þriðjudagur, 14. febrúar 2017

Að verða að gagni

Leiðari Fréttablaðsins í dag um veggjöld varð mér tilefni til hugleiðinga. Varð hugsað til þess hvað stendur eftir af uppsveiflunni á fyrsta áratug aldarinnar. Verðugt umhugsunarefni fyrir okkur öll – hvað stendur eftir?

Á vormánuðum leitaði ég hvort einhvern vegvísi væri að finna fyrir okkur villtar sálir 21. aldar í 200 ára sögu Hins íslenska bókmenntafélags. Ég fann þann vegvísi: „að vera til gagns“. Það var leiðarljós frumkvöðlanna Rasmus Christian Rask og síðar Jóns Sigurðssonar. Að koma íslenskri þjóð að gagni.

Þessi yfirlætislausi vegvísir á erindi við okkur nú. Þegar við erum á leiðinni inn í aðra uppsveifluna á 21. öldinni. Að við munum til hvers uppsveiflan á að leiða.

Hagvöxtur á að vera til gagns. Gagns fyrir samfélagið. Það er eini tilgangurinn. Á DOHA ráðstefnunni árið 2016 minntu ekki ómerkari manneskjur en Christine Lagarde og Joseph Stiglitz á mikilvægi þessa[1]. Ef hagvöxtur eins og hann er mældur leiðir ekki til betra lífs fyrir hinn almenna borgara er mælikvarðinn einskis virði. Þá gefur hann ranga mynd.

Þetta kemur mér í hug nú um miðjan dag í febrúar árið 2017. Mikilvægi þess að við setjum fókusinn á réttan stað nú þegar við erum á leiðinni inn í aðra uppsveiflu á 21. öldinni. Að minna á að hagvöxtur komandi ára á að vera til gagns. Hagvöxtur 21. aldarinnar á Íslandi var okkur ekki til gagns. Hagvöxtur sem gerir hina ríku ríkari, hann er ekki til gagns, hann er gagnslaus.

Það er áhugavert að velta fyrir sér samfélagi því sem frumkvöðlar frjálshyggjunnar héldu á lofti á Íslandi. „Báknið burt“ var eitt þeirra. Arfleifð þessara sömu manna er kannski eingöngu uppbygging báknsins. Það er það sem situr eftir pólitík þeirra á 21. öld. Báknið.

Innviðauppbygging engin. Grunnþjónusta svelt. Biðraðir fólks eftir mat fastar í sessi og löngu samþykktar af samfélaginu. Fjöldi fólks býr við óboðlegar aðstæður í húsnæði sem fyrir aldamót hefði ekki verið litið á sem mannabústaði. Stjórnkerfið veikt og skrifræðið upphafið. Arfleifð frjálshyggjunnar. Gagnslaus stjórnmálastefna.

„Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur“ hafði Guðrún Nordal eftir Jóni Sigurðssyni þegar 200 ár voru liðin frá fæðingardegi hans. Það er ástæða til að halda upp á þessi orð Jóns nú og minna um leið á vegvísi hans sem kemur fram í titli þessarar greinar.

Hlutverk stjórnvalda á Íslandi er að koma okkur að gagni. Vera til gagns. Munum það og gerum kröfu til þess.



[1]https://www.weforum.org/agenda/2016/01/gdp?utm_content=buffer7c808&utm_medium=social&utm_source=facebook.com&utm_campaign=buffer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...