"Tómleikinn felur í sér andlegan dauða. Hann felur í sér grafhýsi hugsjónanna sem eiga að lýsa upp veruleikann og sýna okkur hvað er raunverulega þess virði að gera. Verði hugsjónirnar tómleikanum að bráð, missum við sjónar á því sem gefur lífinu gildi. Missum við sjónar á gildi lífsins, höfum við engar forsendur til að setja okkur markmið og taka ákvarðanir. Þá verðum við skeytingarlaus í hugsun og hegðun, gerum eitt í dag og annað á morgun uns ruglið og bægslagangurinn byrgja okkur endanlega sýn á heiminn. Þá myrkvast veröldin öll eins og hún leggur sig í efnalegu sem andlegu tilliti... ..."andleg viðreisn er eina von okkar." Páll Skúlason - Pælingar II
"Blómlegt andlegt líf er forsenda góðs efnahags og bættra stjórnmála" (birtist í Mbl. 1989)
Leið eins og ég væri að hlusta á vini mína í dag á leiðinni heim í bílnum. Þekki þessa vini mína ekki neitt. Þetta voru þau Guðrún Gunnarsdóttir, Margrét Blöndal, Stefán Jón Hafstein, Ævar Kjartansson og Leifur Hauksson. „Vinir mínir" á RÚV til áratuga sem ég þekki ekki neitt en þykir svo óskaplega vænt um.
Það eru mikil verðmæti að eiga þau ennþá að. Eiga þess enn kost að ýta á takkann í útvarpinu og heyra þessar raddir sem maður þekkir svo vel og vekja hjá manni virðingu og hlýju. Það eru ekki margar stofnanirnar í dag sem hafa þennan sama stað í hjarta manns og RÚV hefur.
Það eru líklega 10 ár síðan ég skrifaði ástríðufullan tölvupóst til Þorfinns Ómarssonar sem þá var umsjónarmaður morgunþáttarins „Í vikulokin" þar sem ég lýsti fyrir honum hvaða tilfinningar ég bæri í brjósti til þessa þáttar og hvað hann skipti mig miklu máli. Held satt að segja að ég hafi farið aðeins yfir strikið eins og svo oft áður í því að mæra af tilfinningasemi þætti og umsjónarmenn á RÚV sem skiptu mig persónulega svo miklu máli.
Oft hef ég haft orð á því síðustu misserin hvað ég er óendanlega þakklát fyrir að eiga Víðsjá að. Þegar „ruglið og bægslagangurinn" er um það bil að gera út af við mann í öðrum miðlum. Þá er frelsun að kveikja á Rás 1. Eins og að komast í „aðra vídd" eins og frændi minn orðaði það svo vel við mig fyrir ekki löngu síðan.
Þess vegna var það högg að opna facebook um miðjan dag í gær og komast að því að hvað gerst hafði. Það var högg að komast að því að Sigríður Pétursdóttir hefði misst vinnuna sem hún elskaði svo mjög og hafði úttalað sig um á þessum sama vettvangi fyrir svo stuttu síðan. Að hún hefði ekki einungis misst vinnuna - heldur verið sagt að taka föggur sínar og yfirgefa staðinn tafarlaust. Að 38 starfsmönnum öðrum hefði verið sagt upp hjá sömu stofnun og flestir fengið sömu meðferð. Að komast að því að stærsti hluti þessara starfsmanna voru fastráðnir starfsmenn á Rás 1. Rás 1! Rásinni sem síst af öllu má hrófla við. Rásinni sem hefur það hlutverk að minna mann á fegurðina á hverjum degi. Rásina sem hefur í gegnum allt sem gengið hefur á í samfélaginu verið trú því hlutverki sínu að vera umfram allt hógvær og fagleg.
Að fá þau skilaboð á myrkrum degi í lok nóvember 2013 að nú væri komið að því að vega að þessari einu stofnun samfélagsins sem enn veit og kann hlutverk sitt var of mikið. Of sárt. Í fyrsta skipti frá haustinu 2008 mætti ég á mótmælafund í hádeginu í dag. Ég gerði það af heilum hug og það var gott fyrir hjartað að finna svo var um fleiri.
Virðing og traust á grundvallarstofnunum samfélagsins er horfið. Það tók mig óskaplega langan tíma að átta mig á því hvað ég var barnaleg að bera fullt traust til bankans míns, til forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja almennt. Það var sárt að kveðja Morgunblaðið.
Ætla hvorki að missa traust á RÚV eða kveðja það.
„Því andleg viðreisn er eina von okkar"
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
fimmtudagur, 28. nóvember 2013
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli