föstudagur, 26. febrúar 2016

Kvenfyrirlitning í hæstu hæðum í landi jafnréttisins

„Ég finn ennþá fyrir afleiðingum þess að hafa verið útskúfuð félagslega þar sem ég hitti ennþá þessa einstaklinga sem voru í skólanum á þessum tíma. Þeir eru í strætó, ég afgreiði þá í sjoppunni þar sem ég vinn, þeir eru á kaffihúsinu, þeir eru í bænum mínum. Það er einfaldlega þannig að öllu gríni fylgir einhver alvara og þegar grínið beinist að einum einstaklingi og er orðið eitthvað sem 800 manns eiga að hlæja saman að þá er það einfaldlega ekkert fyndið lengur. Myndbandið sýnir rótgróna kvenfyrirlitningu í menningu skólans, einnig sérstaka hræðslu og heift í garð þeirra sem láta til sín taka.“ (Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir „Myndbandið sýnir rótgróna kvenfyrirlitningu“, Stundin 4 tbl. 2. árgangur)

Blaðamaðurinn Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir fjallar um sérlega ógeðfellt mál í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Mál sem allir sem láta sig samfélagið varða ættu að kynna sér. Við þykjumst alla jafna vera komin svo langt í jafnréttismálum og trónum hæst á lista yfir jafnrétti kynjanna í heiminum. Á sama tíma lýsir greinin sem hér er vitnað til fullkomlega skelfilegri hegðan ungra drengja gagnvart ungum stúlkum og umfram allt samfélagi sem leyfir slíka hegðan og tekur þátt í henni - leggur í raun blessun sína yfir hana.

Get ekki lýst þeirri skelfingu sem heltekur mig að lesa þennan óskapnað. Er það virkilega svo – ennþá – að foreldrar táninga í menntaskólum landsins leggja blessun sína yfir að Gillz stýri skemmtunum þeirra? Leggja skólameistarar menntaskólanna blessun sína yfir að Gillz stýri skemmtunum nemenda þeirra? Er þetta samfélag sem lýst er í greininni framtíðin sem við foreldrar ungs fólks á Íslandi viljum búa þeim?

Samfélag þar sem ungir graðir karlar eru í öndvegi og stúlkur eru puntudúkkur til skrauts? Ef einhver gerist svo djarfur að mótmæla og standa upp fyrir rétt stúlkna þá er sá hinn sami gerður félagslega útlægur úr samfélaginu? Er það í lagi?

Greinin sem hér er vitnað til lýsir fullkomlega fársjúku samfélagi. Samfélagi sem samþykkir útgáfu myndbands þar sem tiltekinn einstaklingur sem flúið hefur samfélagið sem um ræðir er lagður í einelti með einstaklega grófum hætti. Gefið í skyn að viðkomandi einstaklingur sé það versta af öllu slæmu: feministi! Feministi sem drepur karlmenn.

Þetta mál er þess eðlis að það verður að ræða frekar. Viðbrögð skólameistarans sem lesa má úr greininni eru langt frá því að vera í lagi og lýsa hegðan sem styður við hugmyndir drengjanna sem um ræðir.

Greinin um myndbandaráðin í sama blaði er þess eðlis að á því verður að vekja athygli og krefjast umræðu. Viljum við foreldrar ungs fólks á Íslandi í dag hafa þetta svona? Viljum við að börnin okkar lifi og hrærist í samfélagi þar sem gredda drengjanna er í hávegum höfð og stúlkurnar okkar eru leikföng þeirra? Er það í lagi að myndabandaráð framhaldsskólanna séu setin 91% af strákum en 9% af stúlkum? Er menning sem gerir því skóna að hlutverk stúlknanna sé að „totta“ strákana í tíma og ótíma sú menning sem við viljum styðja við?

Ég segi nei. Hingað og ekki lengra. Upphafning virðingarleysis ungra drengja gagnvart stúlkum er ekki fyndin. Hún er dauðans alvara. Málið er okkar foreldranna. Þetta mál er svo alvarlegt að það verðum við að ræða og í framhaldi af því þarf að ræða það innan framhaldsskólanna. Kynþarfir og kynhegðun ungs fólks þarf að ræða innan skólanna. Og jafnréttiskennslu er þörf innan skólanna ekki síðar en strax.

Að þroskast og verða fullorðinn þýðir að þú þarft að læra að bera ábyrgð á sjálfum þér. Þú ert hluti af samfélagi og í þessu samfélagi þarftu að læra að haga þér eins og maður. Endurtekin dæmi í fjölmiðlum af fullkomlega óviðurkvæmilegri kynferðislegri hegðun ungra drengja segir okkur með skýrum hætti að við verðum að kenna þeim hvað fellur undir að haga sér eins og maður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...