þriðjudagur, 14. mars 2017

Spennan magnast...

Íslenska krónan hefur verið gefin frjáls. Í meginatriðum. Tilraunastarfsemin með íslenska krónu í alþjóðlegum heimi viðskipta fær annan snúning. Fjármálaráðherra og fyrrum forsætisráðherra komnir í pissukeppni. Báðir vilja sýna okkur hvað þeir eru klárir businessmenn.

Hagkerfið er á blússandi siglingu. Hagvöxtur síðasta árs 7,2%. Styrkur krónunnar slíkur að útflutningsatvinnuvegirnir eiga í vanda. Danski sérfræðingurinn sem tekinn var í guðatölu eftir illa meðferð í síðasta góðæri segir Seðlabankann eiga að hækka vexti. Þrír framkvæmdastjórar samtaka útflytjenda kalla eftir lækkun vaxta. Hvaða ákvörðun Seðlabankinn tekur fáum við að vita á morgun.

Í dag er fyrsti dagur „frelsisins“. Fylgst er grannt með hvað gerist. Veikist krónan enn? Veikist hún verulega? Fáum við verðbólguskot? Óvissan algjör. Spennan magnast. Sérfræðingar segja okkur þó að vera róleg. Seðlabankinn hafi á að skipa góðum gjaldeyrisforða og allar hagtölur segja okkur að við séum í góðum málum. Engin ástæða sé til ótta.

Baksviðs berast fregnir af mögulegum málshöfðunum. Menn deila um verðið á krónunni sem lokuð var inni við hrun síðasta góðæris. Hvað er rétt verð? Hvað er sanngjarnt verð? Á hvaða tíma? Fyrir hálfu ári? Núna? Karlarnir sem hagsmuna eiga að gæta eru þess umkomnir að segja okkur hvað er rétt og hvað er rangt. Þeir vita það. Sbr. fyrrum forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann. Báðir góðir hagsmunagæslumenn.

Fyrrum forsætisráðherrann ítrekar tal sitt um „vondu vogunarsjóðina“. Ber á borð málflutning í þá veru að Íslendingar sem versla með peninga séu „góðir“ og útlendingar sem gera slíkt hið sama séu „vondir“. Fordæmið hefur hann frá forvera sínum sem var góður í því að segja okkur hverjir væru góðir og hverjir væru vondir.

Íslenska krónan er gjaldmiðillinn okkar. Gengi hennar hefur bein áhrif á stöðu okkar til lengri og skemmri tíma. Eignastöðu okkar. Kaupmátt okkar. Stöðu verðtryggðu lánanna okkar. Verðlag vörunnar sem við kaupum. Verðlag þjónustunnar sem við kaupum. Allt umhverfi okkar stjórnast af því hver staða krónunnar er.

Hver hugsar um þann hag?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...