Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
laugardagur, 27. febrúar 2016
Hugleiðingar í kjölfar Njálu...
The Stepford wifes, Nuts, Frances, the Magdalene Sisters, Vera Drake, Píkusögur,Njála...
Kvikmyndir og leikhús sem hafa haft mikil áhrif á mig og koma í hugann núna daginn eftir að ég sá Njálu. Þessa stórkostlegu sýningu í Borgarleikhúsinu sem hristi svo rækilega upp í mér að ég verð að tjá mig... án þess að hafa endilega hugmynd um hvað.
Alla ævi hef ég upplifað mig „öðruvísi". Lengst framan af ævinni upplifði ég það á jákvæðan hátt. Pabbi sagði að ég væri „sérvitur" og mér þótti vænt um það, var í mínum huga ekki neikvætt.
Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla árið 1984 gaf Krummi frændi minn (fyrsti karlinn sem ég lít á sem minn mentor...) mér útgáfu Halldórs Laxness af Njálu í útskriftargjöf. Mér þótti mikið til koma og man mjög vel hvað mér fannst ég merkileg þann dag en bókina las ég aldrei og hef ekki gert enn komin á sextugsaldur.
Snemma tók ég þá ákvörðun að mér leiddust „karlabækur" eða í það minnsta hefði ekki áhuga á þeim. Gaf það beinlínis út að ég vildi ekki íslenskar bækur að gjöf. Ég vildi þýðingar. Þýðingar á erlendum skáldsögum þar sem ég gat komist inn í stærri heim. Leiddist þessi þröngi íslenski karlaheimur og vildi annan. Get viðurkennt það hér þó það sé auðvitað til vitnis um fáfræði mína að ég las ekki bækur Péturs Gunnarssonar, Einars Kárasonar, Einars Más Guðmundssonar eða Þórarins Eldjárn á þeim árum þegar manni fannst allir Íslendingar vera að lesa bækur þeirra og hef ekki enn lesið þær.
Lá í þýðingum erlendra karla og kvenna og horfði á bíómyndir sem höfðuðu til þess veruleika sem mig langaði til að vita meira um.
Það er engin tilviljun hvaða bíómyndir ég nefni hér að ofan. Allt eru þetta bíómyndir sem á einn annan hátt fjalla um það að vera kona. Sú fyrsta Stepford Wifes gamla útgáfan sem ég sá í einhverjum áfanganum í Kvennaskólanum snart mig djúpt og kemur enn stöðugt upp í hugann. Hrollvekja þar sem sviðið er úthverfi Bandaríkjanna þar sem karlar breyta konunum sínum í vélmenni til að sinna sínum þörfum og heimilisins. Jákvæðni er þar lykilatriði. Verður oft hugsað til Stepford wifes þegar ég opna Facebook dagsins í dag.
Frances hafði gríðarleg áhrif á mig. Kvikmynd sem fjallar um konu sem ekki gengur að kröfum samfélagsins um að vera eins og krafist er og er í lokin þvinguð í aðgerð þar sem gallar hennar eru „lagaðir". „Dramadrottning" er vinsælt orð í nútímanum og óspart notað í þeim tilgangi að stimpla konur og karla sem sýna ótilhlýðilega hegðan. Að vera „dramatískur" eða „dramadrottning" dylst engum að er ekki eftirsóknarvert í íslenskum nútíma. Nuts snerti mig með sama hætti. Man að ég samsamaði mig með aðalpersónunni þó ég muni ekkert í dag annað.
The Magdalene Sisters snart mig djúpt og vakti með mér ólýsanlega réttlætiskennd. Stúlkan sem ekki hafði annað til saka unnið en vera sjarmerandi og sexý. Það var nóg til að loka hana inni. Sagan í heild - bakgrunnurinn - stúlkur sem voru lokaðar inni í klaustri fyrir það eitt að vera stúlkur allt til loka síðustu aldar á Írlandi.
Vera Drake. Passar í raun ekki hérna inn en kom samt upp í hugann svo ég hef hana með. Rosalega áhrifamikil mynd um konu sem í hæversku sinni og góðmennsku leyfði sér að koma til aðstoðar ungum stúlkum um fóstureyðingar. Varð dæmd sek um alvarlega glæpi í lokin.
Píkusögur sett á svið Borgarleikhússins árið 2006 þar sem íslenskar Alþingiskonur léku hlutverkin. Stórkostlega áhrifarík upplifun. Að horfa á þessar flottu fyrirmyndir úr öllum íslensku stjórnmálaflokkunum koma þarna saman í þessu verki og tala upphátt um „píkur". Orð sem við segjum sjaldan eða aldrei upphátt. Meira að segja ekki við konur segjum þetta orð upphátt. Og enn þann dag í dag á árinu 2016 eru kynferðislegar langanir stráka í sviðsljósinu og við ekki komnar á þann stað að tala um sömu langanir stúlkna. Ótrúlegt. Hvenær kemur að því að stúlkur fara að tala um þennan merkilega tíma í sínu lífi þegar kynþarfir þeirra kvikna? Hvað gera þær? Hvernig samsama þær sig? Hvar finna þær hvað má og hvað ekki? Hvar finna þær fyrirmyndir? Leiðsögn?
Og að síðustu Njála. Svo mögnuð upplifun að ég reyni ekki að lýsa því með orðum. Allar gáttir opnuðust og það varð umsvifalaust hátt til lofts og vítt til veggja. Tilvera sem er svo miklu, miklu skemmtilegra að vera partur af en þröng tilvera Facebook eða nútímans á Íslandi í febrúar 2016.
Ég er enn „öðruvísi". Upplifunin af því er ekki sú sama í dag og fyrrum. Kannski á ég eftir að tjá mig um það einhvern tíma.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli