fimmtudagur, 27. maí 2010

Heiðarleiki eða hræsni?

Atburðir dagsins minna mig á þá staðreynd að karlar mega það sem konur mega ekki. Þannig hefur það lengi verið og verður eflaust lengi enn.

Orð Svövu Grönfeldt á kvennaráðstefnu Samtaka atvinnulífsins í janúar 2007 rifjast upp. Þarna stóð hún þessi litla granna kona - hoppaði um sviðið frekar en gekk - og talaði frá hjartanu til áheyrenda.

Skilaboðin sem hún vildi deila með áheyrendum voru þau að hún hefði valið að eiga samskipti við fólk sem veitti henni stuðning. Það var að heyra að það væri kjarni þess að hún væri komin í þá stöðu sem hún var komin. (Plús auðvitað miklir persónulegir hæfileikar hennar sjálfrar sem hún var þó ekki að tíunda) .

Fyrir mér voru þessi skilaboð gagnlegra innlegg til kvennabaráttunnar en ég hafði heyrt í langan tíma. Það var galdurinn... að umgangast og leita eftir samskiptum við fólk sem örvaði hana og studdi.

Nú er þessi kona flutt til Bandaríkjanna.

Hvað skildu margar konur í æðstu stöðum fá að hirða pokann sinn á næstu vikum og mánuðum? Konur sem gerðust sekar um það eitt að taka þátt í leiknum?

Til að gæta fullrar sanngirni verð ég að láta koma fram að ég hef engan rétt til á að fjalla um brotthvart Svövu Grönfeldt eins og hún hafi hrökklast frá. Sjálf fullyrti hún að hefði hætt sem rektor því hún hefði lokið því verki sem hún hefði ætlað sér. Ég ætla ekki að gera henni annað upp en fyrir mér er brotthvarf hennar táknrænt. Táknrænt fyrir að konur mega ekki það sem karlar mega.

Sama á við um Steinunni Valdísi í dag. Hún segir af sér af því að hún má ekki það sem karlar mega. Hún gerðist sek um að taka þátt í leiknum og þess vegna skal hún víkja. Konur jafnt sem karlar hafa beitt hana þessum þrýstingi.

Árangur sem náðst hafði í kvennabaráttunni á Íslandi hverfur hraðar þessa daga frá hruni en nokkurn hefði órað fyrir. Og við erum áreiðanlega ekki komin á endastöð í því enn.

Ég minnist vorsins 2003. Þegar systir mín dúxaði úr viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík. Allir skólafélagar hennar - strákarnir - hvaða einkunnir sem þeir fengu - voru sóttir. Margir þeirra í bankana. Engin stelpa naut þess sama. Það að dúxa skipti engu máli - það að hún var kvenkyns skipti öllu máli. Vorið eftir dúxaði vinkona hennar í sama skóla. Sama var uppi á teningnum þá.

Þetta vor 2003 hélt Guðfinna Bjarnadóttir þá rektor HR þrumandi góða ræðu sem lifir enn í mínu minni. Þetta var á þeim tíma sem Landssímamálið stóð sem hæst og hún gerði gildi og siðferði að aðalatriði ræðu sinnar. Ég fékk gæsahúð oftar en einu sinni undir þessari ræðu og ég man hvað ég óskaði þess að skilaboð hennar næðu inn í fjölmiðla. En því var aldeilis ekki að heilsa. Sama hvað ég leitaði þá fann ég engar tilvitnanir í ræðu hennar í fjölmiðlum á þessum tíma. Það var aftur á móti enginn skortur á því að vitnað væri í ræðu rektorsins á Bifröst.

Kannski segir þetta meira um almannatengla í viðkomandi skólum en kynferði rektoranna skal ekki fullyrða neitt um það. En ég man hvað mér fannst þetta sorglegt. Á þessum tíma þráði ég umræðu í þá veru sem Guðfinna Bjarnadóttir gerði að aðalatriði í ræðu sinni. Fjölmiðlar í sinni hjarðmennsku um 3ja mánaða uppgjör FL Group, Eimskips og hvað þessi fyrirtæki hétu nú öll var það eina sem ástæða var til að fjalla um og ræða rektors um gildi og siðferði vakti ekki áhuga eða athygli manna.

Enn höfum við ekkert lært. Við fylgjum í blindni einstaklingum af karlkyni hægri, vinstri. Þeirra er sannleikurinn. Ég virði heiðarleika mikils. Ég virði einlægni mikils. Hræsni virði ég ekki.

Marga sjálfskipaða siðferðispostula Íslands í dag skynja ég uppfulla af því því síðasttalda.

miðvikudagur, 19. maí 2010

Dramb og yfirlæti

Á fyrri hluta 20. aldar bárust þjóðir Evrópu á banaspjótum. Tvær heimsstyrjaldir voru háðar þar sem áætlað er að 100 milljónir manna hafi verið drepnar. Í kjölfar styrjaldanna höfðu leiðtogar sex Evrópuþjóða framsýni til að stofna með sér bandalag til að koma í veg fyrir að slíkt myndi nokkru sinni gerast aftur. Þetta bandalag er enn til - orðið 60 ára og aðildarþjóðir þess 27 talsins.

Við Íslendingar græddum á stríðinu en þurftum ekki að þola hörmungar þess. Gamall samstarfsmaður minn sem ólst upp í Reykjavík á stríðsárunum sagði mér að í Reykjavík hefði verið talað um „blessað stríðið". Við teljum okkur þess umkomna að hæðast að þessu evrópska samstarfi. Leitum þar fyrirmynda hjá nýlenduveldi Breta sem um aldir hafa litið á sig sem stórveldi og yfir aðra hafna.

Það er undarlegt þetta dramb og yfirlæti sem við Íslendingar teljum okkur hafa efni á viðhafa gagnvart öðrum Evrópuþjóðum.

Eftir að bankakerfi okkar hrundi og skildi fólk eftir í sárum út um alla Evrópu sakna ég þess að við sýnum í það minnsta þessu þjóðum virðingu og auðmýkt. En því er nú aldeilis ekki að heilsa. Þjóðremban er meiri en nokkru sinni og ætla mætti af umræðunni að engin hliðstæða við hina stórbrotnu Íslendinga finnist um víða veröld.

Ég veit ekki í hverju það felst sem við Íslendingar teljum okkur svona miklu fremri öðrum Evrópuþjóðum. Eru það íslensk stjórnmál sem eru svona langtum betri en evrópsk? Er það íslenskt stjórnkerfi sem er svona miklu fremra evrópsku stjórnkerfi? Er það íslenska hagkerfið sem er svona miklu fremra evrópsku hagkerfi? Hagsveiflurnar kannski?

Hvaða þættir eru það sem gera það að verkum að við teljum okkur þess umkomin að hæðast að evrópsku samstarfi og evrópskum stjórnmálum? Hvaða efni höfum við Íslendingar á því að viðhafa þetta stærilæti?

Ég er að nálgast fimmtugt. Er Íslendingur og hef átt náið samstarf við aðrar Evrópuþjóðir síðan ég var 25 ára. Mín reynsla hefur kennt mér að oft hefði ég kosið að við gerðum meira af því að læra af öðrum og taka aðrar þjóðir okkur til fyrirmyndar.

Eftir reynslu síðustu 10 ára er það svo augljóst að það getur ekki talist annað en heimska að sjá ekki að við þurfum á því að halda. Ísland er Evrópuþjóð og á heima í bandalagi við aðrar þjóðir Evrópu. Við getum margt af þeim lært og þó ekki væri annað en að læra að nálgast lausn ágreiningsmála með samkomulagi - væri það eitt og sér stórkostleg breyting á íslensku samfélagi.

...Vits er þörf þeim er víða ratar
...Hátt hreykir heimskur sér

mánudagur, 3. maí 2010

Hvernig tryggjum við „réttláta“ launastefnu?

Gerum við það með því að tala niður laun allra? Gerum við það með því að takast á við einstakar persónur og laun þeirra? Eins og gert var í viðtali við seðlabankastjórann áðan? Er þetta aðferðin til að tryggja réttlæti íslensks samfélags?

Ég segi nei. Er ósammála því að við tryggjum réttlæti með því að tala niður til einstaklinga sem hugnast Morgunblaðsritstjóranum illa. Eða yfirhöfuð því að tala um launakjör á þeim nótum að setja þau í samband við einstaka persónur.

Ég hef aldrei verið stuðningsmaður ofurlaunastefnunnar og verð það aldrei. Það að vera andstæðingur ofurlaunastefnu gerir mig ekki að stuðningsmanni smásálarinnar sem nú tröllríður íslensku samfélagi. Virðingarleysi mun ekki tryggja réttlæti í íslensku samfélagi frekar en í nokkru öðru samfélagi.

Öfgastefna niður á við er ekki líkleg til að byggja neitt upp en hún er aftur á móti mjög vel til þess fallin að brjóta niður samfélagsgerðina. Það er auðvelt að tala launagreiðslur niður og gera sanngjarnar launagreiðslur tortryggilegar. Það er auðvelt að brjóta með þeim hætti niður árangur sem náðst hefur á löngum tíma sbr. niðurlægingu sem margir launþegar þessa þjóðfélags hafa mátt þola allar götur frá hruni. Niðurlægt starfsfólk er ekki líklegt til stórræða.

Í Viðskiptaháskólanum á Bifröst lærði ég að laun stjórnenda Bandaríkjanna höfðu á örfáum árum 400 og eitthvað faldast. Á sama tíma stóðu laun millistéttarinnar í stað. Þessi hugmyndafræði þótti á þessum tíma góð og gild og var meira að segja kennd í sama skóla og er sjálfsagt enn sem og í öðrum viðskiptadeildum heimsins.

Það er hugmyndafræðin - rót vandans sem þarf að takast á við og leiðrétta. Hvernig verður það gert með skynsamlegum hætti? Bara að ég vissi svarið... en það er ekki svo, ég hef ekki svarið við því hvernig við brjótumst út úr heimsku sem við höfum leyft að grassera svo lengi.

Ég veit bara það að mér hefur alltaf þótt það augljóst að þessi hugmyndafræði takmarkalausrar skammtíma- gróðahyggju til handa stjórnendum fyrirtækja væri heimskuleg. Gladdist því mjög þegar ég fékk í Viðskiptaháskólanum á Bifröst að kynnast gagnrýni á þessa hugmyndafræði sem fyrir mér var algjörlega lógísk og sannfærandi. Gagnrýni sem lesa má um hér: https://hbr.org/1993/09/why-incentive-plans-cannot-work

Hugmyndafræði í þá veru að öll laun í landinu skuli vera undir launum forsætisráðherra er ekki uppskrift að réttlæti og sanngirni og engin lausn á því flókna máli sem ofurlaunin eru. Það er í fínu lagi að gefa út viðmið og fínt að samfélagið veiti aðhald í þá veru að það séu takmörk fyrir því hvað hægt er að samþykkja en það skiptir máli hvernig það er gert. Aðferð í anda fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóra nú Morgunblaðsritstjóra er ekki aðferð siðaðs samfélags.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...