mánudagur, 23. september 2024

Fulltrúi forheimskunnar á 21. öld


Donald Trump er í mínum huga fulltrúi forheimskunnar
á 21. öld.
Kjör hans markaði fyrir mig niðurbrot siðmenningarinnar á nýjum skala.
Ég grét og fór varla út úr rúminu daginn sem úrslitin lágu fyrir haustið 2016.
Ég sé hann fyrir mér otandi fingri að okkur öskrandi „you are fired“
Ég horfði aldrei á Apprentice en hafði samt skömm á því sem hann stóð fyrir sem stjórnandi þáttanna. Sjálfri fannst mér eins og heimurinn hefði gengið af göflunum í svo mörgu tilliti á nýrri öld og Donald Trump varð einhvern veginn sem fulltrúi viðskiptalífsins í Bandaríkjunum fulltrúi fyrir þá heimsku.

Nú sit ég hér uppi á Íslandi árið 2024 og…
Svíar hafa veitt Svíþjóðardemókrötum 20% atkvæða í kosningum og flokkurinn varnar ríkisstjórn þeirra falli.
Hollendingar veittu Frelsisflokki Geert Wilders 24,5% atkvæða og hann situr í ríkisstjórn landsins.
Frakkar greiddu Þjóðfylkingu Marine Le Pen 32% atkvæða í fyrri hluta kosninga til þings í sumar. Endanleg úrslit urðu þó sem betur fer ekki í svo svæsin.
Þjóðverjar í Thüringen og Saxlandi veittu Alternative für Deutschland um og yfir 30%.
Nú síðast í þessum mánuði tilkynnir þýska ríkisstjórnin herta innflytjendastefnu á landamærum ríkisins.

Við höfum nú bráðum í heilt ár horft upp á Ísraelsmenn strádrepa óbreytta borgara á Gaza og víðar. Í það minnsta þriðjung þeirra börn. Við höfum horft upp á almenna borgara í Palestínu innilokaða í helvíti og nálægt því að svelta í hel. Við horfum upp á Ísraelsmenn vera að fremja þjóðarmorð fyrir framan opin augu okkar og gerum ekkert. Ekki nokkurn skapaðan hlut.
Það er eftir allt saman öll siðmenningin.

Einhvern veginn er staðan orðin sú að mögulegt endurkjör þessa fulltrúa forheimskunnar hefur ekki jafn sterk áhrif á tilfinningalífið og upprunalegt kjör hans hafði. Ég leyfi mér samt að vona. Vona af öllu hjarta að niðurstaða kosninganna í Bandaríkjunum verði okkur í heiminum hliðholl að þessu sinni.

Ég vildi óska að við hefðum eitthvað lært en er það ljóst núna að það höfum við ekki. Mér er ljóst að það er engin trygging fyrir því að við endurtökum ekki nasismann. Viðbjóðurinn og hryllingurinn sem ég hef sem betur fer bara lesið um en ekki þurft að upplifa gæti allt eins átt eftir að gerast aftur. Mannkynið er ekki betur gert en það. Ekki einu sinni hér í V-Evrópu. Niðurstöður kosninga undanfarið sýna mér það með skýrum hætti. Við erum enn og aftur komin í þann ham að tala um „okkur“ og „hina“.

Ég ætla bara að segja ykkur eitt. Ég sit hér uppi á Íslandi árið 2024. Á hæðinni fyrir ofan mig býr fólk frá Venezuela. Í mörg ár áður bjuggu þar Tælendingar. Í kjallaranum og á efri hæðinni við hliðina á mér búa Litháar. Við hina hlið mér býr fjölskylda frá Pakistan. Allt í kringum mig búa „útlendingar“. Ég hef aldrei átt betri granna. Hér sef ég nokkur skref frá miðbænum og hér heyrist aldrei neitt. Hér gerist heldur aldrei neitt. Hér er rólegt og yndislegt að vera.

Á ferðalagi mínu um Asíu í 4 og hálfan mánuð í lok ársins 2014 og byrjun 2015 sannfærðist ég endanlega um að fólk er fólk. Við viljum öll það sama. Allsstaðar. Fólk vill eiga möguleika á góðu lífi fyrir sig og sína. Það er nú ekki flóknara en það. Í meginatriðum.

Hvernig okkur tekst að byggja upp aðstæður reglulega til að eyða svo mikilli orku sem raun ber vitni í að hata hvert annað er sorglegra en tárum tekur. Það kemur samt ekkert á óvart. Maðurinn hefur alltaf gert þetta. Allsstaðar. Mér varð það ljóst þegar ég las Leilu eftir Alexöndru Cavelius að aðstæður hennar á uppvaxtarárunum í Júgóslavíu voru ekkert svo ólíkar mínum í Hrútafirði. Ég var heppinn. Hún óheppin. Hún lifði af nauðgunarbúðir í 2 ár. Þar hafði hún lært að það skipti engu máli hvers þjóðernis eða aldurs karlinn var. Þeir gátu allir nauðgað henni frá 18 ára til áttræðs af hvaða þjóðerni sem er. Það var Serbi sem svo bjargaði lífi hennar.

Slavenka Drakulić einnig frá Júgóslavíu skrifaði bókina „They would never hurt a fly“ en þar gerir hún grein fyrir hvernig fiskimenn og bændur gerðust morðingjar í landi hennar. Í lok bókarinnar verður manni ljóst hryllilegt tilgangsleysi glæpanna sem framdir voru þar sem fyrrum svarnir óvinirnir sitja saman, spila á spil og spjalla á meðan þeir bíða eftir niðurstöðu stríðsdómstólsins í Haag.

Það sem ég get gert er að standa föstum fótum í trú minni á fólk. Ég veit af reynslu að við erum allskonar. Sumir finnst mér skemmtilegir og frábærir – aðrir finnst mér óþolandi! Eins og gengur. Þannig er það bara og það er allt í fína lagi með það. Ég trúi því samt staðfastlega að meginþorri fólks sé góður og vilji öðrum vel. Ég trúi staðfastlega að við þráum meira og minna öll það sama. Við þráum kærleika og ást. Við þráum stuðning og virðingu samfélagsins og við viljum lifa við öryggi.

Við höfum val um það í hvernig samfélagi við viljum búa og það er ekki vafi í mínum huga í hvernig samfélagi ég vil búa. Ég vil búa í samfélagi sem virkar eins og björgunarsveitirnar sýna mér á hverjum degi. Samfélagi þar sem ekki er spurt „hverra manna þú ert“ þegar þú lendir í vanda heldur styður þig og hjálpar á fætur hver sem þú ert og hvaðan sem þú kemur. Samfélagi þar sem kærleikurinn til náungans er ráðandi. Samfélagi sem sýnir skilning og hlýju sama í hvaða aðstæður þú hefur sjálfur komið þér í eða aðstæður hafa komið þér í.

Samfélagi sem tekur utan um þig í stað þess að ota að þér fingri og segja „you are fired“!

1 ummæli:

  1. Frábær pistill hjá
    Þér elsku frænka mín sem endranær. Svo rétt og vel ígrundað hjá þér. Allt of lítið skrifað um ást og kærleika á milli alls fólks sama hvaðan það er upprunnið eða hvernig það lítur út. Nú er aðalmálið að greina frá allri þeirri sundrung og glæpum sem innflutt fólk eiga að valda um heim allan. Því miður ljótur heimur.♥️♥️



    SvaraEyða

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...