Mig hefur alltaf langað til að birta þessa kynningu einhvers staðar og ætla að leyfa mér það nú þegar hleypt hefur verið af stokkunum félagsskap utan um þá hugmynd að gera Haga að samvinnufélagi. Að sú hugmynd komi upp kemur mér ekki á óvart en um leið hryggir hún mig. Það hryggir mig að stjórnmálin á Íslandi séu enn svo föst í fjötrum fortíðar að flokkunum detti ekki annað í hug en horfa til fortíðar eftir sérstöðu sinni. Af fortíðinni má margt læra og það eigum við að gera en við eigum að gera það vel upplýst. Við eigum ekki að endurtaka söguna heldur nýta hana til að læra af henni.
Þess verður að geta að þetta er 20 mínútna langur fyrirlestur og því varla birtingarhæft sem texti á bloggsíðu en ég leyfi mér það samt. Langar til að þetta sé til aðgengilegt einhvers staðar ef einhver skildi hafa gaman af.
---------------------------------------------------------------------------------
Fyrirlestur um samvinnuhreyfinguna í Bretlandi fluttur á Bifröst 5. apríl 2003:
Við erum hér saman komin í dag til að ræða Samvinnufélög í ýmsu samhengi, þróun þeirra og stöðu í mismunandi löndum. Ég er viss um einhverjir hér úti bregðast hvumsa við og hugsa með sér eru samvinnufélög og samvinnuhreyfing ekki úrelt fyrirbrigði? Þekkir til að mynda unga kynslóðin sem er koma inn á vinnumarkaðinn hvað samvinnufélag þýðir eða hvað samvinnuhreyfing stendur fyrir? Vitum við það sem erum hér saman komin í dag? Á þetta fyrirbrigði eitthvað erindi við okkur sem erum komin fram á 21. öldina? Hver er skilgreiningin fyrir samvinnufélag, fyrir hvað stendur hugmyndafræðin?
Allt voru þetta spurningar sem ég lagði fyrir sjálfa mig áður en ég lagði út í þetta verkefni. Sjálf er ég alin upp við anda Samvinnustefnunnar hér hinum megin við heiðina. Föðurbróðir minn Jónas R. Jónsson var lengi í stjórn Sambandsins. Samvinnuhugsjónin var mjög sterk hjá honum og fjölskyldu hans. Ég man til að mynda að dóttir hans, frænka mín sagði mér einhvern tíma að hún verslaði að sjálfsögðu bensín hjá ESSO, annað kom ekki til greina, þó hún væri við það að verða bensínlaus og SHELL stöðin væri í næsta nágrenni kom henni ekki til hugar að stoppa þar!
Þó ég hafi alist upp á sama stað var þessi hugsun mér framandi. Þó faðir minn hafi alltaf verið og sé enn gallharður Framsóknarmaður þá var hann aldrei sérstakur "samvinnumaður" eða ég man ekki til þess. Ég vandist því þó að sjálfsögðu að Sambandið var mjög stórt í sniðum í atvinnulífi landsmanna og það hvarflaði ekki annað að mér en þannig yrði það alltaf. Þegar ég hóf atvinnuleit í Reykjavík á yngri árum leitaði ég annars vegar til starfsmannastjóra Sambandsins og hins vegar til starfsmannastjóra Flugleiða. Þetta voru "blokkirnar" í viðskiptalífinu á þessum tíma. Tilviljun ein réði því að ég endaði Flugleiðamegin.
Mér finnst við hæfi að hafa þennan formála að því sem hér fer á eftir. Þessi bakgrunnur minn orsakaði forvitni mína um þetta fyrirbrigði "samvinnufélög" og það var hans vegna sem ég leitaði eftir því að gera þetta verkefni. Mig langaði til að kynna mér hugmyndafræðina, söguna að baki því umhverfi sem ég ólst upp í.
Það kom vel á vondan að ég fékk það hlutverk að fjalla um samvinnuhreyfinguna í Bretlandi, en eins og við flest vitum sem hér erum liggja rætur samvinnuhugsjónarinnar þar, þó vissulega vilji Íslendingar meina að þeir hafi verið á undan Bretum að stofna fyrsta kaupfélagið.
Ég geri ráð fyrir að flest ykkar sem hér eruð þekkið söguna um upphaf samvinnuhreyfingar í Bretlandi betur en ég og ætla því ekki að þreyta ykkur með því að tíunda hana frekar hér. Fyrir þau ykkar sem ekki þekkið hana bendi ég á að ná ykkur í eintak af skýrslunni sem verið er að gefa út, þar getið þið lesið um upphafið og þróun sögunnar fram eftir öldinni. Ég ætla að einhenda mér strax í stöðu þessarar hreyfingar í dag - hvar er staða breskrar samvinnuhreyfingar nú í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar?
Það fyrsta sem vakti athygli mína við gerð þessa verkefnis um Samvinnuhreyfinguna í Bretlandi er sú gríðarlega mikla umræða sem hefur átt sér stað í landinu um eignarhald. Á tímum Thatchers voru ríkisfyrirtækin einkavædd, lestarnar, gasið, vatnsveiturnar, síminn, nefndu það - það var einkavætt, enda er Thatcher í miklu uppáhaldi hjá vini vorum Hannesi Hólmsteini og ekki hægt annað að sjá en hún sé helsta fyrirmynd þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, eða höfum við ekki öll verið vitni af þeirri umræðu hér að allt bjargist við einkavæðingu?
Í ljósi þessa er sérlega áhugavert að velta fyrir sér - eru þá ekki allir Bretar sérdeilis ánægðir núna? Eru þeir ekki allir glaðir og ánægðir með ríkisfyrirtækin sín sem nú hafa verið einkavædd og umræðan þar með úr sögunni? Er ekki hinn eini sanni sannleikur kominn til að vera og Bretar þá snúið sér að annarri umræðu?
Aldeilis ekki umræðan um eignarhald virðist engan endi ætla að taka og enn deila Bretar um þetta atriði. Af þeirri umræðu sem ég komst í tæri við mátti ekki marka annað en margir Bretar væru fullkomlega ósáttir við einkavæðingu ríkisfyrirtækjanna og það sem meira er gagnrýni þeirra hljómaði vægast sagt kunnuglega í mín eyru. Þeir kvarta undan að þessi fyrirtæki séu einokunarfyrirtæki á markaði, samkeppni sé engin og því sé það eina sem almenninur uppsker við einkavæðinguna dýrari þjónusta. Hver vill það? Hvernær sækist almenningur sértaklega eftir því að FÁ AÐ greiða þjónustu sem þeir geta ekki án verið hærra verði?
Þeir kvarta undan því að þessi fyrirtæki hafi hámörkun hagnaðar fyrst og fremst að leiðarljósi en gleymi því sem hljóti alltaf að vera aðalatriði fyrirtækja í þjónustu við almenning, nefnilega þjónustan sjálf. Markmiðið um að veita neytendum bestu mögulegu þjónustu hafi orðið að víkja fyrir markmiðinu um hámörkun hagnaðar. Sérstaklega varð ég vör við þessa umræðu hvað varðar lestarkerfið í Bretlandi. Þar er ekki að sjá að einkavæðingin hafi leyst neinn vanda því, óánægjuraddirnar eru enn jafn háværar og áður jafnvel háværari. Talað er um að einblínt sé á að halda kostnaði niðri, á kostnað öryggis farþeganna. Þannig má lesa margar greinar þar sem ónógu viðhaldi er kennt um slys sem orðið hafa á undanförnum árum.
En hvað hefur þessi umræða að gera í umfjöllun um samvinnuhreyfinguna í Bretlandi, er ég að ganga að göflunum eða hvað gengur mér til? Jú þá er ég loksins komin að kjarna málsins - þess hver umræðan er á meðal samvinnumanna í Bretlandi í dag. Samvinnumenn í Bretlandi hafa komið fram með nýjan vinkil í umræðuna um "einka" versus "ríki". Vinkil sem kom mér sem Íslendingi algjörlega á óvart og ég hugsaði oft með mér "af hverju í ósköpunum hefur þessi umræða ekki náð hingað"? Þó ekki væri til annars en lífga aðeins upp á þessa annars óendanlegu, óleysanlegu umræðu um svart og hvítt! Það er óneitanlega mun skemmtilegra að hafa fleiri litbrigði, eða hvað finnst ykkur?
