mánudagur, 3. maí 2010

Hvernig tryggjum við „réttláta“ launastefnu?

Gerum við það með því að tala niður laun allra? Gerum við það með því að takast á við einstakar persónur og laun þeirra? Eins og gert var í viðtali við seðlabankastjórann áðan? Er þetta aðferðin til að tryggja réttlæti íslensks samfélags?

Ég segi nei. Er ósammála því að við tryggjum réttlæti með því að tala niður til einstaklinga sem hugnast Morgunblaðsritstjóranum illa. Eða yfirhöfuð því að tala um launakjör á þeim nótum að setja þau í samband við einstaka persónur.

Ég hef aldrei verið stuðningsmaður ofurlaunastefnunnar og verð það aldrei. Það að vera andstæðingur ofurlaunastefnu gerir mig ekki að stuðningsmanni smásálarinnar sem nú tröllríður íslensku samfélagi. Virðingarleysi mun ekki tryggja réttlæti í íslensku samfélagi frekar en í nokkru öðru samfélagi.

Öfgastefna niður á við er ekki líkleg til að byggja neitt upp en hún er aftur á móti mjög vel til þess fallin að brjóta niður samfélagsgerðina. Það er auðvelt að tala launagreiðslur niður og gera sanngjarnar launagreiðslur tortryggilegar. Það er auðvelt að brjóta með þeim hætti niður árangur sem náðst hefur á löngum tíma sbr. niðurlægingu sem margir launþegar þessa þjóðfélags hafa mátt þola allar götur frá hruni. Niðurlægt starfsfólk er ekki líklegt til stórræða.

Í Viðskiptaháskólanum á Bifröst lærði ég að laun stjórnenda Bandaríkjanna höfðu á örfáum árum 400 og eitthvað faldast. Á sama tíma stóðu laun millistéttarinnar í stað. Þessi hugmyndafræði þótti á þessum tíma góð og gild og var meira að segja kennd í sama skóla og er sjálfsagt enn sem og í öðrum viðskiptadeildum heimsins.

Það er hugmyndafræðin - rót vandans sem þarf að takast á við og leiðrétta. Hvernig verður það gert með skynsamlegum hætti? Bara að ég vissi svarið... en það er ekki svo, ég hef ekki svarið við því hvernig við brjótumst út úr heimsku sem við höfum leyft að grassera svo lengi.

Ég veit bara það að mér hefur alltaf þótt það augljóst að þessi hugmyndafræði takmarkalausrar skammtíma- gróðahyggju til handa stjórnendum fyrirtækja væri heimskuleg. Gladdist því mjög þegar ég fékk í Viðskiptaháskólanum á Bifröst að kynnast gagnrýni á þessa hugmyndafræði sem fyrir mér var algjörlega lógísk og sannfærandi. Gagnrýni sem lesa má um hér: https://hbr.org/1993/09/why-incentive-plans-cannot-work

Hugmyndafræði í þá veru að öll laun í landinu skuli vera undir launum forsætisráðherra er ekki uppskrift að réttlæti og sanngirni og engin lausn á því flókna máli sem ofurlaunin eru. Það er í fínu lagi að gefa út viðmið og fínt að samfélagið veiti aðhald í þá veru að það séu takmörk fyrir því hvað hægt er að samþykkja en það skiptir máli hvernig það er gert. Aðferð í anda fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóra nú Morgunblaðsritstjóra er ekki aðferð siðaðs samfélags.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...