miðvikudagur, 24. desember 2025

Hugleiðing á jólum

Á dögunum horfði ég á myndina The Boat That Rocked á RÚV. Ég elska þessa mynd – hún gerir mig alltaf svo glaða. Tíminn sem hún lýsir er svo ólíkur tímanum sem við lifum á nú og ég kann svo rosalega miklu betur við hann en þennan ferkantaða nútíma. Það er mín trú að við hefðum rosalega gott af svolitlu rokki núna. Svolítilli óhlýðni. Óþekkt. Ég væri til í að unga fólkið okkar væri óhlýðnara, óþekkara. Í stað þess að samsama sig hægri öfgamönnum væri ég til í hippa. Fleiri sem gæfu skít í að leggja allt sitt í að vera sætir á samfélagsmiðlum. Mikið rosalega held ég að það myndi gera okkar tímum gott. Okkur öllum. 

Hér í Svíþjóð þar sem ég er stödd með dóttur, tengdasyni og dótturdætrum horfði ég á dögunum á jóladagatalið um Randalín og Munda – dásamlegt sjónvarpsefni sem á það sammerkt með bíómyndinni sem ég nefndi hér að ofan að vera undursamlega fyndin. Fullorðna fólkið allt saman fullkomlega sjálfhverft með hausinn uppi í eigin rassi – svolítið eins og við erum í nútímanum. 

Að síðustu horfði ég á jóladagatalið um Snæholt – fyrstu útgáfuna. Dásamleg áminning um hvað það er sem skiptir máli. Við vitum það í raun öll innst inni. Við vitum að það er gott að vera þar sem við megum vera þau sem við erum. Að það er frelsi til þess að vera sá sem maður er sem býr til gott samfélag. Samfélag gleði þar sem okkur líður vel. 

Við vitum það öll að kærleikurinn er það eina sem skiptir máli og að stjórnlyndi er vont. 

Samfélag þar sem við erum rænd gleðinni er vont samfélag þar sem illt er að eiga heima. Gleði er mælikvarði á líðan mannsins.

Í lok síðasta árs las ég tvær bækur sem höfðu mikil áhrif á mig – bækur sem ég setti í jólapakka til margra sem mér þykir vænt um: Mennska eftir Bjarna Snæbjörnsson og Konan sem í mér býr eftir Britney Spears. 

Sú fyrri, Mennska, fjallar um samfélag sem kennir ungum manni frá fyrstu tíð að hann sé ekki eins og hann eigi að vera. Sögumaður er næmur einstaklingur sem nemur sterkt þau skilaboð sem hann fær frá barnæsku og það hefur gríðarleg áhrif á hann. Þau áhrif að hann þróar með sér sjálfshatur sem hann áttar sig ekki á fyrr en hann er orðinn fullorðinn. Á sama tíma er hann einstaklega ástríkur einstaklingur sem þykir vænt um allt og alla – það skynjar maður sterkt frá hverri blaðsíðu. Þessa bók mundi ég vilja að við fengjum ungt í skólum landsins til að lesa og ræða. Einstök bók sem lýsir með skýrum hætti andlegri baráttu einstaklings sem er öðruvísi gerður en þorpið þar sem hann býr í samþykkir. Hann veit það þó ekki sjálfur. Hefur ekki hugmynd um að hann sé öðruvísi – áttar sig ekki á því fyrr en hann er kominn á fullorðinsár – svo sterk áhrif hafði þorpið á hann. Þorpið þar sem hann á heima gæti verið hvar sem er í heiminum. Í Rússlandi. Bandaríkjunum. Þýskalandi. Litháen. Albaníu. Ítalíu. Hvar sem er.  

Hin bókin, Konan sem í mér býr, eftir Britney Spears, lýsir þeirri hræðilegu reynslu þegar stjórnun sjálfsins er fullkomlega yfirtekin af öðrum einstaklingi. Þessi hæfileikaríka og klára unga kona þurfti að þola helvíti af hálfu föður síns í vel á annan áratug áður en hún losnaði undan valdstjórnun hans. 

Þetta gerist í Bandaríkjunum – ríkinu sem við höfum lært að tengja við einstaklingsfrelsið. Það sviptir þessa heimsfrægu og hæfileikaríku ungu konu sjálfræði og veitir föður hennar valdið yfir henni. Skelfileg en holl lesning sem fyllir mann ólýsanlegri reiði og réttlætiskennd. 

Af hverju er ég að segja frá þessu hér? Á Þorláksmessu árið 2025. Ég er að því vegna þess að ég hræðist þá þróun sem á sér stað í samfélaginu sem ég bý í. Í heiminum allt um kring. Ég hræðist það að fólk aðhyllist stjórnlynda brjálæðinga sem vilja ráða því hverjir mega vera til og hverjir ekki. Brjálæðinga sem vilja að konur séu sætar heimavinnandi húsmæður og karlar snyrtilega klipptir í jakkafötum. Brjálæðinga sem vilja færa heiminn aftur á bak í öllu tilliti þangað sem hvíti karlinn er við stjórnvölinn. 

Mig langar ekki þangað. Charlie Kirk og Snorri Másson voru ekki og eru ekki handhafar kærleikans og þar með ekki boðskapar Jesú Krists þótt þeir stæri sig af því að standa vörð um „kristileg gildi“. 

Mig langar í heim þar sem við fáum öll að vera eins og við erum. Heim eins og íslenska kirkjan auglýsir núna. Heim eins og Jesús Kristur boðaði. Heim þar sem við erum öll jöfn. Heim umburðarlyndis. Heim kærleika. 

Fæðingarhátíð frelsarans – hátíð ljóssins – fer í hönd. Jesús Kristur hefur alltaf verið boðberi kærleikans í mínum huga og verður alltaf. 

Gleðileg jól og hafið það sem allra best yfir hátíðarnar og á nýju ári!


sunnudagur, 14. desember 2025

Testósterón og þjóðernisrembingur

Testósterón og þjóðernisrembingur er einhver versta blanda sem ég veit. Íslensk stjórnmál í mínum uppvexti voru uppfull af hvoru tveggja. Testósteróni og þjóðernisrembingi. Það var alveg sama hvort stjórnmálakarlarnir voru vinstra eða hægra megin í pólitík – þeir voru uppfullir af rembu alla daga. Það var eitt það fyrsta sem ég lærði um stjórnmál að fá óbeit á þessum þætti í fari íslenskra stjórnmálakarla. Þannig er ég enn.

Fátt á ég erfiðara með að þola en þennan rembing – stöðuga rembing þar sem íslenskir karlar halda að þeir séu miklu betur gerðir til allra hluta en karlar annars staðar. Sömu menn halda því á lofti að Íslendingar séu svo miklu klárari og betri en aðrir. Þetta er svo óskaplega þreytandi viðhorf. Yfirlæti og sjálfsupphafning.

Íslendingar geta verið ágætir en þeir geta líka verið gjörsamlega óþolandi á stundum og við mættum svo gjarna við smáskammti af auðmýkt og lítillæti alla jafna. Það mundi gera okkur gott.

Ég hef oft velt því fyrir mér hverju þetta sæti. Hvernig stendur á því að Íslendingar sem voru bláfátækir fyrir aðeins 100 árum, láta alltaf eins og þeir séu vitrari og klárari en allir aðrir? Hvaðan kemur þessi oflátungsháttur? Svarið hef ég auðvitað ekki en líklega liggur það í því hvað þjóðin er ung - að Íslendingar séu eins og unglingar, oft – með lítið sjálfstraust undir niðri en temji sér oflátungshátt út á við.

Því geri ég þessa þætti að umfjöllunarefni dagsins að mér sýnist sem þetta tvennt sé að yfirtaka heiminn – testósterón og þjóðernisrembingur – og það er vont. Vont fyrir okkur öll sem byggjum þennan heim. Oflátungsháttur.

Donald Trump og hans kónar. Nigel Farage sem ég les núna að sé kominn í forystu fyrir stærsta stjórnmálaflokki Bretlands, Sigmundur Davíð. Allt eru þetta karlar fullir af rembingi. Rembingi sem segir að þeir séu svo miklu betri en annan fólk. Þeirra húðlitur, þeirra kyn, þeirra þjóðir eru svo miklu betur gerðar en allar aðrar. Það er ekki þannig. Bandaríkjamenn, Bretar eða Íslendingar eru ekki best gefna fólk sem uppi hefur verið. Það hefur hins vegar aldrei verið skortur á yfirlæti hjá þessum þjóðum. Rembingi.

Ég var 25 ára þegar ég hóf störf í alþjóðlegum viðskiptum. Ég lærði fljótt að Íslendingar voru ekki sérfræðingar á neinu þeirra sviða sem ég starfaði innan. Samt létu þeir alltaf þannig. Karlarnir. Þeir létu eins og þeir vissu allt best.

Íslendingar þróuðu viðskipti í fullkomlega spilltu umhverfi. Helmingaskiptum Sambandsins og íhaldssins. Við sem ólumst upp á síðari hluta tuttugustu aldar á Íslandi vissum öll að viðskipti byggðu miklu fremur á stjórnmáskoðunum fólks en nokkru öðru. Aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu árið 1994 gjörbreytti öllu. Og stofnun Bónuss í lok níunda áratugarins.

Að vera þátttakandi í þeim gríðarlegu breytingum sem urðu á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar með upptöku innri markaðarins í Evrópu 1. janúar 1993, evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og síðast en ekki síst upptöku evrunnar, gerði mig að sannfærðum Evrópusambandssinna sem ekkert fær haggað.

Í störfum mínum átti ég í viðskiptum við Evrópska markaðinn áður en innri markaðurinn tók gildi. Ég upplifði breytinguna. Þessa gríðarlega breytingu sem varð við að markaðurinn varð einn í stað tólf. Síðar einn í stað 15, 25 og að lokum 27 eins og hann er samsettur nú.

Upptaka evrunnar var samt enn meiri breyting. Að þurfa ekki lengur að umreikna í þýsk mörk, franska og belgíska franka, ítalskar lírur, spænska peseta, hollensk gyllini o.s.frv., o.s.frv. var bylting – ekkert minna.

Mér varð strax ljóst hversu byltingarkennd breyting þetta var fyrir viðskipti í álfunni. Markaður með einn gjaldmiðil í stað fjölda tryggði gagnsæi. Það varð strax svo augljóst að þjónusta og vörur til sölu í mismunandi löndum álfunnar myndu leita samræmis. Einfaldlega vegna þess að kaupandinn átti auðveldara með samanburðinn. Það gat til lengri tíma ekki verið neitt eðlilegt við að ein tegund þjónustu væri miklu dýrari í einu landi en öðru. Og hér verð ég að leggja áherslu á þetta orðasamband – til lengri tíma. Það varð mér ljóst strax að breytingin mundi taka  langan tíma.

Á sama tíma bjó ég í landi þar sem alltaf var hið sama uppi á teningnum hvað efnahagsástandið varðaði. Gjörsamlega óþolandi hagsveiflur endalaust. Fyrst og síðast gengi íslensku krónunnar sem stöðugt sveiflaðist og hafði þannig grundvallaráhrif á efnahagslega stöðu mína sem íslensks borgara. Verðbólga og vextir í tveggja stafa tölu viðvarandi ástand, meira og minna.

Þegar ég hóf störf á íslenskum vinnumarkaði 1983 fór verðbólgan yfir 100%. Þannig lærði ég strax í upphafi starfsævinnar að það eina sem skipti máli væri að eyða peningum sem fyrst. Í kjölfarið tóku svo við stöðugar gengisfellingar og uppsveiflur til skiptis þar sem við  – hinn almenni borgari – hafði nákvæmlega enga stjórn á eigin afkomu. Það eina sem skipti máli var að reyna að komast yfir húsnæði og geta haldið því – átt það með bankanum ævina á enda – þar sem ljóst varð strax í upphafi að með verðtryggða íslenska krónu mundi aldrei takast að eignast neitt. Hlutskiptið væri í besta falli að geta átt eignina með bankanum ævina á enda.

Blessað hrunið og eftirmálar þess – blessaðir vogunarsjóðirnir og erlendi túristinn hafa leitt til þess að gengissveiflurnar eru nú að mestu úr sögunni að því er virðist. Seðlabankinn hefur á að skipa góðum gjaldeyrisvaraforða svo fátt virðist fá haggað stöðugleika krónunnar. Það breytir miklu fyrir hag íslenskra launþega en verðbólgan er viðvarandi áfram og vextir þar af leiðandi háir.

Ég er komin á þann aldur að styttist í starfslok. Ekki mörg ár í það. Og þetta er enn staðan. Gjörsamlega óþolandi staða efnahagsmála. Ég var ein hinna heppnu sem ekki missti allt sem ég hafði áunnið í hruninu en það var fyrir einskæra heppni. Ég mun væntanlega eiga íbúðina sem ég á hlut í með bankanum ævina á enda. Þykist þó góð að vera laus undan verðtryggingunni – gerðist loksins núna þegar ég er komin á sjötugsaldurinn.

Þetta eru efnahagsmálin sem remburnar í landinu eru svo stoltar af og vilja umfram allt fá að viðhalda. Þær vilja fá að halda áfram að leika sér með hag fólksins í landinu eins og alla mína starfsævi. Vilja halda áfram að búa í haginn fyrir þá sem hafa orðið forríkir í þessu umhverfi síðustu áratugi. Menn eins og Sigmundur Davíð og hans kónar.

Til þess að geta gert það – til þess að hafa fullkomið frelsi til þess –  þurfa þeir að hafa tækin. Íslenska krónan er þar í forystusæti. Hún er gríðarlega mikilvægt tæki til misskiptingar auðs. Að loka íslenska markaðnum fyrir útlendingum er annað tæki. Gríðarlega mikilvægt tæki. Að tryggja að íslensku hrægammarnir einir hafi opinn aðgang að markaðnum. Það er grundvallarmál.

Ég vil losna undan þessum kónum. Losna undan þessu testósteróni og þjóðernisrembingi. Og það er mín sannfæring að til að svo megi verða þurfum við að horfa annað en til nýlenduherranna í Bretlandi eða forríkra, gjörspilltra karla í vestri.

Það er kominn tími til að Íslendingar sýni sjálfstraust til að standa á eigin fótum og gangi með opin augun til samstarfs við Evrópuþjóðir þar sem við eigum heima.

laugardagur, 6. desember 2025

Þankar að loknum lestri Hlöðunnar eftir Bergsvein Birgisson

Vorið 2015 gekk ég í björg – ég hrundi saman með þeim hætti að ég hefði aldrei ímyndað mér fyrirfram að slíkt ætti fyrir mér að liggja. Að upplifa slíkt er lífsreynsla – lífsreynsla sem aldrei verður frá manni tekin.

Því sem gerðist verður best lýst með því að segja að það var eins og sjálfið væri ekki lengur til. Það hefði verið yfirtekið af harðstjóra sem var til staðar í þessu sama höfði og hafði tekist ætlunarverkið að berja niður sjálfið sem fyrir var í mél. Þessi harðstjóri hafði verið lengi að verki og hann átti eftir að vera lengur að áður en hann gaf eftir.

Það sem kom mér aftur af stað í bata var lítið appelsínugult kver sem heitir Servant as leader. Ég hafði sem betur fer haft krafta til þess að ákveða að nota tímann til að gera eitthvað sem mögulega gæti verið mér til gagns. Að tillögu dóttur minnar ákvað ég að klára BS gráðu í viðskiptafræði og Sigurður Ragnarsson, þá forstöðumaður viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, var svo indæll að leyfa mér það þótt diploman mín væri orðin 14 ára.

Það reyndist gera mér gott að setjast aftur á skólabekk – þó það verði að viðurkennast að viðskiptafræði var ekki fagið sem ég brann fyrir. Þar inn á milli reyndust þó sem betur fer fög sem gáfu manni færi á að hugsa og það voru þau sem héldu í mér lífi. Og það var einmitt þar sem ég fann þetta litla appelsínugula kver sem fyrr er getið.

Það er ástæða þess að ég rita þessar línur í dag. Ég var að ljúka lestri bókarinnar Hlaðan – þankar til framtíðar eftir Bergsvein Birgisson. Fyrir mér var lesturinn sérstök upplifun sem mig langar að gera grein fyrir hér.

Bergsteinn Birgisson fjallar í þessari bók um hluti sem eru nákskyldir þeim ég upplifði og gerði að umtalsefni í BS-ritgerð minni í viðskiptafræði það sama ár – árið 2016 – árið sem Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna fyrra sinni.

Lestur þessa appelsínugula kvers vorið 2016 snart mig eins og vitrun. Það gerðist eitthvað stórmerkilegt í höfðinu á mér sem ég upplifði með þeim hætti að það var eins og ég hefði endurheimt sjálfið sem ég hafði tapað. Það var eins og sjálf mitt væri aftur „heilt“ án þess að ég hefði hugmynd um af hverju. Þessi reynsla varð til þess að ég varð að kafa ofan í hvað eiginlega gerðist. Ég henti BS ritgerðarefni sem ég hafði fyrir löngu ákveðið að vinna að og leitaði til kennara að þeim áfanga sem kenndi þetta litla kver  þetta vor „þjónandi forystu“ og fékk hann til að samþykkja að verða leiðbeinandi minn. Verkefnið var að  kafa ofan í hvað gerðist  í hausnum á mér – án þess að hafa hugmynd um hvernig ég færi að því. Vissi bara að ég ætlaði að gera það!

Það er skemmst frá því að segja að þessi hugmynd átti eftir að leiða mig inn á braut sem var ólýsanlega gaman að upplifa eftir það sem á undan var gengið. Sjálfið var í ham þetta sumar árið 2016. Ástríðan sem alltaf hafði verið mitt aðalsmerki kviknaði svo um munaði. Ég var að tapa mér, það var svo gaman. Ég las heimspeki og ég las Freud. Ég las Pál Skúlason og ég las Sókrates, Nietzsche, Kirkegaard og Schiller. Ég las og las og las og ég var á lífi – guð hvað það var gott að vera aftur á lífi! Það var undursamlegt – verður eiginlega ekki lýst þannig að aðrir sem ekki hafa upplifað það sama geti skilið.

Ég varð fyrir mörgum uppljómunum þetta sumar sem ekki er hægt að gera grein fyrir í einni stuttri umfjöllun á laugardagsmorgni í desember 2025. En aðalmálinu get ég gert grein fyrir – því sem ég er enn algjörlega sannfærð um að var það sem bjargaði sjálfi mínu þetta sumar – það var heimspeki. Það var heimspekin sem „heilaði“ sjálf mitt þetta sumar. Heimspekin í kverinu Servant as leader. Það var hún sem bjargaði mér og að halda áfram að kafa ofan í hana var það sem kom mér á réttan kjöl. Ég er ekki í vafa. Ekki eitt augnablik. Þið hin getið ekki vitað þetta, því ekkert ykkar var inni í höfðinu á mér. Ég veit það og mun alltaf vita það.

Það fór svo að ég skrifaði tvær BS ritgerðir – þeirri fyrri var hafnað af leiðbeinandanum – enda ekki nema von – hún var óreiðan ein – ástríðufullur persónulegur óður um það sem gerðist í sjálfi höfundar þetta vor og sumar. Ég varð fyrir áfalli þegar það gerðist en gaf mig ekki því ég vissi upp á hár hvernig ég ætlaði að klára ritgerðina og mér tókst það.

Ég kláraði ritgerð í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst sem byggir á kveri Roberts K. Greenleaf Servant as leader, Sigmund Freud, heimspeki Páls Skúlasonar, Sókratesar og Nietzsche. Það var mikil spenna yfir jólin 2016 um hvort ritgerðin yrði samþykkt enda var hún algjörlega mín afurð frá A-Ö – leiðbeinandinn hafði ekkert fengið um hana að segja annað en að samþykkja hvernig ég ætlaði að taka á efninu í annarri tilraun. Tímaþröngin var slík að ég skilaði ritgerðinni inn óyfirlesinni og þannig er hún enn á vef Háskóla Íslands með orða- og stafsetningarvillum – en hún er þar. Mér tókst að útskrifast sem viðskiptafræðingur með BS gráðu með einkunnina 7 fyrir ritgerðina og þóttist góð. Það hafðist.

Því er ég að segja frá þessu hér að þessi saga mín fjallar um sama efni og Bergsveinn Birgisson gerir að umtalsefni í bók sinni Hlaðan – þankar til framtíðar. Hún fjallar um að maðurinn er heimspekileg vera. Ég skrifaði grein á dögunum þar sem ég fjallaði um sama efni. Um mikilvægi hug- og félagsvísinda fyrir heill mannsins.

Ég hef fundið það á eigin skinni að hug- og félagsvísindi eru mér lífsnauðsynleg. Ég get ekki lifað þar sem greiningin og mælingin ein ræður ríkjum. Fyrir mér boðar hugmyndafræði Trump og hans kóna – tæknirisa Bandaríkjanna – dauða mennskunnar.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...