sunnudagur, 4. desember 2022

Vinnumarkaður hins sterka

Íslenskur vinnumarkaður hefur löngum komið mér undarlega fyrir sjónir. Ég hef frá því á bestu árum mínum þar átt erfitt með að átta mig á hvað það er sem skiptir máli.

Nú þegar ég er komin á miðjan aldur skil ég enn minna.

Ég er 59 ára gömul – verð sextug á næsta ári. Það er langt síðan ég lærði að ég hef ekki lengur sjálfdæmi um hvað ég hefst að í lífinu. Á íslenskum vinnumarkaði – íslensku viðskiptalífi í það minnsta sem er sá starfsvettvangur sem ég valdi mér - er maður orðinn ónýtur fimmtugur. Það er ekkert nýtt. Þannig hefur það verið mjög lengi eða frá því ég starfaði sjálf við ráðningar á níunda áratug síðustu aldar. Um þetta er samt ekki enn talað. Aldursfordómar eru ekki bara leyfilegir – þeir eru sjálfsagðir á Íslandi 21. aldar.

Nú spyr ég landa mína að því – hvað á ég að gera?

Starfsöryggi á Íslandi er ekki til.

Á Íslandi þykir sjálfsagt að segja upp fólki fyrirvaralaust fyrir engar sakir. Skiptir engu máli þó það sé komið á sextugsaldur. Vinnuveitendur eru frjálsir að því að gera það sem þeim sýnist og það er litið á það sem mjög mikilvæga grundvallarreglu almenns vinnumarkaðar í landinu.

Nú reyna Sjálfstæðismenn að koma þessari sömu reglu á á opinberum markaði líka. Finnst það ótækt að hinn opinberi markaður geri kröfu um áminningar sbr. frumvarp sem lagt var fram á haustþingi um að þær skuli lagðar af.

En það er ekki allt.

Ég hef lengst af minnar starfsævi starfað á almenna markaðnum þ.e. þeim einkarekna. Þar hefur sú grundvallarregla verið algjörlega skýr að maður ræður sig til starfa á reynslutíma í 3 mánuði og eftir það er maður fastráðinn. Gríðarlega mikilvæg regla sem gefur launþeganum sjálfdæmi um veru sína hjá viðkomandi vinnuveitanda. Þ.e. hann er í föstu starfi þar til annað hvort hann segir upp með 3ja mánaða fyrirvara eða er sagt upp með 3ja mánaða fyrirvara. Þessi regla gefur viðkomandi ákveðið öryggi sem er gríðarlega mikivægt og maður er svo sem alla jafna ekki að hugsa mikið út í. Fyrr en maður kynnist öðru…

Tímabundnum ráðningum. Hjá hinu opinbera á Íslandi hefur þetta ráðningarform tíðkast um langt skeið að mér er sagt og er orðið ráðningarformið í mörgum tilvikum. Þetta ráðningarform þýðir að þú ert algjörlega réttindalaus. Ert ráðin tímabundið í einhverja mánuði og getur átt það á hættu að fá ekki fastráðningu og þurfa frá að hverfa án nokkurrar greiðslu sem venjulega myndi kallast uppsagnartími.

Þetta ráðningarform þykir semsagt sjálfsagt orðið að viðhafa hjá hinu opinbera á Íslandi – hvort sem um ræðir ráðningar ríkisvaldsins eða Reykjavíkurborgar (þekki ekki fyrirkomulag þessa hjá öðrum sveitarfélögum). Ráðningar þar sem starfsmennirnir eru algjörlega réttindalausir.   

Fram hefur komið að Sólveig Jónsdóttir formaður Eflingar ekki bara sagði upp öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar í vor heldur réði starfsmenn inn tímabundið… til hálfs árs. Ekki hægt að skilja þann gjörning öðruvísi en hann sé hugsaður sem fordæmi sem sjálfsagt sé að almenni markaðurinn viðhafi.

Ég spyr – hvað á þetta að þýða? Hvernig stendur á því að stéttarfélögin í landinu láta þetta viðgangast og gera ekkert í málinu? Þykir þeim og þykir okkur þetta bara í lagi og hið besta mál? Vita þau ekkert hvaða þýðingu starfsöryggi hefur? Vita þau hvernig það er að fá ekki fastráðningu eftir kannski 1 eða 2 ár í starfi og vera þannig hent út réttindalausum? Ætlum við að þróa vinnumarkaðinn í þessa átt lengi enn?

Vinnumarkað þar sem launþeginn hefur ekki lengur sjálfdæmi um sinn starfsferil heldur þarf að lifa í ótta um stöðu sína frá degi til dags?

Vinnumarkað þar sem vinnuveitandinn hefur tögl og hagldir en launþeginn er peð?
Vinnumarkað hins sterka?

Ég læt staðar numið hér að sinni en fleiri greinar um sama málefni munu fylgja í kjölfarið.

Birt á Kjarnanum 4. desember 2022


sunnudagur, 1. maí 2022

Bý ég í lýðræðisríki?

Ég er farin að hafa verulegar efasemdir um það. 15. maí nk., eftir rúmar tvær vikur verða sveitarstjórnakosningar í samfélaginu sem ég bý í. Hvar sér þess stað? Hvar eru upplýsingarnar um þessar kosningar? Hvar eru frambjóðendurnir kynntir? Hvar eru umræðurnar?

Ár hvert er mér boðið upp á ítarlega umræðu á Ríkisútvarpinu um Eurovision-söngvakeppnina. Umræðan um hana byrjar strax janúar og stendur óslitið fram í lok maí. Boðið er upp á kynningarþætti á lögunum í sjónvarpi á besta tíma og umræðu um keppnina er haldið lifandi í marga mánuði með þeim hætti að fyrir manneskju eins og mig, sem hefur nákvæmlega engan áhuga á þessari keppni, er gjörsamlega ómögulegt að komast hjá því að vera mjög vel meðvituð um að hún sé í gangi. Ekki bara það, heldur er umræðu um þessa keppni haldið svo hátt á lofti að það er ómögulegt annað en halda að þessi viðburður sé mál málanna í íslensku samfélagi ár eftir ár eftir ár.

Og þá að íþróttunum. Haldin eru heimsmeistaramót, Evrópumót, Ólympíuleikar og alls kyns landsmót og önnur mót sem talið er lífsnauðsynlegt að bjóða mér upp á í dagskrá sjónvarps allra landsmanna á besta tíma. Ég, sem hef nákvæmlega engan áhuga á íþróttum, á ekki val um að losna undan þessari áþján. Eða svo það sé skýrt orðað: Það er algjörlega ómögulegt fyrir mig að komast hjá því að vita að þessi mót séu í gangi. Dagskrá sjónvarpsins er ár eftir ár eftir ár eftir ár yfirtekin af íþróttamótum og það þykir eðlilegt og sjálfsagt að bjóða mér upp á það. Það eru ekki bara íþróttamótin sem mér er boðið upp á, heldur þykir nauðsynlegt að bjóða upp á umræðuþætti á hverjum degi þar sem menn liggja yfir úrslitum og viðburðum dagsins á viðkomandi móti.

Og þá aftur að kosningum í landinu. Þær standa fyrir dyrum eftir hálfan mánuð og þess sér hvergi stað. Ekki hefur enn verið boðið upp á einn einasta þátt á besta tíma í sjónvarpi um þessar kosningar. Hvað þá að boðið hafi verið upp á kynningu á málefnum eða frambjóðendum. Jú, sagt hefur verið frá því í fréttum RÚV hvaða mál hver flokkur ætlar að hafa í öndvegi í Reykjavík og þar með er það upptalið.

Í gær ákvað ég að fara að leita að kosningaefni þar sem það virtist augljóst að það yrði ekki á vegi mínum öðruvísi. Fór inn á kosningavef  RÚV til að leita að því hvaða efni stæði þar til boða um kosningarnar framundan. Jú, þar var að finna hlaðvarpsþætti. Fjóra hlaðvarpsþætti þar sem talað er við ritstjóra (mestmegnis karlkyns) héraðsfréttablaða um hvað þeir teldu að væru helstu kosningamálin í kjördæmunum, auk þess sem hringt var í einstaklinga af handahófi (langflesta karlkyns) til að spyrja þess sama.

Ég er ekki komin lengra í hlustuninni en í miðjan annan þátt af fjórum en ég spyr mig: Á þetta að vera svona? Þykir þetta í lagi í lýðræðisríki? Að lýðræðislegar kosningar í öllum sveitarfélögum landsins séu afgreiddar með þessum hætti? Á sama tíma og Eurovisio-keppnin yfirtekur sama fjölmiðil mánuðum saman?

Mér finnst þetta stórmerkilegt. Hlýtur þetta ekki að þýða að nú megi ég biðja RÚV um að hafa umræðuna um Eurovision í hlaðvarpsformi framvegis? Umræðuþættina um íþróttirnar? Má ég vinsamlegast biðja um þeir verði færðir yfir í hlaðvarp?

Nú er það svo að RÚV hefur skýrt hlutverk í lögum. Það er beinlíns lögbundin skylda Ríkisútvarpsins að stuðla að lýðræðislegri umræðu í samfélaginu. Það er líka lögbundin skylda þeirra að kynna framboð til almennra kosninga, helstu stefnumál framboða, frambjóðenda og fylkinga eftir atvikum og það skal gefa fylkingum jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín „… í hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi …“

Þetta hlutverk RÚV er mjög mikilvægt og það er ekki síst mikilvægt vegna þess að því er ætlað að tryggja nauðsynlega kynningu og undirstöður fyrir lýðræðislega umræðu í aðdraganda kosninga.

Það getur vel verið að ungu fólki á RÚV og öðrum miðlum þyki línuleg dagskrá hallærisleg og hafi þær hugmyndir að hún sé úrelt. Það breytir ekki því að hún hefur enn mikið gildi og skiptir miklu máli í aðdraganda kosninga. Ríkisfjölmiðill sem bregst hlutverki sínu á þessu sviði á sér engar málsbætur. Þessi skylda um hlutverk RÚV er alveg skýr. Í raun og sann, ásamt öryggishlutverkinu, sterkustu rökin fyrir því að halda almannaútvarpi gangandi.

Mér þykir vænt um RÚV og geri kröfur til þeirrar stofnunar um að standa sig í stykkinu hvað þessi mál varðar. Þetta er ekki boðlegt. 

Birt á Kjarnanum 1. maí 2022

sunnudagur, 24. apríl 2022

Hlutafé ríkisfyrirtækja spilapeningar fyrir útvalda?

Virðist sem hluti landsmanna sem tilheyrir tilteknum stjórnmálaflokki líti á sem eðlilegt og sjálfsagt. Það er ástæða til að segja þeim að svo er ekki. Kauphallir gegna almennt ekki sama hlutverki og spilavíti og eiga ekki að gera það.

Að selja hluti í ríkisbanka að kvöldi dags til að útvalinn hópur einstaklinga geti selt hann daginn eftir fyrir umtalsvert hærra verð getur ekki verið dæmi um að sala hlutafjár í ríkisbankanum „hafi tekist vel“.

Að fá hópi ungra stráka hlutverkið að selja hlutaféð útvöldum hópi og þiggja í staðinn bónus upp á milljónir er ekki dæmi um að sala á hlutafé í bankanum „hafi tekist vel“. Það er ekki mikill vandi að selja hlutafé með afslætti sem vitað er að hægt er að selja aftur á morgun fyrir mun hærra verð. Slíkur verknaður krefst engra verðlauna.

Ríkisfyrirtæki sem eru seld eiga eftir gjörninginn að virka sem sterk og góð samkeppnisfyrirtæki á markaði. Virkum markaði þar sem samkeppnin er leiðarljósið. Þeirra markmið er ekki að vera höfuðstóll í spilavítinu.

Það er ástæða til að segja þessum tiltekna hópi stjórnmálaflokksins sem innfelur hina útvöldu þetta. Með alveg skýrum hætti. Við búum í samfélagi. Samfélagi sem hefur tekist að byggja upp úr örbyrgð í allsnægtir á 100 árum.

Við þegnarnir höfum verið gerð að þátttakendum í spilavíti í  meira hátt í 20 ár. Höfum á þeim tíma einu sinni upplifað algjört hrun sem olli því að fjöldi fólks missti allt. Heilsuna, eigur sínar - allt.

Nú viljum við sjá skipt um kúrs. Við viljum ekki meira af spilavíti. Við viljum traust og ábyrgð við framkvæmd á sölu ríkisfyrirtækja. Markmið þeirra sem halda utan um slíka hluti hlýtur að vera að sjá til þess að þessi tvö orð séu höfð að leiðarljósi: Traust og ábyrgð.

Það þýðir að við sölu á hlut í ríkisbanka hlýtur það að vera meginmarkmið að koma hlutafénu í hendur þeirra sem hafa áhuga á að reka alvörubanka á alvörusamkeppnismarkaði til lengri tíma. Banka sem virkar sem banki fyrir fólk og fyrirtæki á samkeppnismarkaði en ekki sem höfuðstóll fyrir útvalinn hóp til að græða á. Bankar eða fyrirtæki almennt eiga ekki að vera rekin til þess. Bankar og fyrirtæki sem eru rekin með gróðahugsjónina eina að markmiði eiga engan tilverurétt í samfélaginu og ástæða til að minna á það.

Eitt af því sem stjórnvöld og Alþingi eiga augljóslega að gera er að gera ráðstafanir til að útrýma söluhvata aðferðafræðinni úr samfélaginu. Alveg. Það er enginn vandi að selja það sem mikil eftirspurn er eftir og það er nákvæmlega engin ástæða til að ala á spilavítishugsuninni með því að gera slíkri aðferðafræði hátt undir höfði. Við eigum fullt af listaverkum sem sýna okkur afleiðingar slíkrar heimsku – til að nefna bara tvö: Inside Job, The smartest guys in the room. Þessar tvær myndir væri fínt að alþingismenn og stjórnvöld á Íslandi horfðu á reglulega. Þær eru fín áminning um hvaða þætti mannsins við eigum ekki að hvetja.

Í framhaldinu væri fínt að heyra íslenska stjórnmálamenn tala um það hvernig þeir geta búið okkur umhverfi til framtíðar þar alvöru samkeppni fyrirtækja á markaði væri markmiðið. Að búa okkur umhverfi þar sem fyrirtækin í Kauphöll Íslands myndu hækka í verði vegna raunverulegra rekstrarafkomu sem byggði á fyrirmyndar rekstri þeirra. Það væri verðugt markmið fyrir alvöru stjórnmálamenn.

fimmtudagur, 10. febrúar 2022

Við erum manneskjur

Ritgerð mín til BS gráðu í Viðskiptafræði frá Bifröst 2017:

Við erum manneskjur


Úrdráttur af Skemmunni: 

Hugsunin stjórnar heiminum er heiti á bók eftir Pál Skúlason sem ásamt kveri Roberts K. Greenleaf, Servant as Leader, voru kveikjan að nálgun þessarar rannsóknar. Tekist er á við þetta fyrirbæri, hugsun mannsins, með vitund og veruleika höfundar að vopni. Rannsóknin er fræðileg aðleiðsla að svari við rannsóknarspurningunni „Hvernig birtist Þjónandi forysta í sjónvarpsþáttunum Baráttan um Bessastaði í júní 2016?“ Til að nálgast svar við spurningunni er leitað í fræðin um Þjónandi forystu, heimspeki Sókratesar í túlkun Platons, Hönnu Arendt og Friedrich Nietzsche og kenningu Sigmund Freud um eðlishvatir. Á grundvelli þessara hugsuða, ásamt vitund og veruleika höfundar, er rannsóknarspurningunni svarað á þann veg að Þjónandi forysta birtist í Leo og hjúkrunarfræðingi McMurphy í sjónvarpsþáttunum Baráttan um Bessastaði í júní 2016.

