sunnudagur, 1. desember 2024

Niðurstaða kosninga 2024



Þá liggur það fyrir. Niðurstaðan er sú sama og ég sofnaði út frá í nótt – í meginatriðum þó einstaka þingmenn hafi dottið út og aðrir komið inn – fjöldi þingmanna á stjórnmálaflokk hefur ekki breyst.

Samfylkingin er stjórnmálaflokkur með rétt um 21% fylgi á landinu öllu og 15 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn kemur strax á hæla hennar með rúm 19% og 14 menn, Viðreisn næst með tæp 16% og 11 menn, Flokkur fólksins með tæp 14% og 10 menn, Miðflokkur 12% og 8 menn og Framsókn rekur lestina með tæp 8% og 5 menn.

Niðurstaðan er auðvitað stórtíðindi. Einungis sex stjórnmálaflokkar ná inn á þing og einn þriggja ríkisstjórnarflokka dettur út – sá sem lengst af átti forsætisráðherra landsins og Framsóknarflokkurinn rétt svo mer að halda sér inni.

Það er rétt hjá Kristrúnu Frostadóttur að auðvitað eigum við að leyfa okkur að fagna. Það er algjör óþarfi að fara strax í þann gír sem ég gerði í nótt – að sjá ekkert nema erfiðleika við ríkisstjórnarmyndun. Ég vissi það alveg þegar ég setti inn status í nótt um stöðu Sjálfstæðisflokksins að ég væri að túlka gleðilega niðurstöðu með neikvæðum hætti. Þannig leið mér og ég lét það í ljós, enda ekkert annað en ábyrgðarlaus kjósandi. Staðan skánaði þó heldur augnabliki síðar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn missti tvo menn og reyndist fá 14 í stað 16 eins og staðan sýndi eftir fyrstu tölur í SV kjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði vissulega fylgi en þó engan veginn í samræmi við það sem hefði mátt ætla af öllum hávaðanum og gagnrýninni. Það er einhvern veginn þannig og hefur alltaf verið þannig að þegar ríkisstjórnir með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs verða óvinsælar eru það samstarfsflokkarnir sem taka út óvinsældirnar. Þannig er það nú eins og svo oft áður. Sigurður Ingi var ósáttur í umræðum dagsins og ég skil hann. Skil hann fullkomlega. Ráðherrar Framsóknarflokksins voru margir hverjir duglegir á kjörtímabilinu – ekki síst Lilja Dögg Alfreðsdóttir – og það virðist ósanngjarnt að þeim sé refsað harkalega á sama tíma og þau sem léku fullkomlega ábyrgðarlausan leik í ríkisstjórn eins og Sjálfstæðismenn standi keikir.

En þá aftur að mínu tilfinningalífi sem kjósanda. Ég gleðst vissulega yfir útkomu Viðreisnar og Samfylkingar – gleðst innilega – en mér líður samt ekki þannig að ég geti geti fagnað einlæglega eða líði eins og stórsigur hafi átt sér stað. Mér líður einfaldlega ekki þannig. Ég virði Ingu Sæland mikils og lít sannarlega svo á að málflutningur hennar sé og hafi verið mikilvægur frá því hún settist á þing en á sama tíma ber ég ekki traust til hópsins sem hún er í forystu fyrir. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég lít ekki á Flokk fólksins sem „stjórnmálaflokk“ í eiginlegum skilningi. Ég lít á hann sem hóp fólks sem langar mikið persónulega til að komast inn á þing. Suma einstaklinga sem þar eru hef ég litið á sem hreinræktaða popúlista. Vonandi er þetta vantraust mitt rangt og ég er sannarlega til í gefa þeim öllum tækifæri til að sanna annað.

Mér líður miklu betur eftir að hafa horft á þáttinn í dag þar sem talað var við leiðtoga flokkanna sem náðu inn á þing. Kannski munu þær klára þetta með stæl – þessar þrjár flottu konur. Ég vona það sannarlega. Það er eini möguleikinn sem ég sé í stöðunni. Vitræni möguleikinn.

Nú ætla ég að fylgjast með hvað gerist næstu daga og vikur. Og leyfa tilfinningalífinu að hafa frelsi til þess að fagna, vona eða verða fyrir vonbrigðum eftir atvikum. Dagsforminu get ég helst lýst með því að það er eins og ég sé með öndina í hálsinum.

Ég vona – vona heitt og innilega – en ég treysti engu og ég veit ekkert hvers er að vænta.

Einfaldlega hleypi ekki annarri hugsun að en að til standi að stofna til ríkisstjórnar þar sem Samfylkingin og Viðreisn verða leiðandi í ríkisstjórnarmyndun. Sendi þeim hlýjar stuðningskveðjur.

laugardagur, 30. nóvember 2024

Veldi Sjálfstæðisflokksins kvatt?

Kjördagur. Enn einu sinni í mínu lífi er runninn upp slíkur dagur. Að þessu sinni liggur í loftinu að breytingar gætu verið í nánd. Að runninn sé upp sá dagur þar sem kjósendur kveðja ægivald Sjálfstæðisflokksins. Ekkert er þó í hendi – langt því frá og kannski komum við öll til með að vakna upp við að einu sinni enn sé vilji kjósenda sá að færa þessum flokki sérhagsmunanna valdið yfir stjórn landsins. Ég vona ekki. En niðurstaðan kemur í ljós í kvöld eða næstu daga.

Það er undarleg staða að hafa nánast allan mánuðinn verið fjarverandi í kosningabaráttunni árið 2024. Við vissum það ekki þegar við keyptum miða til Marokkó í vor eða þegar ég lofaði dóttur minni því að passa fyrir hana í 10 daga í lok nóvember fram yfir mánaðamót að með því væri ég að tryggja algjöra fjarveru mína frá einhverjum mest spennandi kosningum í mínu lífi. Það er skrítið. Mjög skrítið.

Pólitík hefur alla ævi verið mitt megináhugamál og fátt hef ég þráð heitar en að eygja von um að ægivaldi Sjálfstæðisflokksins yrði hrundið. Nú hefur það verið þannig í margar vikur að við höfum heyrt tölur í skoðanakönnunum þar sem flokknum hefur verið spáð allt niður í 12% fylgi. Það er stórfrétt í íslensku samfélagi. Stórfrétt. Samt er það svo að ég hef ekki tjáð mig um það. Ekki einu sinni! Í síðustu skoðanakönnun Metils vorum við líklega færð nær raunveruleikanum. Ég veit það þó auðvitað ekki en ég leyfi mér að láta mig dreyma þar til fyrstu tölur koma í ljós.

Á kjördag árið 2003 skrifaði ég grein þar sem ég leyfði mér að dreyma … Ég upplýsti opinberlega að ég hefði lengi átt mér þann draum að sjá mistök Jónasar frá Hriflu  leiðrétt – þ.e. að sjá Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn sameinast í einum flokki. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Eitt stykki efnahagshrun hefur átt sér stað og í kjölfar þess hefur stjórnmálaumhverfið á Íslandi tekið stakkaskiptum. Samfylkingin varð nánast að engu um tíma. Náði ekki inn manni í Reykjavík í einum kosningunum sem einhvern tíma hefði þótt óhugsandi að yrði staða jafnaðarmannaflokksins á Íslandi.

Eitt hefur þó ekki breyst: ægivald Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir að Viðreisn og Miðflokkurinn hafi orðið til og Sjálfstæðisflokkurinn hafi sannarlega misst það ógnarfylgi sem hann hafði alltaf, þá hefur hann ætíð verið þarna sem eini turninn sem allt stjórnmálaumhverfið á Íslandi snýst um.

Skoðanakannanir hafa nú í margar vikur sýnt að sú staða gæti verið að breytast. Að í fyrsta skipti í mínu lífi sé mögulegt að miðjuflokkar standi uppi sem sigurverarar kosninga. Ég get ekki lýst því hvað ég óska þess heitt að það verði raunin. Það er svo ógnarlangt síðan tími var til kominn að stjórnmál á Íslandi snúist um líf venjulegs fólks. Snúist um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.

Ég kaus Viðreisn og ég gerði það af heilum hug. Forysta flokksins og þingmenn hafa á síðustu misserum talað fyrir mínum áherslum og ég er afskaplega ánægð með þau. Númer eitt er ég er einarður Evrópusinni. Ég vil að Ísland sé virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna – ekki á kantinum og láti aðra um þróun og ákvarðanatöku sem við þurfum svo að taka upp án þess að hafa haft neitt um að segja. Íslenska krónan er eitur í mínum beinum og ég skil ekki – hef aldrei skilið – að mér eigi að vera hlýtt til hennar. Um það hef ég skrifað margar greinar því fátt tel ég mikilvægara en einmitt það – að eygja von um að losna við þetta mein íslensks efnahagskerfis alla mína ævi. Að síðustu finnst mér finnst gott að finna áherslur þeirra að hlusta á kjósendur út um allt land um leið og mér finnst gott að finna hvað þau eru óhrædd við að vera pólitísk. Fyrst og síðast höfðar til mín að ég upplifi flokkinn með hlýtt hjarta og ég vona að þeim takist að halda því.  Það skiptir máli að láta sér annt um fólk.

Ég hefði líka alveg getað kosið Samfylkinguna eins og ég gerði um árabil og ég hefði getað kosið Pírata sem ég vona sannarlega að muni haldast inni á þingi. Við þörfnumst þeirra raddar mjög. Ég er minna spennt fyrir þeim sem ég upplifi sem hreinræktaða popúlista en sleppi því að minnast á þá hér.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um mínar skoðanir. Ég óska þess heitt og innilega að Viðreisn og Samfylkingin komi mjög sterk út úr þessum kosningum og verði leiðandi afl í myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Hvort mér verði að ósk minni á svo eftir að koma í ljós.

Í öllu falli, gleðilegan kosningadag!

sunnudagur, 17. nóvember 2024

Karlar guðlegir – konum má henda

Margt hefur orðið til þess að minna mig á hversu stutt við erum komin í jafnrétti kynjanna síðustu misserin. Nú síðast þessi uppákoma með Þórð Snæ Júlíusson. Þar áður var það meðferð fjölmiðla á Jóni Gnarr og framboði hans til forystu á listum Viðreisnar í Reykjavík.

Karlar eru guðlegir í umfjöllun fjölmiðla um þá. Ítrekað aftur og aftur og aftur. Konur ná aldrei þessari stöðu. Aldrei. Sama þó þær hafi náð því að vera í forystuhlutverkum á sínu sviði. Þær verða aldrei að guðum.

Það er svo merkilegt að verða vitni að þessu aftur og aftur og aftur í samfélaginu sem lítur á sig – réttilega – sem samfélag í forystu í jafnréttismálum kynjanna.

Þórður Snær Júlíusson er áreiðanlega alveg ágætur. Efast ekkert um það. Eflaust hæfileikaríkur og fínn greinandi. Eflaust hefði orðið fengur að honum á Alþingi. Má alveg gera ráð fyrir því. En hann er ekki guð. Trúið mér.

Jón Gnarr er alveg ágætur. Ég elska hann sem uppistandara og kannski á ég eftir að elska hann sem manneskju líka – ef ég fæ tækifæri til að kynnast honum sem slíkum – en ég veit að hann er ekki guð og hann á ekki að meðhöndla í fjölmiðlum sem slíkan.

Karlar eiga greiða leið að fjölmiðlum sem guðir. Á hverjum einasta degi les ég fréttir settar upp þar sem fjallað er um karla sem guðlegar verur sem sjálfsagt og sjálfgert er að séu í þeim hlutverkum sem þeir eru og ef eitthvað verður þeim að falli er það svakalegt. Rosalegt. Ég heyrði ekki betur en umfjöllunin um Þórð Snæ Júlíusson væri þannig í gær.

Ég hef enga skoðun á því hvort að Þórður Snær Júlíusson átti að taka þessa ákvörðun í gær. Um að segja af sér þingmennsku um leið og hún mögulega berst honum. Ég hef hins vegar sterka skoðun á því hvernig fjallað er um þetta mál allt og ekki síst viðbrögðum fólks við því að hann hafi tekið þessa ákvörðun.

Ég var ekki jafn sannfærð og allir hinir um að það væri stórkostlegur fengur að Þórði Snæ Júlíussyni sem þingmanni á 3ja sæti Samfylkingarinnar. Það getur vel verið að svo hefði verið. Ég veit ekkert um það. En það er ekki nóg að hafa verið harðsnúinn blaðamaður til að sannfæra mig um að viðkomandi verði góður pólitíkus. Góður pólitíkus lætur sér annt um fólk. Hann hefur áhuga á fólki og hann hefur gríðarlega áhuga á samfélaginu og vill hafa áhrif á það til góðs.

Látið hefur verið að því liggja síðustu vikur að það sé sjálfgefið að þekkt fólk á einu sviði verði góðir stjórnmálamenn. Ég ætla að leyfa mér að vera fullkomlega ósammála því. Það er mínu viti ekkert sjálfgefið að fólk sem aflað hefur sér virðingar á einu sviði verði góðir stjórnmálamenn.

Til að verða stjórnmálamaður vil ég að þú hafir sýnt áhuga á samfélaginu – að þú hafir áhuga á fólki og kannski fyrst og síðast að þú sýnir ákveðna auðmýkt. Að þú sýnir mér og sannir að þú sért í því að komast á Alþingi til að láta gott af þér leiða fyrir okkur öll en ekki til þess að láta ljós þitt skína sem skærast.

Hroki í fari fólks er eitur í mínum beinum. Hef krónískt ofnæmi fyrir sjálfhverfu og hroka og ef ég mætti ráða væru þeir eiginleikar neðstir í fari stjórnmálamanna. Auðmýkt hins vegar er eftirsóknarverð. Auðmýkt og hlýja. Kærleikur. Að láta sér annt um fólk – af hvaða tagi sem það er – í hvaða stöðu sem það er.

Ég hvet okkur öll – konur og karla – til að veita því athygli í sínu fari - hvaða viðbrögð viðkomandi sýna til þess annars vegar að kona verði uppvís að mistökum eða karl. Að við veitum því athygli hvernig við leyfum fjölmiðlum að meðhöndla annars vegar konur og hins vegar karla.

Ég hvet okkur öll til að gera konur og karla að mannlegum verum. Guðleikinn er engum karli hollur frekar en fórnarlambið er konum hollt. Við erum öll mennsk. Meingölluð en um leið ágæt – svona í meginatriðum.

laugardagur, 28. september 2024

Kynhvötin í lífi mannsins



Sigmund Freud var fæddur árið 1856. Hann helgaði líf sitt því að hlusta á og reyna að skilja manninn. Kenningar hans voru byltingarkenndar og byggðu ekki síst á því að kynhvötin væri grundvöllur að öllu öðru í manninum. Kynhvötin var grundvöllurinn að trúnni, grundvöllurinn að athafnaseminni, grundvöllurinn að afneituninni á raunveruleikann. Kynhvötin var lykillinn að starfi hans sjálfs.

Hann komst að því að gríðarlegur fjöldi sjúklinga hans átti um sárt að binda vegna kynferðislegs ofbeldis eða áreitni af einhverju tagi. Hann átti erfitt með að trúa því sjálfur að þetta væri svona en það var svona. Gríðarlegur fjöldi sjúklinga hans hafði orðið fyrir áfalli af völdum einhvers sem hafði misnotað eða misfarið með viðkomandi kynferðislega. Á þessum staðreyndum byggði hann kenningar sínar. Kenningar sem í dag árið 2024 eiga mikið erindi við okkur.

Á þessari öld höfum við gert fátt annað en kynnast þessari grundvallarhvöt mannsins. Kynhvötinni. Við höfum komist að því sem Freud komst að fyrir 150-100 árum síðan hversu gríðarlega margir eiga um sárt að binda vegna hennar. Við höfum þurft að fella hvern karlinn á fætur öðrum af stallinum. Við komumst að því að meira að segja maðurinn í embætti biskups Íslands var ekki undanskilinn. Meira að segja hann var fær um að beita kynferðislegu ofbeldi.

Á sama tíma afneitum við enn þessum merka hugsuði. Kenningar Sigmund Freud eru ekki kenndar í Háskóla Íslands.

Veltum fyrir okkur þessari staðreynd. Af hverju?

 Í fyrradag skrifaði ég hugleiðingu þar sem ég gerði grein fyrir ánægju mínu með nýútkomna bók Rúnars Helga Vignissonar þar sem hann gerir m.a. grein fyrir áhrifum me too á sig „síðmiðaldra karlinn“ eins og hann kallar sig ítrekað í bókinni. Ég leyfði mér að segja upphátt það sem mig hefur lengi langað til að segja – nefna þöggunina sem hefur umvafið okkur eftir me too. Þöggunina á gagnrýni á þetta fyrirbæri. Þöggunina á gagnrýni á „slaufun“ – útilokun einstaklinga í samfélaginu með því einu að benda á þá. Ég fór ekki dýpra í efnið – bara svona rétt nefndi það . Ég vissi auðvitað að ég yrði skotin í kaf með það sama – sem kom á daginn. Allt í þessu fína með það og ég ætla bara að láta það örva mig til dáða. Halda áfram að skrifa um efnið - sem ég er að gera hér.

Hluti af því sem ég gagnrýni svo mjög er ásýndin á kynhvötina sem me too hefur haft í för með sér. Ásýnd sem ég þekki svo vel og hefur verið uppi allt um kring svo lengi sem ég hef verið til. Ásýnd sem gerir stúlkur - konur að passívum fórnarlömbum sem þarf að passa upp á. Ásýnd þar sem virðist að stúlkur – konur séu púritanar en strákar – karlar graðir villimenn.

Ég á svo erfitt með þetta að mig langar að hrópa upp yfir mig! Árið er 2024 – það er ekki árið 1856 eða 1720 eða hvað annað. Það er árið 2024. Ætti það ekki að þýða að við getum talað um kynhvötina með öðrum hætti en að stilla kynjunum upp sem óvinum? Þar sem strákar eru þeir sem nauðga og stelpur eru þær sem strákar eru vondir við? Og þurfa að passa sig á?

Það er sú ásýnd me too sem ég geri stórkostlegar athugasemdir við og veit að mun aldrei geta leitt neitt gott af sér. Nornaveiðar og galdraofsóknir fyrri aldra voru hræðilegar og þær eru það enn árið 2024 – hver svo sem grunnurinn á bak við ábendinguna er. Við lögum aldrei neitt með þeirri aðferð að benda á einstaklinga og gera þá að sökudólgum sem á að útskúfa. Að einhver hafi látið sér detta það í hug að það sé rétta leiðin að góðu samfélagi er mér endalaus ráðgáta.

Ég vona að ég þurfi ekki að taka það sérstaklega fram að ég er ekki stuðningsmaður nauðgana. Að ég er ekki stuðningsmaður barnaníðs eða kynferðisofbeldis af nokkru tagi. Það á ekki að þurfa að taka það fram.

Ég er áhugamanneskja um manninn. Manninn sem tegund og þar undir eru karlar og konur. Ég velti fyrir mér hvort að það sé kannski kominn tími til að við reyndum að skilja hvert annað betur? Væri kannski ráð að við töluðum um kynhvötina sem staðreynd? Staðreynd í lífi stúlkna jafnt sem drengja? Hvernig er hún? Hvernig lýsir hún sér? Hvenær kemur hún fram? Hversu gamlar erum við stúlkur þegar kynhvötin fer að láta á sér kræla? En strákar? Er kynhvötin öðruvísi hjá drengjum en stúlkum? Með djúpri áherslu nefni ég þetta því ég hef sterkan grun um að svo sé.

Að við gefum drengjum og stúlkum leyfi til að hafa kynhvöt. Að við sýnum því skilning að að þau þurfa að fá rými til að kynnast henni í sjálfri sér og þurfa að fá rými til að þroskast með henni og læra á hana? Að ekki á allt sem gert er erindi við alþjóð. Að einstök mistök eða klaufaskapur eru leyfileg. (Þarf ekki að taka fram að ég er ekki að vísa í nauðganir hér). Að það er fráleitt að við hoppum fram á sviðið sem fullþroska einstaklingar sem vitum 100% hvernig á að fara með þessa hvöt sem er svo sterk – svo gríðarlega sterk að við vitum ekkert hvernig á fara með hana.

Ég tek það fram að í þessum skrifum mínum felst ekki palladómur yfir ungu fólki dagsins í dag. Aftur á móti felst í þeim palladómur yfir okkur fullorðna fólkinu. Mér finnst að við eigum að geta staðið okkur betur í því að fjalla um kynhvötina í lífi fólks en að gera það með þeim hætti sem við gerum. Að opna í stað þess að loka. Að leitast við að skilja í stað þess að stilla upp óvinum.

Ég leyfi mér að vona að við látum bók Rúnars Helga Vignissonar um „Ringlaða karlmanninn“ leiða til þess að við tölum saman um hana þessa hvöt – kynhvötina – sem Sigmund Freud vissi fyrir 100 síðan að var „HVÖTIN“ með stórum staf í lífi mannsins. Sú sem öllu ræður og öllu stjórnar. Að við þurfum að læra um hana og leitast við að skilja hana í stað þess að afneita henni.

Að síðustu má benda á að fjölmargar bækur Sigmund Freud eru til á íslensku. Honum er m.a. tíðrætt um kvíða og þjáningu? Kannski eitthvað sem við ættum að skoða frekar?

miðvikudagur, 25. september 2024

"Þú ringlaði karlmaður - Tilraun til kerfisuppfærslu"


Ég hafði beðið spennt eftir að fá hana í hendur. Bókina: „Þú ringlaði karlmaður – Tilraun til kerfisuppfærslu“ eftir Rúnar Helga Vignisson.

Loksins kom að því… og ég drakk hana í mig.
Hún stóð sannarlega undir væntingum og gott betur.
Nú brenn ég í skinninu að heyra umræður um hana.
Og ekki bara það – mig langar svo til að hún verði til þess að skapa umræður.

Um samskipti kynjanna
Um áhrif me too á okkur öll
Konur – stúlkur
Karla – drengi

Ég hef beðið eftir bók af þessu tagi lengi. Kannski ævina alla ef grannt er skoðað. Bók þar sem íslenskur karlmaður – með sérstakri áherslu á þjóðernið – opnar sig með þeim hætti sem Rúnar Helgi gerir í þessari bók. Hann er einlægur og leyfir manni að skyggnast inn í kvikuna – kvikuna á sjálfum sér – sem gerist sannarlega ekki á hverjum degi þegar íslenskir karlmenn eru annars vegar. Og tilefnið – hvað fær hann til að skrifa – er svo rosalega áhugavert um leið og það er fyrir mér svo eðlilegt – svo fullkomlega lógískt. Áhrif og afleiðingar me too byltingarinnar hljóta augljóslega að vera svo margvísleg en um þau hefur ríkt þöggun eins og svo margt annað í nútíma samfélagi.

Konur hafa mátt benda. Benda á þennan og hinn og útskúfa honum og segja að hann megi ekki „vera memm“! Nota sömu aðferð og Donald Trump í Apprentice – ota fingrinum að einstaklingum og útskúfa þeim – slaufa þeim. Og við eigum öll að hlýða og játa í blindni. Stórmerkilegt að einhverjum detti það í hug að þetta fyrirkomulag geti leitt til góðs fyrir einhvern. Samfélag eða einstaklinga.

Þegar staða mála er sú að umræðan hefur þvílík áhrif á „síðmiðaldra“ karlmann eins og Rúnar Vignir lýsir í bókinni – hvaða áhrif getum við þá ímyndað okkur að hún hafi haft á unga menn?
Ungt fólk?

Mér finnst hún svo rosalega merkileg þessi háværa krafa í nútímanum um að ungir menn skuli kunna fullkomlega að haga sér gagnvart kynhvöt sinni  frá fyrstu stundu og mér finnst hún líka svo rosalega merkileg þessi þróun að tala um kynþroska stúlkuna sem ósnertanlegt púritanskt barn fram á fullorðinsár. Barn sem skuli vernda frá svo illu afli eins og kynhvötinni með öllum ráðum.

Ég er hreint ekki sannfærð um að vegurinn frá upphafningu klámvæðingarinnar sem Gilzenegger stóð fyrir í upphafi aldarinnar til þess púritanisma sem við upplifum í dag sé okkur hollur.

Ég er hinsvegar sannfærð um að bók af því tagi sem Rúnar Helgi Vignisson skrifar hér sé okkur holl lesning og ég óska þess innilega að hún leiði til hressandi opinnar umræðu - um gildi kynhvatarinnar í lífi manneskjunnar
stúlkunnar jafnt sem stráksins
Um samskipti stráka og stelpna í nútímasamfélagi.
Já og bara almennt um tilfinningalega líðan okkar allra – ungra sem aldinna
Karla sem kvenna

Ástarþakkir Rúnar Helgi Vignisson!
Get ekki beðið eftir að sjá lokið tekið af pottinum!

mánudagur, 23. september 2024

Fulltrúi forheimskunnar á 21. öld


Donald Trump er í mínum huga fulltrúi forheimskunnar
á 21. öld.
Kjör hans markaði fyrir mig niðurbrot siðmenningarinnar á nýjum skala.
Ég grét og fór varla út úr rúminu daginn sem úrslitin lágu fyrir haustið 2016.
Ég sé hann fyrir mér otandi fingri að okkur öskrandi „you are fired“
Ég horfði aldrei á Apprentice en hafði samt skömm á því sem hann stóð fyrir sem stjórnandi þáttanna. Sjálfri fannst mér eins og heimurinn hefði gengið af göflunum í svo mörgu tilliti á nýrri öld og Donald Trump varð einhvern veginn sem fulltrúi viðskiptalífsins í Bandaríkjunum fulltrúi fyrir þá heimsku.

Nú sit ég hér uppi á Íslandi árið 2024 og…
Svíar hafa veitt Svíþjóðardemókrötum 20% atkvæða í kosningum og flokkurinn varnar ríkisstjórn þeirra falli.
Hollendingar veittu Frelsisflokki Geert Wilders 24,5% atkvæða og hann situr í ríkisstjórn landsins.
Frakkar greiddu Þjóðfylkingu Marine Le Pen 32% atkvæða í fyrri hluta kosninga til þings í sumar. Endanleg úrslit urðu þó sem betur fer ekki í svo svæsin.
Þjóðverjar í Thüringen og Saxlandi veittu Alternative für Deutschland um og yfir 30%.
Nú síðast í þessum mánuði tilkynnir þýska ríkisstjórnin herta innflytjendastefnu á landamærum ríkisins.

Við höfum nú bráðum í heilt ár horft upp á Ísraelsmenn strádrepa óbreytta borgara á Gaza og víðar. Í það minnsta þriðjung þeirra börn. Við höfum horft upp á almenna borgara í Palestínu innilokaða í helvíti og nálægt því að svelta í hel. Við horfum upp á Ísraelsmenn vera að fremja þjóðarmorð fyrir framan opin augu okkar og gerum ekkert. Ekki nokkurn skapaðan hlut.
Það er eftir allt saman öll siðmenningin.

Einhvern veginn er staðan orðin sú að mögulegt endurkjör þessa fulltrúa forheimskunnar hefur ekki jafn sterk áhrif á tilfinningalífið og upprunalegt kjör hans hafði. Ég leyfi mér samt að vona. Vona af öllu hjarta að niðurstaða kosninganna í Bandaríkjunum verði okkur í heiminum hliðholl að þessu sinni.

Ég vildi óska að við hefðum eitthvað lært en er það ljóst núna að það höfum við ekki. Mér er ljóst að það er engin trygging fyrir því að við endurtökum ekki nasismann. Viðbjóðurinn og hryllingurinn sem ég hef sem betur fer bara lesið um en ekki þurft að upplifa gæti allt eins átt eftir að gerast aftur. Mannkynið er ekki betur gert en það. Ekki einu sinni hér í V-Evrópu. Niðurstöður kosninga undanfarið sýna mér það með skýrum hætti. Við erum enn og aftur komin í þann ham að tala um „okkur“ og „hina“.

Ég ætla bara að segja ykkur eitt. Ég sit hér uppi á Íslandi árið 2024. Á hæðinni fyrir ofan mig býr fólk frá Venezuela. Í mörg ár áður bjuggu þar Tælendingar. Í kjallaranum og á efri hæðinni við hliðina á mér búa Litháar. Við hina hlið mér býr fjölskylda frá Pakistan. Allt í kringum mig búa „útlendingar“. Ég hef aldrei átt betri granna. Hér sef ég nokkur skref frá miðbænum og hér heyrist aldrei neitt. Hér gerist heldur aldrei neitt. Hér er rólegt og yndislegt að vera.

Á ferðalagi mínu um Asíu í 4 og hálfan mánuð í lok ársins 2014 og byrjun 2015 sannfærðist ég endanlega um að fólk er fólk. Við viljum öll það sama. Allsstaðar. Fólk vill eiga möguleika á góðu lífi fyrir sig og sína. Það er nú ekki flóknara en það. Í meginatriðum.

Hvernig okkur tekst að byggja upp aðstæður reglulega til að eyða svo mikilli orku sem raun ber vitni í að hata hvert annað er sorglegra en tárum tekur. Það kemur samt ekkert á óvart. Maðurinn hefur alltaf gert þetta. Allsstaðar. Mér varð það ljóst þegar ég las Leilu eftir Alexöndru Cavelius að aðstæður hennar á uppvaxtarárunum í Júgóslavíu voru ekkert svo ólíkar mínum í Hrútafirði. Ég var heppinn. Hún óheppin. Hún lifði af nauðgunarbúðir í 2 ár. Þar hafði hún lært að það skipti engu máli hvers þjóðernis eða aldurs karlinn var. Þeir gátu allir nauðgað henni frá 18 ára til áttræðs af hvaða þjóðerni sem er. Það var Serbi sem svo bjargaði lífi hennar.

Slavenka Drakulić einnig frá Júgóslavíu skrifaði bókina „They would never hurt a fly“ en þar gerir hún grein fyrir hvernig fiskimenn og bændur gerðust morðingjar í landi hennar. Í lok bókarinnar verður manni ljóst hryllilegt tilgangsleysi glæpanna sem framdir voru þar sem fyrrum svarnir óvinirnir sitja saman, spila á spil og spjalla á meðan þeir bíða eftir niðurstöðu stríðsdómstólsins í Haag.

Það sem ég get gert er að standa föstum fótum í trú minni á fólk. Ég veit af reynslu að við erum allskonar. Sumir finnst mér skemmtilegir og frábærir – aðrir finnst mér óþolandi! Eins og gengur. Þannig er það bara og það er allt í fína lagi með það. Ég trúi því samt staðfastlega að meginþorri fólks sé góður og vilji öðrum vel. Ég trúi staðfastlega að við þráum meira og minna öll það sama. Við þráum kærleika og ást. Við þráum stuðning og virðingu samfélagsins og við viljum lifa við öryggi.

Við höfum val um það í hvernig samfélagi við viljum búa og það er ekki vafi í mínum huga í hvernig samfélagi ég vil búa. Ég vil búa í samfélagi sem virkar eins og björgunarsveitirnar sýna mér á hverjum degi. Samfélagi þar sem ekki er spurt „hverra manna þú ert“ þegar þú lendir í vanda heldur styður þig og hjálpar á fætur hver sem þú ert og hvaðan sem þú kemur. Samfélagi þar sem kærleikurinn til náungans er ráðandi. Samfélagi sem sýnir skilning og hlýju sama í hvaða aðstæður þú hefur sjálfur komið þér í eða aðstæður hafa komið þér í.

Samfélagi sem tekur utan um þig í stað þess að ota að þér fingri og segja „you are fired“!

fimmtudagur, 18. júlí 2024

Verðleikasamfélagið Ísland


Hún Signý? Hún var alveg frábær! Alveg einstök! Sagði mágur frænku minnar þegar hún spurði hann að því hvernig Signý hefði staðið sig í þjónustu við hann á flutningamarkaði í gegnum tíðina.

Ég brosti út í annað þegar hún sagði mér þetta. Voru engar fréttir fyrir mig. Ég veit alveg að ég hef ekki bara staðið mig vel – ég hef staðið mig afburða vel í þjónustu við aðila á flutningamarkaði í gegnum tíðina. Ég hef staðið styrkum fótum og vitað um hvað ég er að tala og til mín hafa leitað aðilar vegna þess að þeir vissu að hjá mér voru þeir öruggir. Þeir vissu að ég var manneskja sem þeir gátu treyst. Manneskja sem leitaði alltaf bestu mögulegu lausna. Manneskja sem starfaði af fagmennsku að því að þjónusta þá á besta mögulega veg. Alltaf.

Samt er það svo að íslenskur vinnumarkaður vill ekkert af mér vita. Þannig hefur það verið lengi. Mjög lengi. Ég veit aldrei almennilega hvað það er sem ég hef gert af mér. Jú ég veit að mér liggur hátt rómur. Sannarlega. Það vinnur ekki með mér. En annað veit ég aldrei almennilega hvað er sem ég hef gert af mér.

Jú ég hef skoðanir. Sterkar skoðanir. Hef opinberað þær í greinaskrifum í langan tíma og hef aldrei farið í grafgötur með að það hefur ekki hjálpað mér. Hef samt ekki viljað láta af því. Því mér er sagt að ég búi í frjálsu samfélagi. Samfélagi þar sem það á að vera í lagi að láta í ljósi skoðanir. Samfélagi sem gefur sig út fyrir að vera frjálslynt og leyfa fólki að vera eins og það er.

Veit þó fullvel að auðvitað er það kjaftæði. Íslenskt samfélag hefur aldrei leyft fólki að njóta verðleika sinna ef það er ekki réttu megin á hinum pólitíska skala. Tala nú ekki um ef það er kvenkyns að auki. Kvenkyns og leyfir sér að vera með kjaft! Guð hjálpi þér! Það er auðvitað gjörsamlega út úr korti.

Þetta flaug um huga minn áðan þegar ég las leiðara Morgunblaðsins í dag. Leiðara með fyrirsögninni „Lögreglan og lögin“. Leiðara höfundar sem gleðst yfir því að Ríkissaksóknari hafi gert lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að taka upp á ný rannsókn á máli sem embættið hafði áður ákveðið að fella niður. Leiðara sem lýsir nauðsyn þess að sækja til saka Semu Erlu Serdar  og Maríu Lilju Ingveldar Þrastardóttur Kemp og samtökin Solaris vegna fjársöfunar til þess að greiða götu palestínskra hælisleitenda frá Gasa hingað til lands um Egyptaland.

Höfundi er mikið niðri fyrir þegar hann gerir grein fyrir mikilvægi þess að „réttlætið í formi kæru“ fái sinn framgang í þessu máli og endar leiðarann á því að segja: „Borgararnir verða að geta treyst því að lögregustjóri láti ekkert trufla framgang réttvísinnar, hvað þá að hann láti lög og reglu víkja af því að honum, einhverjum eða jafnvel öllum þyki tiltekinn málstaður góður: Fyrir lögum verða allir að vera jafnir.“

Svo mörg voru þau orð.

Ætlum við að treysta þetta samfélag Ísland í sessi lengi enn?

laugardagur, 13. janúar 2024

Alræði ríkisvalds

Svo lengi sem ég man hef ég haft sérlega ímugust á misbeitingu valds ríkisins – eins og sú tilfinning sé meðfædd einhvern veginn. Hef sannarlega kynnst slíku valdi mun oftar en ég hef kært mig um og hef ávallt látið í ljósi það álit mitt að íslenskt ríkisvald sé vont vald. Því miður sjaldnast fengið  tilefni til að komast á aðra skoðun.

Eitt af því sem maður þurfti að læra verandi starfsmaður í flutningagreininni var ofríki tollstjóraembættisins. Þar á bæ var talið sjálfsagt að nota hótanir um lokanir fyrirtækja sem daglegt brauð og öllu verra var að viðskiptalífið á Íslandi sá ekki ástæðu til að mótmæla þessum aðförum svo nokkru næmi. Meðvirkni með vinum í stjórnendahópnum hjá ríkisstofnununum var einhvern veginn normið - láta ofríkið og misbeitinguna yfir sig ganga. Maður hafði líka alltaf brjálað að gera og engan tíma til að standa í því að standa í lappirnar gagnvart ríkisvaldinu – þá var betra að gera bara það sem krafist var án tafar og leysa málið þannig.

Tollstjóraembættið hagaði sér alltaf eins og sá sem valdið hefur og síðar þegar ég stöðu til þess að fylgjast með lagasetningu á Alþingi fyrir hönd flutningagreinarinnar kynntist ég þeim aðferðum sem þetta embætti notaði ár eftir ár til að fá stimpil Alþingis til að mega nota geðþóttavald sitt.

Fjármálaráðuneytið leit á það sem sjálfsagðan hlut að leyfa tollstjóraembættinu að sækja sér valdheimildir til þingsins að vild. Starfsmaður fjármálaráðuneytisins var í góðu sambandi við tollstjóraembættið um hvaða lagaheimildir þau þyrftu árlega til að geta betur haft inn- og útflutningsaðila undir hælnum. Sá til þess að búa til lagafrumvörp sem lögð voru fram á síðustu dögum þings – jafnvel svo að Efnahags- og viðskiptanefnd leit á það sem sitt verk að láta frumvarpið fara í gegnum 3 umræður á einum degi. Og hver var það sem kallaður var til að segja álit sitt á frumvarpinu? Nú auðvitað starfsmaðurinn úr fjármálaráðuneytinu sem samið hafði frumvarpið! Þægilegra getur það ekki verið! Ein manneskja innan ríkisstofnunar í beinu sambandi við ráðuneytið sem getur pantað lagabreytingar og fengið þær stimplaðar hjá Alþingi án nokkurs aðhalds af nokkru tagi nokkurs staðar. Alræði ríkisvalds eins og það gerist best.

Því miður getum við búist við því að þetta verklag festist í sessi eftir því sem við skiptum hraðar út fólki á Alþingi. Það er Íslendingum eðlislægt að líta á vald ríkisins sem „rétt“ og gott. Því viðhorfi hef ég kynnst ítrekað. Meira að segja af hálfu blaðamanna. Fyrstu viðbrögð eru ávallt þau að líta svo á að það sem ríkisvaldið fer fram með þurfi engrar gagnrýni við.

Ríkisvald án aðhalds er hryllilegt vald sem misbeitir sér gagnvart þeim sem veikastir standa. Það þekkjum við öll vel ef grannt er skoðað.

Þessi langi pistill er skrifaður hér til að biðla til ykkar sem flestra að velta fyrir ykkur þeim sannleika sem Ólafur Stephensen er hér að skrifa um: https://www.visir.is/g/20242512668d/glaepur-ad-gera-mistok-nema-thu-vinnir-hja-skattinum

Hann upplýsir okkur um að árið 2017 náði tollstjóraembættið í gegn lagabreytingu þar sem refsa má fólki fyrir misgáning í gerð tollskýrslna. Eins og hann segir sjálfur orðrétt : „…tollstjóraembættið vildi að hægt yrði að refsa fólki fyrir misgáning eða mistök. Rökin voru að það væri svo erfitt að sýna fram á ásetning eða stórfellt gáleysi þegar rangar upplýsingar væru veittar í tollskýrslum.“ Hugsið ykkur bara hvað þetta er þægilegt! Þessu náði tollstjóraembættið í gegn! Það þykir semsagt í lagi og sjálfsagt á Íslandi árið 2024 að sækja almenna starfsmenn við gerð innflutningsskýrslna til saka vegna einfaldra mistaka! Það er eins gott að við greiðum þessu starfsfólki há laun – en því miður er það nú væntanlega ekki þannig. Í þessari grein koma jafnframt fram grafalvarlegar afleiðingar þessa. A.m.k. einn starfsmaður hefur þannig komist á sakaskrá fyrir það eitt að hafa fengið rangan pappír í hendurnar til að tollafgreiða eftir.

Þetta er tekið saman hér því mér er mikið niðri fyrir. Skal alveg viðurkenna það að ég fékk áfall að lesa þessa grein Ólafs. Þekki vel aðdragandann – þ.e. ofríkið sem þetta embætti hefur tamið sér að viðhafa og hversu sjálfsagt það þykir að það hafi heimildir til þess – en að það hefði gengið svona langt vissi ég ekki.

Að ríkisstofnun skuli hafa fengið til þess lagaheimild á Alþingi að sækja almenna starfsmenn við gerð innflutningsskýrslna til saka fyrir það eitt að vinna vinnuna sína vissi ég ekki og það finnst mér svo alvarlegt að ég bið alþingismenn sérstaklega að velta fyrir sér því sem hér er tekið saman. Velta fyrir sér ábyrgð sinni.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...