Samvinnumenn í Bretlandi vilja meina að þriðja formið sé til og hafi verið lengi nefnilega samvinnufélagaformið! Samvinnumenn Bretlands hafa fundið sér stað í þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið um einkavæðinguna og lausnin þeirra er ekkert minna en "samvinnufélagavæðing"! Það sem meira er - þeir færa rök fyrir því að samvinnufélagaformið sé "þriðja leiðin" svokallaða, leiðin sem Tony Blair forsætisráðherra er hvað þekktastur fyrir! Því verður ekki haldið fram hér að allir séu sammála þessari túlkun samvinnumanna, en það breytir ekki því að þetta er það sem þeir halda fram þessa dagana. Umræðan er vissulega allrar athygli verð og bara gaman að velta henni upp. Kannski er eitthvað í henni sem getur gagnast okkur Íslendingum, NÚNA þegar öll vandamál á að leysa með einkavæðingu. Hver veit?
En hver eru rök þessara manna fyrir því að "samvinnufélagavæða" eigi einkafyrirtæki sem áður voru ríkisfyrirtæki? Rökin fyrir einkavæðingunni á sínum tíma voru þau helst;
- að auðvelda ætti fyrirtækjunum aðgang að fjármagni
- að nýta ætti fjármagnsmarkaðinn til að ná fram aukinni afkastagetu
- að gera stjórnendur ábyrgari og að geta greitt þeim hærri laun með það að markmiði að örva þá til betri verka
- að veita almenningi tækifæri til að gerast hluthafar í þessum fyrirtækjum sem eru fyrst og fremst í þjónustu við þá
- og að síðustu að örva fjárfestingu og sparnað á meðal almennings
- að fjármagn hafi einfaldlega reynst þessum fyrirtækjum of dýrt, t.d. sé almennt viðurkennt að fjármagn sé of dýrt til að fjárfesta í vatnsveitum.
- Að fjármagnsmarkaðurinn hafi einfaldlega reynst ófær um að auka afkastagetu þessara fyrirtækja sbr. vandræði lestarfyrirtækjanna.
- Það að verðlauna stjórnendur með hærri launum hafi kostað ómælda óánægju almennings.
- Að síðustu - að markmiðið um dreifða eignaraðild almennings hafi í raun þýtt eignaraðild fárra sterkra hluthafa sem hafi eignast meirihluta.
Hvað segið þið - hljómar þessi umræða kunnuglega? Það verður að segjast eins og er að þessi umræða er skemmtileg og margt sem vekur áhuga að skoða hana frekar. Getur verið að það sé raunverulega eftirsóknarvert að stofna samvinnufélag um rekstur Símans? Um rekstur Heilsugæslunnar? Um rekstur vítt og breitt á heilbrigðissviði? Um rekstur leikskóla og/eða skóla? Getur verið að samvinnufélagaformið eigi sér lífdaga sem arftaki "ríkisrekstrar"? Getur þetta gamla félagaform átt eftir að leysa endalausar deilur okkar um "einka" versus "ríki"?
Hér verður ekki fullyrt eitt eða neitt um það. Það verður að taka skýrt fram að enn eru þetta meira og minna hugmyndir. Hugmyndir sem settar eru fram en eftir er að útfæra og reyna hvort gangi upp. Eitthvað eru Bretar þó farnir að þreifa fyrir sér á þessu sviði, þannig hafa öldrunarheimili og þjónustustofnanir fyrir aldraða verið stofnuð undir samvinnufélagaforminu.
Nú nýlega lagði Pauline Green framkvæmdstjóri Sambandsins í Bretlandi fram áskorun fyrir Heilbrigðisnefnd breska þingsins um frekari útfærslu þessarar hugmyndar með því að taka skrefið og breyta tilteknum heilsugæslustöðvum og spítölum í eigu ríkisins í stofnanir í eigu íbúanna. Frumvarp var lagt fyrir breska þingið um að taka skref í átt að þessari breytingu og var það samþykkt í neðri deild breska þingsins í gær. Eins og ég skil þetta þá er ekki verið að tala um eiginleg samvinnufélög, heldur að færa eignarhald þessara stofnana undir sveitarfélögin. Umræðan um þessi mál í Bretlandi er ekki alltaf skýr og stundum erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvers konar form á eignarhaldi er átt við. Samvinnuhreyfingin þar virðist styðja og vinna að breytingum á eignarhaldi í ýmsu öðru formi en nákvæmlega samvinnufélagsformi.
Eins og sjá má af þessu öllu virðist mega draga þá ályktun að hugmyndafræði Samvinnufélagaformsins í Bretlandi gangi nú í gegnum endurnýjun lífdaga. Hvað síðan verður um þessar hugmyndir getur tíminn einn leitt í ljós.
En hvað með hreyfinguna sjálfa, hreyfinguna sem varð til með stofnun fyrsta kaupfélagsins í Rochdale í desember 1844? Hver er staða hennar nú? Allt sem hér hefur verið sagt er runnið úr smiðju manna sem aðhyllst hafa samvinnuhugsjónina. Gömlu neytendafélögin í Bretlandi, kjarni samvinnuhreyfingarinnar þar frá upphafi eru ekki svipur hjá sjón í dag hjá því sem þau voru um miðja síðustu öld. Sú staðreynd hefur einmitt orðið til þess að blása lífi í glæðurnar.
Í byrjun árs 2000 fóru nokkrir forsvarsmenn hreyfingarinnar fram á það við Tony Blair forsætisráðherra að hann veitti stuðning við skipan nefndar til að fara ofan í starfsemi hreyfingarinnar og hvernig færa mætti hana til nútímans. Í bréfi sínu til ráðherrans höfðuðu þeir til þeirra tengsla sem ávallt hafa verið til staðar á milli hugsjóna og starfsemi Verkamannaflokksins annars vegar og Samvinnuhreyfingarinnar í Bretlandi hins vegar.
Svo gripið sé niður í bréf þeirra, með leyfi fundarstjóra; "Verkalýðshreyfingin í Bretlandi hefur þrjá vængi: Verkamannaflokkinn, verkalýðsfélögin og samvinnuhreyfinguna. Allir þessir aðilar eiga þau sameiginlegu markmið að auka skilvirkni efnahagslífsins og félagslegt réttlæti... Í 150 ár hefur samvinnuhreyfingin leitast við að veita neytendum hágæða og siðferðislega æskilega þjónustu og leitast við að taka þátt í þeim nærsamfélögum sem hún er hluti af ... Á nýrri öld teljum við að hún þurfi að endurskoða makmið sín og skipulag til þess að fullnægja sögulegum markmiðum sínum og til að virkja samvinnumenn úr öllum röðum hreyfingarinnar. Hún þarf líka að virkja félaga verkalýðsfélaganna sem hafa sömu markmið og við og geta tekið þátt í að skilgreina glæsta framtíð samvinnuhreyfingarinnar með þekkingu sinni á viðskiptum og stjórnmálum".
Það er skemmst frá því að segja að forsætisráðherra Tony Blair tók áskoruninni og veitti hreyfingunni fjárhagslegan stuðning við skipan þessarar nefndar. Hann gerði ekki einungis það heldur tók hann mjög jákvætt í beiðni þeirra og veitti nefndarmönnum beinan stuðning með því að lýsa yfir sérstakri ánægju sinni með þessa hugmynd um að vinna að þróun samvinnufélaga í framtíð. Nefndin var skipuð og skýrslan kom út í byrjun árs 2001 undir kjörorðunum "Yfirburðir samvinnu - sköpum kraftmikla fjölskyldu samvinnufyrirtækja!"
Á kápunni má sjá þá hugmyndafræði sem nefndarmenn leggja til að Samvinnuhreyfingin byggi á til framtíðar. Félagsleg markmið tróna hæst, þau eiga að leiða af sér samkeppnisforskot sem aftur á að leiða til framúrskarandi fjárhagslegrar afkomu sem aftur á að gera hreyfingunni kleift að hafa félagsleg markmið að leiðarljósi.
Skýrslan er óumræðilega mikilvæg heimild um stöðu Samvinnuhreyfinginnar í Bretlandi í dag og það má greinilega merkja að útgáfa hennar hefur hleypt nýju blóði í umræðuna. Ekki síst hefur það haft áhrif að Tony Blair forsætisráðherra ritar aðfararorð að skýrslunni en þar segir hann m.a. með leyfi fundarstjóra "Ég trúi því... að það sé mikilvægt að samvinnuhreyfingin haldi áfram að vaxa og dafna á nýrri öld. Þau gildi sem hún byggir á - gildi eins og samfélagsleg ábyrgð og ábyrgð gagnvart nærsamfélögum - eru einnig gildi Verkamannaflokksins og þau eru jafn raunhæf í dag og þau hafa alltaf verið".
Með orðum sínum segir forsætisráðherra afdráttarlaust að samvinnuhreyfingin og sú hugmyndafræði sem hún byggir á og hugmyndafræði Verkamannaflokksins eigi samleið. Þið getið bara ímyndað ykkur hvort svo eindreginn stuðningur forsætisráðherra landsins hafi ekki haft áhrif. Enda er það svo að gríðarlegar breytingar hafa orðið á hreyfingunni kjölfarið og umræða um frekari þróun er í fullum gangi. Það sem sérstök ástæða er til að minnast á hér er sá sögulegi atburður að samtök neytendafélaga og starfsmannafélaga hafa loks verið sameinuð undir einum hatti. Þar með hefur loks verið brúað 100 ára bil milli starfsmanna- og neytendasamvinnufélaga svo notuð séu orð Pauline Green framkvæmdastjóra Breska Sambandsins.
Breska samvinnuhreyfingin á sér meira en 150 ára sögu og því er ljóst að henni verði ekki gerð full skil í 20 mínútna löngum fyrirlestri, því læt ég staðar numið hér. Það er ljóst af því sem hér hefur verið sagt að hugmyndafræði þeirra er á fullri ferð og þeir virðast langt frá því af baki dottnir. Fyrir mig sem áhugamann um þessa sögu þá er margt sem situr eftir, margar spurningar sem mig langar að fá svör við, margt sem þarfnast að mínu mati skilgreiningar við. Mig langar að velta þessum atriðum til ykkar og út í umræðuna.
Eftir ótrúlega mikinn lestur hinna ýmsu greina og bóka um Samvinnuhreyfinguna og útbreiðslu hennar brennur í fyrsta lagi á mér ein spurning. Eru samvinnufélög og útbreiðsla þeirra endilega í mótsögn við kapítalisma eins og við þekkjum hann? Þetta er atriði sem ég ólst upp við og enn er víða verið að hamra á en ég er hreint ekki svo sannfærð um að sé rétt.
Hvernig skilgreinum við kapítalisma? Er það ekki hugmyndafræði þar sem fjármagnið ræður gangi mála? Þar sem fjármagnið eitt og sér er drifkrafturinn? Þannig hef ég a.m.k. skilið hann.
Hvernig náði samvinnuhreyfingin í Bretlandi útbreiðslu, var það eitthvað annað en fjármagn sem þar réði för? Fram kemur í öllum bókum og gögnum sem ég hef komist yfir að drifkraftur útbreiðslu samvinnufélaga á sínum tíma var fyrst og fremst svokallað "divi" þ.e. úthlutun ágóða til félagsmanna eftir viðskiptum þeirra við félögin. Við getum rétt ímyndað okkur hvort það hefur ekki skipt máli fyrir bláfátæka verkamenn á 19. öld að geta verslað í "sínu" félagi og þar að auki fengið greitt sérstaklega fyrir það að versla þar.
Það fer ekkert á milli mála að þessi regla varð fyrst og fremst til þess hversu gríðarlegri útbreiðslu þetta félagaform náði í upphafi. Þá hlýt ég að spyrja ykkur, er þetta andstæða kapítalisma? Drifkrafturinn var fjármagnið, þó útdeiling þess væri í öðru formi en annars.
Þá get ég heldur ekki látið hjá líða að minnast á stóru neytendafélögin í Bretlandi í dag, eiga þessi félög eitthvað skylt við samvinnufélög eins og við skiljum þau? Höfum við á 21. öldinni eitthvað að gera með að byggja undir þann hluta hreyfingarinnar? Samvinnufélag þýðir fyrst og síðast - lýðræðislegt félag. Það er algjörlega skýrt í alþjóðlegri skilgreiningu samvinnufélaga og á jafnt við um Bretland að félag er einungis samvinnufélag ef því er lýðræðislega stjórnað af félagsmönnum sínum.
