þriðjudagur, 25. nóvember 2025

Að vera kona

Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og allt sem er „karllegt“. Konum ekki síður en körlum finnst þetta.

Þetta birtist m.a. í því sem ég hef verið að gagnrýna fullum hálsi síðustu vikur og mánuði. Því að búið er þurrka út tengslin á milli þarfar mæðra fyrir gæslu barna að loknu fæðingarorlofi og leikskólavistar. Af hálfu kerfisins og stjórnmálanna. Ég sat pólitískan fund á laugardaginn þar sem það þótti sjálfsagt að tala um leikskólavandann án þess að minnst væri einu orði á að tengja það við þarfir mæðra fyrir leikskólavist. Þ.e. af hálfu frummælenda í stjórnmálum. Þessi staðreynd gerði mig gjörsamlega bit. Og reyndar öskureiða og mér finnst ég hafa leyfi til að vera reið yfir því og ætla að gera grein fyrir þeirri reiði hér.

Ég á dóttur og ég á tvær dótturdætur. Þrír afkomendur mínir eru af kvenkyni. Ég ætlast til þess að þær þurfi ekki hver og ein að byrja sömu baráttu og ég þurfti að heyja í fortíð en samkvæmt því sem ég heyri allt í kringum mig þessa dagana virðist vera sem það sem það sé ætlan kerfisins og stjórnmálanna.

Það að „gæta barna“ er svo ómerkilegt starf að það má ekki segja upphátt að það sé hlutverk leikskólanna. Enda hefur það lengst af verið „kvennastarf“. „Fóstra“ var ómerkilegt orð sem nauðsynlegt var að þurrka út úr tungumálinu, enda vísaði það til þessa ómerkilega starfs sem konur sinntu – „að gæta barna“. „Kennsla“ er miklu merkilegra orð enda vísar það til karlastarfs í fortíð og „leikskólakennari“ er miklu merkilegra starfsheiti en „fóstra“ enda vísar það að sama skapi til veraldar karla í fortíð en ekki kvenna.

Ég mæli með því að við konur horfumst í augu við þennan veruleika. Ég neita því staðfastlega að það „að gæta barna“ sé ómerkilegt starf. Ég er reyndar sannfærð um að það sé merkilegasta starf sem um getur, enda ekkert til í veröldinni merkilegra en að koma barni til manns. Að veita því ást og umhyggju sem það þarf á að halda á fyrstu árum ævinnar. Það er hlutverk leikskólakennara og það er merkilegt – skiptir okkur öll meira máli en nokkuð annað.

Konur mega gera þá kröfu að loknu fæðingarorlofi að þær geti gengið að leikskólaþjónustu vísri fyrir börnin sín allan daginn. Það er þjónusta sem sveitarfélögin eiga að bjóða upp á og þau verða að finna leiðir til þess að geta gert það. Það er forgangsmál í nútímasamfélagi. Ef það truflar þau að sú þjónusta sé ekki bundin í lög þá gerum við þá kröfu að stjórnmálamenn bindi þá þjónustu í lög. Ekki skólaskyldu, því börn á aldrinum 1–6 ára hafa ekkert með skólaskyldu að gera. Þau þurfa aftur á móti góða umönnun. Þau þurfa ást og örvun í góðu og frjóu leikskólastarfi og þá þjónustu eiga sveitarfélögin á Íslandi að bjóða upp á allan daginn. Vegna þess að það er sú þjónusta sem mæður þurfa á að halda að sé í boði fyrir þær þegar fæðingarorlofi þeirra lýkur.

Ráði sveitarfélögin ekki við þessa þjónustu verðum við að endurskoða málið í heild sinni. Við leysum ekki vandann með því að senda mæðrum vandamálið af því að það er svo þægilegt. Svo þægilegt og einfalt að senda mæðrum skömmina af því að þær hafa þarfir sem sveitarfélögin geta ekki svarað. Viðbrögð sem eru lýsandi fyrir það að vandamálið snýr að konum. Ef að við værum að tala um vandamál sem sneri að körlum sérstaklega hefði sveitarfélögunum aldrei dottið í hug að leysa það með þessum hætti. Að senda körlum skömm er ekki eitthvað sem gert er, enda taka þeir hana ekki til sín heldur. Þeir skammast sín ekki fyrir að hafa þarfir – hafa aldrei þurft þess. Konur gera það hins vegar. Alltaf. Þær eru vanar að skammast sín fyrir tilvist sína og hefur verið innrætt það frá blautu barnsbeini.

Það sem fyrir mér vakir með þessari grein er að vekja okkur öll til vitundar um hvað við erum að gera. Við erum að gera mæður ábyrgar fyrir rekstrarvanda sem sveitarfélögin eiga við að glíma. Við gerum það af því að vandamálið snýr að konum sérstaklega. Af því að það er svo þægilegt að gera það. Við myndum aldrei láta okkur detta í hug að gera það nema af því að það snýr að konum.

Kerfinu – sveitarfélögunum hefði aldrei dottið í hug að leysa vandamálið sem snýr að styttingu vinnuvikunnar með því að senda mæðrum ábyrgðina, nema af því að það eru konur sem taka við henni. Konurnar sem stóðu að breytingunum vissu alveg hvað þær voru að gera. Þær sendu vandann til þeirra sem þær vissu að myndu taka við honum og gera hann að sínum. Svo þægilegt. Svo óskaplega þægilegt.

Leikskólar eru ekki fyrstu vinnustaðir í veröldinni þar sem þarf að skipuleggja starfsemi sem nær yfir lengri tíma en daglegan vinnutíma starfsmannanna. Fullt af alls kyns fyrirtækjum og stofnunum hafa þurft að gera það og gera það hér og annars staðar í veröldinni. Að bjóða upp á leikskólaþjónustu fyrir foreldra allan daginn er úrlausnarefni. Stjórnunarlegs eðlis. Það kostar peninga og það krefst mannafla. Góðs mannafla. Mannafls sem við treystum fyrir því verðmætasta sem við eigum. 

Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi hér á landi áratugum saman að bera mikla virðingu fyrir leikskólunum. Á einhverjum tímapunkti gerðist það að þeir sem stjórna þessum stofnunum ákváðu að tala þær niður með þeim hætti að ég hef satt að segja aldrei upplifað annað eins.

Það er tími til kominn að stöðva þá þróun. Það er tími til kominn að stjórnmálamenn og stjórnendur leikskólanna tali saman um vandann sem við er að etja án þess að ætla foreldrum að leysa vandamálið sem við er að etja með því að sætta sig við minni þjónustu.

Það voru stjórnmálamenn sem tóku ákvörðun um að lengja nám leikskólakennara í 5 ár. Það átti að leiða til þess að auka virðingu fyrir starfinu og meta það til hærri launa. Það voru stjórnmálamenn sem ákváðu að sameina leyfisbréf kennara og leikskólakennara og gáfu þannig þeirri slæmu hugmynd undir fótinn að leikskólakennarar væru að sinna sama starfi og kennarar, sem er alls ekki raunin og á alls ekki að vera raunin.

Það voru stjórnmálamenn sem sömdu um styttingu vinnuvikunnar til handa starfsmönnum ríkisins og sveitarfélaganna. Allt eru þetta ákvarðanir sem hafa haft áhrif á þetta starfsumhverfi. Starfsumhverfi leikskólanna.

Sem móðir og amma ætlast ég til þess að stjórnmálamenn og sveitarfélögin í landinu beri virðingu fyrir sögu kvenna og séu með hana í farteskinu alltaf í allri nálgun og ákvarðanatöku. Að þau séu þess meðvituð að til að konur hafi sömu tækifæri og karlar þarf að bjóða þeim upp á góða leikskólavist fyrir börnin allan daginn. Það er grundvallarmál hvað varðar jafnrétti kynjanna.

 

laugardagur, 15. nóvember 2025

Mikilvægi hug- og félagsvísinda á heill mannsins

Haustið 1979 hóf ég menntaskólagöngu í Kvennaskólanum í Reykjavík. Um sumarið hafði ég sótt um skólavist í Fjölbrautaskólanum í Ármúla en einhver eða einhverjir ákváðu að þar sem ég væri umsækjandi utan af landi ætti ég að setjast á skólabekk í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ég veit ekkert hverjir þetta voru en ég get upplýst það nú að ég er viðkomandi ævarandi þakklát.

Það var mikil gæfa fyrir mig persónulega að hefja skólagöngu í Reykjavík í Kvennaskólanum. Ég hætti reyndar eftir eins árs skólagöngu og byrjaði svo aftur eftir eitt og hálft ár að hausti 1982 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1984. Ég lít á það sem sérstaka gæfu að hafa lent í þessum skóla af öllum skólum á þessum tíma og mig langar að segja ykkur af hverju.

Það er vegna þeirra áhrifa sem kennarar og námsval skólans hafði á mig sem unga manneskju á mótunarskeiði. Það er skemmst frá því að segja að kennarar þessa skóla voru einstakar manneskjur upp til hópa og andrúmsloftið milli þeirra og innan veggja skólans einkenndist af kærleika. Virðing er orðið sem best lýsir því sem ég á við. Virðing í samskiptum innan skólans. Virðing kennara gagnvart nemendum og virðing í samskiptum kennara innbyrðis og við stjórnendur og nemendur og öfugt. Að búa almennt við virðingu í samskiptum innan stofnunar eins og þessarar á mótunarskeiði verður seint fullþakkað.

Ég hef oft sagt það og segi það hér að ég elskaði kennarana mína í Kvennaskólanum í Reykjavík og ég er þeim svo óumræðilega þakklát fyrir það allt það sem þeir færðu mér.

Og það er það sem varð til þess að mig langar að skrifa þessa grein á laugardagsmorgni í nóvember 2025. Það sem kennarar Kvennaskólans færðu mér sem manneskju á mótunarskeiði á árunum 1982–1984. Mikilvægi hug- og félagsvísinda – ekki síst bókmennta á mig sem manneskju í samfélagi.

Við heyrum sjaldnast um þetta í dag. Fáir sjá ástæðu til að tala um mikilvægi félagsvísinda eða hugvísinda fyrir heill einstaklingsins. Hins vegar er enginn skortur á því að heyra talað um mikilvægi STEM fyrir einstaklinginn á þroskaskeiði.

Ég skrifa þessa grein til að gera grein fyrir þakklæti mínu í garð kennara og skólastofnunar sem færðu mér innsýn inn í heim félags- og hugvísinda sem hafa fylgt mér allar götur síðan og hafa mótað mig og haft áhrif á mig og hafa enn sem manneskju í samfélagi.

Í dag þegar fasisminn virðist enn einu sinni ætla að eiga greiða leið að okkur mannfólkinu er gott að eiga sannfæringu. Sannfæringu sem ekkert fær haggað. Þá sannfæringu sæki ég ekki síst í bókmenntirnar. Bókmenntirnar sem hafa að geyma sögu mannskynsins frá upphafi vega. Bókmenntirnar sem segja frá öllu sem okkur getur dottið í hug. Bókmenntirnar sem við getum speglað okkur í. Bókmenntirnar sem við getum grátið yfir. Bókmenntirnar sem við getum hlegið með. Bókmenntirnar sem við getum reiðst yfir. Bókmenntirnar sem við getum þjáðst með. Bókmenntirnar sem geta opnað hjörtu okkar upp á gátt … Bókmenntir hafa að geyma allt það sem þú sem manneskja þarft á að halda að geta speglað þig í og samsamað þig með.

Í Kvennaskólanum í Reykjavík lærði ég m.a. sálfræði, uppeldisfræði, íslensku, siðfræði, þýddar bókmenntir, barnabókmenntir, félagsfræði og sögu. Ég nefni þessar greinar sérstaklega því ég er svo þakklát fyrir margt af því sem kynnt var fyrir mér í þessum fögum. Eitthvað sem hefur fylgt mér allar götur síðan og hefur skipt mig svo miklu máli að ég tárast þegar ég skrifa þetta núna.

Það að vera manneskja í samfélagi er ekkert einfalt mál. Tæknirisarnir núna halda að þeir haldi á sannleikanum en mér er mikið niðri fyrir þegar ég segi þeim að það gera þeir  ekki. 

Það sem kveikt á þessum hugleiðingum var pistill Sifjar Sigmarsdóttur í morgun um jólabókaflóðið og þá staðreynd að enginn hefur orð á því á dánarbeðinu „bara að hann hefði nú keypt þetta eða hitt“ – frekar en enginn hefur sagt á dánarbeðinu „bara að hann hefði nú eytt meiri tíma á skrifstofunni“ (eins og stendur í einhverri bók sem snert hefur marga).

Við vitum öll þegar grannt er skoðað hvað það er sem skiptir máli en samt látum við alla daga eins og við vitum það ekki.

Við getum verið nokkuð viss um að enginn á eftir að segja á dánarbeðinu „bara að ég hefði nú horft meira á skjáinn“ – en samt eyðum við lífinu í það. Að horfa á skjá. Alla daga. Og við lítum á það sem forgangsmál að leyfa börnunum okkar að fá aðgang að skjá – aðgang sem opnar fyrir þeim leiðina að glæpahópum heimsins og fasistum og kvenhöturum. Við höfum ákveðið að bandarísku og kínversku tæknirisarnir séu þeir sem við ætlum að treysta fyrir uppeldi barnanna okkar. Að lesa bækur hins vegar er afgangsstærð.

Við tölum mikið um aukinn kvíða barna og ungmenna en sjaldan heyri ég í því samhengi mikilvægi þess að börn og ungmenni lesi bækur.

Við tölum mikið um aukinn einmanaleika fólks í samfélaginu. Við tölum um aukna skautun. Að við skiljum ekki lengur hvert annað.

Við sjáum ekki ástæðu til að setja það í samhengi við hvað við tölum niður hug- og félagsvísindi í samfélaginu. Nei. Allt sem er þess virði að vera upphafið í samfélagi 21. aldar er tækni og peningar. Stærðfræði. Verkfræði. Náttúruvísindi. STEM. Það er kjörorðið. Og viðskiptafræðin hefur alla öldina verið álitin sannleikurinn. Guð 21. aldar.

Ég ætla að gerast svo hrokafull að segja ykkur að þetta er misskilningur. Að það eru þessar áherslur sem eru að fara með samfélög okkur til helvítis.

Manneskjan þarfnast fegurðarinnar. Hún þarfnast heimspekinnar. Hún þarfnast bókmenntanna. Við mannfólkið þurfum á hug- og félagsvísinum að halda sem aldrei fyrr.

laugardagur, 8. nóvember 2025

Saga kvenna – saga mín

Þetta tvennt hefur verið mér ofarlega í huga síðustu vikur. Það hversu sjálfsagt okkur finnst að þurrka út sögu kvenna og hversu dugleg við erum við það – konur og karlar alla daga.

Það er merkilegt að upplifa það á sjálfum sér og það er ástæðan fyrir að ég hef tekið upp á því undarlega atferli síðustu daga að birta á Fésbókinni gamlar greinar sem ég hef skrifað og birtar hafa verið í dagblöðum. Aldurinn gefur manni þetta frelsi. Allt í einu er mér orðið skítsama þó ég hneyksli einhvern með sjálfhverfunni. Það er gott. Það er gott að losna undan þessari ótrúlega þungu byrði. Þessari byrði verunnar sem alltaf hefur fylgt manni í bakhöfðinu – þessari sem segir „hver heldurðu að þú sért“? Hvað hefur þú svo sem fram að færa?

Ég tek hér sterkt til orða – ég er ekki viss um að ég sé alveg laus við hana – þessa veru – en ég er alla vega komin á þann stað að ég leyfi mér að hundsa hana. Leyfi mér að vera sjálfhverf og ætla að leyfa mér það áfram um nokkra hríð. Í þeim tilgangi einum að endurheimta mína sögu. Því ég var horfin. Gjörsamlega horfin og saga mín ekki til.

Saga mín sem manneskju á vinnumarkaði. Saga mín sem manneskju með skoðanir. Hvort tveggja var horfið. Ég ætla að rifja upp hvort tveggja. Ég ætla að halda áfram næstu daga að draga fram í dagsljósið greinar og myndir sem sem bera vitni um hver ég var. Hvort ég muni hafa seiglu eða áhuga á að gera allt það sem ég hugsa núna mun koma í ljós. Kannski mun ég hætta jafn snöggt og ég byrjaði – kannski ekki.

Af hverju? Hverjum kemur „saga mín“ við? Hvers virði er hún svo sem þessi „saga“ – ef hún er þá yfirleitt til?

Ég á frænkur, ég á dóttur, ég á stjúpdóttur, ég á dótturdætur. Þeim öllum kemur saga mín við. Frændum líka. Konur eru til og þær eiga sér sögu. Sögu sem við eigum að viðhalda en ekki þurrka út.

Það sem kemur þessu af stað er sú staðreynd að hafa upplifað það á sjötugsaldri að horfa á konur – íslenskar konur - í forystu fyrir því að þurrka út mikilvæga þætti úr sögu kvennabaráttunnar eins og hendi sé veifað.

Að hafa horft á það á árinu 2025 þykir það enn ekki sjálfsagt að konur hafi þarfir þó þær leyfi sér að eignast börn.

Að upplifa það á árinu 2025 að orðið „konur“ þykir allt of byltingarkennt orð á meðal ungra kvenna. Reynum helst alltaf að draga úr því. Notum aldrei orðið „konur“ eitt og sér. Aldrei. Þurrkum kynin út úr tungumálinu og þar með konur.

Það má túlka orð mín hér að ofan eins og hótun eða sjálfbirgingslegt raus síð-miðaldra konu. Og það má. Hvort tveggja. Það er allt í lagi.

Það sem er ekki í lagi er þurrka út sögu kvenna. Sögu okkar kvenna.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...