Ég hafði beðið spennt eftir að fá hana í hendur. Bókina: „Þú ringlaði karlmaður – Tilraun til kerfisuppfærslu“ eftir Rúnar Helga Vignisson.
Loksins kom að því… og ég drakk hana í mig.
Hún stóð sannarlega undir væntingum og gott betur.
Nú brenn ég í skinninu að heyra umræður um hana.
Og ekki bara það – mig langar svo til að hún verði til þess að skapa umræður.
Um samskipti kynjanna
Um áhrif me too á okkur öll
Konur – stúlkur
Karla – drengi
Ég hef beðið eftir bók af þessu tagi lengi. Kannski ævina
alla ef grannt er skoðað. Bók þar sem íslenskur karlmaður – með sérstakri
áherslu á þjóðernið – opnar sig með þeim hætti sem Rúnar Helgi gerir í þessari
bók. Hann er einlægur og leyfir manni að skyggnast inn í kvikuna – kvikuna á
sjálfum sér – sem gerist sannarlega ekki á hverjum degi þegar íslenskir
karlmenn eru annars vegar. Og tilefnið – hvað fær hann til að skrifa – er svo
rosalega áhugavert um leið og það er fyrir mér svo eðlilegt – svo fullkomlega
lógískt. Áhrif og afleiðingar me too byltingarinnar hljóta augljóslega að vera
svo margvísleg en um þau hefur ríkt þöggun eins og svo margt annað í nútíma
samfélagi.
Konur hafa mátt benda. Benda á þennan og hinn og útskúfa
honum og segja að hann megi ekki „vera memm“! Nota sömu aðferð og Donald Trump
í Apprentice – ota fingrinum að einstaklingum og útskúfa þeim – slaufa þeim. Og
við eigum öll að hlýða og játa í blindni. Stórmerkilegt að einhverjum detti það
í hug að þetta fyrirkomulag geti leitt til góðs fyrir einhvern. Samfélag eða
einstaklinga.
Þegar staða mála er sú að umræðan hefur þvílík áhrif á
„síðmiðaldra“ karlmann eins og Rúnar Vignir lýsir í bókinni – hvaða áhrif getum
við þá ímyndað okkur að hún hafi haft á unga menn?
Ungt fólk?
Mér finnst hún svo rosalega merkileg þessi háværa krafa í
nútímanum um að ungir menn skuli kunna fullkomlega að haga sér gagnvart kynhvöt
sinni frá fyrstu stundu og mér finnst
hún líka svo rosalega merkileg þessi þróun að tala um kynþroska stúlkuna sem
ósnertanlegt púritanskt barn fram á fullorðinsár. Barn sem skuli vernda frá svo
illu afli eins og kynhvötinni með öllum ráðum.
Ég er hreint ekki sannfærð um að vegurinn frá upphafningu
klámvæðingarinnar sem Gilzenegger stóð fyrir í upphafi aldarinnar til þess
púritanisma sem við upplifum í dag sé okkur hollur.
Ég er hinsvegar sannfærð um að bók af því tagi sem Rúnar
Helgi Vignisson skrifar hér sé okkur holl lesning og ég óska þess innilega að
hún leiði til hressandi opinnar umræðu - um gildi kynhvatarinnar í lífi
manneskjunnar
stúlkunnar jafnt sem stráksins
Um samskipti stráka og stelpna í nútímasamfélagi.
Já og bara almennt um tilfinningalega líðan okkar allra – ungra sem aldinna
Karla sem kvenna
Ástarþakkir Rúnar Helgi Vignisson!
Get ekki beðið eftir að sjá lokið tekið af pottinum!

Engin ummæli:
Skrifa ummæli