Atburðir gærdagsins ullu mér persónulega mikilli sorg og ég á erfitt með að fóta mig í þessum aðstæðum. Játa það hreinskilningslega.
Ég skil ekki hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að ákærur á hendur ráðherrum ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árunum 2007 - 2009 sé lausn á einhverjum vanda. Hvað þá að ég skilji niðurstöðuna um að ákæra skuli einn ráðherra - forsætisráðherra Geir H. Haarde.
Í því pólitíska andrúmslofti sem hér hefur ríkt svo lengi sem ég man en þó aldrei jafn skelfilega hatrammt og síðustu ár er trúverðugleiki þess að þingmenn á hinu Alþingi séu til þess bærir að standa að ákæru á aðra þingmenn nákvæmlega engin. Niðurstaðan leiðir ekki til neinna sátta en er aftur á móti mjög líkleg til að gera stjórnmálin enn hatrammari og skelfilegri en þau eru fyrir.
Hrun bankakerfisins og áhrif þess á fjárhagslegalega stöðu manns og lífskjör eru eitt. Íslenskt samfélag og andrúmsloftið í kjölfar þeirra atburða er annað. Fyrir mig ennþá erfiðara en hið fyrra.
Ég hef frá því man eftir mér haft óbilandi áhuga á pólitík. Hef frá unga aldri alið með mér drauma um breytta skipan í íslenskum stjórnmálum og að ég gæti einhvern tíma haft raunveruleg áhrif á samfélagið með atkvæði mínu. Þeir draumar hafa dofnað sífellt meir og orðið að engu.
Mér fannst vont að lifa í samfélagi þar sem almenningur skipti sér í hópa og átti viðskipti eftir því hvaða afstöðu það hafði til stjórnmálaflokka og ég þráði breytingar á því umhverfi. Ég hélt um tíma að þetta umhverfi væri að brotna upp og að það rynni upp sá dagur að viðskiptablokkir tengdar stjórnmálaflokkum heyrðu sögunni til. Gömlu blokkirnar eru vissulega horfnar en viðhorfið til stjórnmála og viðskipta er enn að því er virðist það sama.
Nú lifi ég í samfélagi þar sem allar grundvallarreglur eru þverbrotnar - fullkomið leihús fáránleikans eins og ég kalla það. Ég er ekki lengur sjálfstæður einstaklingur með stjórn á eigin lífi heldur strengjabrúða aðstæðna sem ég hef ekkert með að gera.
Allar götur frá því í október 2008 hef ég þráð það meira en nokkuð annað að finna öryggi. Öryggi og væntumþykju af hálfu þeirra aðila sem mér finnst að eigi ekki að hafa annað hlutverk en passa upp á okkur - stjórnmálanna. Því er ekki að heilsa - öðru nær. Frá fyrsta degi hrunsins hafa stjórnmálin okkar hellt olíu á eld óöryggisins og öfganna. Pólitískar skotgrafir verið djúpstæðari en nokkru sinni fyrr og átök á forsendum flokkshagsmuna meiri en ég hef áður upplifað. Atburðir gærdagsins fullkomna þá mynd.
Við höfum ekkert lært og ætlum ekki að læra neitt. Við ætlum að gera það sem við kunnum - finna sökudólga og hengja þá. Aðferð sem leysir engan vanda og býr ekki til neinar sættir.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
miðvikudagur, 29. september 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli