miðvikudagur, 6. janúar 2021

Skömminni skilað

Af hverju er ég svo að blaðra þetta og birta opinberlega um hluti sem fólk vill almennt halda fyrir sjálfa sig? Af hverju er ég að blaðra um að ég hafi verið rekin og það tvisvar frekar en einu sinni á 10 árum? Hvernig í  ósköpunum má finna það út að það verði til að styrkja mig á einhvern hátt?

Hef hugsað mikið um þetta síðustu daga því þörfin fyrir að koma þessu frá mér hefur verið djúpstæð og verið með mér lengi. Allt í einu kviknaði á perunni í dag. Þetta snýst um að skila skömminni. Ekkert annað.

Innra með mér er gríðarleg skömm fyrir að hafa verið rekin – svo djúp og sár að í hálft ár gat ég miðaldra manneskjan ekki sagt öldruðum foreldrum mínum frá því. Það var einfaldlega of erfitt. Ég gat það ekki. Það er fáránlegt – mér finnst það sjálfri – ekki síður en öðrum. En þannig var það nú samt. Það að standa sig í vinnu er eitthvað sem gerir mann að manni í minni fjölskyldu – því eru það ótvíræð skilaboð um að ég hafi klikkað á grundvallaratriðum þegar ég er rekin fyrir störf mín. Því skiptir það mig máli að segja upphátt að ég hafi ekki unnið til þess – jafnvel þó að enginn sé þarna til að styðja mig í því og ég standi ein að þeirri yfirlýsingu. Ég veit að ég skilaði góðu verki á báðum stöðum og það skiptir mig máli að koma því frá mér og láta það standa.

Ég hef ekki tekið þátt í me too byltingunni einfaldlega af því að ég hef ekki fundið hjá mér þörf til þess. Aftur á móti er þörfin mikil að tala um þetta hér og ég vænti þess að rótin sé sú sama.

Eins og við vitum fór me too byltingin aldrei fram í viðskiptalífinu. Þar stoppaði hún. Að sýna veikleika er almennt ekki talið til þess fallið að styrkja einstaklinga sem þar keppa um stöður. Ég geng út frá því að það sé ástæðan án þess auðvitað að hafa hugmynd um það. En er það ekki merkilegt að þessi bylting sem fór eins og eldur í sinu um allt skuli ekki hafa farið um viðskiptalífið? Segir það ekki einhverja sögu sem hollt er að velta fyrir sér?

Ég skrifa þessar greinar auðvitað því ég tel mig ekki hafa neinu að tapa – þess vegna leyfi ég mér það. Ég fæ ekki áheyrn nokkurs staðar hversu mikið sem ég reyni. Nú hef ég ákveðið að þetta sé komið gott og ég verði að taka málin í mínar hendur. Skapa mér starf sjálf. Vonandi tekst mér það. Ég er glöð með að hafa komið þessu frá mér því ég er sannfærð um að það eru margir í þeirri stöðu að þurfa að tala um hliðstæða hluti en standa á bremsunni því þau álíta of mikið í húfi. Sjálfsvirðingin er svo samtengd því að hafa virði á vinnumarkaði að það er einfaldlega óhugsandi fyrir marga að rjúfa þögnina.

Ég á enn margt ósagt um íslenskan vinnumarkað og mína reynslu þar og ég á mjög líklega eftir að tjá mig um það í fleiri greinum. Ekki síst er ástæða til að tala um guðina sem við höfum sjálf búið til þar en það er efni í heilan greinaflokk. Að við skulum hafa búið til svona marga guði á jörðu niðri hefur óholl áhrif á samfélagið allt og um það þurfum við einhvern tíma að tala. En segjum þetta gott að sinni.

5 ummæli:

  1. Takk Signý fyrir kjarkinn og hreinskilnina, stíga fram og standa með þér og um leið fordæmi fyrir aðra í sömu sporum. Skömmum bolrar sér víða á ranga staði og kremur ranglega.

    SvaraEyða
  2. Signý, þú átt hrós skilið. Takk fyrir greinarnar.

    SvaraEyða

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...