Þetta atriði á alls ekki við um stóru neytendafélögin í Bretandi ef marka má rannsóknir sem þar hafa verið gerðar. Í könnun sem gerð var á 16 breskum neytendasamvinnufélögum kom í ljós að af þeim 12 sem svöruðu var innan við 1% mæting félagsmanna á fundum hjá 75% þeirra.
Raunar þarf varla rannsóknar við við getum auðveldlega sagt okkur þetta sjálf. Getum við ímyndað okkur að í dag á árinu 2003 geti það verið sérstakt hugsjónastarf neytenda að vera aðili að verslun, án þess að eiga í henni fjármagn og krefjast ávöxtunar af því? Það að reka stórmarkað í dag á þeirri hugsjón einni að hafa fríkort, er varla nægilegt fyrir okkur í dag, er það? Hvað þýðir þetta ef grannt er skoðað? Er það í raun og veru rétt skilgreining, rétt umræða að tala um þessi félög sem samvinnufélög? Geta slík félög þar sem þátttaka félagsmanna er lítil eða engin kallast samvinnufélög? Ég varpa þessum spurningum út til ykkar og læt ykkur það eftir að svara þeim.
Annað verð ég að leyfa mér að nefna. Ég hef aldrei áður komist í kynni við nokkurn hlut sem jafnmikið af "jáefni" hefur verið skrifað um. Ég get alveg sagt ykkur það að ég kvaldist heilu dagana yfir því að liggja yfir "halelúja" skrifum samvinnumanna um það hversu frábær og stórkostleg þessi hugmyndafræði er, en því miður fann ég minna af rannsóknum, gagnrýni á því hvort og hvernig þessi hugmyndafræði væri í raun og veru að virka.
Getur verið að skortur á gagnrýnni hugsun skortur á "málsvara andskotans" hafi staðið þessari hugmyndafræði og hreyfingunni fyrir þrifum? Ég get ekki varist því að álykta sem svo. Með því er ég hreint ekki að segja að samvinnufélög eigi ekki rétt á sér, miklu fremur að það gerir engum gott að lifa í svo gagnrýnislausum heimi. Kannski á það stóran þátt í því hvaða stöðu hreyfingin er. Þannig hvarflar að manni að kannski hafi stærstu mistök upphaflegu hugmyndafræðinganna verið þau að leggja svo mikla áherslu á skóla tengdum fræðunum. Með þeirri miklu áherslu hafi skapast lokuð samfélög um þessa hugmyndafræði þar sem ekki var talin sérstök ástæða til að þróa og gagnrýna hugmyndafræðina í takt við tímann.
Ég veit að ég er örugglega að ögra mörgum ykkar hér. Það geri ég vegna þess að ég tel mikla þörf á því að hugtök hafi innihald, þau hafi skýra skírskotun í eitthvað sem þau standa fyrir. Samvinnufélag er slíkt hugtak - ef það er misnotað, notað yfir félög sem í raun og sann eru ekki samvinnufélog, félög sem er lýðræðislega stjórnað af félagsmönnum í einhverjum tilteknum tilgangi til hagsbóta fyrir viðkomandi félagsmenn þá sé ég ekki hvers vegna það á rétt á sér að kallast samvinnufélag. Það er ekkert sem styður það að samvinnufélag verði að eilífu samvinnufélag eingöngu vegna þess að það var stofnað fyrir 150 árum sem slíkt.
Vonandi hefur það sem hér hefur verið sagt orðið til að kveikja áhuga hjá einhverjum sem hér situr. Það skiptir máli að efla umræðu um þá hluti sem hafa haft áhrif á líf okkar, þær undirstöður sem líf okkar byggir á nú. Einmitt þess vegna er það mikið gleðiefni að ráðist var í vinnslu þessa verkefnis. Saga samvinnuhreyfingarinnar er merkileg saga merkilegra tíma í sögu þjóðarinnar. Það er svo sannarlega ástæða til að halda þeirri sögu á lofti. Ég mér enga aðra ósk en að þessi skýrsla verði til þess að opna og efla umræður um Samvinnuhreyfinguna sögu hennar og tengsl við þá tíma sem við lifum í í dag. Ég er sannfærð um að við getum margt lært af leiðarljósi stofnenda fyrsta kaupfélagsins í Rochdale "
...Leiðin til árangurs er oft sú að greina mistökin...!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli