Enn á ný er runninn upp kjördagur í mínu lífi. Í minni
vitund að þessu sinni sögulegur – öðruvísi en hinir fyrri. Það er einhver
friður yfir stjórnmálunum. Þau eru málefnalegri og á einhvern hátt þroskaðri en
mér hefur fundist þau áður.
Kosningabaráttan hefur verið dauf en þar er frambjóðendunum
ekki um að kenna. Þau þurfa vettvang til að geta tekist á og sá vettvangur
hefur ekki verið til staðar – í það minnsta ekki í boði íslenska
ríkissjónvarpsins. Það er miður. Við þurfum á þroska stjórnmálamannanna okkar
að halda og til þess að þroska umræðuna þarf vettvangurinn að vera til staðar.
Þessarar kosningabaráttu verður fyrst og fremst minnst sem
kosningabaráttu auglýsinganna og greinilega enginn skortur á peningum til þess.
Því þurfum við að breyta fyrir næstu kosningar. Fjáraustur stjórnmálaflokkanna
á fjárframlögum ríkisins í auglýsingar er ekki dæmi um sterkt lýðræði. Við
þurfum að gera allt til að styrkja lýðræðið. Og liður í því er að endurskoða
rammann stöðugt.
Kjördagur er í mínum huga hátíðisdagur –gleðidagur. Stundum
hefur hann endað með gráti í lok dags - stundum gríðarlega djúpstæðum
vonbrigðum – næstum sorg - en mér segir svo hugur að því verði öðruvísi farið
nú.
Ég gekk úr Samfylkingunni á vordögum. Í því var falin
yfirlýsing sem ég hafði verið lengi á leiðinni með að framkvæma og lét loksins
verða af. Þegar Samfylkingin var stofnuð fylgdu því gríðarlegar væntingar.
Væntingar um að til yrði sterkt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn sem myndi leiða
til þróunar íslensk samfélags í aðra átt. Það var sárt að upplifa viljaleysi
samherja minna í pólitík til að leyfa þessu fyrirbæri – þessum stjórnmálaflokki
- Samfylkingunni – að þróast og þroskast. Að upplifa að fjöldi samherja var
tilbúinn að snúa baki við þessum flokki og trúa fremur á „eitthvað nýtt“ rétt
þegar flokkurinn var loksins að slíta barnsskónum var undarleg uppákoma og
lagðist ekki vel í mig. Ég átti svo eftir að fara sömu leið og þannig er staðan
enn.
Það breytir ekki því að ég er enn jafnaðarmaður og hef
djúpan og sterkan vilja til að sjá íslenskt samfélag þróast í þá átt að verða
forysturíki á sviði velferðar – vellíðunar - íbúanna sem landið byggja. Ég trúi
því staðfastlega að vilji sé allt sem þarf. Ég trúi því að með markvissum vilja
sé hægt að gera stórfelldar breytingar á 4 árum.
Mínar væntingar snúa ekki að stórfelldum breytingum á
kvótakerfinu. Ég held ekki að kvótakerfið sé stærsta vandamál íslensks
samfélags og ég veit að þar skilur á milli mín og fjölda íslenskra kjósenda. Ég
held að stærsti vandi kvótakerfisins sé ósáttin og að sáttin sem þurfi að nást
fram muni aldrei nást nema með víðtæku samtali og málefnalegri niðurstöðu allra
hagsmunaaðila og þar eru Reykvíkingar í miðbæ Reykjavíkur ekki stærsti
hagsmunahópurinn. Þar eru minni útgerðir út um allt land, sjómenn,
landvinnslufólk, íbúar í dreifðum byggðum sem byggja alla sína tilveru á
sjávarútvegi hagsmunaaðilar. Vandamálið er ekki eignarréttarlegs eðlis.
Reykvíkingar í miðbæ Reykjavíkur og öðrum hverfum borgarinnar hafa uppskorið
ríkulega vegna sterkrar stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og þeir hafa ekki þjáðst
vegna þeirra.
Stórar útgerðir verða að koma með okkur í þetta samtal og
sýna auðmýkt og vilja til að sáttar um nýtingu auðlindarinnar. Það hlýtur að
vera þeim augljóst að við sættum okkur ekki við að þau séu með ítök í öllum öðrum
fyrirtækjarekstri í landinu. Sú tilhneiging þeirra síðustu ár að kaupa í öllum
öðrum fyrirtækjum í annars konar starfsemi - er sjálfstætt vandamál sem þau
verða að horfast í augu við og bjóða lausnir á. Það er t.d. ekkert eðlilegt við
það að Samherji stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og þar með stærsti kaupandi
að flutningum í landinu eigi Eimskip. Það er augljóst hverjum manni að það er
ekki eðlilegt viðskiptaumhverfi.
SÍS og Kolkrabbinn voru ekki góðar fyrirmyndir og við
hljótum að krefjast þess að íslenskt samfélag þróist ekki sífellt í þá átt
aftur.
Það var áhugavert að hlusta á umræður stjórnmálamannanna í
gærkvöld. Forystumenn ríkisstjórnarinnar voru allt í einu allir á einu máli um
að gríðarleg tækifæri fælust í hugbúnaði og nýsköpun. Þar væru vaxtarbroddar
atvinnulífs í framtíðinni fyrir Íslendinga. Það var stórmerkilegt fyrir mig –
áhugasaman kjósanda í áratugi - að heyra þetta úr munni þessa fólks. Af hverju
horfist þetta fólk þá ekki í augu við að til að hér verði til umhverfi þar sem
erlendir aðilar vilja koma inn með fjárfestingar (aðrir en Vogunarsjóðir og
þeir sem sérhæfa sig í áhættusömum fjárfestingum)?
Í mínum huga hefur blasað við lengi að stærsta málið í
íslenskri pólitík er að búa til jarðveg fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Það
gengur ekki til framtíðar að byggja allt okkar á sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Viðskiptaráð fór af stað fyrir ekki svo löngu síðan með
herferð um að við þyrftum að efla „alþjóðlega geirann“. Þessi herferð kom mér
undarlega fyrir sjónir þar sem þetta hefur auðvitað blasað við alla þessa öld.
Leiðin til að efla „alþjóðlega geirann“ er auðvitað að búa hér til jarðveg
fyrir erlenda fjárfesta að koma inn. Það gerum við með því að verða aðilar að
Evrópusambandinu og í framhaldi af því að taka upp evru. Það verður ekki gert á
einum degi og sorglegra en tárum tekur hvað við höfum leyft sérhagsmunaöflunum
að standa í vegi fyrir því lengi.
Sú stefna gengur ekki til lengdar að vera með þúsundir manna
í atvinnubótavinnu á vegum ríkisins en þannig er staðan í dag. Undirrituð er
ein þeirra.
Alla kosningabaráttuna hef ég sveiflast á milli þess að ætla
að kjósa Viðreisn eða Samfylkinguna. Viðreisn vegna þess að sá flokkur hefur
verið einarður í máflutningi sínum um að stefna fortakslaust á aðild að
Evrópusambandinu allt síðasta kjörtímabil. Á lokametrunum breyttu þeir allt í
einu um kúrs og í stað þess að tala skýrt um að Evrópusambandsaðild sé
forgangsmál ætla þau að festa gengi krónunnar við evru með samningum við
Evrópusambandið.
Með þessum máflutningi varð valið skýrt. Í dag mun ég kjósa
Samfylkinguna. Eins og ég hef gert allar götur síðan hún var stofnuð.
Eins og í öllum kosningum það sem af er þessari öld mun ég
fylgjast spennt með fyrstu tölum í kvöld og vona heitt og innilega að það sem
kemur uppúr kössunum muni gefa byr undir frjálslynda framsýna ríkisstjórn þar
sem Sjálfstæðisflokknum er gefið frí.
Við sjáum til hvað gerist…
...í öllu falli…
Gleðilegan kosningadag!