Þá liggur það fyrir. Niðurstaðan er sú sama og ég sofnaði út frá í nótt – í meginatriðum þó einstaka þingmenn hafi dottið út og aðrir komið inn – fjöldi þingmanna á stjórnmálaflokk hefur ekki breyst.
Samfylkingin er stjórnmálaflokkur með rétt um 21% fylgi á
landinu öllu og 15 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn kemur strax á hæla hennar
með rúm 19% og 14 menn, Viðreisn næst með tæp 16% og 11 menn, Flokkur fólksins
með tæp 14% og 10 menn, Miðflokkur 12% og 8 menn og Framsókn rekur lestina með
tæp 8% og 5 menn.
Niðurstaðan er auðvitað stórtíðindi. Einungis sex
stjórnmálaflokkar ná inn á þing og einn þriggja ríkisstjórnarflokka dettur út –
sá sem lengst af átti forsætisráðherra landsins og Framsóknarflokkurinn rétt
svo mer að halda sér inni.
Það er rétt hjá Kristrúnu Frostadóttur að auðvitað eigum við
að leyfa okkur að fagna. Það er algjör óþarfi að fara strax í þann gír sem ég
gerði í nótt – að sjá ekkert nema erfiðleika við ríkisstjórnarmyndun. Ég vissi
það alveg þegar ég setti inn status í nótt um stöðu Sjálfstæðisflokksins að ég
væri að túlka gleðilega niðurstöðu með neikvæðum hætti. Þannig leið mér og ég
lét það í ljós, enda ekkert annað en ábyrgðarlaus kjósandi. Staðan skánaði þó
heldur augnabliki síðar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn missti tvo menn og reyndist
fá 14 í stað 16 eins og staðan sýndi eftir fyrstu tölur í SV kjördæmi.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði vissulega fylgi en þó engan
veginn í samræmi við það sem hefði mátt ætla af öllum hávaðanum og gagnrýninni.
Það er einhvern veginn þannig og hefur alltaf verið þannig að þegar
ríkisstjórnir með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs verða óvinsælar eru það
samstarfsflokkarnir sem taka út óvinsældirnar. Þannig er það nú eins og svo oft
áður. Sigurður Ingi var ósáttur í umræðum dagsins og ég skil hann. Skil hann
fullkomlega. Ráðherrar Framsóknarflokksins voru margir hverjir duglegir á kjörtímabilinu
– ekki síst Lilja Dögg Alfreðsdóttir – og það virðist ósanngjarnt að þeim sé
refsað harkalega á sama tíma og þau sem léku fullkomlega ábyrgðarlausan leik í ríkisstjórn
eins og Sjálfstæðismenn standi keikir.
En þá aftur að mínu tilfinningalífi sem kjósanda. Ég gleðst
vissulega yfir útkomu Viðreisnar og Samfylkingar – gleðst innilega – en mér
líður samt ekki þannig að ég geti geti fagnað einlæglega eða líði eins og
stórsigur hafi átt sér stað. Mér líður einfaldlega ekki þannig. Ég virði Ingu
Sæland mikils og lít sannarlega svo á að málflutningur hennar sé og hafi verið
mikilvægur frá því hún settist á þing en á sama tíma ber ég ekki traust til
hópsins sem hún er í forystu fyrir. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég lít ekki
á Flokk fólksins sem „stjórnmálaflokk“ í eiginlegum skilningi. Ég lít á hann
sem hóp fólks sem langar mikið persónulega til að komast inn á þing. Suma
einstaklinga sem þar eru hef ég litið á sem hreinræktaða popúlista. Vonandi er
þetta vantraust mitt rangt og ég er sannarlega til í gefa þeim öllum tækifæri
til að sanna annað.
Mér líður miklu betur eftir að hafa horft á þáttinn í dag
þar sem talað var við leiðtoga flokkanna sem náðu inn á þing. Kannski munu þær klára
þetta með stæl – þessar þrjár flottu konur. Ég vona það sannarlega. Það er eini
möguleikinn sem ég sé í stöðunni. Vitræni möguleikinn.
Nú ætla ég að fylgjast með hvað gerist næstu daga og vikur.
Og leyfa tilfinningalífinu að hafa frelsi til þess að fagna, vona eða verða
fyrir vonbrigðum eftir atvikum. Dagsforminu get ég helst lýst með því að það er
eins og ég sé með öndina í hálsinum.
Ég vona – vona heitt og innilega – en ég treysti engu og ég
veit ekkert hvers er að vænta.
Einfaldlega hleypi ekki annarri hugsun að en að til standi
að stofna til ríkisstjórnar þar sem Samfylkingin og Viðreisn verða leiðandi í
ríkisstjórnarmyndun. Sendi þeim hlýjar stuðningskveðjur.





