Sigmund Freud var fæddur árið 1856. Hann helgaði líf sitt því að hlusta á og reyna að skilja manninn. Kenningar hans voru byltingarkenndar og byggðu ekki síst á því að kynhvötin væri grundvöllur að öllu öðru í manninum. Kynhvötin var grundvöllurinn að trúnni, grundvöllurinn að athafnaseminni, grundvöllurinn að afneituninni á raunveruleikann. Kynhvötin var lykillinn að starfi hans sjálfs.
Hann komst að því að gríðarlegur fjöldi sjúklinga hans átti
um sárt að binda vegna kynferðislegs ofbeldis eða áreitni af einhverju tagi.
Hann átti erfitt með að trúa því sjálfur að þetta væri svona en það var svona.
Gríðarlegur fjöldi sjúklinga hans hafði orðið fyrir áfalli af völdum einhvers
sem hafði misnotað eða misfarið með viðkomandi kynferðislega. Á þessum
staðreyndum byggði hann kenningar sínar. Kenningar sem í dag árið 2024 eiga
mikið erindi við okkur.
Á þessari öld höfum við gert fátt annað en kynnast þessari
grundvallarhvöt mannsins. Kynhvötinni. Við höfum komist að því sem Freud komst
að fyrir 150-100 árum síðan hversu gríðarlega margir eiga um sárt að binda
vegna hennar. Við höfum þurft að fella hvern karlinn á fætur öðrum af
stallinum. Við komumst að því að meira að segja maðurinn í embætti biskups
Íslands var ekki undanskilinn. Meira að segja hann var fær um að beita
kynferðislegu ofbeldi.
Á sama tíma afneitum við enn þessum merka hugsuði. Kenningar
Sigmund Freud eru ekki kenndar í Háskóla Íslands.
Veltum fyrir okkur þessari staðreynd. Af hverju?
Í fyrradag skrifaði
ég hugleiðingu þar sem ég gerði grein fyrir ánægju mínu með nýútkomna bók
Rúnars Helga Vignissonar þar sem hann gerir m.a. grein fyrir áhrifum me too á
sig „síðmiðaldra karlinn“ eins og hann kallar sig ítrekað í bókinni. Ég leyfði
mér að segja upphátt það sem mig hefur lengi langað til að segja – nefna
þöggunina sem hefur umvafið okkur eftir me too. Þöggunina á gagnrýni á þetta
fyrirbæri. Þöggunina á gagnrýni á „slaufun“ – útilokun einstaklinga í
samfélaginu með því einu að benda á þá. Ég fór ekki dýpra í efnið – bara svona
rétt nefndi það . Ég vissi auðvitað að ég yrði skotin í kaf með það sama – sem
kom á daginn. Allt í þessu fína með það og ég ætla bara að láta það örva mig
til dáða. Halda áfram að skrifa um efnið - sem ég er að gera hér.
Hluti af því sem ég gagnrýni svo mjög er ásýndin á
kynhvötina sem me too hefur haft í för með sér. Ásýnd sem ég þekki svo vel og
hefur verið uppi allt um kring svo lengi sem ég hef verið til. Ásýnd sem gerir
stúlkur - konur að passívum fórnarlömbum sem þarf að passa upp á. Ásýnd þar sem
virðist að stúlkur – konur séu púritanar en strákar – karlar graðir villimenn.
Ég á svo erfitt með þetta að mig langar að hrópa upp yfir
mig! Árið er 2024 – það er ekki árið 1856 eða 1720 eða hvað annað. Það er árið
2024. Ætti það ekki að þýða að við getum talað um kynhvötina með öðrum hætti en
að stilla kynjunum upp sem óvinum? Þar sem strákar eru þeir sem nauðga og
stelpur eru þær sem strákar eru vondir við? Og þurfa að passa sig á?
Það er sú ásýnd me too sem ég geri stórkostlegar
athugasemdir við og veit að mun aldrei geta leitt neitt gott af sér.
Nornaveiðar og galdraofsóknir fyrri aldra voru hræðilegar og þær eru það enn
árið 2024 – hver svo sem grunnurinn á bak við ábendinguna er. Við lögum aldrei
neitt með þeirri aðferð að benda á einstaklinga og gera þá að sökudólgum sem á
að útskúfa. Að einhver hafi látið sér detta það í hug að það sé rétta leiðin að
góðu samfélagi er mér endalaus ráðgáta.
Ég vona að ég þurfi ekki að taka það sérstaklega fram að ég
er ekki stuðningsmaður nauðgana. Að ég er ekki stuðningsmaður barnaníðs eða
kynferðisofbeldis af nokkru tagi. Það á ekki að þurfa að taka það fram.
Ég er áhugamanneskja um manninn. Manninn sem tegund og þar
undir eru karlar og konur. Ég velti fyrir mér hvort að það sé kannski kominn
tími til að við reyndum að skilja hvert annað betur? Væri kannski ráð að við
töluðum um kynhvötina sem staðreynd? Staðreynd í lífi stúlkna jafnt sem
drengja? Hvernig er hún? Hvernig lýsir hún sér? Hvenær kemur hún fram? Hversu
gamlar erum við stúlkur þegar kynhvötin fer að láta á sér kræla? En strákar? Er
kynhvötin öðruvísi hjá drengjum en stúlkum? Með djúpri áherslu nefni ég þetta
því ég hef sterkan grun um að svo sé.
Að við gefum drengjum og stúlkum leyfi til að hafa kynhvöt.
Að við sýnum því skilning að að þau þurfa að fá rými til að kynnast henni í
sjálfri sér og þurfa að fá rými til að þroskast með henni og læra á hana? Að
ekki á allt sem gert er erindi við alþjóð. Að einstök mistök eða klaufaskapur
eru leyfileg. (Þarf ekki að taka fram að ég er ekki að vísa í nauðganir hér).
Að það er fráleitt að við hoppum fram á sviðið sem fullþroska einstaklingar sem
vitum 100% hvernig á að fara með þessa hvöt sem er svo sterk – svo gríðarlega
sterk að við vitum ekkert hvernig á fara með hana.
Ég tek það fram að í þessum skrifum mínum felst ekki
palladómur yfir ungu fólki dagsins í dag. Aftur á móti felst í þeim palladómur
yfir okkur fullorðna fólkinu. Mér finnst að við eigum að geta staðið okkur
betur í því að fjalla um kynhvötina í lífi fólks en að gera það með þeim hætti
sem við gerum. Að opna í stað þess að loka. Að leitast við að skilja í stað
þess að stilla upp óvinum.
Ég leyfi mér að vona að við látum bók Rúnars Helga
Vignissonar um „Ringlaða karlmanninn“ leiða til þess að við tölum saman um hana
þessa hvöt – kynhvötina – sem Sigmund Freud vissi fyrir 100 síðan að var
„HVÖTIN“ með stórum staf í lífi mannsins. Sú sem öllu ræður og öllu stjórnar.
Að við þurfum að læra um hana og leitast við að skilja hana í stað þess að
afneita henni.
Að síðustu má benda á að fjölmargar bækur Sigmund Freud eru
til á íslensku. Honum er m.a. tíðrætt um kvíða og þjáningu? Kannski eitthvað
sem við ættum að skoða frekar?

Engin ummæli:
Skrifa ummæli