miðvikudagur, 6. janúar 2021

Skömminni skilað

Af hverju er ég svo að blaðra þetta og birta opinberlega um hluti sem fólk vill almennt halda fyrir sjálfa sig? Af hverju er ég að blaðra um að ég hafi verið rekin og það tvisvar frekar en einu sinni á 10 árum? Hvernig í  ósköpunum má finna það út að það verði til að styrkja mig á einhvern hátt?

Hef hugsað mikið um þetta síðustu daga því þörfin fyrir að koma þessu frá mér hefur verið djúpstæð og verið með mér lengi. Allt í einu kviknaði á perunni í dag. Þetta snýst um að skila skömminni. Ekkert annað.

Innra með mér er gríðarleg skömm fyrir að hafa verið rekin – svo djúp og sár að í hálft ár gat ég miðaldra manneskjan ekki sagt öldruðum foreldrum mínum frá því. Það var einfaldlega of erfitt. Ég gat það ekki. Það er fáránlegt – mér finnst það sjálfri – ekki síður en öðrum. En þannig var það nú samt. Það að standa sig í vinnu er eitthvað sem gerir mann að manni í minni fjölskyldu – því eru það ótvíræð skilaboð um að ég hafi klikkað á grundvallaratriðum þegar ég er rekin fyrir störf mín. Því skiptir það mig máli að segja upphátt að ég hafi ekki unnið til þess – jafnvel þó að enginn sé þarna til að styðja mig í því og ég standi ein að þeirri yfirlýsingu. Ég veit að ég skilaði góðu verki á báðum stöðum og það skiptir mig máli að koma því frá mér og láta það standa.

Ég hef ekki tekið þátt í me too byltingunni einfaldlega af því að ég hef ekki fundið hjá mér þörf til þess. Aftur á móti er þörfin mikil að tala um þetta hér og ég vænti þess að rótin sé sú sama.

Eins og við vitum fór me too byltingin aldrei fram í viðskiptalífinu. Þar stoppaði hún. Að sýna veikleika er almennt ekki talið til þess fallið að styrkja einstaklinga sem þar keppa um stöður. Ég geng út frá því að það sé ástæðan án þess auðvitað að hafa hugmynd um það. En er það ekki merkilegt að þessi bylting sem fór eins og eldur í sinu um allt skuli ekki hafa farið um viðskiptalífið? Segir það ekki einhverja sögu sem hollt er að velta fyrir sér?

Ég skrifa þessar greinar auðvitað því ég tel mig ekki hafa neinu að tapa – þess vegna leyfi ég mér það. Ég fæ ekki áheyrn nokkurs staðar hversu mikið sem ég reyni. Nú hef ég ákveðið að þetta sé komið gott og ég verði að taka málin í mínar hendur. Skapa mér starf sjálf. Vonandi tekst mér það. Ég er glöð með að hafa komið þessu frá mér því ég er sannfærð um að það eru margir í þeirri stöðu að þurfa að tala um hliðstæða hluti en standa á bremsunni því þau álíta of mikið í húfi. Sjálfsvirðingin er svo samtengd því að hafa virði á vinnumarkaði að það er einfaldlega óhugsandi fyrir marga að rjúfa þögnina.

Ég á enn margt ósagt um íslenskan vinnumarkað og mína reynslu þar og ég á mjög líklega eftir að tjá mig um það í fleiri greinum. Ekki síst er ástæða til að tala um guðina sem við höfum sjálf búið til þar en það er efni í heilan greinaflokk. Að við skulum hafa búið til svona marga guði á jörðu niðri hefur óholl áhrif á samfélagið allt og um það þurfum við einhvern tíma að tala. En segjum þetta gott að sinni.

þriðjudagur, 5. janúar 2021

Farsæl ferilskrá

Þetta fallega orðasamband var viðhaft í mín eyru fyrir skömmu. Farsæl ferilskrá. Hefur yfir sér einhvern ljóma. Eitthvað sem mann langar næstum að snerta – svo íðilfagurt og ljúft. Hvað þýðir það? Hver hefur farsæla ferilskrá og hver hefur það ekki? Hversu mikið hefur einstaklingurinn sjálfur um það að segja hvort að ferilskráin hans verður farsæl eða ekki?

Það er nú það. Nú flækjast málin. Á Íslandi er það einhvern veginn þannig að það hvernig þú stendur þig í starfi skiptir ekki öllu máli. Jafnvel minnstu máli. Það hver þú ert, hvernig þú ert, hvaða skoðanir þú hefur skiptir öllu máli. Þetta vita ráðningarstofur í landinu enda segja þær það ítrekað í kynningum.

Þær segja reyndar aldrei að það að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða starfa í flokknum vinni með þér en auðvitað vitum við það. Auðvitað vitum við að neikvæða hliðin á því að hafa áhuga eða starfa í pólitík snýst í engum tilfellum um Sjálfstæðisflokkinn. Það vinnur með þér – alltaf.

Hér talar manneskja með reynslu. Og hún hlýtur að mega tjá sig um reynslu sína – er það ekki það minnsta sem hægt er að fara fram á? Stærstu mistökin sem ég hef gert í mínu lífi varðandi ferilskrána eru áreiðanlega þau að vera ekki aðili að Sjálfstæðisflokknum og taka virkan þátt í starfi flokksins. Ég er einfaldlega alveg viss um það. Aðilarnir sem þekkja til vinnu minnar og hafa verið ánægðir með störf mín eru allir meira og minna í Sjálfstæðisflokknum. Fólkið í Samfylkingunni veit ekkert hvernig ég hef staðið mig í störfum mínum. Það veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma gert eitthvað sem þýðir að mér ætti að vera treystandi til einhvers hlutverks.

Ég hef því miður ekki náð því á æviferlinum að hægt sé að segja að ég hafi átt farsæla ferilskrá. Til þess er hún of götótt. Það þekki ég þar sem ég starfaði einu sinni fyrir löngu síðan sjálf í ráðningabransanum. Þar var eitt aðalatriði sem manni var kennt að líta hornauga - allar eyður í ferilskránni. Það vissi ekki á gott. Nú eru götin orðin svo löng og svo stutt á milli þeirra að það er spurning hvort ég eigi nokkurn tíma afturkvæmt á íslenskan vinnumarkað. Þ.e. í starfi sem mig langar í.

Ferilskráin mín er ekki bara götótt heldur er það líka þannig að framkvæmdastjórar mínir síðustu 10 ár hafa annað hvort rekið mig eða á annan hátt látið mig vita að ég væri ekki eins og ég ætti að vera og það getur varla talist farsæl ferilskrá.

Finnst það eiginlega pínu grátlegt að geta ekki státað mig af farsælli ferilskrá því á sama tíma hef ég hef eiginlega gefið mig alla þessum sama starfsferli. Verið tilbúin að gefa mig alla og miklu miklu meira til. En einhvern veginn hefur það aldrei verið nóg. Ég er aldrei eins og ég á að vera. Það sagði framkvæmdastjórinn þegar hann rak mig fyrir 10 árum. Hann sagði það ekki daginn sem hann rak mig en hann sagði það frá fyrsta degi sínum í starfi. Kallaði mig til fyrsta fundar sennilega eftir að hafa setið þar í viku til að segja mér að ég væri ekki í lagi. Og ítrekað eftir það. Hafði ekki stuðninginn til að reka mig fyrr en ég sjálf hafði aflað honum hans með því að kalla sérstaklega eftir ungum manni í ráðið mitt. Þeim unga manni fannst ég hafa horn og sú afstaða hans kom fram á fyrsta fundi. Þá vissi ég að leikurinn var tapaður þó að það ætti eftir að taka tvö ár.

Þetta er mjög sérstök reynsla sem ég óska engum að verða fyrir. Að fá stöðugt að vita að þú sjálf sért vandamálið. Ekki hvað þú gerir eða hvernig þú gerir það heldur þú. Hvað gerir maður við slíkar upplýsingar? Nú maður snýr sér auðvitað að því sem maður kann best og tekur upp þráðinn sjálfur. Gengur í verkið og brýtur sig niður. Það gerði ég með miklum árangri.

Það er vont að eiga ekki farsæla ferilskrá að státa af. Og í mínu tilfelli er það eiginlega út í hött. Af hverju í ósköpunum á ég ekki farsæla ferilskrá? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða og læt það standa hér að það er ekki vegna þess að ég hafi ekki staðið mig í störfum mínum. Það hefur miklu meira með það að gera hver ég er, hvernig ég er og að ég segi hlutina upphátt. 

Það skiptir mig máli að segja þetta upphátt og leyfa því að standa. Ég á foreldra, systkini og afkomendur. Ég vil ekki að framkvæmdastjóri sem rekur mig samdægurs eigi síðasta orðið um það hver ég og hvernig ég hef staðið mig á íslenskum vinnumarkaði. 

Það getur vel verið að orð mín hafi lítið vægi á móti orðum þeirra sem valdið hafa. En ég má þó alla vega reyna. 

laugardagur, 2. janúar 2021

Haltu kjafti og vertu sæt!

Orðasamband sem er enn í fullu gildi og mig langar til að vekja athygli á á nýju ári 2021. Gleðilegt ár og megum við öll njóta þess að fá að vera þátttakendur í samfélaginu. Við konur sem erum komnar á sextugsaldurinn sem og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Mig langar til að vekja athygli á máli sem alla jafna er ekki talað um enda fjallar málið um kellingar sem enginn hefur áhuga á. Kellingar eru konur sem eru orðnar fimmtugar og þaðan af eldri. Komnar úr barneign.

Atvinnurekendur á Íslandi hafa í árafjöld kvartað mjög undan fjölgun öryrkja á Íslandi. Hafa látið í það skína að þar sé ekki allt sem sýnist og þörf sé á að leiðrétta þessa vitleysu. Nú langar mig að upplýsa þá hina sömu um að þeir þurfa kannski aðeins að líta í eigin barm. Þurfa kannski aðeins að hugsa um það hvað þeir vilja gera við okkur sem þeir vilja ekki. Því við erum mörg sem erum á lífi og í fullu fjöri þó við séum komin á sextugsaldurinn. Hvað vilja atvinnurekendur nú eða samfélagið í heild sinni gera við okkur?

Þetta er mjög brýn spurning. Vilja þeir senda okkur úr landi? Skjóta okkur? Hvað vilja þeir gera við okkur? Ekki vilja þeir okkur í vinnu svo mikið er víst. Og ef þeir vilja ekki að við verðum öryrkjar – hvað vilja þeir þá?

Mánudaginn þann 24. júní 2019 kl. hálffimm var bankað í öxlina á mér og ég beðin að koma til viðtals við framkvæmdastjórann. Í ljós kom að ástæðan var að reka mig á staðnum og ég beðin að ganga út og koma ekki meir. Einu og hálfi ári fyrr hafði ég gengið inn á þennan vinnustað brotin mjög – eiginlega í henglum – en þessi vinnustaður bjargaði mér. Eftir mikið niðurbrot reyndist rétt hjá mér að aðferðin til að ná mér strik aftur væri að gera það sem ég kunni best. Eftir nokkra mánuði í starfi fann ég til styrkleika minna aftur, var orðin sjálfri mér lík. Það var góð tilfinning. Ég var í starfi sem ég kunni – að þjónusta fyrirtæki á markaði - og í því er ég betri en margur og veit það.

Það gekk margt á á vinnustaðnum á þessum tíma. Tveir stjórnendur hans hættu störfum með stuttum fyrirvara og þeir nýju komu ekki strax til starfa. Starfsmannavelta var mikil og einhvern veginn fór það svo að á tímabili í brjáluðum umsvifum vorum við tvö í þjónustunni í deildinni þegar fæst var. Einhvern veginn hafðist þetta nú samt allt saman enda ég vön að vinna undir miklu álagi og hafði greinilega engu gleymt þegar á reyndi.

Ég var góð í því sem ég var að gera. Fékk endurgjöf í þá veru og vissi það. Ég var á heimavelli. Samt fór það svo að ég var rekin á staðnum einu ári síðar. Ég leyfi mér að segja að þessi uppsögn segi ekkert um mig en meira um eitthvað annað sem ekki verður skilgreint hér.

Síðan þetta gerðist hef ég sótt um hvert starfið á fætur öðru. Mörg í mánuði og er ekki virt viðlits. Reyndar verður að segjast að íslenskur vinnumarkaður hefur þó skánað örlítið. Ekki sami dónaskapurinn og fyrrum – nú fær maður yfirleitt að vita að maður fái ekki starfið. Sem er mikil framför frá því sem áður var.

Ég sit hér 1. janúar 2021 og velti fyrir mér hvað ég hafi gert af mér sem orsaki þessa meðferð. Af hverju er ég 57 ára gömul í þessari stöðu að fá hvergi einu sinni áheyrn? Ég segi þetta kinnroðalaust því ég hef ekkert til að skammast mín fyrir. Ég veit að ég hef verið afburða starfsmaður víðast þar sem ég hef starfað og það sem meira er í flestum tilfellum hefur það verið í þágu íslenskra atvinnurekenda. Ég hef verið í þjónustu við þá og þeir hafa aldeilis kunnað að meta þjónustu mína og ég hef ósjaldan fengið að vita það. Þeir vissu að í höndunum á mér voru þeir í höndum sem þeir treystu. Meðfram höfðu þeir oft líka gaman að því að tala við mig um pólitík. Seinni árin gerði ég þó minna af því eða nánast ekki neitt enda búið að kenna mér að það væri betra að halda þeim þætti út af fyrir mig.

Alltaf hef ég fengið að vita að ég væri ekki eins og ég ætti að vera. Að ástríða mín og eldmóður væri ekki við hæfi. Eftir að ég fór að láta pólitískar skoðanir mínar í ljós kemur ókunnugt fólk fram við mig eins og það viti allt um mig. Ég hef fengið á mig stimpil. Þessi stimpill segir „hún kýs Samfylkinguna“ og það á að segja allt um mig. Það með öðrum orðum skilgreinir mig og setur mig í flokk. Stórmerkilegt að upplifa skal ég segja ykkur og oft ekkert sérstaklega skemmtilegt. Það er þreytandi að hlusta á algjörlega ókunnugt fólk komið í stöðu á sama vinnustað og þú og talar til þín eins og það viti hvað þú hugsar eða þér finnst um hin og þessi málefni. En það er einfaldlega eitt af því sem þú lærir að þola. Til að lifa af verðurðu að gera það. Þú verður að láta sem þetta allt saman rétt og satt og spila með. Annars lifurðu einfaldlega ekki af.

En einu get ég aldrei gefið afslátt af og það er því að berjast fyrir að veita viðskiptavinunum mínum bestu mögulegu þjónustu. Það er einfaldlega í æðum mínum og því verður ekki breytt. Ég fylgi málum eftir og ég fer alla leið til þess. Það hef ég alltaf gert og það er ég. Það vita allir sem ég hef starfað með. Ég á það til að láta heyrast hærra í mér þegar ég er ekki ánægð með þau svör sem ég fæ og þannig verður það. Alltaf. Ég á auðvelt með að biðjast afsökunar ef mér verður það á að fara framúr mér í hita augnabliksins. Ég lít á það sem mannlegt og get ómögulega litið svo á að það sé eitthvað sem ég þurfi að skammast mín fyrir. En skv. því sem ég hef lært er það þar sem hnífurinn stendur í kúnni.

Ég er manneskja með skap. Og ég er líka manneskja með tilfinningar. Það má ekki. Í það minnsta ekki ef þú ert af kvenkyni. Ef þú ert kvenkyns skaltu viðhafa það sem er í fyrirsögn þessarar greinar „haltu kjafti og vertu sæt“. Það er ekki sagt í neinni kaldhæðni heldur er það alveg kýrskýr lærdómur. Viljirðu eiga möguleika á að lifa af á íslenskum vinnumarkaði og eldast þar.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...