laugardagur, 30. nóvember 2024

Veldi Sjálfstæðisflokksins kvatt?

Kjördagur. Enn einu sinni í mínu lífi er runninn upp slíkur dagur. Að þessu sinni liggur í loftinu að breytingar gætu verið í nánd. Að runninn sé upp sá dagur þar sem kjósendur kveðja ægivald Sjálfstæðisflokksins. Ekkert er þó í hendi – langt því frá og kannski komum við öll til með að vakna upp við að einu sinni enn sé vilji kjósenda sá að færa þessum flokki sérhagsmunanna valdið yfir stjórn landsins. Ég vona ekki. En niðurstaðan kemur í ljós í kvöld eða næstu daga.

Það er undarleg staða að hafa nánast allan mánuðinn verið fjarverandi í kosningabaráttunni árið 2024. Við vissum það ekki þegar við keyptum miða til Marokkó í vor eða þegar ég lofaði dóttur minni því að passa fyrir hana í 10 daga í lok nóvember fram yfir mánaðamót að með því væri ég að tryggja algjöra fjarveru mína frá einhverjum mest spennandi kosningum í mínu lífi. Það er skrítið. Mjög skrítið.

Pólitík hefur alla ævi verið mitt megináhugamál og fátt hef ég þráð heitar en að eygja von um að ægivaldi Sjálfstæðisflokksins yrði hrundið. Nú hefur það verið þannig í margar vikur að við höfum heyrt tölur í skoðanakönnunum þar sem flokknum hefur verið spáð allt niður í 12% fylgi. Það er stórfrétt í íslensku samfélagi. Stórfrétt. Samt er það svo að ég hef ekki tjáð mig um það. Ekki einu sinni! Í síðustu skoðanakönnun Metils vorum við líklega færð nær raunveruleikanum. Ég veit það þó auðvitað ekki en ég leyfi mér að láta mig dreyma þar til fyrstu tölur koma í ljós.

Á kjördag árið 2003 skrifaði ég grein þar sem ég leyfði mér að dreyma … Ég upplýsti opinberlega að ég hefði lengi átt mér þann draum að sjá mistök Jónasar frá Hriflu  leiðrétt – þ.e. að sjá Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn sameinast í einum flokki. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Eitt stykki efnahagshrun hefur átt sér stað og í kjölfar þess hefur stjórnmálaumhverfið á Íslandi tekið stakkaskiptum. Samfylkingin varð nánast að engu um tíma. Náði ekki inn manni í Reykjavík í einum kosningunum sem einhvern tíma hefði þótt óhugsandi að yrði staða jafnaðarmannaflokksins á Íslandi.

Eitt hefur þó ekki breyst: ægivald Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir að Viðreisn og Miðflokkurinn hafi orðið til og Sjálfstæðisflokkurinn hafi sannarlega misst það ógnarfylgi sem hann hafði alltaf, þá hefur hann ætíð verið þarna sem eini turninn sem allt stjórnmálaumhverfið á Íslandi snýst um.

Skoðanakannanir hafa nú í margar vikur sýnt að sú staða gæti verið að breytast. Að í fyrsta skipti í mínu lífi sé mögulegt að miðjuflokkar standi uppi sem sigurverarar kosninga. Ég get ekki lýst því hvað ég óska þess heitt að það verði raunin. Það er svo ógnarlangt síðan tími var til kominn að stjórnmál á Íslandi snúist um líf venjulegs fólks. Snúist um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.

Ég kaus Viðreisn og ég gerði það af heilum hug. Forysta flokksins og þingmenn hafa á síðustu misserum talað fyrir mínum áherslum og ég er afskaplega ánægð með þau. Númer eitt er ég er einarður Evrópusinni. Ég vil að Ísland sé virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna – ekki á kantinum og láti aðra um þróun og ákvarðanatöku sem við þurfum svo að taka upp án þess að hafa haft neitt um að segja. Íslenska krónan er eitur í mínum beinum og ég skil ekki – hef aldrei skilið – að mér eigi að vera hlýtt til hennar. Um það hef ég skrifað margar greinar því fátt tel ég mikilvægara en einmitt það – að eygja von um að losna við þetta mein íslensks efnahagskerfis alla mína ævi. Að síðustu finnst mér finnst gott að finna áherslur þeirra að hlusta á kjósendur út um allt land um leið og mér finnst gott að finna hvað þau eru óhrædd við að vera pólitísk. Fyrst og síðast höfðar til mín að ég upplifi flokkinn með hlýtt hjarta og ég vona að þeim takist að halda því.  Það skiptir máli að láta sér annt um fólk.

Ég hefði líka alveg getað kosið Samfylkinguna eins og ég gerði um árabil og ég hefði getað kosið Pírata sem ég vona sannarlega að muni haldast inni á þingi. Við þörfnumst þeirra raddar mjög. Ég er minna spennt fyrir þeim sem ég upplifi sem hreinræktaða popúlista en sleppi því að minnast á þá hér.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um mínar skoðanir. Ég óska þess heitt og innilega að Viðreisn og Samfylkingin komi mjög sterk út úr þessum kosningum og verði leiðandi afl í myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum. Hvort mér verði að ósk minni á svo eftir að koma í ljós.

Í öllu falli, gleðilegan kosningadag!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...