The mind controls the world is a name of a book by the Icelandic Philosopher Páll Skúlason. That book together with the essay Servant as Leader by Robert K. Greenleaf, awakened the idea behind this reseach. The research is done by the mind and reality of the author where he tries get closer picture of human mind by readings from the old masters. The question asked is: “How does Servant Leadership appear in the program episodes Baráttan um Bessastaði in June 2016?” To find the answer, author uses findings about Servant Leadership, Philosophy by Sokrates, Hanna Arendt and Friedrich Nietzsche together with Sigmund Freud. Based on this old wisdom, author comes to the conclusion that Servant Leadership appeares in Leo and McMurphys nurse in the program episodes Baráttan um Bessastaði in June 2016.

miðvikudagur, 9. febrúar 2022

Einn sannleikur?

Bakþankar Fréttablaðsins í dag urðu mér tilefni til að setja nokkur orð á blað. Þar talar Anna Sigrún Baldursdóttir framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landsspítalans og kona sem ég ber alla jafna mikla virðingu fyrir með þeim hætti að ég sé ástæðu til.

Hún talar eins og nú sé orðinn til „einn sannleikur“ sem enginn þarf að efast um eða hafa skoðanir á. Þau sem leyfa sér að efast um „sannleikann“ eiga enga virðingu skilið og má gera lítið úr þeim með því að tala um „fýlupósta“ og „fýlufærslur“ en eins og við öll vitum er fólk sem fer í fýlu marklaust fólk og ber ekki að taka alvarlega.

Ég verð að játa að skrif í þessa veru eru til þess fallin að það fýkur í mig. Ég velti fyrir mér hvort fólk sem almennt telur sig uppfullt af lýðræðisást átti sig á því hversu mikill hroki felst í þessum málflutningi? Er það í alvöru þannig að til þess bærir „sérfræðingar“ mega einir tjá sig um sín sérfræðimálefni og má venjulegt fólk ekki hafa skoðanir á því þegar þessir sömu sérfræðingar ætla að hefta frelsi þeirra? Búum við orðið í samfélagi þar sem sóttvarnarlæknar einir mega tala um sóttvarnir og veðurfræðingar einir um veður?

Hvers konar lýðræði er það?

Mér er misboðið og sé ástæðu til að láta það í ljós opinberlega. Virðing fyrir skoðunum fólks virðist með tilkomu samfélagsmiðla fara þverrandi. Það þykir sjálfsagt og eðlilegt að tala niður fólk sem lætur í ljós að það hafi skoðanir og sé ekki sammála ríkisvaldinu um ýmislegt sem þetta sama ríkisvald viðhefur til að hefta frelsi þeirra.

Það að ríkisvaldið hefti mjög frelsi fólks á þeim forsendum að verið sé að vernda líf þess er aðgerð sem á sér margar hliðar. Sóttvarnir og sóttvarnarsjónarmið eru ekki sannleikurinn. Sókrates vissi fyrir meira en 2.400 árum síðan að mannleg viska væri lítils virði og við mættum svo gjarna hafa þau orð meira í heiðri nú á dögum. „Vísindi“ eru ekki „sannleikurinn“, hvorki þá eða í dag eða nokkurn tíma. Það má hafa af þeim gagn og þau eru mikilvæg en þau eru ekki sannleikurinn.

Að almannavarnir taki ákvörðun um að gefa út viðvörun sem verður til þess að skólum er lokað er ákvörðun sem hefur grundvallaráhrif á líf venjulegs fólks. Það er sjálfsagt að þau geri það. Það er jafn sjálfsagt að venjulegt fólk hafi skoðanir á því og setji spurningamerki við það. Og það sem meira er – þetta „venjulega fólk“ getur haft heilmikið til síns máls.

Veðurfræðingar eru ekki handhafar sannleikans frekar en sóttvarnarlæknir. Ekki heldur sérfræðingar um almannavarnir. Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að setja spurningamerki við vilja þessara sérfræðinga í aðstæðum eins við upplifðum í upphafi vikunnar. Má ég biðja um að það fólk fái að njóta virðingar fyrir þær skoðanir sínar?

Sérfræðiþekking gefur engum heimild til að láta eins og viðkomandi sé handhafi sannleikans. Allt orkar tvímælis sem gert er og það er sjálfsagt og eðlilegt að efast um hvaðeina.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...