laugardagur, 27. apríl 2013

Kjósum öðruvísi framtíð!

Í dag göngum við til kosninga. Kosninga þar sem valið stendur um tvennt. Framtíð sem er öðruvísi en fortíðin eða framtíð sem er endurtekning á fortíðinni. Það er ekki vafi hvert mitt val verður. Ég vil framtíð sem er öðruvísi en fortíðin.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna. Flokkinn sem vill klára aðildarviðræður við Evrópusambandið og þannig gefa mér von um að breytingar á Íslandi til framtíðar.

Allar götur frá hausti 2008 hef ég beðið eftir auðmýkt og endurmati þeirra sem frá byrjun aldarinnar ráku hér meðvitað pólitík sem leiddi okkur í hrunadansinn. Þá auðmýkt og það endurmat er hvergi að finna. Því er þveröfugt farið. Síðast í gærkvöld upplýsti formaður Sjálfstæðisflokksins með skýrum hætti að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti ekki að svara til saka fyrir neitt. Skýrara getur það ekki verið. Tilraunastarfsemi flokksins með íslensku krónuna á floti í opnu frjálsu umhverfi fjármagnsflutninga á fyrstu árum þessarar aldar var góð stefna og engin ástæða til að endurskoða hana. Nú skal endurtaka leikinn.

Hinn flokkurinn sem landar mínir hafa mesta trú á skv. skoðanakönnunum heitir Framsóknarflokkur. Flokkur sem ekkert okkar veit hvað stendur fyrir í dag – en lofar sem fyrr – fleiri aurum í budduna. Og svo er þjóðerniskenndinni haldið vel á lofti – sem fyrrum virkar það betur en margt.

Allt er við það sama og árið 2003. Flokkarnir tveir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sem voru með viðvörunarbjöllurnar allt um kring að eitthvað þyrfti að gera í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar skutu við skollaeyrum. Lofuðu þess í stað skattalækkunum til að tryggja sér endurkjör. Skítt með efnahagsstjórnina eða það hvaða áhrif kosningaloforðin hefðu á hagkerfið. Stefna þeirra er sú sama nú árið 2013 og hún var þá - árið 2003. Ekkert endurmat – engin breyting. Endurtekning á því sem var.

Ég tilheyri ekki þeim hópi sem vill endurtaka þann leik. Íslensk Kauphöll – íslenskur markaður –þar sem íslenskir karlar einir eru ráðandi við stjórnvölinn er framtíðarsýn sem aðrir en ég kjósa yfir sig. Trúverðugleiki athafnamanna sem urðu forríkir á tilraunastarfsemi þessara tveggja flokka á fyrsta áratug þessarar aldar og telja sig nú þess umkomna að vita best hvað okkur hinum er fyrir bestu er nákvæmlega enginn.

Hrunið sem varð í íslensku samfélagi er ekki útlendingum um að kenna þar bera Íslendingar sjálfir fulla ábyrgð.

Forsenda þess að hægt sé búa í íslensku samfélagi er að erlendra áhrifa gæti í mun meira mæli hér. Við þurfum erlenda fjárfestingu, samkeppni frá erlendum aðilum inn á markaðinn, stöðugleika til langrar framtíðar og við þurfum fjölbreytt atvinnutækifæri.

Ekkert af þessu mun gerast á morgun. Með atkvæði mínu í dag ætla ég að vinna að því að þetta verði Ísland framtíðarinnar. Ég set x við S.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...