sunnudagur, 4. nóvember 2012

Íslenskt samfélag árið 2012

„Ég átti að taka 10 fyrir hádegi og 10 eftir hádegi“ sagði stúlkan sem lögreglan frelsaði úr höndum vændismansals fyrr á árinu. Á Íslandi á árinu 2012. Segir okkur að meðal okkar ganga karlmenn – ungir og gamlir í hópum sem eru tilbúnir að svala kynkvöt sinni með þræl sem lokaður er inni kjallara til þess eins að þjóna þeim nótt og dag.

Í vikunni fór hátt í umræða um aðferðir nemendafélaga menntaskólanna til að auglýsa viðburði sína. Aðferðirnar sem valdar voru og samþykktar innan hópsins voru „að sýna stúlku kynferðislega áreitta og neydda til munnmaka við dreng. Í hinu tilfellinu var stúlka á hnjánum að veita strák í sigurvímu tott. Stelpur þjóna, strákar njóta.“ Eins og Hrafnhildur Ragnarsdóttir orðar það í grein sinni á smugunni „Ég þarf feminisma.“http://blogg.smugan.is/hrafnhildur/2012/11/01/eg-tharf-feminisma/

Sorgin sem fréttir af þessu valda mér verður ekki með orðum lýst. Er til of mikils mælst að við upprætum vændismansal innan okkar 300 þúsund manna samfélags? Viljum við lifa við það að raunveruleiki Lilju forever sé raunveruleiki ungra stúlkna á meðal okkar? Getum við lifað við það?

Ætlum við að ganga götuna lengi frameftir veg þar sem viðhorfin til kynjanna eru þau sem að ofan er lýst? Er til of mikils mælst að foreldrar, skólayfirvöld, eldra fólk, ungt fólk - við öll - gefum skýr skilaboð um að þessi viðhorf til kynjanna séu ekki samþykkt innan okkar samfélags?

Kynhvöt er ein frumþarfa mannsins. Stúlkur jafnt og drengir hafa kynhvöt og kynþarfir. Um þær og þeirra þarfir og langanir er ekki enn talað á árinu 2012. Graðar stelpur er ekki samþykktar nema í því samhengi að gredda þeirra sé til að svala greddu strákanna.

Oft hefur mér komið í hug að skrifa um þessa hluti síðustu ár. Aldrei varð af því að birta það sem ég skrifaði – undiraldan var of þung. Of erfitt að koma orðum að því sem þurfti. Nú stöndum við frammi fyrir því að unga fólkið okkar er íhaldssamara í skoðunum en ungt fólk var fyrir 20 árum. Gilzenegger er orðinn raunverulegur áhrifavaldur á viðhorf ungs fólks á Íslandi á árinu 2012. Ég fullorðin manneskjan hef orðið vitni að kappsemi manna á mínum aldri í því að styðja Gilzenegger og viðhorf hans. Fæ hroll við tilhugsunina.

Mér er ofboðið. Svo ofboðið að ég get ekki lengur orða bundist. Kynþarfir ungs fólks – drengja og stúlkna er eðlilegasti hlutur í heimi. Að ungt fólk sé upptekið af þeim hlutum er eðlilegasti hlutur í heimi. Að meðhöndla þá hluti með þeim hætti sem við verðum vitni að er úrkynjun. Virðingarleysi í hæstu hæðum og á ekki að líða.

Upphafning virðingarleysis drengja gagnvart stúlkum í kynlífsathöfnum er ekkert fyndin. Hún er dauðans alvara.

Kaup karla á kynlífsþjónustu við ungar stúlkur sem haldið er sem þrælum í okkar samfélagi á að uppræta og það strax.

Ég er með tillögu til stjórnenda grunnskólanna – gerið ungu fólki að lesa bók júgóslavnesku stúlkunnar Leilu. Og sýnið því kvikmyndirnar Lilja forever og 90 minutes eftir norska leikstjórann Evru Sörhaug. Skapið umræður um þessi mál á meðal ungs fólks.

Við verðum að bregðast við og sveigja samfélagið af þeirri braut sem það er á. Við erum fólkið til að gera það.

mánudagur, 23. janúar 2012

Álögum áróðursins aflétt


Hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að starfa með Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að mikilvægu verkefni. Unnum að því ásamt fleiri góðum konum að búa til Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar.

Það var ekki andskotalaust verk. Eins meinlaus og sú ætlan var tókst að gera úr því svo stórhættulegt mál að sú sem þetta ritar ákvað að það væri kannski rétt að láta flokkspólitík alveg vera. Hef að mestu staðið við það síðan - utan það að geta alls ekki látið vera að hafa pólitískar skoðanir endalaust - meðvituð um mismikinn fögnuð þeirra sem á hlýða.

Í dag þegar allt útlit var fyrir að ég ætlaði að leyfa pólitíkinni að halda mér í svartholi enn einu sinni tókst Sigríði Ingibjörgu með sínum ómetanlega hlýja húmor að leysa mig úr álögum með einni setningu. Setningin hljómaði svo: „"Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur engan sérstakan stuðning minn. Hann er þarna inni en það truflar mig ekki meira í dag en í gær"

Álögum áróðursins sem ég hafði leyft að heltaka mig var aflétt. Ekki meiningin að fara að skrifa einhverja mærðargrein um Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur - enda yrði það gert í lítilli þökk. Sé samt ástæðu til að sýna henni og félögum hennar þakklæti sem hafa haldið stillingu sinni og viðhaft virðingu í umræðunni . Það er óumræðilega mikils virði að það er fólk á Alþingi sem maður ber virðingu fyrir og ber traust til.

Nú er það svo að ég tók út kvalir á sínum tíma þegar greidd voru atkvæði um að ákæra Geir H. Haarde. Held að það kvöld hafi jafnvel verið mér erfiðara en kvöldið 7. október 2008. Ég upplifði með einstaklega sterkum hætti - persónulega - að samþykkt hefði verið á Alþingi ákvörðun sem myndi hafa afdrifaríkar afleiðingar á samfélag okkar.

Fyrir löngu orðin langþreytt á svívirðingum og virðingarleysi í opinberri umræðu og sá fyrir mér að enginn friður yrði í langan tíma enn.

Ég skildi ekki þá ákvörðun Alþingis að skipa nefnd til að fjalla um hvort ákæra skildi tiltekna ráðherra ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og ég skildi ekki heldur þá afstöðu þingheims að Geir H. Haarde skyldi ákærður. Ég meðtók ákvörðunina og lærði að lifa með henni.

Síðar þegar fundur var haldinn í Hörpu til stuðnings við Geir H. Haarde gat ég ómögulega tekið undir þann söng sem þaðan heyrðist að Geir og ríkisstjórn hans hefði gert allt rétt á erfiðum tíma 2008. Minnug mánaðanna hræðilegu á haustmánuðum 2008 og upphafs ársins 2009 voru yfirlýsingar í þá veru svo himinhrópandi röng túlkun að ég þagði að mestu um afstöðu mína eftir það.

Mörgum sinnum síðan hefur íslenskt samfélag orðið mér nánast óbærilegt. Virðingarleysið og svívirðingarnar eiga sér engin takmörk. Stjórnarandstöðunni hefur tekist með einstakri hæfni í áróðursbrögðum að eiga sviðið í öllum málum. Allt fer alltaf að snúast um þeirra mat. Þeirra viðhorf.

Áramótaskaupið var ekkert grín fyrir mér - það var fullkomin alvara og óendanlega gott að fá útrás fyrir uppsafnaðar innbyrgðar tilfinningar með því að hlæja að öllu saman.

Langt síðan ég ákvað að nú væri nóg komið. Nú mundi ég ekki lengur láta Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkinn stjórna minni persónulegu líðan frá degi til dags. Samt er það svo að ég fell enn í gryfjuna. Kann ekki annað.

Það gerðist í desember þegar Bjarni Benediktsson lagði fram þingsályktunartillögu um að ákæran skyldi dregin til baka. Enn einu sinni tókst Sjálfstæðismönnum að eignast sviðið. Allt í einu eins og hendi væri veifað - si svona.

Að búa við ákvarðanir Alþingis í eina átt í dag og aðra á morgun án þess að í sjónmáli sé nokkurt tilefni til endurupptöku er mér óbreyttum liðsmanni samfélagsins Íslands óskiljanlegt fyrirbæri.

Get ekki lýst virðingarleysi mínu fyrir þeim þingmönnum sem halda því fram að þetta verklag sé hið eina sanna lýðræði. Ætla ekki að láta eftir mér að segja orð um hugsanir mínar til karlanna sem segjast samkvæmir sjálfum sér og sögðu nei í atkvæðagreiðslunni á föstudaginn.

Læt nægja að segja þeim hinum sem höfðu manndóm til að standa með frávísun í þessu máli - takk. Það er gott að það eru þingmenn á Alþingi sem vilja enn að við hin getum haldið áfram að bera virðingu fyrir löggjafarsamkundunni.

sunnudagur, 22. janúar 2012

Hugleiðingar um lýðræði

Var mjög hugsi að hlusta á hugmyndir Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um lýðræði í Vikulokunum í gær. Sé ástæðu til að gera orð hennar að umtalsefni.

Það duldist engum að kosið var um að aðildarviðræður að Evrópusambandinu í síðustu kosningum. Fylgi Samfylkingarinnar mátti fyrst og síðast rekja til þess að við sem kusum flokkinn litum á aðildarviðræður sem forgangsmál. Enda var það svo að flokkurinn gerði þetta mál að úrslitaatriði um ríkisstjórnarsamstarf.

Þingflokkur Vinstri grænna - yfirlýstir andstæðingar Evrópusambandsaðildar - gengu til liðs við ríkisstjórn þar sem aðildarviðræður við Evrópusambandið voru ein af grunnstoðunum. Guðfríður Lilja, Atli Gíslason, Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir - allir þessi þingmenn gerðust aðilar að ríkisstjórnarmeirihluta sem hafði aðildarviðræður við Evrópusambandið á stefnuskrá. Það var vitað mál að þessir einstaklingar væru á móti aðild - en þeir tóku samt ákvörðun um að styðja ríkisstjórnina sem hafði þetta mál á dagskrá.

Það mátti skilja það á orðum Guðfríðar Lilju í Vikulokunum í gær að það er að hennar mati „lýðræðislegt" að Jón Bjarnason hafi sest í ríkisstjórn með það að markmiði að vinna öllum árum gegn því að Ísland ynni af heilindum í samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Ég sé ástæðu til að benda á þvílík rökvilla er hér á ferðinni. Lýðræði byggir ekki á því að þingmenn taki við ráðherraumboði til að vinna gegn stefnu ríkisstjórnar. Það er eins ólýðræðislegt og hugsast getur. Slík framkoma eru svik.

Það hefur aldrei neinn efast um það að Jón Bjarnason er eindreginn andstæðingur Evrópusambandsaðildar. Við fengum þó öll ástæðu til að ætla að hann væri fylgjandi aðildarviðræðum því hann tók við ráðherraumboði í ríkisstjórn sem hafði aðildarviðræður á stefnuskrá. Í ljós kom frá fyrsta degi að hann var svarinn andstæðingur aðildarviðræðna og vann að því öllum árum að standa í vegi fyrir því að ráðuneyti hans ynni af heilindum að því sem Alþingi hafði samþykkt.

Það er ekki lýðræði. Það er valdníðsla.

Framkvæmdavaldið hefur engar heimildir til þess að vinna gegn samþykktum meirihluta Alþingis. Meirihluti Alþingis samþykkti aðildarviðræður við Evrópusambandið og á grundvelli þeirrar samþykktar hafði Jón Bjarnason engar heimildir aðrar en að vinna af fullum heilindum að því máli.

Hér er um slíkt grundvallaratriði að ræða að það er ástæða til að andmæla því kröftuglega þegar þingmenn á Alþingi Íslendinga mæla því bót að einstakir ráðherrar hafi fulla heimild til að vinna eftir sínum prívatskoðunum eftir að þeir hafa tekið við ráðherraumboði - það hafa þeir ekki - þó þeir leyfi sér margir hverjir að haga sér með þeim hætti.

Það sem hér er um ræðir er aðalatriði sem þarfnast leiðréttingar við í íslensku stjórnkerfi.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...