Þessi grein er orðin tveggja mánaða gömul. Er persónuleg og ég var í vafa um að rétt væri að birta hana. Skrifuð 30. júní 2010...
Ég var tvítug þegar ég tók þá staðföstu ákvörðun að ég skildi verða fjárhagslega sjálfstæð. Ég skynjaði þá þegar að fjárhagslegt sjálfstæði var grundvöllur að því að vera sjálfstæð manneskja. Ég ætlaði jafnframt ekki að eiga neitt. Það var líka ákvörðun. Ég ætlaði að lifa frjáls - minn eigin herra - án afskipta annarra og forsenda þess var algjörlega skýr í mínum huga - fjárhagslegt sjálfstæði.
Svo eignaðist ég barn - yndislega stúlku - ljós lífs míns - orðin 26 ára og allt í einu varð öryggi mikilvægur hluti af lífinu. Að vera á leigumarkaði í Reykjavík var ekki valkostur - með því var öryggi barnsins fórnað. Svo heppilega vildi til að systir mín var að koma í menntaskóla til Reykjavíkur á sama tíma svo það passaði ágætlega fyrir mig, hana og foreldra mína að þau hjálpuðu mér til að eignast húsnæði - í hverfinu þar sem ég hef búið allar götur síðan.
Stelpan mín er orðin tvítug - enn jafn yndisleg - og enn ljós lífs míns. Mér hefur tekist misjafnlega upp í lífinu eins og gengur en hefur tekist að standa við þá ákvörðun að vera fjárhagslega sjálfstæð - minn eigin herra - allar götur síðan... þar til nú...
Fyrir tveimur mánuðum stóð ég allt í einu frammi fyrir því að samningur sem ég gerði við bankann minn til bráðum 30 ára virtist ætla að leiða til þess að gera mig bæði eignalausa og gjaldþrota í einni og sömu andránni - og það án þess að ég vissi einu sinni af því að nokkuð hefði gerst fyrr en daginn sem það gerðist.
Dómur féll fyrir rúmri viku síðan. Ég hef farið varlega í að fagna enda aldrei haft áhuga á öðru en að samningurinn sem gerður var standi - af beggja hálfu. Að bankinn minn geri mér kleift að standa í skilum eins og ég hef gert frá því að lánið var tekið en hef ekki getað í tvo mánuði vegna afarkosta bankans sem er algjörlega glórulaust að ganga að.
Í dag hlustaði ég á viðskiptaráðherra tala um „sanngirni" og „réttlæti" þeirrar ákvörðunar að samningar sem fjármálastofnanir gerðu um gengistryggð lán skyldu uppreiknaðir á vöxtum sem ákvarðaðir væru einhliða af stjórnsýslustofnunum samfélagsins.
Mér sem sjálfstæðum einstaklingi kemur málið greinilega ekki við enda sek um að eiga viðskipti við bankann minn. Mannleg reisn er ekki til staðar lengur. Ég sem hóf samfelld störf á vinnumarkaði fyrir bráðum 30 árum síðan og gerðist sek um að taka heilar 12 milljónir í lán í bankanum mínum árið 2006 þegar veðið átti að vera virði 25- 30 milljóna er orðin sakamaður og komin á bekk með óreiðumönnum. Ekki vegna þess að ég hafi ekki staðið í skilum - heldur vegna þess að lánið hoppaði á einum degi upp í 24-25 milljónir á sama tíma og veðið skrapp saman í sennilega 20 milljónir.
Á sama tíma og þetta allt gengur yfir. Á sama tíma og ég upplifi stöðuga niðurlægingu vegna stórkostlegra skertra lífskjara og að vera að missa allt sem ég hef unnið fyrir allt mitt líf hlusta ég á fjölskyldu mína öðru megin og atvinnulífið hinum megin segja mér að engu megi breyta. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn séu einu flokkarnir sem treystandi sé til að stjórna landinu og allt slæmt sé ESB að kenna.
Að ræna mann sjálfsvirðingunni og sjálfstæðinu er ekki nóg. Ég hef aldrei verið sérlega einlægur stuðningsmaður Samfylkingarinnar, er einlægur andstæðingur stefnu Vinstri grænna - en þessi framkoma - sú framkoma - að segja manni að allt það sem gerst hefur allan þennan áratug sé bara í fínu lagi og þessir tveir flokkar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur beri þar enga ábyrgð fer verr í mig en flest sem ég hef áður upplifað.
Í því felst engin yfirlýsing um að ég sé einarður stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar og ákvarðana sem hún tekur. Alls ekki. Í því felst sú einlæga beiðni að þeir flokkar sem með fullkomlega opin augun og meðvitað keyrðu okkur inn í bilaðan hrunadans þessa áratugar sýni í það minnsta þá auðmýkt og virðingu að kannast við að bera ábyrgð á því sem hér gerðist.
Ég vildi aldrei þennan dans í kringum gullkálfinn og ég vildi ekki hrunið heldur. Hefði svo gjarna viljað vera laus við hvoru tveggja. En víst ég þarf að þola hvoru tveggja langar mig að biðja stuðningsmenn þessara tveggja stjórnmálaflokka að í það minnsta sýna mér þá virðingu að viðurkenna að forgangmál dagsins í dag er að taka ákvörðun um breytingar til framtíðar.
Íslensk króna er niðurlægingarafl af verstu gráðu og hefur farið verr með íslenskan almenning en réttlætanlegt getur talist. Nú er mál að linni - börnin okkar eiga skilið betri framtíð.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli