Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og allt sem er „karllegt“. Konum ekki síður en körlum finnst þetta.
Þetta birtist m.a. í því sem ég hef verið að
gagnrýna fullum hálsi síðustu vikur og mánuði. Því að búið er þurrka út
tengslin á milli þarfar mæðra fyrir gæslu barna að loknu fæðingarorlofi og
leikskólavistar. Af hálfu kerfisins og stjórnmálanna. Ég sat pólitískan fund á
laugardaginn þar sem það þótti sjálfsagt að tala um leikskólavandann án þess að
minnst væri einu orði á að tengja það við þarfir mæðra fyrir leikskólavist.
Þ.e. af hálfu frummælenda í stjórnmálum. Þessi staðreynd gerði mig gjörsamlega
bit. Og reyndar öskureiða og mér finnst ég hafa leyfi til að vera reið yfir því
og ætla að gera grein fyrir þeirri reiði hér.
Ég á dóttur og ég á tvær dótturdætur. Þrír
afkomendur mínir eru af kvenkyni. Ég ætlast til þess að þær þurfi ekki hver og
ein að byrja sömu baráttu og ég þurfti að heyja í fortíð en samkvæmt því sem ég
heyri allt í kringum mig þessa dagana virðist vera sem það sem það sé ætlan
kerfisins og stjórnmálanna.
Það að „gæta barna“ er svo ómerkilegt starf að
það má ekki segja upphátt að það sé hlutverk leikskólanna. Enda hefur það
lengst af verið „kvennastarf“. „Fóstra“ var ómerkilegt orð sem nauðsynlegt var
að þurrka út úr tungumálinu, enda vísaði það til þessa ómerkilega starfs sem
konur sinntu – „að gæta barna“. „Kennsla“ er miklu merkilegra orð enda vísar
það til karlastarfs í fortíð og „leikskólakennari“ er miklu merkilegra
starfsheiti en „fóstra“ enda vísar það að sama skapi til veraldar karla í
fortíð en ekki kvenna.
Ég mæli með því að við konur horfumst í augu
við þennan veruleika. Ég neita því staðfastlega að það „að gæta barna“ sé
ómerkilegt starf. Ég er reyndar sannfærð um að það sé merkilegasta starf sem um
getur, enda ekkert til í veröldinni merkilegra en að koma barni til manns. Að
veita því ást og umhyggju sem það þarf á að halda á fyrstu árum ævinnar.
Það er hlutverk leikskólakennara og það er merkilegt – skiptir okkur öll meira
máli en nokkuð annað.
Konur mega gera þá kröfu að loknu
fæðingarorlofi að þær geti gengið að leikskólaþjónustu vísri fyrir börnin sín
allan daginn. Það er þjónusta sem sveitarfélögin eiga að bjóða upp á og þau
verða að finna leiðir til þess að geta gert það. Það er forgangsmál í nútímasamfélagi.
Ef það truflar þau að sú þjónusta sé ekki bundin í lög þá gerum við þá kröfu að
stjórnmálamenn bindi þá þjónustu í lög. Ekki skólaskyldu, því börn á aldrinum 1–6
ára hafa ekkert með skólaskyldu að gera. Þau þurfa aftur á móti góða umönnun. Þau
þurfa ást og örvun í góðu og frjóu leikskólastarfi og þá þjónustu eiga
sveitarfélögin á Íslandi að bjóða upp á allan daginn. Vegna þess að það er sú
þjónusta sem mæður þurfa á að halda að sé í boði fyrir þær þegar fæðingarorlofi
þeirra lýkur.
Ráði sveitarfélögin ekki við þessa þjónustu verðum
við að endurskoða málið í heild sinni. Við leysum ekki vandann með því að senda
mæðrum vandamálið af því að það er svo þægilegt. Svo þægilegt og einfalt að
senda mæðrum skömmina af því að þær hafa þarfir sem sveitarfélögin geta ekki
svarað. Viðbrögð sem eru lýsandi fyrir það að vandamálið snýr að konum. Ef að
við værum að tala um vandamál sem sneri að körlum sérstaklega hefði sveitarfélögunum
aldrei dottið í hug að leysa það með þessum hætti. Að senda körlum skömm er
ekki eitthvað sem gert er, enda taka þeir hana ekki til sín heldur. Þeir
skammast sín ekki fyrir að hafa þarfir – hafa aldrei þurft þess. Konur gera það
hins vegar. Alltaf. Þær eru vanar að skammast sín fyrir tilvist sína og hefur verið
innrætt það frá blautu barnsbeini.
Það sem fyrir mér vakir með þessari grein er
að vekja okkur öll til vitundar um hvað við erum að gera. Við erum að gera
mæður ábyrgar fyrir rekstrarvanda sem sveitarfélögin eiga við að glíma. Við
gerum það af því að vandamálið snýr að konum sérstaklega. Af því að það er svo
þægilegt að gera það. Við myndum aldrei láta okkur detta í hug að gera það nema
af því að það snýr að konum.
Kerfinu – sveitarfélögunum hefði aldrei dottið
í hug að leysa vandamálið sem snýr að styttingu vinnuvikunnar með því að senda
mæðrum ábyrgðina, nema af því að það eru konur sem taka við henni. Konurnar sem
stóðu að breytingunum vissu alveg hvað þær voru að gera. Þær sendu vandann til
þeirra sem þær vissu að myndu taka við honum og gera hann að sínum. Svo
þægilegt. Svo óskaplega þægilegt.
Leikskólar eru ekki fyrstu vinnustaðir í
veröldinni þar sem þarf að skipuleggja starfsemi sem nær yfir lengri tíma en daglegan
vinnutíma starfsmannanna. Fullt af alls kyns fyrirtækjum og stofnunum hafa
þurft að gera það og gera það hér og annars staðar í veröldinni. Að bjóða upp á
leikskólaþjónustu fyrir foreldra allan daginn er úrlausnarefni. Stjórnunarlegs
eðlis. Það kostar peninga og það krefst mannafla. Góðs mannafla. Mannafls sem
við treystum fyrir því verðmætasta sem við eigum.
Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi hér á
landi áratugum saman að bera mikla virðingu fyrir leikskólunum. Á einhverjum
tímapunkti gerðist það að þeir sem stjórna þessum stofnunum ákváðu að tala þær
niður með þeim hætti að ég hef satt að segja aldrei upplifað annað eins.
Það er tími til kominn að stöðva þá þróun. Það
er tími til kominn að stjórnmálamenn og stjórnendur leikskólanna tali saman um
vandann sem við er að etja án þess að ætla foreldrum að leysa vandamálið sem
við er að etja með því að sætta sig við minni þjónustu.
Það voru stjórnmálamenn sem tóku ákvörðun um
að lengja nám leikskólakennara í 5 ár. Það átti að leiða til þess að auka
virðingu fyrir starfinu og meta það til hærri launa. Það voru stjórnmálamenn
sem ákváðu að sameina leyfisbréf kennara og leikskólakennara og gáfu þannig
þeirri slæmu hugmynd undir fótinn að leikskólakennarar væru að sinna sama
starfi og kennarar, sem er alls ekki raunin og á alls ekki að vera raunin.
Það voru stjórnmálamenn sem sömdu um styttingu
vinnuvikunnar til handa starfsmönnum ríkisins og sveitarfélaganna. Allt eru
þetta ákvarðanir sem hafa haft áhrif á þetta starfsumhverfi. Starfsumhverfi
leikskólanna.
Sem móðir og amma ætlast ég til þess að
stjórnmálamenn og sveitarfélögin í landinu beri virðingu fyrir sögu kvenna og
séu með hana í farteskinu alltaf í allri nálgun og ákvarðanatöku. Að þau séu
þess meðvituð að til að konur hafi sömu tækifæri og karlar þarf að bjóða þeim
upp á góða leikskólavist fyrir börnin allan daginn. Það er grundvallarmál hvað
varðar jafnrétti kynjanna.