sunnudagur, 21. febrúar 2010

Feðraveldið að ná vopnum sínum?

Eins og áður hefur komið fram ber ég hlýjar tilfinningar til uppvaxtarára minna og þess staðar þar sem ég er alin upp - sveitarinnar - Mela í Hrútafirði. Það er þó langur vegur þar frá að ég sjái þann tíma í hillingum - eða þær aðstæður sem foreldrar mínir bjuggu við. Ég ber virðingu fyrir þeim tíma en mig langar ekkert til að fara aftur til þess tíma því síður óska ég dóttur minni þess.

Ég hef áhyggjur af þeim dýrðarljóma sem mér sýnist að nútímafólk á Íslandi sé að búa til um þetta líf sem ég man svo vel eftir. Þetta daður nútímafólks við fortíðina fer óendanlega í taugarnar á mér og ekki bara það - ég beinlínis hræðist það. Ég hræðist að afturhaldsöflunum í íslensku samfélagi sé að takast að búa til einhvern dýrðarljóma um líf Íslendinga í sveitum sem á sér enga stoð og er uppspuni frá rótum. Ég óttast að feðraveldið sé að sigra og það með því að fá konur með sér í lið.

Tilefni þessara skrifa er frétt í ríkissjónvarpinu í kvöld um „árlegan taubleiumarkað". Taubleiur er eitt af því sem ég var svo blessunarlega laus við þegar ég ól dóttur mína upp en móðir mín notaði að sjálfsögðu fyrir þrjú yngri systkini mín enda bréfbleiur á þeim tíma dýr lúxus. Að heyra fjallað um þetta fyrirbæri - taubleiur - sem umhverfisvænt fyrirbrigði og þar af leiðandi eftirsóknarvert fyrir nútímafólk vekur með mér reiði og hneykslan.

Í sveitinni minni forðum komumst við ábyggilega nærri því að vera „sjálfbær" . Við gáfum hænunum kartöfluhýðið og eggjaskurnina - eftir að búið var að þurrka hana á eldavélarhellunni. Við gáfum hundinum matarafganga - aðallega þó kjötmeti ef ég man rétt. Mamma tók að sjálfsögðu slátur. Hún bakaði, hún saumaði, hún prjónaði. Hún var að allan daginn - alltaf. Hennar hlutverk var að halda heimilinu gangandi og það gerði hún svo sannarlega af myndarskap eins og flestar konur í sveitinni allt um kring. Það var svo sannarlega ekkert sældarlíf og þeirra líf var aldrei í forgrunni. Þeirra hlutverk var að sjá um okkur - börnin... og karlana. Fæða okkur og klæða.

Ætlum við aftur til þess tíma að framleiða okkar eigin matjurtir? Framleiða okkar eigin sultur og saft? Þvo taubleiur, hengja upp og brjóta saman?

Ætlum við aftur til þessa tíma? Eru lausnir á vanda dagsins í dag fólgnar í því að fara aftur til fortíðar? Er það framtíðarsýnin? Það er ekki framtíðarsýn mín og ég sé ástæðu til að segja það upphátt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...