fimmtudagur, 27. janúar 2011

Flokkurinn sem kann...

Að hlusta á ræðu Ólafar Nordal í ræðustól Alþingis í dag gjörsamlega ærði mig af reiði. Það eru svo sem engin ný tíðindi í því fyrir þá sem þekkja mig að slíkt gerist en það var samt sínu verra í dag en oft áður.

Að hlusta á hana - varaformann Sjálfstæðisflokksins halda því fram - blákalt - og af fullu sjálfsöryggi að núverandi ríkisstjórn sé einfær um að viðhafa óvandað verkleg var meira en hægt er þola. Það eru mörk á því hvað hægt er að bjóða manni upp á og yfirlýsingar í þessa veru lýsa fullkominni veruleikafirringu og sjálfhverfu af verstu tegund.

Það skal tekið fram áður en lengra en haldið að með þeirri fullyrðingu er ekki verið að verja framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings og ábyrgð ríkisstjórnarinnar á því máli.

En að hún - þessi ríkisstjórn - viðhafi almennt verra verklag og sé óábyrgari en þær sem fyrir voru er rakalaus þvættingu svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég hef nú í tvö ár þurft að hlusta á þennan söng. Sjálfstæðismenn hrópa hátt um óvandað verklag, um samráðsleysi um kunnáttuleysi annarra og get ég bara ekki hlustað á meira af slíku.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í Stjórnarráðinu í áratugi hefur þróast hér á landi gagnrýnis- og aðhaldslaus stjórnsýsla sem gerir oftar en ekki það sem henni sýnist. Fagmennska er sannarlega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug eftir að hafa kynnst því stjórnkerfi. Óvönduð vinnubrögð hafa viðgengist hér í stjórnarráðinu áratugum saman undir stjórn - með blessun og - á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.

Og nú verð ég að biðja þá sem eru faglegir að fyrirgefa mér - því sannarlega fyrirfinnst vandað verklag innan íslensku stjórnsýslunnar.

Að ríkisstjórn Íslands brjóti lög eru engin ný tíðindi. Það vitum við öll sem lifað höfum í íslensku samfélagi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í áratugi og ég frábið mér slíkar yfirlýsingar.

Það er fyrir löngu kominn tími til að breyta því verklagi. Það hefur umboðsmaður Alþingis bent á ótal, ótal, ótal sinnum - án árangurs. Það er augljóst að það verður ekki gert á einum degi. Tala nú ekki um þegar sami flokkur og hefur komið á þessu verklagi er orðinn algjörlega óábyrgur stjórnarandstöðuflokkur sem hugsar ekki um neitt annað en að viðhalda sjálfum sér. En sem merkilegt nokk þjóðin hlustar enn á - kann ekki annað.

Að koma í gegn lögum á Alþingi um stjórnlagaþing með Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu var ekki auðvelt verk - en það tókst. Allar götur síðan hefur sami flokkur unnið að því öllum árum að eyðileggja það.

Það var þrekvirki að koma málinu í gegn með þennan stóra stjórnarandstöðuflokk sem enn hefur svo mikið vald í huga fólksins en það tókst.

Nú hefur flokknum tekist það sem hann ætlaði sér - að ná fram vilja sínum í gegnum Hæstarétt - stjórnlagaþingskosningarnar hafa verið dæmdar ógildar vegna tæknilegra ágalla sem rekja má til þess að áhugi almennings á málinu reyndist meiri en stjórnkerfið réði við.

Og þá... hlakkar í þessum sama stjórnmálaflokki og hann ber sér á brjóst.

Sem fyrr er honum skítsama um allt annað en að viðhalda sjálfum sér. Hafið skömm fyrir!

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Hlustum ekki á hagsmunaaðila – rétta leiðin?

Hlustaði á Svandísi Svavarsdóttur í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson á RÚV í gær. Henni var ofarlega í huga aðkoma hagsmunaaðila að lagasetningu. Hún talaði um rannsóknarskýrslu Alþingis og mátti skilja hana svo að í rannsóknarskýrslunni hefði samráð við hagsmunaaðila verið talinn helsti galli íslenskrar stjórnsýslu. Fór ekki á milli mála að hennar skoðun var sú að samráð við hagsmunaaðila væri allt of mikið á Íslandi og því þyrfti að breyta.

Þessi orð ráðherrans koma mér vægt frá sagt mjög spánskt fyrir sjónir. Fátt tel ég þarfara í íslenskri stjórnsýslu en aukið samráð við hagsmunaaðila við lagagerð og reglugerðarsetningu. „Lög að ofan" voru slæm fyrir 4000 árum síðan og þau eru það enn.

Lagafrumvörp og reglugerðir sem samin eru af lögfræðingum stjórnsýslunnar án þekkingar á því starfsumhverfi sem þau eiga við eru oftar en ekki meingölluð og stórhættuleg. Með því er ekki verið að segja að hagsmunaaðilar eigi að eiga greiða leið að því að koma lagabreytingum í gegnum kerfið að sínum vilja.

Það er djúp gjá á milli þess að hagsmunaðilar eigi að vera ráðandi í að koma lagabreytingum í gegn að sínu höfði eða hvort að þeir séu hafðir með í ráðum við frumvarpsgerð sem fjallar um þeirra starfsumhverfi.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og einn höfunda rannsóknarskýrslu Alþingis talaði um í fyrirlestri í haust að stjórnkerfið ætti að sinna almannahagsmunum - að lög ættu að vera samfélagssáttmáli - ættu ekki að vera sett fyrir morgundaginn. „Samfélagssáttmáli" verður ekki til með því að frumvörp séu samin einhliða af embættismönnum með tilteknar skoðanir.

Ég held að fátt sé hollara íslenskum ráðherrum en að meðtaka orð Tryggva. Að lög eigi að vera „samfélagssáttmáli" ættu að verða leiðarljós íslenska stjórnkerfisins þá myndi margt breytast hér til hins betra.

Hrokafullt viðhorf íslenskra ráðherra sem telja að stjórnkerfinu stafi mest hætta af hagsmunaaðilum er aftur á móti ekki til þess fallið að búa til betra stjórnkerfi eða sátt í íslensku samfélagi.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

Stríð um hugmyndafræði

Hitti stúlku á dögunum sem ég hef þekkt í tæplega 25 ár. Manneskja sem ég faðma og kyssi þegar ég rekst á hana á förnum vegi og spjalla lengi en við hittumst ekki eða eigum önnur samskipti. Mér þykir óskaplega vænt um þessa stúlku. Kynntist henni sem ungum eldhuga sem fyrst og síðast þótti vænt um fólk og gaf af sér svo það lak af henni sjarminn í allar áttir. Þannig er hún enn - galopin og heillandi.

Þessi stúlka sagði mér það að hún þyldi ekki Ísland þennan áratug. Hún sagði mér líka að það væri alltaf verið að banna henni að segja þetta - hún mætti ekki vera svona neikvæð. Hún segir það samt - og segir það með ást í augum því henni þykir augljóslega enn vænt um fólk og kann ekki annað.

Hún sagði mér að hún og fjölskyldan hennar fluttist til annars Evrópulands í tvö ár og hún grét í hálft ár að þurfa að koma aftur heim.

Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í samræður okkar hér en þær voru upplifun fyrir mig. Það var upplifun að hitta manneskju sem iðaði af lífi og áhuga og ást á því - segja það upphátt ófeimin að hún þyldi ekki íslenskt samfélag í dag og var með það á hreinu af hverju það væri. Sjálfhverft „ég um mig frá mér til mín" samfélag.

Þessi stúlka hafði mörgu að miðla og mikið að gefa og ég velti fyrir mér hvort að íslenskt samfélag muni leyfa henni að halda elmóðnum og áhuganum og hvort hún muni fá þá örvun og stuðning sem hugur hennar augljóslega þarf.

Ég vil vinna að því. Ég vil vinna að því að íslenskt samfélag breyti um kúrs. Ég vil búa í víðsýnu alþjóðlegu samfélagi þar sem tækifæri til athafna eru ekki bara til handa sérvöldum hópi heldur handa okkur öllum.

Það fer ekkert á milli mála í mínum huga að á Íslandi í dag ríkir stríð um hugmyndafræði. Hver vinnur í því stríði breytir öllu um hvernig Ísland framtíðarinnar verður. Afturhaldsöflin eru gríðarlega sterk og þau eru að finna í öllum stjórnmálaflokkum. Þau ætla sér að sigra - það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga. Þau leita allra leiða til að koma sér fyrir í áhrifastöðum sem skipta máli og hingað til hefur þeim orðið ágætlega ágengt og þau eru ekki hætt...

Það andvaraleysi sem frjálslyndi hópurinn í íslensku samfélagi sýnir nú um stundir með því að ríghalda í stjórnmálaflokkinn sinn sama á hversu fráleitri leið hann er er stórhættulegur. Andvaraleysi á tímum eins og núna er stórhættulegt.

Við sem viljum að Ísland verði víðsýnt, frjálslynt opið - gott samfélag - verðum að fara að átta okkur á því að dagurinn í dag skiptir máli.

Áunnin réttindi skipta máli - þau eru aldeilis ekki sjálfsögð - við höfum fengið margar áminningar um það síðustu misseri. Það skiptir máli að taka afstöðu - að standa með sjálfri sér og sinni sýn á framtíðina. Að öðrum kosti eigum við - þessi hópur sem ég veit að er til þarna úti - á hættu að búa í allt öðru samfélagi næstu áratugi en við kærum okkur um.

Samfélagi sem byggir á hugmyndafræði feðraveldisins og þröngsýninnar.

þriðjudagur, 11. janúar 2011

Heiðarleikinn og einlægnin

Völva Baggalúts sendi á dögunum frá sér eftirfarandi spá fyrir árið 2011:

„Ekkert breytist. Ekki neitt!"

Ég hef þá trú að völva Baggalúts reynist sannspá.

Fjölmiðlarnir halda endalaust áfram að upplýsa okkur um hvað lífið kostar. Það er ennþá það eina sem skiptir máli og er þess virði að fjalla um. Listir, íþróttir, snjómokstur, sorphreinsun - hvaðeina - kostnaðurinn er aðalatriðið.

Þannig þótti það helst fréttnæmt í aðalfréttatíma RÚV hvað kostnaður við snjómokstur Akureyrarbæjar færi mikið fram úr áætlun þetta árið.

Fyrir uppsveifluna var ekki fjallað um björgun erlendra ferðamanna á hálendinu öðruvísi en að fréttamenn sæju ástæðu til að velta fyrir sér kostnaðinum sem íslenskt samfélag hefði af slíku.

Forsíður blaðanna birta enn fréttir af því að Íslendingar eigi í samskiptum við frægt fólk í útlöndum. Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun birtist mynd af Magnúsi Scheving með Colin Powell fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ein frétt af mörgum á forsíðu þess blaðs síðustu mánuði þar sem það hvarflar að manni að það hafi ekki reynst viðkomandi Íslendingi sérlega erfitt að koma sér á forsíðuna til að segja frá stórkostlegum árangri sínum í útlöndum.

Viðmælandi fréttastofu RÚV í kvöld (sem mér því miður láðist að taka eftir hver var) hafði helst áhyggjur af því að sala á heilbrigðisþjónstu til útlendinga hefði þá stórkostlegu hættu í för með sér að íslenskir ríkisspítalar þyrftu að vera samkeppnisfærir í greiðslu launa til heilbrigðisstarfsmanna. Þess vegna væri það ekki heppilegt að efla þessa starfsemi hér á landi.

Í hverju felst heiðarleikinn og einlægnin - endurheimt gildanna - sem allir eru að tala um? Felst hann í því að við förum allar að prjóna og búa til slátur?

föstudagur, 7. janúar 2011

Hvað héldu þau?

