þriðjudagur, 29. apríl 2003

Pólitík = trúarbrögð?

Í leiðara Morgunblaðsins 26. apríl síðastliðinn segir orðrétt m.a.;

“Málflutningur Halldórs Ásgrímssonar varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB á síðasta ári vakti upp spurningar um það hvort hann teldi sig geta náð til einhverra kjósenda Sjálfstæðisflokksins með þeim umræðum og þá ekki sízt í viðskiptalífinu.  Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar.  Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls.”  

Veltum aðeins fyrir okkur samhengi þessara orða.  

Fimmtudaginn 3ja apríl síðastliðinn birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu þar sem ég talaði um “andlegan dauða pólitíkur á Íslandi”.  Tilefni þeirra greinaskrifa var það að ég kallaði eftir skýrum línum í pólitíkinni á Íslandi.  Ég kallaði eftir því að fá að taka afstöðu til stóru pólitísku málanna eins og aðildar að Evrópusambandinu.  Fyrir mér sem hef tekið þátt í hringiðu íslensks viðskiptalífs í bráðum tuttugu ár blasir það einhvern veginn við að aðild að Evrópusambandinu sé eitt þeirra mála sem íslenskir kjósendur þurfa að ræða.  Um daginn tók ég þátt í fundi Evrópusamtakanna þar sem skorað var á forsvarsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins í pallborðsumræður um Evrópumál.  Fyrir mér var það algjört grundvallaratriði að mæta á þennan fund þar sem ég hafði lengi beðið eftir nákvæmlega þessu – að fá tækifæri til að hlusta á forsvarsmenn LÍU og Samtaka bænda koma fram opinberlega með afstöðu sína til þessara mála og hlusta á rök þeirra sömu fyrir þeirra afstöðu.  Ég fékk oftar en einu sinni gæsahúð á þessum fundi, ekki vegna þess að hann væri í sjálfu sér svo stórkostlegur heldur miklu fremur vegna þess að það var svo gaman.  Umræðan kom blóðinu á hreyfingu og hjartað tók að slá hraðar þar sem ég var loksins að upplifa það að menn þurftu að færa rök fyrir máli sínu opinberlega.  Forsvarsmenn LÍU þurftu þarna að leggja á borðið sín ómálefnalegu rök um að með aðild myndum við Íslendingar “missa sjálfstæðið”.  Það er ótrúlegt hvað þessi stóru og sterku hagsmunasamtök ætla lengi að berjast eins og rjúpa við staurinn við að þagga niður umræðu um framþróun Íslands í samfélagi þjóðanna.  Þessi fundur færði mér heim sanninn um það enn og aftur að frumkvæði að skemmtilegum, gagnlegum og nauðsynlegum umræðum í pólitík  kemur ekki frá stjórnmálaflokkunum heldur einhverjum öðrum.  Hvers vegna skyldi það vera?  

Þá kem ég að því sem tekið er úr Morgunblaðinu í upphafi þessarar greinar.  Það hlýtur að vera okkur öllum – kjósendum í þessu landi sérstakt umhugsunarefni það sem þarna stendur.  “Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar.  Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls.”  Um daginn fór ég með föður mínum á kosningahátíð hjá Framsóknarflokknum.  Þar sagði Björn Ingi Hrafnsson frambjóðandi flokksins mér það sama.  Hann vitnaði til þess að Styrmir Gunnarsson hefði sagt við Jón Baldvin á sínum tíma, að sá síðarnefndi skyldi ekki láta sig dreyma um að hann fengi stuðning atvinnulífsins við hugmyndir sínar þegar kæmi að kosningum þó þeir tækju undir með honum annars, það væri einfaldlega þannig að forystumenn atvinnulífsins kysu Sjálfstæðisflokkinn, hefðu gert það og myndu gera það!!!  (Það skal sérstaklega tekið fram hér að ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er rétt haft eftir eða hvort vitnað er í rétta einstaklinga, enda ekki aðalatriði málsins).  

Ég hlýt að spyrja - er þetta eðlilegt ástand á tuttugustu og fyrstu öldinni?  Er það eðlilegt að menn eins og t.d. Steinn Logi Björnsson forsvarsmaður í ferðaþjónustunni komi fram og gagnrýni harðlega það umhverfi sem ferðaþjónustan býr við, og á þar við gengi íslensku krónunnar, en á sama tíma vilji hann ekki segja það beint til hvers hann ætlast af stjórnvöldum?  Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hann vildi hreyfa við umræðu um upptöku evrunnar hér á landi en að hann neitaði alfarið að segja það beint að hann vildi að við ræddum aðild að Evrópusambandinu.  Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins var á fyrrgreindum fundi Evrópusamtakanna og lýsti þar þeirri eindregnu skoðun samtakanna að Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu.  Rök hans voru ósköp einfaldlega íslenska krónan.  Til að íslensku fyrirtækin geti staðið jafnfætis í samkeppni á alþjóðlegum markaði þurfa þau einfaldlega á meiri stöðugleika að halda, íslenska krónan hefur ekki verið stöðug síðustu misserin eða hvað?  Hann tók sem dæmi rök Dana fyrir aðild að Efnahagsbandalaginu á sínum tíma.  Þau hafi einfaldlega verið þau að danskir svínabændur hafi séð hag sínum best borgið með því að gerast aðilar.  Málið var ekkert flóknara fyrir Dani í upphafi.  

Í framhaldi af þessu fer ekki hjá því að ég spyrji sjálfa mig – hvaða flokk skyldi Sveinn Hannesson og skoðanabræður hans hjá Samtökum iðnaðarins styðja?  Styðja þeir flestir Sjálfstæðisflokkinn?  Þann flokk sem staðfastlega hefur neitað því á liðnu kjörtímabili að aðild að Evrópusambandinu sé eitthvað sem þarf að ræða?  Nú getur vel verið að ég sé hér að upplýsa fávisku mína, að það sé opinbert og flestir viti hvaða flokk Sveinn Hannesson og kollegar hans í Samtökum iðnaðarins styðja en ég er óhrædd að opinbera þá fávisku mína.  Svarið er augljóslega mjög áhugavert fyrir mig sem kjósanda sem skilur ekki hvernig í ósköpunum íslensk pólitík er alltaf svona vitlaus eins og hún er.  Ég get ekki skilið hvernig það má vera að sterkir og annars skynsamir stjórnendur fyrirtækja hér á landi í alþjóðlegri samkeppni geta bara kosið Sjálfstæðisflokkinn yfir sig kjörtímabil eftir kjörtímabil án þess nokkurn tíma að gera virkilegar kröfur til þess flokks að ræða þau stóru hagsmunamál sem brenna á þeim á hverjum einasta degi í þeirra rekstri!  Getið þið svarað mér því einhverjir ykkar?  Hvað gengur mönnum til að styðja flokk sem er í grundvallaratriðum helsta hindrunin fyrir því að Íslendingar nái einhverjum árangri að ræða þetta mál af einhverju viti?  Hversu mikil áhrif ætli gengi íslensku krónunnar hafi haft á endanlega afkomu þeirra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands síðustu 3 árin?  Hefur gengi krónunnar ekki haft miklu meira að segja um hagnað og tap margra skráðra fyrirtækja hér á landi  heldur en nokkurn tíma raunveruleg rekstrarafkoma þeirra?  Hvernig stendur á því að þið atvinnurekendur þessa lands sem hafið hagsmuni að því að Ísland taki upp evru standið ykkur ekki betur í því að ýta því máli af stað?  Getur það verið að það að þið kjósið flestir Sjálfstæðisflokkinn eigi meira skylt við trúarbrögð en raunverulega pólitík?

Ég hlýt að leita eftir svari og skil þessar spurningar eftir opnar.  Ég leyfi mér að vona að einhverjir stjórnendur villist hér inn á kreml.is og sjái þessa grein því áhugi minn á því að fá svar, þó ekki væri nema frá einum brennur á mér og ég bíð spennt… !

Signý Sigurðardóttir
Áhugamaður um að pólitísk umræða landans fari að taka mið af nýrri öld.

                                                                        Birt á pallborði www.kreml.is 


miðvikudagur, 23. apríl 2003

Konur gegn konum?

Það verður ekki á kyn mitt logið, þegar á hólminn skulu konur ekki standa saman og styðja hver aðra, nei þá er nú betra að rífa augun hver úr annarri augun og hlífa engu.  Aldrei eru þær grimmari en einmitt þá þegar þær telja ástæðu til að ráðast á kynsystur sínar.  Mikið lifandis skelfing væri nú gaman að lifa ef þessar sömu konur gætu sýnt viðlíka ákafa í annarri pólitík!  Mikið lifandis skelfing væri nú gaman að lifa ef stuðningskonur Sjálfstæðisflokksins væru eins kraftmiklar að berjast fyrir frama síns kyns innan eigin flokks! 

Í Morgunblaðinu í dag er að finna ótrúlega lesningu svo ekki sé meira sagt.  Í tveimur opnum með aðsendum greinum eru 4 greinar þar sem konur ráðast sérstaklega að auglýsingum og málflutningi Samfylkingarinnar þar sem Ingibjörg Sólrún er höfð í forsæti.  Hver láir Samfylkingunni það að hún tefli fram þessum hæfileikaríka fulltrúa sínum?  Hvað er óeðlilegt við það að Samfylkingin ýti undir þær tilfinningar í brjósti kjósenda að þeir noti tækifærið sem nú gefst til breytinga með því að kjósa hæfileikaríka konu – Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur?  Hefur Samfylkingin haldið því fram að kjósendur styðji hana einungis vegna þess að hún er kona?  Hver heldur því fram að kjósa skuli Ingibjörgu Sólrúnu einungis vegna þess að hún er kona?  Er það ekki miklu fremur svo að Samfylkingin er að benda kjósendum á að þeir hafi nú tækifæri til að brjóta blað í sögunni?  Þeir hafa tækifæri til að kjósa hæfileikaríka, sterka, konu sem forsætisráðherra.  Er ekki fyllsta ástæða til að benda kjósendum á það og er það ekki freistandi tækifæri?

Ég satt að segja skil ekki, hef aldrei getað skilið og mun aldrei geta skilið hvernig konur geta haldið því fram að þær séu jafnréttissinnar og kjósi Sjálfstæðisflokkinn.  Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert til að ýta undir jafnrétti ef litið er á söguna?  Hvar halda konur sem styðja þennan flokk að við konur værum almennt staddar í samfélaginu í dag ef við hefðum treyst þeim flokki fyrir jafnréttisþróuninni?  Ég spyr þessar konur allar saman;  Þorbjörgu Vigfúsdóttur, Björgu Einarsdóttur, Jónínu Bjartmarz og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur – hvar haldið þið að við værum staddar í dag ef ekki hefði verið til “Kvennaframboð” og síðar “Kvennalisti”?  Haldið þið að sú staða sem við erum í dag hafi náðst fram baráttulaust?  Haldið þið að nú séum við komin á þann stað í sögunni að “jafnréttisbaráttunni” sem slíkri sé lokið?  Að ekki sé þörf fyrir hana meir?  Haldið þið virkilega og nú spyr ég með sérstökum eldmóð -  haldið þið virkilega að konur standi jafnfætis körlum þegar kemur að því að “hæfni” þeirra í stöður sé metin?  Haldið þið að nú séum við komin á þann stað í sögunni þar sem konur og karlar standa jafnfætis yfirleitt?  

Allar sem ein tala þessar konur um að það sé “sérstök móðgun og lítilsvirðing” við kjósendur að höfða til þess að kjósa skuli Ingibjörgu Sólrúnu vegna þess að hún er kona.  Hvað segja þessar konur um alla þá karla sem teknir hafa verið fram yfir konur við ráðningar í gegnum tíðina vegna þess að þeir hafa verið karlar, hefur slík hegðun ekki verið “móðgun og lítilsvirðing” við okkur mannfólkið yfirleitt?  Eða er það svo að þegar karlar eru teknir fram yfir konur þá er það sökum “meiri hæfni” en þegar konur eru settar á stall sem foringjar vegna þess að þær eru frambærilegar og sterkar konur, þá er það einungis vegna þess að þær eru konur?

Já ég skal alveg játa það, ég er reið, ég er öskureið yfir þeirri lítilsvirðingu sem kynsystur mínar sýna mjög svo hæfileikaríkri konu og frambærilegum foringja, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er.  Það kemur svo sem ekki á óvart að þessi málflutningur skuli koma úr röðum kvenna.  Konur hafa jafnan átt í erfiðleikum með að styðja aðrar konur til forystu.  “Konur eru konum verstar” stendur einhvers staðar og verður því miður að viðurkennast að mikið er til í.  

Ég get svo sannarlega tekið undir að það er tími til kominn að breyta jafnréttisbaráttunni.  Það er tími til kominn að virkja karla til liðs við okkur og enginn yrði glaðari en ég ef að konur hentu “fórnarlambaumræðunni” á haugana.  Það er kominn tími til að efla og virkja jafnréttisumræðuna á nýjum og breyttum forsendum.  Það er allt annað mál en sitja undir því og þar með samþykkja það að konur rífi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sérstaklega í sig vegna þess að hún er kona.  Það er nákvæmlega þannig sem ég horfi á þessi greinaskrif í Morgunblaðsinu í dag.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er kona og hún er hæfileikaríkur og sterkur foringi sem á allt annað skilið af kynsystrum sínum en að á hana sér ráðist eingöngu vegna þess að hún er af sama kyni og þær.    

                                                                    Birt á pallborði www.kreml.is 23. apr. 2003


þriðjudagur, 22. apríl 2003

Dylgjur hverra - gagnvart hverjum?

Enn og aftur verður maður orðlaus á því að fylgjast með umræðunni? Hvernig geta menn orðið svo blindir á sína eins og sjálfstæðismenn eru nú á forystumann sinn?  Er það virkilega svo að þeir hafa ekki séð eða heyrt framkomu hans æ ofan í æ undanfarin misseri? Er það svo að þegar maður er hrifin af tilteknum einstaklingi þá hreinlega loki maður augum og eyrum og sjái bara það sem maður vill sjá? 

Undanfarna viku hef ég fylgst með hverjum sjálfstæðismanninum á fætur öðrum, fara mikinn í gagnrýni sinni á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna ræðu hennar í Borgarnesi. Allir sem einn hafa þessir einstaklingar talað um órökstuddar dylgjur umtalaðs forystumanns Samfylkingarinnar. Bæði Þorgerður Katrín í Kastljósi fyrr í vikunni og Guðlaugur Þór í útvarpsþættinum Í vikulokin í morgun töluðu um þá málefnasnauðu pólitík sem Ingibjörg Sólrún stæði fyrir og bæði hneyksluðust mjög á þeim órökstuddu dylgjum sem hún hefði lagt upp með í umræðunni.  Í Morgunblaðinu í dag bætir Guðlaugur Þór um betur og líkir aðferðafræði Ingibjargar Sólrúnar við aðferðafræði Jónasar frá Hriflu fyrir 50 árum og segir m.a. “Tilgangur þessarar aðferðafræði er að ata mótherja sína pólitískum auri til að bægja augum og eyrum kjósenda frá eigin málefnafátækt og pólitísku getuleysi.  Meðalið er rógur, rangfærslur og dylgjur um andstæðinga sína.”´ 

Undarlegt er það en fleirum en Guðlaugi Þór hefur dottið Jónas frá Hriflu í hug undanfarin misseri en í öðru samhengi þó.  Þannig hefur það oft hvarflað að mér undanfarin tvö ár hvort það geti verið að Davíð nokkur Oddsson sé líkur Jónasi Jónssyni frá Hriflu.  Það leynist engum sem eitthvað hafa lesið um þann mann að hann virðist hafa átt erfitt með að þola andstæðar skoðanir. Davíð Oddsson hefur komið mér fyrir sjónir undanfarin misseri sem maður af nákvæmlega sama toga.  Maður sem ekki þolir andstæðar skoðanir og hikar ekki við að láta það í ljósi hvar og hvenær sem honum dettur í hug.  Maður sem hikar ekki við að gera lítið úr öðrum og talar af hroka og mikillæti til þeirra þegna sem ekki eru sammála honum í öllu.  Eigum við að rifja þetta aðeins upp?  

Á árinu 2001 var verðbólgan komin á fulla ferð, ég sem íslenskur þegn hafði miklar áhyggjur af því þegar afborganir vísitölutryggðra lána minna fóru sífellt hækkandi.  Mér leið illa vegna þessa, þetta ástand skapaði óöryggi og vanlíðan því ég mundi vel hvað verðbólga stóð fyrir og ég gat fátt hugsað mér verra en endurtöku slíkra tíma.  Hvað hafði forsætisráðherra Davíð Oddsson að bjóða mér sem þegn þessa lands á þessum tíma? Hvað hafði hann að segja til að skapa traust á því að það væri ekkert að óttast?  Nákvæmlega ekki neitt!  Davíð Oddsson gerði eitt á þessum tíma, hann gerði lítið úr þeim röddum sem höfðu áhyggjur af stöðu mála. Hann sýndi almenningi sem hafði raunverulegar áhyggjur af stöðu mála fullkomið skilningsleysi og hroka. Þegar Þjóðhagsstofnun spáði öðruvísi fyrir um verðbólguþróun en honum þóknaðist var stofnunin einfaldlega lögð niður!  Hverjir voru það sem tóku málið alvarlega?  Hverjir voru það sem sneru þróuninni við?  Voru það stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson sem forsætisráðherra þjóðarinnar?  Ég man ekki til þess.  Ég man ekki betur en það hafi verið atvinnurekendur og launþegasamtök sem tóku málið upp á sína arma, og sneru þróuninni við.  Hvernig var það þegar dómur féll í Öryrkjamálinu svokallaða?  Hver voru viðbrögð stjórnvalda við þeim dómi?  Voru ráðstafanir forsætisráðherra þjóðarinnar Davíðs Oddssonar þá sérstaklega til þess fallnar að skapa traust okkar þegnanna?  Var það réttlátt og til þess fallið að skapa traust að skipa stórpólitíska nefnd til að túlka dóminn?  Var það réttlátt og til þess fallið að skapa traust að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson, mann sem látið hafði í ljós efasemdir sínar um dóminn opinberlega, sem formann þeirrar nefndar?  

Hvað með ummæli forsætisráðherra til umbjóðenda Mæðrastyrksnefndar?  Hvað með ummæli forsætisráðherra um stjórnendur Baugs? Hvað með ummæli forsætisráðherra um fréttastofu Stöðvar 2?  Hvað með ummæli forsætisráðherra um tengsl Samfylkingar við Baug og Norðurljós? Hvað segja Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór um þessi ummæli hans? Falla þessi ummæli forsætisráðherra vor ekki undir dylgjur? Ef þau gera það ekki – undir hvað falla þau þá? 

Ég er ein þeirra sem má ekki til þess hugsa að Davíð Oddsson komist aftur til valda sem forsætisráðherra þjóðarinnar.  Ég fæ óbragð í munninn af tilhugsuninni einni saman.  Einmitt vegna þess hvernig ég sem íslenskur þegn hef upplifað hann.  Einmitt vegna þess virðingarleysis og hroka sem hann sýnir mér og öðrum sem ekki erum sammála honum í öllu. Ég hef sem íslenskur þegn æ ofan í æ undanfarin tvö ár fengið óbragð í munnin af einræðistilburðum Davíðs Oddssonar eins og þeir hafa komið mér fyrir sjónir. Ef Davíð Oddsson er sérstakur lýðræðissinni, ef hann er réttsýnn maður sem veitir öðrum stuðning þá tekst honum vel að leyna því gagnvart þeim þegnum sem eru honum ósammála.  Það eru þessir tilburðir sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að tala um í ræðu sinni í Borgarnesi og annars staðar. Það eru ekki dylgjur, rangfærslur eða órökstuddur rógur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er einfaldlega að tala opinskátt um mörg þau ummæli sem forsætisráðherra þjóðarinnar hefur látið hafa eftir sér á liðnu kjörtímabili, ummæli sem hafa ofboðið mörgum íslenskum þegnum, þar á meðal mörgum sjálfstæðismönnum.  Hún á heiður skilinn fyrir, því það þarf kjark til.  Það er ekki vandalaust að hreyfa við slíku og má mikið vera ef það snýst ekki upp í andhverfu sína, en það er þarft verk og nauðsynlegt í litlu ríki eins og Íslandi sem margir vilja meina að sé sérstök fyrirmynd annarra lýðræðisríkja en á að mínu mati oft meira skylt við einræðisríki eins og því hefur verið stjórnað síðustu misserin.  

Það mál er að mínu viti kosningamál, raunar mál málanna.  Lýðræði er ekki orð til að skreyta sig með á tyllidögum heldur hugtak sem er mikilvægast allra í heimi nútímans.  Það skiptir máli að forsætisráðherra þjóðarinnar virði lýðræðið í orði og á borði.  Að hann sýni áhuga á því að þjóðin ræði málefni sem ástæða er til að ræða um en sýni ekki tilburði í þá átt að þagga niður í umræðunni þegar hún hentar honum ekki. Að hann virði sjálfstæði Hæstaréttar hvort sem honum líkar niðurstöður hans eða ekki.  Að hann sýni löggjafanum virðingu en líti ekki á hana sem leiðinda fyrirstöðu til að koma málum sínum í gegn. Síðast en ekki síst á forsætisráðherra þjóðarinnar að sýna þegnum sínum þá virðingu að leyfa þeim að vera ósammála honum í hverju því máli sem uppi er á hverjum tíma.  Það er í raun grundvöllur lýðræðisins og það sem öllu máli skiptir – nú og um alla framtíð.   

Signý Sigurðardóttir

Höfundur hefur talið ástæðu til að skrifa greinar í kjölfar ýmissa orða og gjörða forsætisráðherra undanfarin misseri.  Sumar þeirra má finna hér á vefnum, aðrar hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir áður en eiga kannski erindi við okkur  nú, þegar menn virðast alveg búnir að gleyma því hvað Davíð Oddsson hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu.  

                                                                                Birt á pallborði www.kreml.is 22.apr. 2003


fimmtudagur, 10. apríl 2003

Íslenska þjóðin og og þjóðmálaumræðan

Grein birtist í "Viðskiptaviti" blaði háskólanema Háskólans í Reykjavík vorið 2003

Stendur þjóðernisstefna framþróun á Íslandi fyrir þrifum? Þessi spurning hefur oftar en ekki orðið mér tilefni til hugleiðinga. Þjóðerniskennd virðist okkur flestum í blóð borin og við erum afskaplega stolt af því að vera Íslendingar, sjálfstæð þjóð í þessu litla landi. Getur það verið að þessi sama þjóðerniskennd þvælist fyrir okkur í pólitíkri umræðu? Getur verið að við séum svo blinduð af því að vera sjálfstæð þjóð að við getum ekki tekið afstöðu til mála eingöngu þess vegna? Hér verður ekki fullyrt neitt um það en hér á eftir fara hugleiðingar mínar um þetta atriði.

Eins og ég hef upplifað þjóðmálaumræðuna um langa hríð þá hefur öruggasta leiðin til að þagga niður alla vitræna umræðu um málefni verið að setja viðkomandi mál í samhengi við orðið "þjóð" og íslenska þjóðin gengur af göflunum! Hver kannast ekki við umræðuna um EES samninginn á sínum tíma? Umræðan á meðal landans var fyrst og fremst á þeim nótum að með aðild að samningnum værum við að missa sjálfstæði okkar. Ég man ekki til þess að við almenningur, kjósendur í þessu landi höfum nokkurn tíma komist í tæri við vitræna umræðu á þeim tíma, hvað aðild að EES samningnum raunverulega þýddi. Umræðan var meira og minna í slagorðaformi um að með undirskrift værum við að ofurselja okkur valdhöfum í Brussel. Hvað hefur síðan komið á daginn? Í dag virðast flestir sammála um að EES-samningurinn hafi ekki fært okkur neitt annað en gott. Þannig hafa menn nú miklar áhyggjur af því ef ekki tekst að endurnýja samninginn vegna stækkunar Evrópusambandsins. Hræsluáróðurinn á sínum tíma um að íslenska þjóðin missti sjálfstæði sitt við það að gerast aðili að samningnum virðist því ekki hafa átt við rök að styðjast. Af hverju höfum við ekkert lært af þessu. Af hverju erum við enn með hræðsluáróður um að með aðild að Evrópusambandinu værum við að missa sjálfstæðið? Af hverju erum við sem höfum verið sjálfstæð þjóð í næstum 50 ár (eða öllu heldur í 85 ár frá 1918) enn svona óskaplega hrædd við að missa sjálfstæðið? Hvað með Eystrasaltslöndin eða nýstofnuð lýðveldi A-Evróppu, af hverju keppast allar þessar þjóðir við að gerast aðilar að Evrópusambandinu, af hverju er þessi hræðsla ekki fyrir hendi hjá þeim?

Á sínum tíma þegar við gerðumst aðilar að EES-samningnum voru um leið sett lög hér á landi sem kveða á um bann við erlendum fjárfestingum í íslenskum sjávarútvegi. EES-samningurinn kvað á um hið fræga fjórfrelsi þ.e. frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á milli landanna. Ísland fékk undanþágu frá meginreglunni hvað varðaði frjálst flæði fjármagns. Talið var nauðsynlegt að loka fyrir þann möguleika að útlendingar gætu keypt sig inn sjávarútveginn hér. Það er athyglisvert að lesa umræðuna á þessum tíma. Ekkert þarf að velkjast í vafa um að rökin fyrir lögunum voru fyrst og fremst hræðsla, hræðsla við að hleypa útlendingum að. Hefur þessi stefna örugglega skilað okkur árangri. Er það örugglega rétt stefna að láta stjórnast af hræðslu í þessu máli? Við sem fylgst höfum með umræðunni allar götur síðan höfum rekið okkur á að ekki má ljá máls á breytingum á þessu atriði, þá fer alltaf sami söngurinn af stað. Nefnilega sá að með því að opna fyrir beinar erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi séum við svo gott sem að selja landið! Þegar við horfum á þetta í samhengi, hvernig stendur þá á því að okkur finnst sjálfsagt að Íslendingar megi fjárfesta hvar í heiminum sem þeim sýnist og á það er litið sem hið besta mál. Engum virðist detta í hug að gagnrýna það. Hvernig má það vera að þetta geti verið bara á einn veginn? Er það bara besta mál að Íslendingar fái að fjárfesta hvar í heiminum sem þeim sýnist í hvaða atvinnuvegi sem þeim dettur í hug en á sama tíma er það nánast landráð að útlendingar fái að fjárfesta hér? Er þetta vegna þess að við erum svo góðir? Erum við svo miklu betur af guði gerðir Íslendingar að það er allt í lagi að við gerum það sem okkur sýnist en við verðum á sama tíma að hafa hömlur á öðrum sem gætu verið í sömu hugleiðingum og við? Hvernig stendur á því að um leið og hreyft er við því að opna fyrir beinar erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi er um leið sett af stað umræðan um að við það munum við Íslendingar missa sjálfstæði okkar? Getur það verið að ástæðan sé að með því er örugglega búið að koma umræðunni fyrir kattarnef og tryggja það að við málinu verði ekki hreyft meir.

Heldur hefur rofað til hvað varðar umræðu Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu, þó enn sé langt í land að allir séu sammála um að þetta málefni megi ræða opinskátt. Enn er það fyrst og fremst hræðsluáróður sem á að koma í veg fyrir að við ræðum þetta mál. Hræðsluáróður á þeim nótum að með aðild séum við að ofurselja sjálfstæði okkar útlendingum.


Eitt umdeildasta málefni síðari tíma hér á landi er kvótakerfið en meira að segja í því máli má greina eitthvað sem fallið getur undir þjóðerniskennd eða ást Íslandinga á þessu orði "þjóð", eða hver kannast ekki við orðfærið "sameign íslensku þjóðarinnar"? Hvað þýðir þetta hugtak "sameign íslensku þjóðarinnar"? Vissulega fallegt hugtak og hátíðlegt en hversu mörg okkar áttum okkur á því hvað þetta hugtak raunverulega þýðir? Hvað þýðir það að ég og þú og allir hinir Íslendingarnir 280.000 þúsund manns, eigum eigum einhverja tiltekna eign saman? Alþingi okkar Íslendinga er búið að skilgreina það, það gerðu þeir með setningu laga nr. 58 um þjóðlendur árið 1998. Með þeim lögum verður orðið "þjóðlenda" til og það skilgreint í 1. mgr. 2. gr. er skilgreint hver sé eigandi þjóðlendna en það íslenska ríkið. Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga segir ennfremur hver það er sem fer með málefni þjóðlendna en það er forsætisráðherra eða framkvæmdavaldið. Við setningu þessara laga varð því ljóst að þetta orðfæri "sameign íslensku þjóðarinnar" þýðir eftir allt saman ekkert annað en eign íslenska ríkisins! Hvernig hljómar það í eyrum okkar landsmanna? Þegar við höfum hlustað á endalausa umræðu um "sameign íslensku þjóðarinnar" höfum við haft í huga að þetta hugtak þýðir ekkert annað en "ríkiseign"? Getur verið að andstæðingar kvótans hafi verið þvílíkir áróðursmeistarar að þeir hafi uppgötvað mátt þessa hugtaks "sameign íslensku þjóðarinnar" og hafi með notkun þess fengið alla landsmenn meira og minna á sitt band án þess að þurfa nokkurn tíma að gera sömu þjóð ljóst hvað hugtakið í raun og veru þýðir? Eða hvað segið þið landsmenn? Hafið þið öll gert ykkur grein fyrir því að "sameign íslensku þjóðarinnar" þýðir ekkert annað en hið vel þekkta orð "ríkiseign"? Það verður að teljast merkilegt að þessi umræða hefur náð svo langt að nú er komin fram tillaga á Alþingi um að setja þetta hugtak í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins! Það er sem sagt komin fram tillaga um það að í íslensku stjórnarskrána komi sérstakt ákvæði um "þjóðareignarrétt". Því er verið að blanda orðinu þjóð inn í þetta samhengi? Af hverju gangast menn ekki við því hvað þeir eru að gera og tala um orðið "ríki" í stað þess að tala um orðið "þjóð"? Getur það verið að ástæðan sé sú að verið er að slá ryki í augu kjósenda? Eða hver getur ástæðan verið önnur? Það er hverjum og einum lögfræðingi ljóst að með þessu er verið að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um að íslenska ríkið slái eign sinni á allt sem sem ekki er skilgreint í einkaeignarrétti í nú þegar. Hvers vegna er þá verið að nota orðið þjóð - í stað þess að tala um orðið ríki? Ríki og þjóð eru ekki það sama, íslenska þjóðin er ekki það sama og íslenska ríkið - er það? Eins og þetta er sett upp af alþingismönnum og eins og umræðan er, mætti halda að svo væri en þegar að skilgreiningu kemur, er ljóst að svo er ekki. Íslenska þjóðin sem slík getur ekki átt eitt eða neitt saman án þess að það sé íslenska ríkið sem er skilgreindur eignaraðili að þeirri eign.


Hér hefur verið vaðið úr einu í annað en allt sem tekið er fyrir hér að ofan á það sameiginlegt að það snýst um þetta hugtak "íslensku þjóðina". Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé langt í land með að pólitísk umræða hér á landi sé þess eðlis að við kjósendur getum verið fær um að mynda okkur skoðanir á grundvallarmálefnum, einmitt vegna þess að þessi sömu grundvallarmálefni eru sett í eitthvað óskilgreint samhengi við orðið "þjóð" sem aftur verður til þess að samhengi hlutanna verður óskýrt. Mikið hefur verið talað um þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu málefni síðustu misserin. Í ljósi þess sem hér er til umræðu, hvernig í ósköpunum á þjóðin að vera þess bær að greiða atkvæði um hin ýmsu málefni? Grundvallarforsenda þess að það geti nokkurn tíma orðið hlýtur að vera að hlutirnir séu settir í rétt samhengi. Hvað varðar aðild að Evrópusambandinu, hvað varðar opnun á erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi og/eða orkufyrirtækjum, hvað varðar kvótakerfið og svo mætti lengi áfram telja. Grundvallarforsenda þess að við séum til þess bær að mynda okkur skoðanir á þessum málum hlýtur að vera að umræðan sé skýr um hvað það er sem skiptir máli.

Í framhaldi af því sem sett er fram hér að ofan er eðlilegt að spyrja eru erlend áhrif endilega af hinu vonda fyrir okkur Íslendinga ef grannt er skoðað? Hvar voru Íslendingar staddir fyrir síðari heimsstyrjöldina? Hvernig stendur á því að þeir sem þar voru uppi tala um "blessað stríðið". Hvað var það öðru fremur sem breytti lífskjörum okkar Íslendinga á síðustu öld annað en erlent fjármagn? Marshall aðstoð og erlendir peningar þeirra hermanna sem hér voru á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar? Er ekki kominn tími til að við horfumst í augu við að einmitt vegna erlends fjármagns erum við í þeirri stöðu sem við erum í dag?

Þá er ekki síður ástæða til að taka fyrir áhrif alþjóðasáttmála sem Íslendingar hafa undirritað á lagalegt umhverfi hér undanfarinn áratug. Eða hvað með mál Jóns Kristinssonar fyrir Mannréttindadómstólnum gegn íslenska ríkinu? Um það mál má með sanni segja að "lítil þúfa hafi velt þungu hlassi" því í kjölfarið á því máli kom til aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði 1992. Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir það að fyrir erlend áhrif voru Íslendingar nauðbeygðir til þess að skilja að annars vegar þá sem stóðu að rannsókn sakamála í héraði og þeirra sem dæmdu í sömu málum! Eitthvað sem manni finnst raunar svo morgunljóst að hljóti að vera eðlilegt, en einhverra hluta vegna þótti það nú samt ekki í þessu fagra landi okkar. Okkur fannst það eðlilegt allar götur fram á síðastliðinn áratug að það væru sömu menn sem rannsökuðu mál og sem síðan dæmdu í þeim. Í raun er allt of langt mál að fara ofan í það hér hversu gríðarlega mikil erlend áhrif hafa haft á íslenskt réttarfar síðastliðinn áratug, það er efni í sérstaka grein. Í mínum huga sem þegn þessa lands er ekki nokkur vafi á erlend áhrif hafa í langflestum ef ekki öllum tilfellum orðið til að bæta íslenskt réttarfar, bæta réttarstöðu okkar þegnanna gagnvart ríkisvaldinu.

Að öllu þessu sögðu má ljóst vera hver skoðun höfundar er á erlendum áhrifum. Ég tel erlend áhrif í öllum tilfellum vera okkur íslenskri þjóð til heilla. Ég er orðin langþreytt á stjórnmálamönnum sem hver um annan þveran keppast við að kaffæra öll stórmál sem ég vil taka afstöðu til með að setja þau í samhengi við ÍSLENSKA ÞJÓÐ með stórum stöfum og telja sig þar með fría sig því að þurfa að taka afstöðu til mála. Ég hef um langa hríð starfað í alþjóðlegu umhverfi og hef haft aðstöðu til að mynda mér skoðanir á samhengi hlutanna. Ég hef í starfi mínu ekki séð að ég hafi sérstaka ástæðu til að sjá Íslendinga sem fyrirmynd allra annarra þjóða nema síður sé. Ég er orðin hundleið á þjóðerniskennd landans og langar mikið að segja henni stríð á hendur! Ég get ekki séð að hún séð í henni nokkra skynsemi eða nokkra röksemdafærslu. Einhver áhugaverðasta lesning sem ég hef komist í undanfarin misseri snýst einmitt um þetta málefni sem ég tek hér til umræðu en hún heitir "Íslenska þjóðríkið" eftir Guðmund Hálfdánarson og kom út fyrir jólin 2001. Þessi bók færir rök fyrir þeim skoðunum sem hér eru ábyrgðarlaust settar fram og mæli ég með því að hver sem áhuga hefur á málefninu lesi hana og myndi sér skoðanir á því sem þar er sett fram.

Að síðustu áskorun til landa minna; Viljum við stjórnast af hræðslu næstu áratugi? Viljum við halda áfram á þeirri braut að pólitísk umræða snúist fyrst og fremst um eitthvað sem við getum ekki fest hönd á? Viljum við að umræðan sé föst í sama fari og við komumst aldrei lönd né strönd í neinu því máli sem raunverulega skiptir okkur máli? Viljum við halda áfram að vera hrædd við að missa sjálstæðið út í það óendanlega og þar með fría okkur ábyrgð á því að ræða mikilvæg mál? Ég get augljóslega ekki svarað þessum spurningum hér og nú, en ég get svo sannarlega velt þeim út í umræðuna og beðið um viðbrögð og það ætla ég að gera...

föstudagur, 4. apríl 2003

Hver ber ábyrgð á orðræðunni?

Hvað varð til þess að stjórnmálaumræðan er komin niður á það plan sem hún virðist komin?  Hver ber ábyrgðina á því skítkasti og þeim hræðilegu dylgjum sem við landsmenn allir höfum orðið vitni að í dag?  Getur það verið að Ingibjörg Sólrún beri ábyrgð á þessum málflutningi, er það hún sem hefur komið þessu öllu af stað?  Er nú svo komið að Ingibjörg Sólrún beri ábyrgð á orðum Davíðs Oddssonar?  Helst hefur mátt skilja það á umræðunni.  Þannig lét Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins hafa það eftir sér í viðtali í Útvarpinu í dag að Ingibjörg Sólrún hafi komið þessari umræðu af stað.  Undir það tók Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna, orðrétt sagði hann að  allt frá því að Ingibjörg Sólrún fór með hálfkveðnar vísur í ræðu sinni í Borgarnesi hafi umræðan þróast á einn veg…!  Ég spyr – er þetta sanngjarn og réttlátur málflutningur?  Er hægt að túlka ræðu Ingibjargar Sólrúnar á þennan veg?  Er hægt að ætla Ingibjörgu Sólrúnu að hafa komið þessari orðræðu allri af stað?  Ég skora á ykkur öll að mynda ykkur skoðun á því sjálf með því að lesa ræðu Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi í heild sinni.  Hana má finna á síðu Samfylkingarinnar hér á vefnum.  Ég verð að játa að ég las hana í fyrsta skipti í heild sinni í kvöld og verð að segja að hún olli mér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn.  Ræðan er góð og blæs manni í brjóst framtíðarsýn og trú á því að þar fari manneskja með hugsjónir sem hún hefur áhuga á að fylgja eftir.  Ræðan er með öðrum orðum algjörlega í samræmi við þann málflutning sem Ingibjörg Sólrún hefur alltaf staðið fyrir.  Að vera fyrst og fremst trú sinni sannfæringu.  Að halda á lofti nýjum tíma, nýjum umræðugrundvelli, nýrri hugsun í pólitík á Íslandi.  Ingibjörg Sólrún er og hefur alltaf verið boðberi breytinga.  Einmitt þess vegna er ég hrifin af henni, einmitt þess vegna styð ég hana heils hugar og einmitt þess vegna finn ég mig knúna til að taka upp merki hennar með þessum skrifum.  Ég bið ykkur öll sem fylgst hafið með umræðunni undanfarna daga, lesið greinina í heild sinni og dæmið sjálf hvort í þessari ræðu hafi Ingibjörg Sólrún riðið á vaðið með dylgjur og hálfkveðnar vísur.  

Ég veit ekki með ykkur en ég hef nú um nokkurt skeið verið orðlaus yfir því hvernig umfjöllun í fjölmiðlum hefur þróast í kringum Ingibjörgu Sólrúnu upp á síðkastið.  Það fór ekki fram hjá neinum að framganga Ingibjargar Sólrúnar í landsmálin olli titringi á meðal margra stjórnmálamanna.  En aldrei hvarflaði það að mér að framganga hennar ætti eftir að hafa þau áhrif sem hún hefur haft.  Í hverjum þættinum á fætur öðrum hef ég hlustað á karlmenn gefa í skyn að Ingibjörg Sólrún hafi ekki afrekað neitt í borgarstjórastóli.    Þannig hlustaði ég á Hannes Hólmstein Gissurarson í viðtalsþætti við Kristján Þorvaldsson á rás 2 á sunnudaginn fyrir viku senda áskorun til hlustenda að senda sér tölvupóst ef það vissi hvað Ingibjörg Sólrún hefði skilið eftir sig í starfi borgarstjóra!  Ásgeir nokkur, ritstjóri erlendra frétta í Morgunblaðinu lét hafa eftir sér í útvarpsþættinum Í vikulokin nokkru áður að Ingibjörg Sólrún hafi ekki afrekað neitt í starfi borgarstjóra.  Við bæði þessi ummæli var mér brugðið, svo mjög að ég hef ekki haft mig í það að andmæla.  Ég spyr sjálfa mig að þeirrar spurningar, hvernig er þetta hægt?  Hvernig stendur á því að þessir menn virðast ætla að komast upp með svona fullyrðingar?  Skyldi það geta verið að það skipti máli að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er kona.  Kona sem er fylgin sér og hefur fyrst og fremst fylgt eftir málefnum en ekki hugsað um það að reisa sér minnsmerki.   

Í starfi borgarstjóra hefur Ingibjörgu Sólrúnu tekist hvorki meira né minna en kollvarpa því umhverfi sem við lifum í og þá á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við aðstæður kvenna.  Ingibjörg Sólrún og samstarfsmenn hennar í R-listanum* hafa algjörlega gjörbylt aðstæðum fjölskyldna í þessari borg á valdatíma sínum.  Eigum við að rifja það aðeins upp.  Árið 1992 skrifaði ég mína fyrstu grein í Morgunblaðið þar sem réttlætiskennd minni var gjörsamlega misboðið.  Þá voru aðstæður þannig að biðlistar að dagvistarheimilum (sem þá voru kölluð) þessarar borgar lokaðir öðrum en forgangshópum, þ.e. einstæðum foreldrum og fleiri minnihlutahópum.  Hvað þýddi þessi staðreynd?  Hún þýddi það að konur í þessari borg höfðu ekki val um líf sitt og starf.  Það er nú einu sinni þannig að það eru konur sem ganga með  börnin, því eru það konur sem standa frammi fyrir spurningunni um hvað eigi að verða um barnið þegar og ef þær ætla sér að vinna úti.  Grundvallarforsenda þess að konur hafi val, að þær geti leyft sér að vinna að starfsframa, að þær geti leyft sér þau sjálfsögðu mannréttindi að – hugsa um sig sjálfar eru leikskólar fyrir börnin.  Svo einfalt er það, um þetta atriði þarf ekkert að deila.  Af fenginni reynslu efast ég ekkert um að þessi skoðun mín verður til þess að ýta undir reiði þeirra sem eru á annarri skoðun.  Það er nefnilega þannig ennþá á árinu 2003 að þetta má ekki segja berum orðum.  Kona má ekki viðurkenna það hún hafi vilja til að setja barnið frá sér til að hún geti sinnt eigin þörfum.  Það er ennþá “tabú” og konur eru enn að gefa misvísandi skilaboð um þetta atriði.  En þetta er raunar efni í sérstaka grein og verður ekki tekið frekar fyrir hér.  Svona var umhverfið hér í borginni fyrir ekki lengri tíma síðan en 9 árum.  Í dag eru enn langir biðlistar að leikskólaplássum í þessari borg, en forsendurnar og kröfurnar eru allt aðrar.  Í dag þykir sjálfsagt að sótt sé um leikskólapláss allan daginn fyrir öll börn, hver svo sem eiga þau, hvort sem það eru giftir foreldrar, í sambúð, skólafólk eða einstæðir foreldrar.  Í raun hefur átt sér stað algjör bylting í þessum málum í valdatíð R-listans.  Ég hef ekki tölur á takteinum hér og nú, en ég skal svo sannarlega bæta úr því hið fyrsta.  

Þá er það næsta stig en það eru skólamálin.  Þar hefur R-listinn einnig gjörbreytt aðstæðum fjölskyldna í þessari borg, þó enn sé mörgu ólokið.  Það tekur nefnilega langan tíma að breyta þeim hræðilegu aðstæðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði skapað í þessum málaflokki sem og mörgum öðrum sem snúa að því sem skiptir máli, nefnilega því að lifa sem manneskja í þessari borg.  R-listanum hefur tekist að einsetja alla skóla í borginni.  Hvað þýðir það?  Það þýðir það að svigrúm gefst til að skipuleggja aðra starfsemi innan skólanna.  Það þýðir það að kannski mun koma sá dagur að börnin okkar geti gengið í skóla og stundað sínar tómstundir í sama skóla og að stundaskrá þeirra sé samfelld.  Það er svo skrítið að hingað til hefur ekki verið litið á þetta atriði sem sjálfsagðan hlut.  Fyrir mér er það skrítið því ég er alin upp úti á landi og gekk í sveitaskóla þar sem alla tíð þótti sjálfsagt að ég mætti í skólann á morgnana og kæmi heim að honum loknum klukkan fimm.  Ég fékk mína máltíð í skólanum og ég stundaði mínar tómstundir í skólanum.  Það vorkenndi mér enginn, enda ekki nokkur ástæða til.  Aðstæður í skólanum voru þær bestu sem á verður kosið og ég hugsa alltaf með sérstökum hlýhug til þessa tíma.  Vegna þessa hef ég aldrei getað skilið þetta viðhorf hér í Reykjavík að börnunum sé vorkunn að ganga í skóla allan daginn.  Viðhorf sem ég tengi mjög þeirri pólitík sem hér hefur verið rekin af Sjálfstæðisflokknum, hversu mjög sem þeir hafa reynt að afneita þeirri stefnu upp á síðkastið.  Málflutningur þessa flokks sem sérstaks boðbera fjölskylduvænnar pólitíkur er vægast sagt ekki trúverðugur enda hafa þeir ekki uppskorið fylgi út á hann.  Þriðja málið má nefna hér sem hefur gjörbreyst í valdatíð R-listans en það er umhverfi gangandi vegfarenda hér í borg.  Í dag get ég farið í margra klukkutíma göngutúr eftir göngustígum meðfram strandlengjunni og notið fegurðar umhverfisins.  Það er ótrúleg bylting, Davíð Oddsson og fyrirrennarar hans höfðu aldrei áhuga á gangandi vegfarendum eða mannlífi.  Þeirra pólitík gekk út á steinsteypu og bíla, svo einfalt var það.  

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með að R-listinn með Ingibjörgu Sólrúnu í broddi fylkingar hefur gjörbylt umhverfinu í þessari borg til hins betra.  Því frábið ég mér allar staðhæfingar um það að Ingibjörg Sólrún hafi ekki gert neitt í valdatíð sinni.  Það er rétt að hún hefur ekki byggt Perlu eða Ráðhús til minningar um sjálfa sig.  Hún hefur gert svo miklu, miklu meira og mikilvægara.  Hún hefur unnið staðfastlega að því að breyta því samfélagi sem við lifum í og ég er þess fullviss að hún mun halda því áfram þegar og ef hún kemst til valda í landsmálunum.

Látum því ekki karlaveldið sem við lifum í segja okkur eitthvað annað!   Látum ekki forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna gera lítið úr Ingibjörgu Sólrúnu með því að leyfa þeim og fjölmiðlum að mistúlka orð hennar og leggja út frá þeim á versta veg.  Sjáum við þeim og kynnum okkur hvað hún hefur sagt og hvað hún hefur gert.  Munum að það erum við – kjósendur sem höfum síðasta orðið.

  • (sem notabene komust til valda vegna þess að kjósendur komu því í kring.  Það voru ekki Framsóknarmenn og Vinstri grænir sem komu R-listanum til valda, heldur kjósendur í þessari borg sem gáfu mjög skýr skilaboð um að eini möguleikinn fyrir flokkana til að komast til valda væru að þeir stæðu sameinaðir að framboði.  Ef það hefði ekki gengið eftir hefði R-listinn aldrei orðið að veruleika.  Það er nauðsynlegt að koma þessu að hér þar sem það fer um mig þegar ég hlusta á Framsóknarmenn halda því fram aftur og aftur að ÞEIR hafi stutt Ingibjörgu Sólrúnu í þá stöðu sem hún hefur á meðal kjósenda.   Framsóknarmenn ásamt öðrum minnhlutaflokkum í borgarstjórn á þessum tíma svöruðu kröfu kjósenda um að standa saman að framboði á sínum tíma.  Það voru kjósendur sem komu þeim í valdastóla og það voru kjósendur sem komu Ingibjörgu Sólrúnu þangað sem hún er.  Það voru ekki Framsóknarmenn, Alþýðuflokksmenn eða Alþýðubandalagsmenn.  Ef þeir hefðu ekki svarað þessu kalli kjósenda hefðu þeir aldrei komist að og þá hefðu þeir ekki heldur náð þeim málum fram sem þeir hafa náð í valdatíð sinni.)
                                                                                    Birt á pallborði www.kreml.is 4. apr. 2003


fimmtudagur, 3. apríl 2003

Andlegur dauði pólitíkur á Íslandi


 

Andlegur dauði pólitíkur á Íslandi

Grein birt í Morgunblaðinu 3. apríl 2003 í aðdraganda þingkosninga það ár. Var í kjölfar hennar kölluð í Silfur Egils þar sem efni hennar var m.a. til umræðu.

Ekki risti hún djúpt hugsjónin. Um leið og smá hindrun varð á leiðinni var henni hent á haugana. Ég er í sorg. Ég áhugamanneskja um pólitík um langa hríð horfi nú fram á að skila auðum kjörseðli í vor, því valið er ekkert! Fyrstur til að valda mér vonbrigðum og snúa baki við þeirri stefnu sem ég taldi mér fært að styðja er utanríkisráðherrann okkar Halldór Ásgrímsson. Í raun er óskiljanlegt hvað gerðist hjá formanni Framsóknarflokksins því allt í einu sneri hann baki við öllu því sem hann hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu, hvað gerðist? Hvað veldur því að menn með hugsjónir sem þeir virðast tilbúnir að berjast fyrir koðna niður og verða að engu eins og hendi sé veifað? Næst var það Samfylkingin, þannig telur Össur Skarphéðinsson ekki að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu sé kosningamál lengur! Hvað gengur mönnum til, hvað ætlið þið okkur að kjósa um? Pólitískt þref - með eða á móti - hverju?

Í fyrrakvöld horfði ég á Kastljós einu sinni sem oftar. Þar sátu fyrir svörum Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde, báðir einstaklingar sem ég virði mikils, báðir einstaklingar sem hafa átt það sameiginlegt að bera virðingu fyrir andstæðum skoðunum, nokkuð sem seint verður sagt um forsætisráðherra vorn. Hvað voru þau að ræða? Þau voru að ræða skattamál, en á hvaða nótum? Þarna sátu þau og ræddu skattamál á nákvæmlega sama plani og pólitísk umræða á Íslandi lendir oftast - þau körpuðu um útfærsluatriði, þau körpuðu um orðfæri, þau sneru út úr og þóttust ekki skilja málfæri hvors annars. Guð minn góður hvað ég er orðin leið á umræðu á þessu plani, guð minn góður hvað ég þrái meiri virðingu ykkar sem leitið eftir atkvæði mínu - hvað í ósköpunum gerir það að verkum að þið leyfið ykkur að koma fram við okkur kjósendur eins og við séum heimsk? Það er hárrétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að þessi skattapólitík er óréttlát, það er hárrétt að þessi tekjutenging allra mögulegra og ómögulegra bóta er fáránlega óréttlát, það er líka rétt hjá Geir H. Haarde að þessi staða er á ábyrgð Alþýðuflokksmanna. Það var Jón Baldvin, sjálfur guðfaðir Kremlar sem barðist öllum árum fyrir þeim fáránlegu tekjutengingum sem nú er að finna alls staðar í velferðarkerfinu. Það var í hans tíð sem fjármálaráðherra sem þessari tekjutengingu var komið á. Það er atriði sem Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna og þið öll verðið að gjöra svo vel að kannast við. Þið getið ekki afneitað því sem þið eruð arfleidd að, þið verðið að bera ábyrgð á því og leiða fram breytingar með það í huga. Það er vægast sagt ömurlegt að horfa á ykkur, leiðtoga nýrra tíma, fara í nákvæmlega sömu sporin og allir aðrir pólitíkusar hafa gert á undan ykkur, að tala af ábyrgðarleysi, að tala eins og þið hafið aldrei komið nálægt því að vera við stjórnvölinn, það er sorglegra en nokkrum tárum tekur.

Hvað vil ég sjá ykkur gera öðruvísi, er ég að fara fram á hið ómögulega? Ég held ekki. Ég held að ef þið hefðuð undirbúið ykkur betur, hefði útkoman orðið öðruvísi, ég held að þið séuð komin á kaf í kosningabaráttu án þess að hafa fast land undir fótum. Þið kjósið að sveiflast eftir vindi og ég get lofað ykkur því að það er ekki gott veganesti til lengri tíma, það gefur ykkur ekkert annað en kannski stundarfylgi í skoðanakönnunum, það er ekki það sem fjöldinn vill. Við verðum að geta treyst ykkur, við verðum að hafa trú á að þið séuð staðföst í stefnubreytingum og hafið ekki það eitt að markmiði að komast að völdum. Til hvers þá að kjósa ykkur? Til þess eins að þeir sem eru við stjórnvölinn heiti vinstri fylkinging en ekki hægri fylking? Hvað færir það okkur kjósendum? Hvað skilur á milli? Það er spurning sem ég hef langt frá því svar við og skil eftir opna hér. Ég er fyrir svo löngu, löngu síðan orðin hundleið á því að pólitíkusar skuli ekki hafa aðrar hugsjónir en þær að hvíla í skjóli 18. aldar manna. Skyldi hugmyndasmiðum þeirrar aldar einhvern tíma hafa dottið í hug að þeirra hugmyndir ættu eftir að verða svo langlífar sem raun ber vitni?

Hvað er ég að fara með þessu, er ég eitthvað öðruvísi en þeir sem ég er að gagnrýna? Sit hér heima í stofu og gagnrýni út og suður en hvað hef ég svo sem fram að færa annað en það? Ég hef það eitt mér til málsbóta að ég hef kosið að láta mér nægja að vera kjósandi í þessu landi, ekki frambjóðandi. Ég nýt því þeirra forréttinda að mega vera í þeirri stöðu að gagnrýna þá sem hafa kosið aðra leið, þá sem hafa kosið að bjóða sig fram til þess að gefa mér eitthvað að trúa á, eitthvað að lifa fyrir. Þar greinir á milli.

Ég kýs fremur að fá að heyra stefnu þeirra sem ég kýs. Ég hef engan áhuga á að hlusta bara á niðurrif þeirra á annarra stefnu, það er eitthvað sem allir aðrir hafa gert á undan þeim. Í stað þess að heyra þá rífa niður skattapólitík núverandi valdhafa kýs ég að fá að heyra hvað þeir ætla sér að gera, hvernig er þeirra útfærsla á skattaumhverfinu ef þeir komast að?

Þá þrái ég líka að þeir sem ég kýs hafi stefnu um þau atriði sem ég vil kjósa um. Ég vil kjósa flokk sem hefur það að markmiði að stefna á aðild að Evrópusambandinu. Ég hef engan áhuga á að kjósa flokk sem bakkar með þá hugmyndafræði um leið og þjóðin stendur frammi fyrir hindrun í samningaviðræðum um endurnýjun EES samningsins. Til hvers eru hindranir annars en að sigrast á þeim? Höldum við Íslendingar virkilega að við getum alltaf fengið allt fyrir ekki neitt? Erum við svo æðisleg, svo frábær, svo meiriháttar í öllu tilliti að við þurfum ekki að taka tillit til eins eða neins?

Þá ætla ég að koma inn á hugleiðingar sem ég hef ekki sett fram áður en er svo sannarlega fyrir löngu kominn tími til. Það rifjaðist raunar upp fyrir mér þegar ég las grein á Kreml.is í dag, en það er sjávarútvegsstefna Samfylkingarinnar. Á síðasta ári tók ég þá ákvörðun, einmitt hennar vegna að ég yrði að kjósa Framsóknarflokkinn. Ég gæti ekki kosið flokk sem stæði fyrir slagorðakenndri gamaldags þjóðernispólitík hvað varðar undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum var ég hrifin af Halldóri Ásgrímssyni og stefnumálum hans. Honum tókst að drepa þá ætlan mína fljótt og vel með viðbrögðum sínum gagnvart framboði Ingibjargar Sólrúnar og ekki hefur tekið betra við í kjölfarið. Hann hefur kosið að fylgja gömlum stefnumálum FLOKKSINS og þar með snúið baki við öllu því sem ég taldi hann standa fyrir svo sem að berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu. Hann kaus að fylgja Guðna og öðrum gamaldags Framsóknarmönnum sem eru fyrir löngu búnir að gleyma hvað pólitík stendur fyrir annað en að viðhalda FLOKKNUM. Ég hef ekkert með slíka hugmyndafræði að gera, að ég tali nú ekki um rökstuðning þeirra fyrir stríði í Írak. Sá málflutningur raunar dæmir sig sjálfur og verður til þess að ég óska þess eins að Framsóknarflokknum takist að þurrka sig út í komandi kosningum. Hvernig geta þeir leyft sér, hvernig geta þeir boðið okkur upp á það að heimsvaldastefna Bandaríkjanna sé eitthvað sem Íslendingar styðja?

Og þá að sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þeir berjast fyrir kommúnisma í sjávarútvegi, en frelsi til athafna í öðrum atvinnuvegum? Hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja að sjávarútvegurinn einn allra atvinnuvega landsins þurfi að sætta sig við óstöðugt umhverfi og eignaupptöku? Hvernig í ósköunum stendur á því að Samfylkingingunni telur sér skylt að vera sérstakur málsvari Morgunblaðisins í þessu fáránlega áróðursstríði sem vaðið hefur uppi í sjávarútvegsmálum landans? Mér hefur oft orðið hugsað til orða Guðbergs Bergssonar sem sagði einhvern tíma "Íslenska þjóðin hefur alltaf hatast út í það sem hún hefur lifað á", ég held að það sé mikill sannleikur í þessum orðum. Hvernig höfum við ekki hagað okkur út í landbúnaðinn í gegnum tíðina? Kratar hafa vaðið elginn og látið eins og bændum væri um að kenna allt sem miður hefur farið í íslensku þjóðfélagi. Lifðu ekki Íslendingar af landbúnaði um aldir? Það er vissulega nokkur tími síðan, en samt ekki svo að ástæða sé til að láta eins og við þurfum að skammast okkar fyrir það að landbúnaður er sá atvinnuvegur sem hefur haldið lífi í þjóðinni öldum saman. Þess vegna ættum við miklu fremur að vera stolt af honum. Við ættum að hjálpa honum til sjálfshjálpar, nýta okkur þá þekkingu sem til staðar er og þróa hana til frekari afreka. Ekki haga okkur eins og honum sé um að kenna allt sem miður fer. Það sama á við um sjávarútveginn. Íslendingar hafa lifað af sjávarútvegi meira og minna alla tuttugustu öld. Það er fyrst og fremst vegna hans sem við lifum við þær aðstæður sem við lifum í dag. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum var það svo allt fram til loka aldarinnar að meira en þriðjungur útflutningstekna kom frá sjávarútvegi. Hvað þýðir það? Það þýðir það að gjaldeyririnn sem við Íslendingar höfum þarfnast í gegnum þennan tíma til að EYÐA í allan þann innflutning sem erum svo dugleg við, hefur komið frá sjávarútvegi! Með öðrum orðum, "sægreifarnir" sem við erum alltaf að tala um hafa gert okkur Íslendingum kleift að lifa í vellystingum praktuglega. Í stað þess að hatast út í þá, ættum við að þakka þeim. Það er þeirra vegna sem við lifum því lífi sem við lifum í dag. Sú fáránlega umræða sem vaðið hefur uppi og er undirstaða einhverra þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram um að "sameign þjóðarinnar" eigi að vera opin öllum en ekki "örfáum útvöldum" er þegar betur er að gáð ekkert annað en gamaldags kommúnismi. Orðfærið "sameign þjóðarinnar" sem Morgunblaðið og margir pólitíkusar þessa lands kjósa að slá um sig með þýðir nefnilega ekkert annað en hið gamalkunna hugtak "ríkiseign", þjóðin getur ekki átt neitt saman og hefur aldrei getað öðruvísi en að það sé íslenska ríkið sem á þá eign. Þjóðin getur ekki átt eitt eða neitt öðruvísi en að það sé ríkið sem á það, þannig er það, þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Því er það ótrúlega fáránleg umræða sem vaðið hefur uppi í fjölmiðlum síðasta áratug að fiskurinn í sjónum sé "sameign þjóðarinnar" og eigi því ekki að vera úthlutað fáeinum aðilum gefins. Það að við berjumst fyrir því að auðlindirnar séu "sameign þjóðarinnar" þýðir að við erum að berjast fyrir því að auðlindin, fiskurinn í sjónum, sé eign ríkisins og þar af leiðandi á færi stjórnmálamannanna okkar að úthluta eins og þeim sýnist. Sýnist okkur það tryggja réttlæti, hefur framkvæmdavaldið - handhafi ríkisvaldsins reynst okkur svo sérlega vel í úthlutun á slíku valdi? Viljum við með öðrum orðum "ríkisvæða" sjávarútveginn, þannig að það sé á valdi misviturra stjórnmálamanna að úthluta honum eftir þörfum? Ég veit ekki með ykkur en ég veit með mig. Ég er stolt af Samherja, ég er stolt af Granda og ég er stolt af Þormóði ramma. Ég er stolt af því að þessi íslensku sjávarútvegsfyrirtæki hafa náð þeim árangri sem þau hafa náð, ég er stolt af því að þau eru svo sterk sem raun ber vitni. Ég hef sem íslenskur þegn ekki þjáðst vegna þeirra, ég hef miklu fremur fengið að njóta ávaxtanna af rekstri þeirra. Þessi fyrirtæki eru ekkert öðruvísi í mínum augum en Össur, Bakkavör og Baugur, þau eru alþjóðleg fyrirtæki sem hafa barist fyrir þeirri stöðu sem þau eru í í dag og þau hafa sýnt að þau hafa þekkingu og færni sem er eftirsóknarverð á erlendum mörkuðum. Á sama tíma og ég segi þetta, veit ég vel að það er fullt af einstaklingum út um alla firði landsins sem telja sig beitta "óréttlæti". Á móti spyr ég, síðan hvenær er eitthvað "réttlæti" í því að takmarka ótakmarkaðar auðlindir? Það hefur alltaf verið og hlýtur alltaf að vera "óþægilegt" að takmarka eitthvað sem áður hefur verið litið á sem ótakmarkað. Við getum tekið vatnið okkar sem dæmi. Við berum enga virðingu fyrir hreinu köldu vatni. Við erum vön því að geta gengið að því alla daga, alltaf og það sem meira er - okkur finnst það sjálfsagt. En það er það ekki. Það vitum við ef grannt er skoðað. Það er hreint ekki sjálfsagt í þessum heimi að ganga að hreinu og köldu vatni úr krananum alla daga, það er lúxus, lúxus sem við erum aðnjótandi en meirihluti heimsins er ekki. Ef þessi auðlind væri takmörkuð er ég hrædd um að við gengjum af göflunum, en hvernig væri hægt að tryggja "réttmæta skiptingu" þessarar auðlindar? Ég kasta fram þessari spurningu en ég svara henni ekki, læt ykkur það eftir. Ég bið ykkur einungis að hugleiða þetta samhengi, að hugleiða þetta áróðursstríð sem farið hefur fram á blöðum Morgunblaðisins dag eftir dag, ár eftir ár í heilan áratug. Það er áreiðanlega margt athugavert við kvótakerfið, áreiðanlega margt sem þarf lagfæringar við, en það er áreiðanlega ekki það að ÍSLENSKA RÍKIÐ þurfi umfram allt að eiga þessa auðlind, þá fyrst þyrftum við - Íslendingar, íslenska þjóðin að hafa áhyggjur af því hvernig með hana er farið!

Ég ætla ekki að láta eins og mér sé skemmt, því það er mér ekki. Ég skal játa hér að mér líður illa, raunar mjög illa af þeirri tilhugsun einni saman að sá hræðilega ólýðræðislegi maður sem hér hér hefur verið við stjórnvölinn fái að halda áfram að stjórna þessu landi. Síðast í morgun þegar ég var á leið í vinnuna og hlustaði á ræðu hans á landsfundi flokksins tók hjarta mitt aukaslag, af þeirri hugsun einni saman að þurfa að sætta mig við sama ástand næstu fjögur ár og ég hef þurft að sætta mig við síðustu 12 ár. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda. Kannski verð ég að flýja land, kannski er það eina lausnin. Það er vont að búa í landi þar sem þú hefur það á tilfinningunni að þú megir ekki hafa skoðanir, að þú megir ekki tala hátt um þær, að til þess sé ætlast að þú sért þæg og bugtir þig og beygjir fyrir þeim skoðunum sem þú MÁTT HAFA! En það er nákvæmlega þannig sem forsætisráðherra vor hefur haldið á umræðunni. Hann hagaði sér þannig sem borgarstjóri á sínum tíma, hann lét af þeirri hegðun sinni í upphafi stjórnarferils síns sem forsætisráðherra, sennilega vegna þess að hann gerði sér grein fyrir því að hann þurfti að vinna sér fylgi. En í seinni tíð, á þessu kjörtímabili hefur gamli karakterinn komið í ljós, hann er sá sem valdið hefur og hann sýnir það leynt og ljóst og það skulu sko allir hafa verra af sem leyfa sér að gagnrýna hann. Guð hjálpi íslensku þjóðinni ef hún kýs þennan valdhafa yfir sig aftur, eitt kjörtímabilið enn. En kannski hefur hún engan annan kost, eða hvað?

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...