þriðjudagur, 5. janúar 2021

Farsæl ferilskrá

Þetta fallega orðasamband var viðhaft í mín eyru fyrir skömmu. Farsæl ferilskrá. Hefur yfir sér einhvern ljóma. Eitthvað sem mann langar næstum að snerta – svo íðilfagurt og ljúft. Hvað þýðir það? Hver hefur farsæla ferilskrá og hver hefur það ekki? Hversu mikið hefur einstaklingurinn sjálfur um það að segja hvort að ferilskráin hans verður farsæl eða ekki?

Það er nú það. Nú flækjast málin. Á Íslandi er það einhvern veginn þannig að það hvernig þú stendur þig í starfi skiptir ekki öllu máli. Jafnvel minnstu máli. Það hver þú ert, hvernig þú ert, hvaða skoðanir þú hefur skiptir öllu máli. Þetta vita ráðningarstofur í landinu enda segja þær það ítrekað í kynningum.

Þær segja reyndar aldrei að það að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða starfa í flokknum vinni með þér en auðvitað vitum við það. Auðvitað vitum við að neikvæða hliðin á því að hafa áhuga eða starfa í pólitík snýst í engum tilfellum um Sjálfstæðisflokkinn. Það vinnur með þér – alltaf.

Hér talar manneskja með reynslu. Og hún hlýtur að mega tjá sig um reynslu sína – er það ekki það minnsta sem hægt er að fara fram á? Stærstu mistökin sem ég hef gert í mínu lífi varðandi ferilskrána eru áreiðanlega þau að vera ekki aðili að Sjálfstæðisflokknum og taka virkan þátt í starfi flokksins. Ég er einfaldlega alveg viss um það. Aðilarnir sem þekkja til vinnu minnar og hafa verið ánægðir með störf mín eru allir meira og minna í Sjálfstæðisflokknum. Fólkið í Samfylkingunni veit ekkert hvernig ég hef staðið mig í störfum mínum. Það veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma gert eitthvað sem þýðir að mér ætti að vera treystandi til einhvers hlutverks.

Ég hef því miður ekki náð því á æviferlinum að hægt sé að segja að ég hafi átt farsæla ferilskrá. Til þess er hún of götótt. Það þekki ég þar sem ég starfaði einu sinni fyrir löngu síðan sjálf í ráðningabransanum. Þar var eitt aðalatriði sem manni var kennt að líta hornauga - allar eyður í ferilskránni. Það vissi ekki á gott. Nú eru götin orðin svo löng og svo stutt á milli þeirra að það er spurning hvort ég eigi nokkurn tíma afturkvæmt á íslenskan vinnumarkað. Þ.e. í starfi sem mig langar í.

Ferilskráin mín er ekki bara götótt heldur er það líka þannig að framkvæmdastjórar mínir síðustu 10 ár hafa annað hvort rekið mig eða á annan hátt látið mig vita að ég væri ekki eins og ég ætti að vera og það getur varla talist farsæl ferilskrá.

Finnst það eiginlega pínu grátlegt að geta ekki státað mig af farsælli ferilskrá því á sama tíma hef ég hef eiginlega gefið mig alla þessum sama starfsferli. Verið tilbúin að gefa mig alla og miklu miklu meira til. En einhvern veginn hefur það aldrei verið nóg. Ég er aldrei eins og ég á að vera. Það sagði framkvæmdastjórinn þegar hann rak mig fyrir 10 árum. Hann sagði það ekki daginn sem hann rak mig en hann sagði það frá fyrsta degi sínum í starfi. Kallaði mig til fyrsta fundar sennilega eftir að hafa setið þar í viku til að segja mér að ég væri ekki í lagi. Og ítrekað eftir það. Hafði ekki stuðninginn til að reka mig fyrr en ég sjálf hafði aflað honum hans með því að kalla sérstaklega eftir ungum manni í ráðið mitt. Þeim unga manni fannst ég hafa horn og sú afstaða hans kom fram á fyrsta fundi. Þá vissi ég að leikurinn var tapaður þó að það ætti eftir að taka tvö ár.

Þetta er mjög sérstök reynsla sem ég óska engum að verða fyrir. Að fá stöðugt að vita að þú sjálf sért vandamálið. Ekki hvað þú gerir eða hvernig þú gerir það heldur þú. Hvað gerir maður við slíkar upplýsingar? Nú maður snýr sér auðvitað að því sem maður kann best og tekur upp þráðinn sjálfur. Gengur í verkið og brýtur sig niður. Það gerði ég með miklum árangri.

Það er vont að eiga ekki farsæla ferilskrá að státa af. Og í mínu tilfelli er það eiginlega út í hött. Af hverju í ósköpunum á ég ekki farsæla ferilskrá? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða og læt það standa hér að það er ekki vegna þess að ég hafi ekki staðið mig í störfum mínum. Það hefur miklu meira með það að gera hver ég er, hvernig ég er og að ég segi hlutina upphátt. 

Það skiptir mig máli að segja þetta upphátt og leyfa því að standa. Ég á foreldra, systkini og afkomendur. Ég vil ekki að framkvæmdastjóri sem rekur mig samdægurs eigi síðasta orðið um það hver ég og hvernig ég hef staðið mig á íslenskum vinnumarkaði. 

Það getur vel verið að orð mín hafi lítið vægi á móti orðum þeirra sem valdið hafa. En ég má þó alla vega reyna. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...