Alþingi Íslendinga samþykkti með meirihluta greiddra atkvæða 16. júlí 2009 að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ásmundur Einar Daðason þingmaður Vinstri grænna lét hafa eftir sér í Kastljósi í gær að „margir þeir sem studdu þá umsókn væru að fyllast efasemdum um að það ferli væri í þeim farvegi sem þeir vildu sjá það í upphafi".

Þessi orð Ásmundar krefjast skýringa. Hvað héldu þeir Vinstri grænir þingmenn sem fóru í samstarf við Samfylkinguna í ríkisstjórn að aðildarviðræður við ESB þýddu? Stóðu þeir í þeirri meiningu að samþykkt aðildarviðræðna við ESB væri leikaraskapur? Ábyrgðarlaus og meiningarlaus dúsa upp í samstarfsflokkinn til að fá hann til samstarfs? Ferli sem engin alvara væri á bak við?

Það er ótrúlegt að hlusta á íslenska stjórnmálamenn hvort heldur eru í Vinstri grænum eða Sjálfstæðisflokknum fjalla opinberlega um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Engin þjóð fer í aðildarviðræður við ESB nema að meina það í alvöru. Að sækja um og fara í ferli aðildarviðræðna er ekki eitthvert grín. Einhver leikaraskapur til að „tékka á því hverju hægt er að ná fram" eins og hefur verið vinsæl tugga á meðal Sjálfstæðismanna.

Þjóð sem vill láta taka sig alvarlega í alþjóðasamskiptum fer ekki út í kostnaðarsamar viðræður upp á grínið. Hún gerir það af alvöru með það að markmiði að ná sem bestum samningi - punktur.

Að leggja af stað í leiðangurinn með annað að markmiði en að ná bestu mögulegu samningum fyrir Ísland og Íslendinga er fullkomið ábyrgðarleysi og svívirða hvort heldur er við almenning á Íslandi eða samningsaðilann Evrópusambandið.

Núna eftir að samningaviðræður eru hafnar á að klára þær og það á að gera það af reisn, fagmennsku og metnaði fyrir Íslands hönd. Það er eina verkefnið sem er á dagskrá núna. Þegar samningaviðræðum er lokið kemur í ljós hvernig til hefur tekist. Þá er komið að okkur almenningi á Íslandi að segja til um hvort verkefnið hafi tekist nægilega vel eða ekki.

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði pistil á Pressuna í gærkvöld þar sem hún reifaði vandræðagang innan ríkisstjórnarinnar. Í pistli sínum sagði hún m.a.„Víst er, að framganga Samfylkingarinnar í ESB málinu hefur haft svo alvarlegar afleiðingar á þingmenn vinstri grænna marga hverja, að sá ágreiningur sem rís í einstökum málum magnast upp og verður nánast óviðráðanlegur vegna óbilgirni forystumanna ríkisstjórnarinnar í því máli og sér í lagi Samfylkingarinnar. „

Það leynir sér ekkert á þessum orðum eða framgöngu meirihluta þingmanna Sjálfstæðismanna að þeir ætla að berjast fyrir því til síðasta blóðdropa að koma samningaviðræðum við ESB fyrir kattarnef og vinna þannig sleitulaust að því að brjóta á bak aftur lýðræðislega tekna ákvörðun Alþingis Íslands.

Ábyrgðarleysi þessara stjórnmálamanna er ólíðandi. Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru hafnar og standa yfir. Þær viðræður byggja á samþykkt Alþingis frá 16. júlí 2009 og samþykkt Leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 17. júní 2010.

Alþingi Íslendinga hefur afgreitt málið og það er nú í höndum ríkisstjórnar Íslands að leiða málið til lykta. Ríkisstjórn Íslands hefur það eina hlutverk í þessu máli núna að vinna að því öllum árum að ná besta mögulega samningi í aðildarviðræðunum. Það er verkefnið og ekkert annað.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...