Ég tók erlent lán upp á 12 milljónir vorið 2006. Lánið var tekið í jenum og svissneskum frönkum. Á þeim tíma var íbúðin sem ég er skráð sem eigandi að talin virði á bilinu 25 - 30 milljónir króna.
Ég hef verið í viðskiptum við sama bankann í bráðum 30 ár. Bankinn hefur að vísu skipt um nafn nokkrum sinnum á þessum tíma en ég lít alltaf á hann sem sömu stofnunina. Á þessum tíma hafa viðskipti mín við bankann byggt upp traust - traust á mér sem viðskiptamanni. Ég ætlast að sjálfsögðu til að fá að njóta þessa trausts ef í harðbakkann slær.
Á einum degi haustið 2008 breyttist skuld mín við bankann upp á 12 milljónir í 25 milljónir. Á sama tíma er erfitt að átta sig á verðmæti eignarinnar sem stendur að baki láninu og sennilega má þakka fyrir ef hægt væri að selja hana fyrir andvirði skuldarinnar. Ég er semsagt komin hátt á fimmtugsaldur í þeirri stöðu í byrjun árs 2010 að vera eignalaus.
Sú staðreynd truflar mig þó ekki neitt og er ekki erindi þessara greinaskrifa.
Það sem truflar mig er hvernig fjallað er um það sem gerðist þessa haustdaga í október 2008 og við erum upplifa afleiðingarnar af. Það sem truflar mig er að eins og umræðan er þá sýnist mér að ef ég væri í vandræðum með að greiða af skuldbindingum mínum vegna þessa láns sem ég tók þá væri eðlilegt og sjálfsagt að bankinn tæki af mér íbúðina. Það sé eðlilegt og sjálfsagt að fjalla um eignina mína eins og hún sé ekki eign mín heldur sé hún bankans og hann megi ráðstafa henni að vild án þess að það komi mér við hvernig það er gert. Ég eigi ekki að fá að njóta neins. Viðskiptasaga mín við bankann sé einskis virði og ég eigi engan rétt.
Þessari sögu er ætlað að varpa ljósi á þá ótrúlegu umræðu sem á sér stað um eigendur fyrirtækja á Íslandi í dag. Talað er um eigendur eins og þeir séu ekki eigendur. Skuldir fyrirtækja þeirra er talað um eins og þær séu föst tala og hafi ekkert breyst við það sem gerðist við hrun gjaldmiðilsins okkar. Múgurinn krefst þess að eignir séu teknar af eigendum og útdeilt aftur af „réttlæti". Hrói höttur virðist vera aðferðafræðin. Tökum af hinum ríku til að útdeila á meðal hinna fátæku - einhvern veginn þannig hljómar þessi söngur.
Íslenskur almenningur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Davíð Oddsson sé þeirra ótvíræði foringi. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sem hér gerðist við hrun bankanna hafi verið vondum mönnum að kenna - óreiðumönnum - alveg eins og Davíð Oddsson sagði í Kastljósi 7. október 2008. Þess vegna er réttlætanlegt að segja hvað sem er og koma fram með hvað sem er gagnvart þessum vondu mönnum. Vondur mennirnir eru þeir sömu og Davíð Oddsson sagði okkur alltaf að væru vondir.
Íslenskur almenningur ætlar ekki að læra neitt á því sem gerðist þennan síðasta áratug á Íslandi. Hann ætlar ekki að líta neitt í eigin barm. Ætlar ekki að endurskoða eitt eða neitt. Hann ætlar að kenna vondu mönnunum um. Sjá til þess að gera þá eignalausa og helst að loka þá á bak við lás og slá. Þannig eigum við öll að fá uppreisn æru og allir að lifa hamingjusamir eftir það.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli