fimmtudagur, 14. október 2021

Ísleifur Halldórsson - minning 5. okt. 2021

 


Ég sé hann fyrir mér, umfaðma mig með einstakri hlýju í augum og bros á vör. Þannig tók hann mér. Alltaf. Ég fann væntumþykju hans og það breyttist aldrei – hún var gagnkvæm.

Ísleifur Halldórsson – eini maðurinn sem ég hef kallað tengdapabba á minni ævi – er látinn, örfáum dögum fyrir 89 ára afmælisdaginn. Ég kveð hann með þakklæti. Hann var mér, ásamt ástkærri tengdamóður minni, Kolbrúnu Þorfinnsdóttur, mikil stoð í því hlutverki að koma dóttur minni til manns. Kolbrún mín var augasteinninn hans og á milli þeirra ríkti einstaklega fallegt samband sem mun fylgja henni alla ævi.

Þeir sem þekktu Ísleif Halldórsson hefðu kannski ekki látið sér detta í hug að þar færi maður sem léti sjá sig með marga tíkarspena í hárinu, málaðan í framan með stríðsmálningu eða skellihlæjandi í dansi en þegar Kolbrún Þorfinnsdóttir, sonardóttir hans, var annars vegar var þetta sjálfsagt mál. Ég var sjaldnast þátttakandi í þessum athöfnum – þær voru eitthvað sem þau áttu saman án mín og ég hef bara fengið að sjá á myndum. Ég segi frá þessu hér því það segir svo margt um hlutverkið sem Ísleifur Halldórsson átti í lífi dóttur minnar. Fyrir hana var hann til í allt.

Elsku Ísleifur, það var ánægjulegt að sjá þig eldast. Hugsa oft til þess að ég myndi vilja eldast eins og þú gerðir. Sáttur við lífið og lagðir allt í að elska þitt nánasta fólk og leyfa því að finna það. Við sáumst ekki oft síðustu árin þín og ég get ekki hreykt mér af því að hafa verið dugleg að heimsækja þig en í hvert skipti fékk ég að vita hversu vænt þér þótti um mig. Fyrir það er ég óendanlega þakklát. Það er gott að elska, eins og Bubbi segir, og það er ekki síður gott að vera elskaður.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Fyrir að vera ávallt til staðar og taka því fagnandi að fá að passa augasteininn þinn í hvert skipti sem á þurfti að halda.

„Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.“

Elsku Kolbrún eldri, Kristín, Linda, Þorfinnur, Halldór, Gunnar, Kolbrún mín, tengdabörn, afabörn og langafabörn – innilegar samúðarkveðjur.


laugardagur, 25. september 2021

25.09. 2021


Enn á ný er runninn upp kjördagur í mínu lífi. Í minni vitund að þessu sinni sögulegur – öðruvísi en hinir fyrri. Það er einhver friður yfir stjórnmálunum. Þau eru málefnalegri og á einhvern hátt þroskaðri en mér hefur fundist þau áður.

Kosningabaráttan hefur verið dauf en þar er frambjóðendunum ekki um að kenna. Þau þurfa vettvang til að geta tekist á og sá vettvangur hefur ekki verið til staðar – í það minnsta ekki í boði íslenska ríkissjónvarpsins. Það er miður. Við þurfum á þroska stjórnmálamannanna okkar að halda og til þess að þroska umræðuna þarf vettvangurinn að vera til staðar.

Þessarar kosningabaráttu verður fyrst og fremst minnst sem kosningabaráttu auglýsinganna og greinilega enginn skortur á peningum til þess. Því þurfum við að breyta fyrir næstu kosningar. Fjáraustur stjórnmálaflokkanna á fjárframlögum ríkisins í auglýsingar er ekki dæmi um sterkt lýðræði. Við þurfum að gera allt til að styrkja lýðræðið. Og liður í því er að endurskoða rammann stöðugt.

Kjördagur er í mínum huga hátíðisdagur –gleðidagur. Stundum hefur hann endað með gráti í lok dags - stundum gríðarlega djúpstæðum vonbrigðum – næstum sorg - en mér segir svo hugur að því verði öðruvísi farið nú.

Ég gekk úr Samfylkingunni á vordögum. Í því var falin yfirlýsing sem ég hafði verið lengi á leiðinni með að framkvæma og lét loksins verða af. Þegar Samfylkingin var stofnuð fylgdu því gríðarlegar væntingar. Væntingar um að til yrði sterkt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn sem myndi leiða til þróunar íslensk samfélags í aðra átt. Það var sárt að upplifa viljaleysi samherja minna í pólitík til að leyfa þessu fyrirbæri – þessum stjórnmálaflokki - Samfylkingunni – að þróast og þroskast. Að upplifa að fjöldi samherja var tilbúinn að snúa baki við þessum flokki og trúa fremur á „eitthvað nýtt“ rétt þegar flokkurinn var loksins að slíta barnsskónum var undarleg uppákoma og lagðist ekki vel í mig. Ég átti svo eftir að fara sömu leið og þannig er staðan enn.

Það breytir ekki því að ég er enn jafnaðarmaður og hef djúpan og sterkan vilja til að sjá íslenskt samfélag þróast í þá átt að verða forysturíki á sviði velferðar – vellíðunar - íbúanna sem landið byggja. Ég trúi því staðfastlega að vilji sé allt sem þarf. Ég trúi því að með markvissum vilja sé hægt að gera stórfelldar breytingar á 4 árum.

Mínar væntingar snúa ekki að stórfelldum breytingum á kvótakerfinu. Ég held ekki að kvótakerfið sé stærsta vandamál íslensks samfélags og ég veit að þar skilur á milli mín og fjölda íslenskra kjósenda. Ég held að stærsti vandi kvótakerfisins sé ósáttin og að sáttin sem þurfi að nást fram muni aldrei nást nema með víðtæku samtali og málefnalegri niðurstöðu allra hagsmunaaðila og þar eru Reykvíkingar í miðbæ Reykjavíkur ekki stærsti hagsmunahópurinn. Þar eru minni útgerðir út um allt land, sjómenn, landvinnslufólk, íbúar í dreifðum byggðum sem byggja alla sína tilveru á sjávarútvegi hagsmunaaðilar. Vandamálið er ekki eignarréttarlegs eðlis. Reykvíkingar í miðbæ Reykjavíkur og öðrum hverfum borgarinnar hafa uppskorið ríkulega vegna sterkrar stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og þeir hafa ekki þjáðst vegna þeirra.

Stórar útgerðir verða að koma með okkur í þetta samtal og sýna auðmýkt og vilja til að sáttar um nýtingu auðlindarinnar. Það hlýtur að vera þeim augljóst að við sættum okkur ekki við að þau séu með ítök í öllum öðrum fyrirtækjarekstri í landinu. Sú tilhneiging þeirra síðustu ár að kaupa í öllum öðrum fyrirtækjum í annars konar starfsemi - er sjálfstætt vandamál sem þau verða að horfast í augu við og bjóða lausnir á. Það er t.d. ekkert eðlilegt við það að Samherji stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og þar með stærsti kaupandi að flutningum í landinu eigi Eimskip. Það er augljóst hverjum manni að það er ekki eðlilegt viðskiptaumhverfi.

SÍS og Kolkrabbinn voru ekki góðar fyrirmyndir og við hljótum að krefjast þess að íslenskt samfélag þróist ekki sífellt í þá átt aftur.

Það var áhugavert að hlusta á umræður stjórnmálamannanna í gærkvöld. Forystumenn ríkisstjórnarinnar voru allt í einu allir á einu máli um að gríðarleg tækifæri fælust í hugbúnaði og nýsköpun. Þar væru vaxtarbroddar atvinnulífs í framtíðinni fyrir Íslendinga. Það var stórmerkilegt fyrir mig – áhugasaman kjósanda í áratugi - að heyra þetta úr munni þessa fólks. Af hverju horfist þetta fólk þá ekki í augu við að til að hér verði til umhverfi þar sem erlendir aðilar vilja koma inn með fjárfestingar (aðrir en Vogunarsjóðir og þeir sem sérhæfa sig í áhættusömum fjárfestingum)?

Í mínum huga hefur blasað við lengi að stærsta málið í íslenskri pólitík er að búa til jarðveg fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Það gengur ekki til framtíðar að byggja allt okkar á sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Viðskiptaráð fór af stað fyrir ekki svo löngu síðan með herferð um að við þyrftum að efla „alþjóðlega geirann“. Þessi herferð kom mér undarlega fyrir sjónir þar sem þetta hefur auðvitað blasað við alla þessa öld. Leiðin til að efla „alþjóðlega geirann“ er auðvitað að búa hér til jarðveg fyrir erlenda fjárfesta að koma inn. Það gerum við með því að verða aðilar að Evrópusambandinu og í framhaldi af því að taka upp evru. Það verður ekki gert á einum degi og sorglegra en tárum tekur hvað við höfum leyft sérhagsmunaöflunum að standa í vegi fyrir því lengi.

Sú stefna gengur ekki til lengdar að vera með þúsundir manna í atvinnubótavinnu á vegum ríkisins en þannig er staðan í dag. Undirrituð er ein þeirra.

Alla kosningabaráttuna hef ég sveiflast á milli þess að ætla að kjósa Viðreisn eða Samfylkinguna. Viðreisn vegna þess að sá flokkur hefur verið einarður í máflutningi sínum um að stefna fortakslaust á aðild að Evrópusambandinu allt síðasta kjörtímabil. Á lokametrunum breyttu þeir allt í einu um kúrs og í stað þess að tala skýrt um að Evrópusambandsaðild sé forgangsmál ætla þau að festa gengi krónunnar við evru með samningum við Evrópusambandið.

Með þessum máflutningi varð valið skýrt. Í dag mun ég kjósa Samfylkinguna. Eins og ég hef gert allar götur síðan hún var stofnuð.

Eins og í öllum kosningum það sem af er þessari öld mun ég fylgjast spennt með fyrstu tölum í kvöld og vona heitt og innilega að það sem kemur uppúr kössunum muni gefa byr undir frjálslynda framsýna ríkisstjórn þar sem  Sjálfstæðisflokknum er gefið frí.

Við sjáum til hvað gerist…
...í öllu falli…
Gleðilegan kosningadag!



 

mánudagur, 24. maí 2021

Það sem ég vildi sagt hafa…

 


Björgólfur Jóhannsson var formaður Samtaka atvinnulífsins á árunum 2013 – 2017. Hann er stjórnarformaður Íslandsstofu. Hann var forstjóri Icelandair í 10 ár. Maður sem maður skyldi ætla að væri sér meðvitaður um ábyrgð sína – meðvitaður um að orð hans skiptu máli. Lætur hafa sig í að taka þátt í tölvupóstsumræðu þar sem hann sjálfur er upphafinn á kostnað að því er látið er að liggja lítilsigldra blaðamanna. Leynir sér ekkert að þar talar maður sem valdið hefur. Vald til að hlutast til um líf annarra.

Við höfum fengið að gægjast inn í Pandóruboxið. Fengið nasasjón af spillingunni sem grasserar í þessum hópi æðsta lags stjórnenda á Íslandi. Þar sem þykir í lagi að hlutast til um líf þeirra sem lægra eru settir. Ísland er ekki samfélag þar sem fólk fær að njóta verðleika sinna. Ísland er samfélag þar sem mestu skiptir að vera í rétta klúbbnum og að halda kjafti. Vera meðvirkur með spillingunni – ekkert skiptir jafnmiklu máli og það.

Viðbjóðurinn sem þessar greinar í Kjarnanum lýsa og eflaust má lesa um í Stundinni – en ég á ennþá eftir að kaupa hana – gera mann dapran. Daprari en orð fá lýst. Íslenskir ráðamenn láta í útlöndum eins og Ísland sé sérstakt land jafnréttis. Hreykja sér af því og berja sér á brjóst. Í bakherberjum haga þeir sér eins og götustrákar.

Ég ætla að segja þeim það núna að svona hagar maður sér ekki. Í heilbrigðum samfélögum gerir maður það ekki. Maður skrifar ekki tölvupósta þar sem maður hlutast til um líf annarra. Maður leyfir öðrum að njóta verðleika sinna. Maður leyfir blaðamönnum að vinna vinnuna sína. Maður leyfir kosningum í blaðamannafélögum að eiga sér stað án íhlutunar. Þegar maður situr í æðsta lagi samfélagsins stendur maður ekki í því að leggja steina í götu þeirra sem lægra eru settir. Maður leyfir samfélaginu að hafa sinn gang. Leyfir einstaklingunum að kjósa þá stjórnmálaflokka sem það kýs, tjá sig um þá hluti sem það vill án þess að láta það hreyfa við sér.

Ef maður kýs að spila óheiðarlega. Ef að maður kýs að greiða mútur til að græða meira og það verður upplýst þá verður maður að taka afleiðingunum af því. Þannig er það í heilbrigðum samfélögum. Maður tekur afleiðingum gerða sinna. Maður leggur ekki upp í leiðangur til að eyðileggja líf annarra. Það gera mafíósar. Mafíósar ráða spæjara til að elta þá sem reyna að upplýsa um glæpi þeirra. Alvarlega spilltir menn leita leiða til að eyðileggja trúverðugleika þeirra sem þeim ekki hugnast. Þannig gera ekki heiðarlegir menn.

Í heilbrigðum samfélögum vita menn að blaðamenn og fjölmiðar eru mikilvægir. Að þeir eru til þess gerðir að veita aðhald og upplýsa. Í spilltum samfélögum reyna menn að þagga niður í blaðamönnum og fjölmiðlum og hafa áhrif á störf þeirra.

Þannig er samfélagið sem ég bý í. Gjörspillt. Þar sem efsta lag samfélagsins – þeir sem stýra atvinnulífi landsins – lifa í þeirri meiningu að það sé þeirra hlutverk að hlutast til um framgang venjulegs fólks. Að leyfa spillingunni að halda áfram að viðgangast. Að beinlínis eyðileggja fjölmiðla með því að gera forsætisráðherra landsins til 13 ára að ritstjóra þekktasta dagblaðsins. Og gera það kinnroðalaust. Án hiks.

Pandóruboxinu hefur ekki verið lukið upp – aldeilis ekki – en við höfum fengið að skyggnast inn og innihaldið er ekki mönnum bjóðandi. Þessi saga fjallar ekki aðeins um Samherja – hún fjallar um alvarlegt mein í íslensku samfélagi sem ekki er hægt að búa við. Þar sem forystumenn íslensks atvinnulífs halda að það sé þeirra hlutverk að ráða framgangi einstaklinga.

Mér er sama um lögfræðingana og skipstjórann – þau eru kjánar. En mér er ekki sama um stjórnarformann Íslandsstofu – fyrrverandi stjórnarformann Samtaka atvinnulífsins. Björgólf Jóhannsson. Engu okkar ætti að vera það.

þriðjudagur, 20. apríl 2021

Að þagga niður í sterkum konum

hefur löngum þótt verðug íþrótt. Þannig er það enn. Svo rammt kveður að þessu á Alþingi þessa dagana að það er ekki laust við að fari um mann. Svo blygðunarlaust og fyrir opnum tjöldum er þetta reynt sbr. þessi umræða hér frá Alþingi 15. apríl sl. https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20210415T143812

Ég tek þetta nær mér en margur vegna þess að einu sinni var ég sterk kona. Eða það hélt ég. Nú er ég bara kona. Það er viðurstyggilegt að verða fyrir einelti komin á fullorðinsaldur.[1] Og að verða fyrir því af hálfu opinberra aðila er skelfilegt og á ekki að líðast.

Ráðuneyti og stofnanir eru ekki persónur. Þau eiga ekki að taka gagnrýni persónulega. Fjölmiðlar eiga ekki að leyfa þeim að hafa uppi slíka tilburði og ráðherra á ekki að taka upp hanskann fyrir ráðuneyti eða stofnanir á þeim grunni.

Reiði samgönguráðherra í þessari umræðu fer ekki á milli mála að á vísan í persónur innan undirstofnana hans. Þannig segir hann í reiðikasti sínu:

„Ég vil minna á að hér eru þingmenn meira og minna að tala um þingið og þ.a.l. þingmenn sjálfa og þeirra aðgang. Skýrslur Ríkisendurskoðunar sérstaklega fjalla gjarnan um einhverja allt aðra heldur en þingmenn og þeir aðilar fá engan aðgang að skýrslunni fyrr en hún er birt. Þeir geta ekki tjáð sig. Og ég ætla að segja það að mér finnst sérkennilegt ef að ég ætla að fara að tala við fjölmiðla um einhverja hluti sem þeir hafa dregið út úr skýrslu sem þeir hafa einhvern veginn komist yfir héðan frá þinginu en ég hef ekki fengið að sjá og get þ.a.l. ekki tjáð mig. Hvað þá stofnun eins og Samgöngustofa sem mest er fjallað um eða jafnvel einhverjir einstaklingar út í bæ. Þannig að þetta er grafalvarlegt mál að einstakir þingmenn fari út og tali um eitthvað sem þeir hafa fengið aðgang að en engir aðrir hafa fengið aðgang að.“

Það er ekkert hægt að fara í grafgötur með að vorkunn samgönguráðherra hér er öll með undirstofnun hans Samgöngustofu. Ekki er að heyra að hann hafi nokkrar einustu áhyggjur af almenningi sem þessi sama undirstofnun hans átti að hafa umsjón með að yrði ekki fyrir tjóni.

Í þessu máli fær maður að sjá með berum augum ósiði sem grassera innan íslenska kerfisins og er þarft að gera athugasemd við. Það þarf að kenna opinberum starfsmönnum það að þegar þeir starfa innan ráðuneyta og/stofnana eru þeir nafnlausir starfsmenn. Þeir eru þjónar þeirrar stofnunar og/eða ráðuneytis sem þeir starfa hjá og þeir eiga og þurfa að geta tekið allri þeirri gagnrýni sem þeir fá á störf sín og gjörðir.

Að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands á árinu 2021 láti sig enn hafa það í umræðu á löggjafarþingi að fara í vörn fyrir stofnanir sínar og ráðuneyti á grundvelli þess að verið sé að ráðast að „persónum“ á ekki að líðast. Það má ekki bara gagnrýna ráðuneyti og stofnanir. Það á að gera það.

Ráðuneyti og stofnanir eiga að þjóna almenningi og engum öðrum. Þeir sem þar starfa verða að geta tekið því að ég eða þú, þingmenn eða hverjir sem er aðrir gagnrýni þau. Gagnrýnin getur verið málefnaleg og hún getur líka verið ómálaefnaleg. Auðvitað gerum við kröfu um að gagnrýni þingmanna sé málefnaleg en starfsmaður hins opinbera getur engar kröfur gert til þess að hún sé með einhverjum tilteknum hætti. Hann getur bara gert þá kröfu til sjálfs síns að hann fari að lögum og reglum og gæti meðalhófs og mannúðar í hvívetna í störfum sínum. Hann stendur og fellur með því sem hann gerir. Og hann gerir það nafnlaust.



[1] Einelti er alltaf viðurstyggilegt. Auðvitað viðurstyggilegast alls gagnvart börnum. Sú er hér ritar hefur ekki orðið fyrir því nema sem fullorðin manneskja og tekur því svona til orða.

sunnudagur, 18. apríl 2021

Að stæra sig af flokkun fólks

Þykir í nútímanum sjálfsögð og eðlileg iðja. Því fylgir yfirleitt að viðkomandi telur sig tilheyra þeim flokki sem er jákvæður og peppaður alla daga og lítur með fyrirlitningu til þess hóps sem gerir það ekki.

Mér finnst þetta alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Hvernig má það vera að það þyki bara besta mál að flokka fólk í hópa þar sem stórum hópi er útskúfað og hinum hampað? Hvernig getur það talist dæmi um gott og heilbrigt samfélag? Að gefa fingurinn stórum hópi fólks og segja honum að hann fái ekki að tilheyra? Hvernig getur það verið gott?

Þetta fyrirbæri kemur frá hinum bandaríska heimi. Sem hefur síðustu misserin verið duglegur við að búa til ný boðorð sem viðhöfð eru í daglegu lífi okkar án þess að við tökum eftir því eins og t.d. „að sjá glasið hálftómt í stað hálffullt“. Stepford Wives er ekki lengur dystopía – hún er veruleikinn. Við eigum öll að vera til friðs og þegja um það sem okkur finnst. Eigum að vera jákvæð og umfram allt;  peppuð – alltaf.

Við vissum einu sinni að svona hegðan heitir yfirlæti og það er ekki eftirsóknarvert eða góð fyrirmynd fyrir neinn að sýna yfirlæti. En við virðumst ekki vita það lengur. Það að vera yfir aðra hafinn og setja hina í hóp sem ekki má tilheyra er sjálfsagt og eðlilegt í dag.

Við erum öll allskonar var lína Besta flokksins einu sinni. Á sama tíma var fólkið í Bjartri framtíð einmitt duglegast við að gefa sjálfri sér þá einkunn að það væri alltaf svo jákvætt og gaf þar með í skyn hvað hinir voru þó þau gengju kannski ekki svo langt að segja það upphátt.

Við erum öll allskonar er góð lína sem ég held að væri okkur hollt að hugleiða endrum og sinnum. Við eigum í erfiðleikum í hjónabandinu, erfiðleikum með andlega líðan, erum einhverf, með geðhvörf, kvíða, fælni, eigum við ýmsa og mismunandi djöfla að draga – öll – alltaf – í mismunandi myndum.

Fólk sem á við ýmsan vanda að etja getur ekki alltaf verið jákvætt. Það er ekkert eðlilegt eða mannlegt við það að vera alltaf jákvæður. Jú, jú auðvitað er til fólk sem vaknar í gleði flesta daga og viðhorf þess til lífsins er viðhorf jákvæðni og gleði sem smitar út frá sér til annara. Það er yndislegt og eftirsóknarvert að vera nálægt slíku fólki. Fólki sem líður vel í eigin skinni og er öruggt með sig í þeirri líðan. Við hin viljum mörg komast þangað. En við erum ekki endilega þar. Og það er heldur ekkert eðlilegt við að gera kröfu um að við séum öll þar. Það er eðlilegt að við séum öll allskonar og að við fáum öll að vera allskonar.

Við vissum einu sinni að það var hluti af því að vera góð manneskja er að vera umburðarlyndur. Að vita að í störfum okkar getum við þurft að mæta alls kyns hegðan alls kyns fólks. Að það er okkar verkefni í lífinu að læra að fást við að það eru ekki alltaf allar manneskjur eins og við viljum að þær séu. Við erum öll allskonar. Það að vera góð manneskja er að vita það og gera ekki kröfu til þess að allar manneskjur séu eins og ég. Manneskjur eiga það til að hella sér yfir mann þó maður hafi ekkert til þess unnið. Það er eitt af því sem við þurfum að læra að fást við.

Margrét Kristmannsdóttir skrifaði bakþanka í Fréttablaðið í gær undir yfirskriftinni „Á lúxussiglingu“. Þeir bakþankar urðu kveikjan að þessari grein. Margrét stærir sig þar af flokkun fólks í „jákvætt fólk“ og „neikvætt fólk“. Hún tilheyrir að sjálfsögðu fyrrnefnda hópnum og lætur þess getið að hinn hópurinn „dragi úr henni lífslöngunina“. Þessi skipting Margrétar er alvanaleg þessi misserin. Ég hef lengi átt við það að stríða að þykja þessi skipting óþolandi fyrirbæri og óboðleg og ákvað að láta ekki þar við sitja í þetta skiptið heldur tjá mig um málið. Við erum mörg sem hefur verið jaðarsett í þessu samfélagi á þeirri forsendu að vera ekki eins og öðrum hugnast að við séum. Það er ástæðulaust að leyfa þeim hópi sem telur sig þess umkominn að jaðarsetja aðra að gera það án viðspyrnu.

Í heilbrigðu samfélagi er ekki til „jákvætt“ og „neikvætt fólk“. Það er til fólk. Stundum jákvætt. Stundum neikvætt. Stundum hvorugt. Fólk. Allskonar fólk. Í allskonar líðan. Í dag svona og á morgun hinsegin.

Fólk. Sem alltaf þarf á öðru fólki að halda. Fólk sem umfram allt vill fá að tilheyra.

miðvikudagur, 6. janúar 2021

Skömminni skilað

Af hverju er ég svo að blaðra þetta og birta opinberlega um hluti sem fólk vill almennt halda fyrir sjálfa sig? Af hverju er ég að blaðra um að ég hafi verið rekin og það tvisvar frekar en einu sinni á 10 árum? Hvernig í  ósköpunum má finna það út að það verði til að styrkja mig á einhvern hátt?

Hef hugsað mikið um þetta síðustu daga því þörfin fyrir að koma þessu frá mér hefur verið djúpstæð og verið með mér lengi. Allt í einu kviknaði á perunni í dag. Þetta snýst um að skila skömminni. Ekkert annað.

Innra með mér er gríðarleg skömm fyrir að hafa verið rekin – svo djúp og sár að í hálft ár gat ég miðaldra manneskjan ekki sagt öldruðum foreldrum mínum frá því. Það var einfaldlega of erfitt. Ég gat það ekki. Það er fáránlegt – mér finnst það sjálfri – ekki síður en öðrum. En þannig var það nú samt. Það að standa sig í vinnu er eitthvað sem gerir mann að manni í minni fjölskyldu – því eru það ótvíræð skilaboð um að ég hafi klikkað á grundvallaratriðum þegar ég er rekin fyrir störf mín. Því skiptir það mig máli að segja upphátt að ég hafi ekki unnið til þess – jafnvel þó að enginn sé þarna til að styðja mig í því og ég standi ein að þeirri yfirlýsingu. Ég veit að ég skilaði góðu verki á báðum stöðum og það skiptir mig máli að koma því frá mér og láta það standa.

Ég hef ekki tekið þátt í me too byltingunni einfaldlega af því að ég hef ekki fundið hjá mér þörf til þess. Aftur á móti er þörfin mikil að tala um þetta hér og ég vænti þess að rótin sé sú sama.

Eins og við vitum fór me too byltingin aldrei fram í viðskiptalífinu. Þar stoppaði hún. Að sýna veikleika er almennt ekki talið til þess fallið að styrkja einstaklinga sem þar keppa um stöður. Ég geng út frá því að það sé ástæðan án þess auðvitað að hafa hugmynd um það. En er það ekki merkilegt að þessi bylting sem fór eins og eldur í sinu um allt skuli ekki hafa farið um viðskiptalífið? Segir það ekki einhverja sögu sem hollt er að velta fyrir sér?

Ég skrifa þessar greinar auðvitað því ég tel mig ekki hafa neinu að tapa – þess vegna leyfi ég mér það. Ég fæ ekki áheyrn nokkurs staðar hversu mikið sem ég reyni. Nú hef ég ákveðið að þetta sé komið gott og ég verði að taka málin í mínar hendur. Skapa mér starf sjálf. Vonandi tekst mér það. Ég er glöð með að hafa komið þessu frá mér því ég er sannfærð um að það eru margir í þeirri stöðu að þurfa að tala um hliðstæða hluti en standa á bremsunni því þau álíta of mikið í húfi. Sjálfsvirðingin er svo samtengd því að hafa virði á vinnumarkaði að það er einfaldlega óhugsandi fyrir marga að rjúfa þögnina.

Ég á enn margt ósagt um íslenskan vinnumarkað og mína reynslu þar og ég á mjög líklega eftir að tjá mig um það í fleiri greinum. Ekki síst er ástæða til að tala um guðina sem við höfum sjálf búið til þar en það er efni í heilan greinaflokk. Að við skulum hafa búið til svona marga guði á jörðu niðri hefur óholl áhrif á samfélagið allt og um það þurfum við einhvern tíma að tala. En segjum þetta gott að sinni.

þriðjudagur, 5. janúar 2021

Farsæl ferilskrá

Þetta fallega orðasamband var viðhaft í mín eyru fyrir skömmu. Farsæl ferilskrá. Hefur yfir sér einhvern ljóma. Eitthvað sem mann langar næstum að snerta – svo íðilfagurt og ljúft. Hvað þýðir það? Hver hefur farsæla ferilskrá og hver hefur það ekki? Hversu mikið hefur einstaklingurinn sjálfur um það að segja hvort að ferilskráin hans verður farsæl eða ekki?

Það er nú það. Nú flækjast málin. Á Íslandi er það einhvern veginn þannig að það hvernig þú stendur þig í starfi skiptir ekki öllu máli. Jafnvel minnstu máli. Það hver þú ert, hvernig þú ert, hvaða skoðanir þú hefur skiptir öllu máli. Þetta vita ráðningarstofur í landinu enda segja þær það ítrekað í kynningum.

Þær segja reyndar aldrei að það að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða starfa í flokknum vinni með þér en auðvitað vitum við það. Auðvitað vitum við að neikvæða hliðin á því að hafa áhuga eða starfa í pólitík snýst í engum tilfellum um Sjálfstæðisflokkinn. Það vinnur með þér – alltaf.

Hér talar manneskja með reynslu. Og hún hlýtur að mega tjá sig um reynslu sína – er það ekki það minnsta sem hægt er að fara fram á? Stærstu mistökin sem ég hef gert í mínu lífi varðandi ferilskrána eru áreiðanlega þau að vera ekki aðili að Sjálfstæðisflokknum og taka virkan þátt í starfi flokksins. Ég er einfaldlega alveg viss um það. Aðilarnir sem þekkja til vinnu minnar og hafa verið ánægðir með störf mín eru allir meira og minna í Sjálfstæðisflokknum. Fólkið í Samfylkingunni veit ekkert hvernig ég hef staðið mig í störfum mínum. Það veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma gert eitthvað sem þýðir að mér ætti að vera treystandi til einhvers hlutverks.

Ég hef því miður ekki náð því á æviferlinum að hægt sé að segja að ég hafi átt farsæla ferilskrá. Til þess er hún of götótt. Það þekki ég þar sem ég starfaði einu sinni fyrir löngu síðan sjálf í ráðningabransanum. Þar var eitt aðalatriði sem manni var kennt að líta hornauga - allar eyður í ferilskránni. Það vissi ekki á gott. Nú eru götin orðin svo löng og svo stutt á milli þeirra að það er spurning hvort ég eigi nokkurn tíma afturkvæmt á íslenskan vinnumarkað. Þ.e. í starfi sem mig langar í.

Ferilskráin mín er ekki bara götótt heldur er það líka þannig að framkvæmdastjórar mínir síðustu 10 ár hafa annað hvort rekið mig eða á annan hátt látið mig vita að ég væri ekki eins og ég ætti að vera og það getur varla talist farsæl ferilskrá.

Finnst það eiginlega pínu grátlegt að geta ekki státað mig af farsælli ferilskrá því á sama tíma hef ég hef eiginlega gefið mig alla þessum sama starfsferli. Verið tilbúin að gefa mig alla og miklu miklu meira til. En einhvern veginn hefur það aldrei verið nóg. Ég er aldrei eins og ég á að vera. Það sagði framkvæmdastjórinn þegar hann rak mig fyrir 10 árum. Hann sagði það ekki daginn sem hann rak mig en hann sagði það frá fyrsta degi sínum í starfi. Kallaði mig til fyrsta fundar sennilega eftir að hafa setið þar í viku til að segja mér að ég væri ekki í lagi. Og ítrekað eftir það. Hafði ekki stuðninginn til að reka mig fyrr en ég sjálf hafði aflað honum hans með því að kalla sérstaklega eftir ungum manni í ráðið mitt. Þeim unga manni fannst ég hafa horn og sú afstaða hans kom fram á fyrsta fundi. Þá vissi ég að leikurinn var tapaður þó að það ætti eftir að taka tvö ár.

Þetta er mjög sérstök reynsla sem ég óska engum að verða fyrir. Að fá stöðugt að vita að þú sjálf sért vandamálið. Ekki hvað þú gerir eða hvernig þú gerir það heldur þú. Hvað gerir maður við slíkar upplýsingar? Nú maður snýr sér auðvitað að því sem maður kann best og tekur upp þráðinn sjálfur. Gengur í verkið og brýtur sig niður. Það gerði ég með miklum árangri.

Það er vont að eiga ekki farsæla ferilskrá að státa af. Og í mínu tilfelli er það eiginlega út í hött. Af hverju í ósköpunum á ég ekki farsæla ferilskrá? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða og læt það standa hér að það er ekki vegna þess að ég hafi ekki staðið mig í störfum mínum. Það hefur miklu meira með það að gera hver ég er, hvernig ég er og að ég segi hlutina upphátt. 

Það skiptir mig máli að segja þetta upphátt og leyfa því að standa. Ég á foreldra, systkini og afkomendur. Ég vil ekki að framkvæmdastjóri sem rekur mig samdægurs eigi síðasta orðið um það hver ég og hvernig ég hef staðið mig á íslenskum vinnumarkaði. 

Það getur vel verið að orð mín hafi lítið vægi á móti orðum þeirra sem valdið hafa. En ég má þó alla vega reyna. 

laugardagur, 2. janúar 2021

Haltu kjafti og vertu sæt!

Orðasamband sem er enn í fullu gildi og mig langar til að vekja athygli á á nýju ári 2021. Gleðilegt ár og megum við öll njóta þess að fá að vera þátttakendur í samfélaginu. Við konur sem erum komnar á sextugsaldurinn sem og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Mig langar til að vekja athygli á máli sem alla jafna er ekki talað um enda fjallar málið um kellingar sem enginn hefur áhuga á. Kellingar eru konur sem eru orðnar fimmtugar og þaðan af eldri. Komnar úr barneign.

Atvinnurekendur á Íslandi hafa í árafjöld kvartað mjög undan fjölgun öryrkja á Íslandi. Hafa látið í það skína að þar sé ekki allt sem sýnist og þörf sé á að leiðrétta þessa vitleysu. Nú langar mig að upplýsa þá hina sömu um að þeir þurfa kannski aðeins að líta í eigin barm. Þurfa kannski aðeins að hugsa um það hvað þeir vilja gera við okkur sem þeir vilja ekki. Því við erum mörg sem erum á lífi og í fullu fjöri þó við séum komin á sextugsaldurinn. Hvað vilja atvinnurekendur nú eða samfélagið í heild sinni gera við okkur?

Þetta er mjög brýn spurning. Vilja þeir senda okkur úr landi? Skjóta okkur? Hvað vilja þeir gera við okkur? Ekki vilja þeir okkur í vinnu svo mikið er víst. Og ef þeir vilja ekki að við verðum öryrkjar – hvað vilja þeir þá?

Mánudaginn þann 24. júní 2019 kl. hálffimm var bankað í öxlina á mér og ég beðin að koma til viðtals við framkvæmdastjórann. Í ljós kom að ástæðan var að reka mig á staðnum og ég beðin að ganga út og koma ekki meir. Einu og hálfi ári fyrr hafði ég gengið inn á þennan vinnustað brotin mjög – eiginlega í henglum – en þessi vinnustaður bjargaði mér. Eftir mikið niðurbrot reyndist rétt hjá mér að aðferðin til að ná mér strik aftur væri að gera það sem ég kunni best. Eftir nokkra mánuði í starfi fann ég til styrkleika minna aftur, var orðin sjálfri mér lík. Það var góð tilfinning. Ég var í starfi sem ég kunni – að þjónusta fyrirtæki á markaði - og í því er ég betri en margur og veit það.

Það gekk margt á á vinnustaðnum á þessum tíma. Tveir stjórnendur hans hættu störfum með stuttum fyrirvara og þeir nýju komu ekki strax til starfa. Starfsmannavelta var mikil og einhvern veginn fór það svo að á tímabili í brjáluðum umsvifum vorum við tvö í þjónustunni í deildinni þegar fæst var. Einhvern veginn hafðist þetta nú samt allt saman enda ég vön að vinna undir miklu álagi og hafði greinilega engu gleymt þegar á reyndi.

Ég var góð í því sem ég var að gera. Fékk endurgjöf í þá veru og vissi það. Ég var á heimavelli. Samt fór það svo að ég var rekin á staðnum einu ári síðar. Ég leyfi mér að segja að þessi uppsögn segi ekkert um mig en meira um eitthvað annað sem ekki verður skilgreint hér.

Síðan þetta gerðist hef ég sótt um hvert starfið á fætur öðru. Mörg í mánuði og er ekki virt viðlits. Reyndar verður að segjast að íslenskur vinnumarkaður hefur þó skánað örlítið. Ekki sami dónaskapurinn og fyrrum – nú fær maður yfirleitt að vita að maður fái ekki starfið. Sem er mikil framför frá því sem áður var.

Ég sit hér 1. janúar 2021 og velti fyrir mér hvað ég hafi gert af mér sem orsaki þessa meðferð. Af hverju er ég 57 ára gömul í þessari stöðu að fá hvergi einu sinni áheyrn? Ég segi þetta kinnroðalaust því ég hef ekkert til að skammast mín fyrir. Ég veit að ég hef verið afburða starfsmaður víðast þar sem ég hef starfað og það sem meira er í flestum tilfellum hefur það verið í þágu íslenskra atvinnurekenda. Ég hef verið í þjónustu við þá og þeir hafa aldeilis kunnað að meta þjónustu mína og ég hef ósjaldan fengið að vita það. Þeir vissu að í höndunum á mér voru þeir í höndum sem þeir treystu. Meðfram höfðu þeir oft líka gaman að því að tala við mig um pólitík. Seinni árin gerði ég þó minna af því eða nánast ekki neitt enda búið að kenna mér að það væri betra að halda þeim þætti út af fyrir mig.

Alltaf hef ég fengið að vita að ég væri ekki eins og ég ætti að vera. Að ástríða mín og eldmóður væri ekki við hæfi. Eftir að ég fór að láta pólitískar skoðanir mínar í ljós kemur ókunnugt fólk fram við mig eins og það viti allt um mig. Ég hef fengið á mig stimpil. Þessi stimpill segir „hún kýs Samfylkinguna“ og það á að segja allt um mig. Það með öðrum orðum skilgreinir mig og setur mig í flokk. Stórmerkilegt að upplifa skal ég segja ykkur og oft ekkert sérstaklega skemmtilegt. Það er þreytandi að hlusta á algjörlega ókunnugt fólk komið í stöðu á sama vinnustað og þú og talar til þín eins og það viti hvað þú hugsar eða þér finnst um hin og þessi málefni. En það er einfaldlega eitt af því sem þú lærir að þola. Til að lifa af verðurðu að gera það. Þú verður að láta sem þetta allt saman rétt og satt og spila með. Annars lifurðu einfaldlega ekki af.

En einu get ég aldrei gefið afslátt af og það er því að berjast fyrir að veita viðskiptavinunum mínum bestu mögulegu þjónustu. Það er einfaldlega í æðum mínum og því verður ekki breytt. Ég fylgi málum eftir og ég fer alla leið til þess. Það hef ég alltaf gert og það er ég. Það vita allir sem ég hef starfað með. Ég á það til að láta heyrast hærra í mér þegar ég er ekki ánægð með þau svör sem ég fæ og þannig verður það. Alltaf. Ég á auðvelt með að biðjast afsökunar ef mér verður það á að fara framúr mér í hita augnabliksins. Ég lít á það sem mannlegt og get ómögulega litið svo á að það sé eitthvað sem ég þurfi að skammast mín fyrir. En skv. því sem ég hef lært er það þar sem hnífurinn stendur í kúnni.

Ég er manneskja með skap. Og ég er líka manneskja með tilfinningar. Það má ekki. Í það minnsta ekki ef þú ert af kvenkyni. Ef þú ert kvenkyns skaltu viðhafa það sem er í fyrirsögn þessarar greinar „haltu kjafti og vertu sæt“. Það er ekki sagt í neinni kaldhæðni heldur er það alveg kýrskýr lærdómur. Viljirðu eiga möguleika á að lifa af á íslenskum vinnumarkaði og eldast þar.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...