sunnudagur, 18. apríl 2021

Að stæra sig af flokkun fólks

Þykir í nútímanum sjálfsögð og eðlileg iðja. Því fylgir yfirleitt að viðkomandi telur sig tilheyra þeim flokki sem er jákvæður og peppaður alla daga og lítur með fyrirlitningu til þess hóps sem gerir það ekki.

Mér finnst þetta alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Hvernig má það vera að það þyki bara besta mál að flokka fólk í hópa þar sem stórum hópi er útskúfað og hinum hampað? Hvernig getur það talist dæmi um gott og heilbrigt samfélag? Að gefa fingurinn stórum hópi fólks og segja honum að hann fái ekki að tilheyra? Hvernig getur það verið gott?

Þetta fyrirbæri kemur frá hinum bandaríska heimi. Sem hefur síðustu misserin verið duglegur við að búa til ný boðorð sem viðhöfð eru í daglegu lífi okkar án þess að við tökum eftir því eins og t.d. „að sjá glasið hálftómt í stað hálffullt“. Stepford Wives er ekki lengur dystopía – hún er veruleikinn. Við eigum öll að vera til friðs og þegja um það sem okkur finnst. Eigum að vera jákvæð og umfram allt;  peppuð – alltaf.

Við vissum einu sinni að svona hegðan heitir yfirlæti og það er ekki eftirsóknarvert eða góð fyrirmynd fyrir neinn að sýna yfirlæti. En við virðumst ekki vita það lengur. Það að vera yfir aðra hafinn og setja hina í hóp sem ekki má tilheyra er sjálfsagt og eðlilegt í dag.

Við erum öll allskonar var lína Besta flokksins einu sinni. Á sama tíma var fólkið í Bjartri framtíð einmitt duglegast við að gefa sjálfri sér þá einkunn að það væri alltaf svo jákvætt og gaf þar með í skyn hvað hinir voru þó þau gengju kannski ekki svo langt að segja það upphátt.

Við erum öll allskonar er góð lína sem ég held að væri okkur hollt að hugleiða endrum og sinnum. Við eigum í erfiðleikum í hjónabandinu, erfiðleikum með andlega líðan, erum einhverf, með geðhvörf, kvíða, fælni, eigum við ýmsa og mismunandi djöfla að draga – öll – alltaf – í mismunandi myndum.

Fólk sem á við ýmsan vanda að etja getur ekki alltaf verið jákvætt. Það er ekkert eðlilegt eða mannlegt við það að vera alltaf jákvæður. Jú, jú auðvitað er til fólk sem vaknar í gleði flesta daga og viðhorf þess til lífsins er viðhorf jákvæðni og gleði sem smitar út frá sér til annara. Það er yndislegt og eftirsóknarvert að vera nálægt slíku fólki. Fólki sem líður vel í eigin skinni og er öruggt með sig í þeirri líðan. Við hin viljum mörg komast þangað. En við erum ekki endilega þar. Og það er heldur ekkert eðlilegt við að gera kröfu um að við séum öll þar. Það er eðlilegt að við séum öll allskonar og að við fáum öll að vera allskonar.

Við vissum einu sinni að það var hluti af því að vera góð manneskja er að vera umburðarlyndur. Að vita að í störfum okkar getum við þurft að mæta alls kyns hegðan alls kyns fólks. Að það er okkar verkefni í lífinu að læra að fást við að það eru ekki alltaf allar manneskjur eins og við viljum að þær séu. Við erum öll allskonar. Það að vera góð manneskja er að vita það og gera ekki kröfu til þess að allar manneskjur séu eins og ég. Manneskjur eiga það til að hella sér yfir mann þó maður hafi ekkert til þess unnið. Það er eitt af því sem við þurfum að læra að fást við.

Margrét Kristmannsdóttir skrifaði bakþanka í Fréttablaðið í gær undir yfirskriftinni „Á lúxussiglingu“. Þeir bakþankar urðu kveikjan að þessari grein. Margrét stærir sig þar af flokkun fólks í „jákvætt fólk“ og „neikvætt fólk“. Hún tilheyrir að sjálfsögðu fyrrnefnda hópnum og lætur þess getið að hinn hópurinn „dragi úr henni lífslöngunina“. Þessi skipting Margrétar er alvanaleg þessi misserin. Ég hef lengi átt við það að stríða að þykja þessi skipting óþolandi fyrirbæri og óboðleg og ákvað að láta ekki þar við sitja í þetta skiptið heldur tjá mig um málið. Við erum mörg sem hefur verið jaðarsett í þessu samfélagi á þeirri forsendu að vera ekki eins og öðrum hugnast að við séum. Það er ástæðulaust að leyfa þeim hópi sem telur sig þess umkominn að jaðarsetja aðra að gera það án viðspyrnu.

Í heilbrigðu samfélagi er ekki til „jákvætt“ og „neikvætt fólk“. Það er til fólk. Stundum jákvætt. Stundum neikvætt. Stundum hvorugt. Fólk. Allskonar fólk. Í allskonar líðan. Í dag svona og á morgun hinsegin.

Fólk. Sem alltaf þarf á öðru fólki að halda. Fólk sem umfram allt vill fá að tilheyra.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...