þriðjudagur, 7. mars 2017

Spilapeningur eða alvöru gjaldmiðill?

Við hrunið 2008 var þjóðerniskennd það sem sem spilað var á. Við áttum að vera heima. Prjóna og búa til slátur.

Sjálfstæði að hætti Bjarts í Sumarhúsum varð forgangsmál. Íslenska krónan varð m.a. fulltrúi þessa sjálfstæðis. Þrjúhundruð og þrjátíu þúsund manneskjur í einu landi eru þess fullvissar að tilvist íslensku krónunnar sem sjálfstæðs gjaldmiðils sé forsenda sjálfstæðis þjóðarinnar. Íslenska krónan í alþjóðlegum heimi viðskipta.

Forystumenn í íslensku viðskiptalífi voru fremstir í flokki þeirrar baráttu að tryggja Ísland áfram sem eyland í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Sjálfstætt að hætti Bjarts í Sumarhúsum. Þessa dagana upplifa þeir afrakstur þeirrar baráttu. Sterka krónu. Svo sterka að Ísland er nú orðið dýrasta land í heimi.

Í hverjum fréttatímum á eftir öðrum birtast þeir. Og í aðsendum greinum blaðanna. Vandamálið borið á borð eins og það hafi aldrei nokkurn tíma gerst áður. Sterk króna er fordæmalaus og vandamálið alveg nýtt. Helst á samhenginu að skilja að Seðlabankanum sé um að kenna.

Fyrsti áratugur aldarinnar var áratugur hækkana á verði hlutfjár fyrirtækja í Kauphöllinni. Hækkanir voru normið. Man ekki hvað kannski svona 60-70% hækkun á virði hlutabréfanna árlega. Er það svo fjarri lagi?

Það endaði með skelli. Skelli þar sem hlutafjárverð í Kauphöllinni féll saman um 85% haustið 2008. Eitt stærsta gjaldþrot heimssögunnar þar sem samdrátturinn í hagkerfinu var án fordæma alþjóðlegra hagkerfa var staðreynd.

75% stóru fyrirtækjanna í það minnsta fóru í endurskipulagningu. Þar sem blessaðir Lífeyrissjóðirnir voru til bjargar. Lífeyrissjóðirnir. Þessir sjóðir sem við höfum greitt í frá því við hófum störf og eru til þess ætlaðir að vera eftirlaunasjóðir okkar í ellinni. Björgunarsjóðir ábyrgðarleysisins par excellence. Hefur sýnt sig allar götur síðan.

Fékk Morgunblaðið borið heim til mín í kápu Icelandair einn daginn og kápu Símans hinn daginn í boði Lífeyrissjóðanna einhverja daga á meðan þetta allt saman gekk yfir. Athugasemdin er skrifuð í dagbókina 3. apríl 2011, kannski gerðist það þó 2009 eða 2010 man það ekki.

Kauphöllinni í dag er haldið uppi af Lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru ráðandi aðilar í öllum fyrirtækjum í Kauphöllinni og henni hefði líklega verið lokað fyrir löngu ef þessir lukkupeningar hefðu ekki verið til staðar þegar spilapeningarnir voru búnir. Núna vilja þeir fara að byggja vegi með þessum peningum. Gott ef ekki íbúðir. Já Lífeyrissjóðirnir eiga að halda vélinni gangandi.

Íslendingar eru 330.000. Hvaða takmörk setur sú staðreynd ein og sér íslenskri krónu? Vilja íslenskir athafnamenn fara aftur til 20. aldar í viðskiptum sínum á alþjóðavettvangi? Viljum við vera á stórtæk í alþjóðlegum viðskiptum áfram eins og við höfum verið alla þessa öld? Ætlum við samt að halda í íslenska krónu?

Hér bið ég forsvarsmenn viðskiptalífsins að svara. Hvort vilja þeir? Íslenska krónu? Eða ekki? Ætla þeir að lifa með krónu eða ætla þeir það ekki? Ef þeir ætla að lifa með henni má ég þá biðja þá um tala af ábyrgð? Ábyrgð þar sem gengið út frá því að það sem fer upp fer líka niður. Það sem veikist, styrkist líka.

Það sem gerðist í Kauphöll Íslands á árunum 2003-2008 var ekki gagnleg reynsla. Sú reynsla lifir kannski enn í minninu. Menn halda kannski að það sé bara til ein leið – upp. Það er ekki svo. Það sem fer upp fer líka niður. Það sem veikist, styrkist líka.

Kannski til of mikils mælst – en má ég líka biðja þá um að muna að við erum til. Venjulegt fólk sem höfum hugsað okkur að lifa í þessu landi með þeim. Til þess að það sé hægt verða þeir að læra ábyrgð.

Aukning landsframleiðslunnar af þeim toga sem við kynntumst svo vel á 1. áratug aldarinnar er einskis virði. Þúsundir manna fóru illa út úr þeim efnahagslegu hamförum. Einhverjir misstu allt sitt, einhverjir heilsuna og enn aðrir gleðina. Sumir misstu þetta allt aleiguna, heilsuna og gleðina.

Má ég því biðja samtök atvinnulífsins á Íslandi að sýna mér ábyrgð. Ábyrgð á því að íslenska krónan er ekki þeirra spilapeningur, þeir geta ekki ákveðið gengi hennar eftir því hvað hentar þeim best í leiknum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...