sömu andrá.

Tal á þessum nótum er grafalvarlegt og ég býð ekki í það hvar við verðum eftir nokkur ár ef við leyfum þessu að grassera lengi enn. 

Að síðustu ætla ég að stinga því að stjórnendum sveitarfélaganna að þeir ættu kannski að reikna það út hvað stjórnunarkostnaður þessara stofnana – leikskólanna - er orðinn mikill niður á barn síðustu árin í samanburði við það sem áður var. Þeir ættu kannski að reikna það út hvað skriffinnskan í kringum vinnutíma starfsfólks leikskólanna tekur mikinn tíma frá stjórnendum þeirra. Þeir ættu kannski að reikna það út hvað kostnaður við „tímabundnar ráðningar“ er mikill niður á barn og svo mætti lengi áfram telja.

Ég ber enga virðingu fyrir skriffinnsku. Hef aldrei gert og mun aldrei gera. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir góðum leikskólum þar sem umönnun, hlýja og ást er forgrunni leikskólastarfsins. 

Ég er ekki sérfræðingur um þessi mál. Ég er manneskja. Ég er móðir. Ég er kona. Kona sem hef upplifað gríðarlegar breytingar á stöðu kvenna á einni ævi. 

Ég ætla ekki að horfa á leikskólakennara og stjóra taka að sér það hlutverk að brjóta þann árangur á bak aftur án þess að stinga niður fæti. 


laugardagur, 11. október 2025

Mennskan og sparðatíningurinn


Alla síðustu viku sótti ég RIFF stíft – sá 10 myndir af 11 sem hugðist sjá. Ég elska RIFF eins og ég elska Alþjóðlegu bókmenntahátíðina og Stockfish kvikmyndahátíðina. Þetta eru hátíðir þar sem mennskan er altumlykjandi – óður til mennskunnar. 

Það er annað en ég upplifi flesta daga aðra í almannarýminu. Mér finnst við vera á hraðri leið til andskotans og þá er dvöl í mennskunni kærkomin. 

Ein kvikmynd stendur upp úr öllum öðrum af þeim sem ég sá. Kvikmynd sem ég mun hugsa um oft og mikið – kvikmyndin Sirát eftir Óliver Laxe. Stórkostleg kvikmynd sem hefur þannig áhrif á tilfinningaskalann að því verður illa lýst með orðum. 

Ég settist niður í Háskólabíói að kvöldi föstudagsins 3. október kl. 15 mínútur yfir 9 vitandi ekkert hvað ég var að fara að sjá. Jú ég vissi að myndin fjallaði um „ferðalag feðga í leit að dóttur/systur í eyðimörkinni í Marokkó“ - það var svona um það bil það sem ég vissi. Að það ætti eftir að fara með mig í slíkt ferðalag sem raunin varð hafði ég ekki einu sinni grun um. Hughrifin sem þessi mynd skóp innra með mér eru ólýsanleg. Altumvefjandi vellíðanin í fyrri hluta myndarinnar og skelfingin og sorgin í síðari hlutanum – allt var það með miklum ólíkindum. Ég varð persónulegur vinur persónanna í myndinni og ég upplifði raunverulega sorg. 

Ég var uppgefin að mynd lokinni. Ég skildi ekki hvað ég hafði verið að upplifa eða hvað hafði eiginlega gerst og ég skil það varla enn. Að takast það að fá mann til að tengjast persónum myndar með þeim hætti sem raunin varð er einhvers konar snilligáfa sem ég kann ekki skil á. En mikið rosalega er ég þakklát. Þakklát Oliver Laxé og félögum hans að fá mig til að finna þvílíka samkennd og ég upplifði í Háskólabíói að kvöldi 3. október 2025. 

Það er eitthvað alveg rosalegt við það að upplifa listaverk svona sterkt. Mann langar að hrópa upp yfir allan heiminn og biðja hann að koma með í ferðalagið. Mig langaði að gera það þarna að mynd lokinni. Mig langaði til að hrópa yfir heiminn að fara að sjá þessa mynd og mig langaði til að skilja hvað hafði eiginlega gerst. Hvers vegna fann ég svona rosalega til?

Ég sagði bróður mínum frá myndinni og þá hafði hann verið að hlusta á endalokin á Rás 1 þar sem Þórunn Gréta Sigurðardóttir og Hera Guðmundsdóttir tala við Höllu Harðardóttur um myndina. Ég hlustaði loksins á þær stöllur og reyndar allan þáttinn í gær og ég er svo glöð að hafa gert það. Í þættinum eru þær ekki bara að taka undir hrifnæmni mína um þessa einstöku kvikmynd Sirát heldur eru þær manneskjur að halda uppi merkjum mennskunnar með þeim hætti að ég má til að deila því hér. 

Þær segja með upphátt með orðum það sem mig langaði svo að hrópa yfir almannarýmið í síðustu viku þegar enn einu sinni þessi hryllilega umræða skaut upp kollinum um listamannalaunin í hundraðasta skipti. Þessi umræða þar sem mennskan er troðin niður í svaðið með hryllilegum sparðatíningi byggðri á einhverri „vísindahyggju“ að hætti Frederick Winslow Taylor þar sem ekkert er raunverulegt eða þess virði að vera nema það sé „mælanlegt“. Þessi heimspeki viðskiptafræðinnar í Bandaríkjunum sem er samfélagið okkar að drepa og er stór hluti þess að við erum á leiðinni til andskotans sem fyrr er getið.

Í þættinum eru ekki bara þær þrjár heldur er í honum einnig Hrafnkell Kaktus Einarsson og fjallar um myndina „Jörðina undir fótum okkar“ eftir Yrsu Roca Fannberg. Sú umfjöllun er líka „óður til mennskunnar“ og því hvet ég ykkur til að hlusta. Ég á sjálf eftir að horfa á þessa kvikmynd sem ég ætla svo sannarlega að gera. 

Af hverju er ég að setja þennan pistil saman hér? Ég geri það til að vekja athygli á því sem skiptir máli. 

Ég hef lengi verið sannfærð um að heimspeki Bandaríkjanna er okkur lifandi að drepa. Þessi „heimspeki“ sem gegnsýrir fagið sem ég valdi mér að ævistarfi – viðskiptafræðina – þar sem allt gengur út á skilgreiningar dauðans og að allt sé „mælanlegt“. Alveg eins og vísindaleg stjórnun Frederick Winslow Taylor boðaði. Allt skuli „mælt“ og að „mælingin“ sé eini mælikvarðinn sem skiptir máli. Þetta er í heild sinni hugmyndafræði sem við eigum að henda á haugana. 

Við þörfnumst heimspeki og við þörfnumst bókmennta. Við þörfnumst fegurðarinnar sem felst í mennskunni. Við þörfnumst tengslanna. Við þörfnumst hvers annars. Við þörfnumst þess að hlusta á nið kynslóðanna í gegnum eldra fólk. Við þörfnumst kærleika. Hann kemur til okkar í gegnum heimspekina og bókmenntirnar. Heimspekin er móðir allra fræða og einkynja viðskiptafræðin dugar okkur ekki. Hún drepur okkur. Páll Skúlason var alltaf að reyna að segja okkur þetta en við hlustuðum ekki. 

Það er eitthvað rétt að gerjast. Í vikunni var líka viðtal  í Lestinni á Rás 1 við Guðrúnu Steinþórsdóttur bókmenntafræðing um kennslu hennar í bókmenntafræði í Læknadeild HÍ. Í þættinum talar hún mikilvægi þess að ræða bókmenntir við læknanema og hún gerir grein fyrir þessu hugtaki „læknahugvísindi“ sem mér skilst að sé núna gerð grein fyrir í Ritinu. 

Það nærir sálina að heyra þessar hugmyndir. Við þörfnumst skilnings. Við þörfnumst samlíðunar. Samhygðar. Við þörfnumst ekki meiri flokkadrátta. Ábendinga. Trumpisma. 


Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...