sunnudagur, 7. ágúst 2016

Ertu til í að veita mér umburðarlyndi?

Forsetinn gerði mikilvægi umburðarlyndisins að stefi ræðu sinnar í gær. Vel við hæfi á þessum degi gleðinnar. Hef oft gert grein fyrir að ég elska þennan dag, Gleðigöngudaginn. Minn uppáhaldsdagur í íslensku samfélagi frá því hann var tekinn upp. Dagur gleðinnar.  

Var þó fjarri góðu gamni í gær þar sem skyldan kallaði. Skyldan sem í dag gengur út á að berjast fyrir gleðinni í eigin lífi. Þaðan koma hugrenningar mínar í þennan pistil dagsins. 

Hvernig væri að leyfa ástríðufullum konum með skoðanir að vera til? Hvernig væri að skoða að veita þeim umburðarlyndi?  

Hafið þið verið „tekin á teppið“ sem viðskiptavinir fyrir að hafa skoðun á því sem ykkur er boðið upp á?
Ég hef það.  

Hefur verið reynt að banna ykkur að skrifa eigin hugleiðingar og birta þær?
Ég hef það.  

Hefur ykkur verið neitað um skólagöngu í háskóla og gert að fara í undirbúningsdeild með stúdentspróf og 11 ára starfsreynslu sem lykilmanneskja í alþjóðastarfsumhverfi á grundvelli geðþótta fjölskylduhöfuðs, föður?
Ég hef það 

Hefur verið sóst eftir ykkur í starf og fengin til þess ráðningarstofa en ykkur ekki boðið neitt annað en starfið? Hvorki laun eða skilgreindur starfstitill?
Ég hef það.  

Hafið þið orðið fyrir árásum yfirmanns ykkar í vinnunni ítrekað – ekki fyrir að sinna ekki störfum ykkar – heldur fyrir að vera sú sem þið eruð?
Ég hef það. 

Hafið þið verið gerð ábyrg fyrir skoðun almennings á stjórnmálaflokki fyrir það eitt að vera stuðningsmenn hans og láta það óspart í ljósi opinberlega?
Ég hef það.  

Hefur verið ráðist á sjálf ykkar ítrekað með árásargirnina eina að vopni aftur og aftur og aftur? Gefið í skyn með fínlegum hætti hvar sem þið komið, hvar sem þið birtist að sjálf þitt sé ekki í lagi? Ástríðufullt. Hrifnæmt. Opið. Áhugasamt um lífið og tilveruna. 

Ég hef það og þannig er það. Þykir sjálfsagt og í lagi að hæðast með fínlegum hætti að sjálfi mínu þegar það sýnir innblástur. 

Ég hef upplifað allt þetta og miklu meira til. Ég er ástríðufull kona með skoðanir. Hafði líka einu sinni metnað. Búið að drepa hann fyrir löngu. Nú langar mig bara að fá að vera til. Neita því að vera fórnarlamb.  

Á Dale Carnegie námskeiði fyrir 13 árum grét ég þegar námskeiðshaldarinn gerði mikilvægi eldmóðsins að umtalsefni. Skil núna hvers vegna. Ég grét vegna þess að þessi sami eldmóður hafði alltaf unnið gegn mér. Óhlýðni mín var bannhelg. Og það hefur ekki batnað á þessari öld. Aðeins versnað. Nú þykir í lagi að hæðast að og brjóta niður konur með metnað og ástríður hægri, vinstri og við erum öll stolt þátttakendur í þeim leik.  

Kona má ekki sýna tilfinningar. Má ekki sýna hvatvísi. Kona á að vera kurteis. Sýni karlinum undirgefni og föðurnum aðdáun. Þannig á það að vera og það finnst okkur konum líka.  

Ég krefst þess að fá að vera til. Og fá að vera sú sem ég er. Ástríðufull. Hrifnæm. Opin. Og áhugasöm um lífið og tilveruna.  

Ertu til í að veita mér umburðarlyndi?     


þriðjudagur, 2. ágúst 2016

Hið fagra og hið góða

...gerði Guðni Jóhannesson, nýr forseti íslenska lýðveldisins, að umræðuefni í ræðu sinni gær. Hann sagði að við þyrftum að muna hið fagra og hið góða, og hann valdi lag sem sagði m.a. „lokaðu ekki sálina inni“.

Fékk gæsahúð og fór næstum því að gráta. Svo glöð – svo glöð að við séum komin með nýjan forseta sem ber okkur þessi skilaboð á fyrsta degi – betri skilaboð get ég ekki hugsað mér. Trúi því staðfastlega að við getum nú öll snúið okkur að því að verða heil aftur. Heil eftir sundrung síðustu áratuga.

Þennan morgunn mælist Hillary Clinton með gott forskot á Donald Trump. Skilaboð hennar eru í sömu átt og Guðna, „Sameinuð stöndum vér...“ sundruð föllum vér vitum við að kemur á eftir. Orð hennar hafa merkingu – merkingu sem við þekkjum svo vel. Skilaboð sem bera í sér kærleika í stað kröfu um hlýðni.

Tungumálið öðlast merkingu á ný með þessum tveimur manneskjum. Manneskjum sem eru þess vel meðvitaðar að þær eru manneskjur og ekkert annað. Manneskjur eins og við hin. Ófullkomnar og allskonar. Með ólíka sögu að baki, sögu tækifæra, áfalla, gleði og sorgar, sögu sem hefur gert okkur að þeim manneskjum sem við erum.

Kannski geta stjörnunar skýrt þennan viðsnúning sem ég upplifi að sé að rísa þessa dagana. Veit það ekki. Veit bara að það er gott að fá vonina aftur. Gott að fá tungumálið aftur. Gott að fá merkinguna aftur. Heilindi. Er orðið sem lýsir því sem ég hef saknað svo mjög og trúi að verði nú hafið aftur til vegs og virðingar.

Þeir skildu eftir handa okkur skilaboð fyrir 2.500 árum að „hið fagra og hið góða“ væri það eina sem skipti máli. Hef sannfærst um gildi og merkingu þeirra skilaboða. Held það skipti engu máli hverjir það voru sem komu þeim í orð. Hvort þeir hétu Sókrates eða Platon. Held að það sé grundvallarmisskilningur okkar að eyða púðri í að velta því fyrir okkur. Skilboðin ein hafa merkingu.

Hið fagra og hið góða er það eina sem skiptir máli í því verkefni að vera manneskja.

mánudagur, 1. ágúst 2016

Alger yfirráð?

„Mundu að glasið er hálffullt en ekki hálftómt sagði framkvæmdastjórinn þegar hann kvaddi mig fyrir 17 árum síðan, daginn sem þessi mynd var tekin.“ Undir niðri skynjaði ég reiðina – reiðina yfir því að ég hafði ekki orðið að vilja hans.  

Ég var uppfull af gleði þennan dag, ólýsanlegri gleði. Gleði yfir ástúðinni sem umvafði mig. Þakklætinu og væntumþykjunni sem streymdi frá hverju korti, hverri gjöf, hverri kveðju. Frá viðskiptavinum hér heima og samstarfsaðilum út um allan heim.  

Verður hugsað til þessara orða nú þegar þjáningin hefur fengið tilgang. Um leið og tilgangurinn varð ljós fauk þjáningin. Gleðin kom í staðinn.  

Þessi orð heyrast oft. Mundu að glasið er hálffullt en ekki hálftómt. Ein af mörgum klisjum Guðsins sem krefst skilyrðislausrar hlýðni. Tiltekinnar hegðunar. Hugsuninni er afneitað. Algjörlega. Hún er bannhelg. 

Okkur er bannað að líða illa. Harðbannað. Það er hluti stjórnunarinnar. Kjarni hennar. Þeim er útskúfað sem líður illa.  

Við eigum að vera jákvæð.
Megum ekki vera neikvæð. 

Við eigum að vera bjartsýn.
Megum ekki vera svartsýn. 

Eigum að vera til friðs.
Megum ekki vera til ófriðs. 

Við eigum að hlýða. 
Megum ekki vera óhlýðin. 

Okkur er umbunað fyrir hlýðni
Refsað fyrir óhlýðni 

„Strengjabrúður sem gera ekkert annað en bregðast við. Þetta er hinn raunverulegi sigur kerfisins“ ...segir Hanna Arendt um það sem gerðist í fangabúðunum í verki sínu um Alger yfirráð frá árinu 1951 í þýðingu Ólafar Emblu Eyjólfsdóttur í bókinni: Af ást til heimsins í ritstjórn Sigríðar Þorgeirsdóttur, bls. 191.

PS 

Biðst velvirðingar á því að birta þessa mynd í tíma og ótíma en hún er nauðsynleg. Nauðsynlegt hjálpargagn til að gera grein fyrir raunveruleikanum. Krefjast raunveruleikans.     


Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...