sunnudagur, 17. nóvember 2024

Karlar guðlegir – konum má henda

Margt hefur orðið til þess að minna mig á hversu stutt við erum komin í jafnrétti kynjanna síðustu misserin. Nú síðast þessi uppákoma með Þórð Snæ Júlíusson. Þar áður var það meðferð fjölmiðla á Jóni Gnarr og framboði hans til forystu á listum Viðreisnar í Reykjavík.

Karlar eru guðlegir í umfjöllun fjölmiðla um þá. Ítrekað aftur og aftur og aftur. Konur ná aldrei þessari stöðu. Aldrei. Sama þó þær hafi náð því að vera í forystuhlutverkum á sínu sviði. Þær verða aldrei að guðum.

Það er svo merkilegt að verða vitni að þessu aftur og aftur og aftur í samfélaginu sem lítur á sig – réttilega – sem samfélag í forystu í jafnréttismálum kynjanna.

Þórður Snær Júlíusson er áreiðanlega alveg ágætur. Efast ekkert um það. Eflaust hæfileikaríkur og fínn greinandi. Eflaust hefði orðið fengur að honum á Alþingi. Má alveg gera ráð fyrir því. En hann er ekki guð. Trúið mér.

Jón Gnarr er alveg ágætur. Ég elska hann sem uppistandara og kannski á ég eftir að elska hann sem manneskju líka – ef ég fæ tækifæri til að kynnast honum sem slíkum – en ég veit að hann er ekki guð og hann á ekki að meðhöndla í fjölmiðlum sem slíkan.

Karlar eiga greiða leið að fjölmiðlum sem guðir. Á hverjum einasta degi les ég fréttir settar upp þar sem fjallað er um karla sem guðlegar verur sem sjálfsagt og sjálfgert er að séu í þeim hlutverkum sem þeir eru og ef eitthvað verður þeim að falli er það svakalegt. Rosalegt. Ég heyrði ekki betur en umfjöllunin um Þórð Snæ Júlíusson væri þannig í gær.

Ég hef enga skoðun á því hvort að Þórður Snær Júlíusson átti að taka þessa ákvörðun í gær. Um að segja af sér þingmennsku um leið og hún mögulega berst honum. Ég hef hins vegar sterka skoðun á því hvernig fjallað er um þetta mál allt og ekki síst viðbrögðum fólks við því að hann hafi tekið þessa ákvörðun.

Ég var ekki jafn sannfærð og allir hinir um að það væri stórkostlegur fengur að Þórði Snæ Júlíussyni sem þingmanni á 3ja sæti Samfylkingarinnar. Það getur vel verið að svo hefði verið. Ég veit ekkert um það. En það er ekki nóg að hafa verið harðsnúinn blaðamaður til að sannfæra mig um að viðkomandi verði góður pólitíkus. Góður pólitíkus lætur sér annt um fólk. Hann hefur áhuga á fólki og hann hefur gríðarlega áhuga á samfélaginu og vill hafa áhrif á það til góðs.

Látið hefur verið að því liggja síðustu vikur að það sé sjálfgefið að þekkt fólk á einu sviði verði góðir stjórnmálamenn. Ég ætla að leyfa mér að vera fullkomlega ósammála því. Það er mínu viti ekkert sjálfgefið að fólk sem aflað hefur sér virðingar á einu sviði verði góðir stjórnmálamenn.

Til að verða stjórnmálamaður vil ég að þú hafir sýnt áhuga á samfélaginu – að þú hafir áhuga á fólki og kannski fyrst og síðast að þú sýnir ákveðna auðmýkt. Að þú sýnir mér og sannir að þú sért í því að komast á Alþingi til að láta gott af þér leiða fyrir okkur öll en ekki til þess að láta ljós þitt skína sem skærast.

Hroki í fari fólks er eitur í mínum beinum. Hef krónískt ofnæmi fyrir sjálfhverfu og hroka og ef ég mætti ráða væru þeir eiginleikar neðstir í fari stjórnmálamanna. Auðmýkt hins vegar er eftirsóknarverð. Auðmýkt og hlýja. Kærleikur. Að láta sér annt um fólk – af hvaða tagi sem það er – í hvaða stöðu sem það er.

Ég hvet okkur öll – konur og karla – til að veita því athygli í sínu fari - hvaða viðbrögð viðkomandi sýna til þess annars vegar að kona verði uppvís að mistökum eða karl. Að við veitum því athygli hvernig við leyfum fjölmiðlum að meðhöndla annars vegar konur og hins vegar karla.

Ég hvet okkur öll til að gera konur og karla að mannlegum verum. Guðleikinn er engum karli hollur frekar en fórnarlambið er konum hollt. Við erum öll mennsk. Meingölluð en um leið ágæt – svona í meginatriðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...