Seljendur vöru og þjónustu frá Íslandi kvarta stórum undan gengi íslensku krónunnar þessi misserin. Skal engan undra. Þegar þú selur vöru eða þjónustu viltu vita hvaða tekjur þú færð fyrir þá vöru eða þjónustu. Þegar krónan styrkist umtalsvert þýðir það færri krónur í tekjur á sama tíma og kostnaðurinn er í íslenskum krónum. Útkoman verður ekki sú sem þú væntir. Kannski minni hagnaður. Kannski tap.
Líf mitt sem venjulegrar manneskju vænkast heldur í umhverfi styrkrar krónu. Verðbólga hefur verið lág um nokkurt skeið og meira að segja verðhjöðnun einhvern mánuðinn. Upplifði á dögunum að ég keypti nikótíntyggjó í apótekinu sem kostaði nokkur hundruð krónum minna pakkinn en síðast þegar ég keypti hann. Minnist þess varla að það hafi gerst í mínu lífi áður. Að vara eða þjónusta á Íslandi hafi lækkað í verði.
Þegar íslenska krónan er annars vegar eru lítil takmörk á birtingarmyndum nýrrar reynslu. Blessaður túristinn hefur orðið þess valdandi, ásamt styrkri stjórn peningamála, að ég hef nú upplifað þetta í fyrsta skipti. Að höfuðstóll verðtryggða lánsins míns stendur nánast í stað í heilt ár og ég kaupi innflutta vöru lægra verði en ég gerði fyrir nokkrum mánuðum. Skórnir sem mig langar í kosta núna nokkrum tugum þúsunda minna í búðinni en þeir gerðu fyrir níu árum.
Ég er því þakklát. Þakklát túristunum og þakklát Seðlabankanum. Stjórnvöld, þeir sem eiga þó að stjórna umhverfinu sem ég bý við, hafa ekki frekar en fyrr mikið með þetta að gera. Þetta umhverfi sem ég bý við. Athafnamennirnir, þessir sem eiga að hafa vit og skilning á samhengi hlutanna, gráta styrka krónu. Hamast á Seðlabankanum og sjá í honum hinn illa sjálfan. Báðir vilja umfram allt halda í krónuna. Stjórnvöld og athafnamennirnir. Þeir krefjast þess að ég, venjulega manneskjan, lifi í umhverfi krónunnar.
Við erum 330 þúsund manneskjur. Hagkerfið er á blússandi siglingu. Túristum fjölgar og fjölgar og fjölgar og okkur er sagt að þannig verði það áfram. Athafnamennirnir kvarta sáran yfir gengi íslensku krónunnar og krefjast niðurfellingar hafta. Lausnina á stöðu krónunnar sjá þeir í „frelsi hennar“. Frelsi til að fara með hana út og inn að vild.
Eftir hverju eru þeir að kalla? Að fjármagnshreyfingar verði frjálsar eins og þær voru fyrir hrun? Að gengi krónunnar fái að sveiflast aftur eftir fjárfestingum eins lífeyrissjóðs í útlöndum? Eða kaupum eins fyrirtækis á Íslandi í öðru fyrirtæki í útlöndum?
Geng út frá því að þeir vilji vera stórtækir, íslensku athafnamennirnir. Vilji vera stórtækir í alþjóðlegum viðskiptum. Lái þeim það ekki. Það er gaman að vera stórtækur. Gaman að vera í alþjóðlegum viðskiptum. Gaman að ná árangri.
En hvað með okkur venjulegu manneskjurnar? Hvernig eigum við að lifa í samfélagi með þeim? Þegar þeir eru stórtækir? Og við erum bara 330 þúsund.
Seðlabankinn stritar við að halda verðbólgu niðri og hefur orðið vel ágengt. Ótrúlega vel ágengt. Það skiptir mig, venjulegu manneskjuna, máli. Öllu máli. Ég treysti þeim. Ég treysti ekki íslensku athafnamönnunum og ekki heldur stjórnvöldum. Ekki vegna þess að ég haldi að þeir séu illir. Eða að ég haldi að þeim sé illa við mig. Ég treysti þeim ekki vegna þess að ég hef ekki ástæðu til að treysta þeim. Þeir hafa ekki reynst traustsins verðir og þeir verða að ávinna sér traust aftur. Það gerist ekki á einum degi.
Traust ávinna þeir sér ekki með ábyrgðarlausu tali. Athafnamenn og stjórnvöld eiga að skilja samhengi hlutanna. Betur en ég og við hin, venjulegu manneskjurnar. Þess vegna langar mig að biðla til þeirra að haga sér þannig. Sýna ábyrgð. Sýna mér ábyrgð í tali sínu um þetta efnahagsumhverfi sem við lifum í.
Fleira var það nú ekki.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli