Björgólfur Jóhannsson var formaður Samtaka atvinnulífsins á árunum 2013 – 2017. Hann er stjórnarformaður Íslandsstofu. Hann var forstjóri Icelandair í 10 ár. Maður sem maður skyldi ætla að væri sér meðvitaður um ábyrgð sína – meðvitaður um að orð hans skiptu máli. Lætur hafa sig í að taka þátt í tölvupóstsumræðu þar sem hann sjálfur er upphafinn á kostnað að því er látið er að liggja lítilsigldra blaðamanna. Leynir sér ekkert að þar talar maður sem valdið hefur. Vald til að hlutast til um líf annarra.
Við höfum fengið að gægjast inn í Pandóruboxið. Fengið
nasasjón af spillingunni sem grasserar í þessum hópi æðsta lags stjórnenda á
Íslandi. Þar sem þykir í lagi að hlutast til um líf þeirra sem lægra eru
settir. Ísland er ekki samfélag þar sem fólk fær að njóta verðleika sinna.
Ísland er samfélag þar sem mestu skiptir að vera í rétta klúbbnum og að halda
kjafti. Vera meðvirkur með spillingunni – ekkert skiptir jafnmiklu máli og það.
Viðbjóðurinn sem þessar greinar í Kjarnanum lýsa og eflaust
má lesa um í Stundinni – en ég á ennþá eftir að kaupa hana – gera mann dapran.
Daprari en orð fá lýst. Íslenskir ráðamenn láta í útlöndum eins og Ísland sé
sérstakt land jafnréttis. Hreykja sér af því og berja sér á brjóst. Í
bakherberjum haga þeir sér eins og götustrákar.
Ég ætla að segja þeim það núna að svona hagar maður sér
ekki. Í heilbrigðum samfélögum gerir maður það ekki. Maður skrifar ekki
tölvupósta þar sem maður hlutast til um líf annarra. Maður leyfir öðrum að
njóta verðleika sinna. Maður leyfir blaðamönnum að vinna vinnuna sína. Maður
leyfir kosningum í blaðamannafélögum að eiga sér stað án íhlutunar. Þegar maður
situr í æðsta lagi samfélagsins stendur maður ekki í því að leggja steina í
götu þeirra sem lægra eru settir. Maður leyfir samfélaginu að hafa sinn gang.
Leyfir einstaklingunum að kjósa þá stjórnmálaflokka sem það kýs, tjá sig um þá
hluti sem það vill án þess að láta það hreyfa við sér.
Ef maður kýs að spila óheiðarlega. Ef að maður kýs að greiða
mútur til að græða meira og það verður upplýst þá verður maður að taka
afleiðingunum af því. Þannig er það í heilbrigðum samfélögum. Maður tekur
afleiðingum gerða sinna. Maður leggur ekki upp í leiðangur til að eyðileggja
líf annarra. Það gera mafíósar. Mafíósar ráða spæjara til að elta þá sem reyna
að upplýsa um glæpi þeirra. Alvarlega spilltir menn leita leiða til að
eyðileggja trúverðugleika þeirra sem þeim ekki hugnast. Þannig gera ekki heiðarlegir
menn.
Í heilbrigðum samfélögum vita menn að blaðamenn og fjölmiðar
eru mikilvægir. Að þeir eru til þess gerðir að veita aðhald og upplýsa. Í spilltum
samfélögum reyna menn að þagga niður í blaðamönnum og fjölmiðlum og hafa áhrif á
störf þeirra.
Þannig er samfélagið sem ég bý í. Gjörspillt. Þar sem efsta
lag samfélagsins – þeir sem stýra atvinnulífi landsins – lifa í þeirri meiningu
að það sé þeirra hlutverk að hlutast til um framgang venjulegs fólks. Að leyfa
spillingunni að halda áfram að viðgangast. Að beinlínis eyðileggja fjölmiðla
með því að gera forsætisráðherra landsins til 13 ára að ritstjóra þekktasta
dagblaðsins. Og gera það kinnroðalaust. Án hiks.
Pandóruboxinu hefur ekki verið lukið upp – aldeilis ekki –
en við höfum fengið að skyggnast inn og innihaldið er ekki mönnum bjóðandi. Þessi
saga fjallar ekki aðeins um Samherja – hún fjallar um alvarlegt mein í íslensku
samfélagi sem ekki er hægt að búa við. Þar sem forystumenn íslensks atvinnulífs
halda að það sé þeirra hlutverk að ráða framgangi einstaklinga.
Mér er sama um lögfræðingana og skipstjórann – þau eru
kjánar. En mér er ekki sama um stjórnarformann Íslandsstofu – fyrrverandi
stjórnarformann Samtaka atvinnulífsins. Björgólf Jóhannsson. Engu okkar ætti að
vera það.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli