Atburðir dagsins minna mig á þá staðreynd að karlar mega það sem konur mega ekki. Þannig hefur það lengi verið og verður eflaust lengi enn.
Orð Svövu Grönfeldt á kvennaráðstefnu Samtaka atvinnulífsins í janúar 2007 rifjast upp. Þarna stóð hún þessi litla granna kona - hoppaði um sviðið frekar en gekk - og talaði frá hjartanu til áheyrenda.
Skilaboðin sem hún vildi deila með áheyrendum voru þau að hún hefði valið að eiga samskipti við fólk sem veitti henni stuðning. Það var að heyra að það væri kjarni þess að hún væri komin í þá stöðu sem hún var komin. (Plús auðvitað miklir persónulegir hæfileikar hennar sjálfrar sem hún var þó ekki að tíunda) .
Fyrir mér voru þessi skilaboð gagnlegra innlegg til kvennabaráttunnar en ég hafði heyrt í langan tíma. Það var galdurinn... að umgangast og leita eftir samskiptum við fólk sem örvaði hana og studdi.
Nú er þessi kona flutt til Bandaríkjanna.
Hvað skildu margar konur í æðstu stöðum fá að hirða pokann sinn á næstu vikum og mánuðum? Konur sem gerðust sekar um það eitt að taka þátt í leiknum?
Til að gæta fullrar sanngirni verð ég að láta koma fram að ég hef engan rétt til á að fjalla um brotthvart Svövu Grönfeldt eins og hún hafi hrökklast frá. Sjálf fullyrti hún að hefði hætt sem rektor því hún hefði lokið því verki sem hún hefði ætlað sér. Ég ætla ekki að gera henni annað upp en fyrir mér er brotthvarf hennar táknrænt. Táknrænt fyrir að konur mega ekki það sem karlar mega.
Sama á við um Steinunni Valdísi í dag. Hún segir af sér af því að hún má ekki það sem karlar mega. Hún gerðist sek um að taka þátt í leiknum og þess vegna skal hún víkja. Konur jafnt sem karlar hafa beitt hana þessum þrýstingi.
Árangur sem náðst hafði í kvennabaráttunni á Íslandi hverfur hraðar þessa daga frá hruni en nokkurn hefði órað fyrir. Og við erum áreiðanlega ekki komin á endastöð í því enn.
Ég minnist vorsins 2003. Þegar systir mín dúxaði úr viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík. Allir skólafélagar hennar - strákarnir - hvaða einkunnir sem þeir fengu - voru sóttir. Margir þeirra í bankana. Engin stelpa naut þess sama. Það að dúxa skipti engu máli - það að hún var kvenkyns skipti öllu máli. Vorið eftir dúxaði vinkona hennar í sama skóla. Sama var uppi á teningnum þá.
Þetta vor 2003 hélt Guðfinna Bjarnadóttir þá rektor HR þrumandi góða ræðu sem lifir enn í mínu minni. Þetta var á þeim tíma sem Landssímamálið stóð sem hæst og hún gerði gildi og siðferði að aðalatriði ræðu sinnar. Ég fékk gæsahúð oftar en einu sinni undir þessari ræðu og ég man hvað ég óskaði þess að skilaboð hennar næðu inn í fjölmiðla. En því var aldeilis ekki að heilsa. Sama hvað ég leitaði þá fann ég engar tilvitnanir í ræðu hennar í fjölmiðlum á þessum tíma. Það var aftur á móti enginn skortur á því að vitnað væri í ræðu rektorsins á Bifröst.
Kannski segir þetta meira um almannatengla í viðkomandi skólum en kynferði rektoranna skal ekki fullyrða neitt um það. En ég man hvað mér fannst þetta sorglegt. Á þessum tíma þráði ég umræðu í þá veru sem Guðfinna Bjarnadóttir gerði að aðalatriði í ræðu sinni. Fjölmiðlar í sinni hjarðmennsku um 3ja mánaða uppgjör FL Group, Eimskips og hvað þessi fyrirtæki hétu nú öll var það eina sem ástæða var til að fjalla um og ræða rektors um gildi og siðferði vakti ekki áhuga eða athygli manna.
Enn höfum við ekkert lært. Við fylgjum í blindni einstaklingum af karlkyni hægri, vinstri. Þeirra er sannleikurinn. Ég virði heiðarleika mikils. Ég virði einlægni mikils. Hræsni virði ég ekki.
Marga sjálfskipaða siðferðispostula Íslands í dag skynja ég uppfulla af því því síðasttalda.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli