miðvikudagur, 29. september 2010

Uppgjöf

Atburðir gærdagsins ullu mér persónulega mikilli sorg og ég á erfitt með að fóta mig í þessum aðstæðum. Játa það hreinskilningslega.

Ég skil ekki hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að ákærur á hendur ráðherrum ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árunum 2007 - 2009 sé lausn á einhverjum vanda. Hvað þá að ég skilji niðurstöðuna um að ákæra skuli einn ráðherra - forsætisráðherra Geir H. Haarde.

Í því pólitíska andrúmslofti sem hér hefur ríkt svo lengi sem ég man en þó aldrei jafn skelfilega hatrammt og síðustu ár er trúverðugleiki þess að þingmenn á hinu Alþingi séu til þess bærir að standa að ákæru á aðra þingmenn nákvæmlega engin. Niðurstaðan leiðir ekki til neinna sátta en er aftur á móti mjög líkleg til að gera stjórnmálin enn hatrammari og skelfilegri en þau eru fyrir.

Hrun bankakerfisins og áhrif þess á fjárhagslegalega stöðu manns og lífskjör eru eitt. Íslenskt samfélag og andrúmsloftið í kjölfar þeirra atburða er annað. Fyrir mig ennþá erfiðara en hið fyrra.

Ég hef frá því man eftir mér haft óbilandi áhuga á pólitík. Hef frá unga aldri alið með mér drauma um breytta skipan í íslenskum stjórnmálum og að ég gæti einhvern tíma haft raunveruleg áhrif á samfélagið með atkvæði mínu. Þeir draumar hafa dofnað sífellt meir og orðið að engu.

Mér fannst vont að lifa í samfélagi þar sem almenningur skipti sér í hópa og átti viðskipti eftir því hvaða afstöðu það hafði til stjórnmálaflokka og ég þráði breytingar á því umhverfi. Ég hélt um tíma að þetta umhverfi væri að brotna upp og að það rynni upp sá dagur að viðskiptablokkir tengdar stjórnmálaflokkum heyrðu sögunni til. Gömlu blokkirnar eru vissulega horfnar en viðhorfið til stjórnmála og viðskipta er enn að því er virðist það sama.

Nú lifi ég í samfélagi þar sem allar grundvallarreglur eru þverbrotnar - fullkomið leihús fáránleikans eins og ég kalla það. Ég er ekki lengur sjálfstæður einstaklingur með stjórn á eigin lífi heldur strengjabrúða aðstæðna sem ég hef ekkert með að gera.

Allar götur frá því í október 2008 hef ég þráð það meira en nokkuð annað að finna öryggi. Öryggi og væntumþykju af hálfu þeirra aðila sem mér finnst að eigi ekki að hafa annað hlutverk en passa upp á okkur - stjórnmálanna. Því er ekki að heilsa - öðru nær. Frá fyrsta degi hrunsins hafa stjórnmálin okkar hellt olíu á eld óöryggisins og öfganna. Pólitískar skotgrafir verið djúpstæðari en nokkru sinni fyrr og átök á forsendum flokkshagsmuna meiri en ég hef áður upplifað. Atburðir gærdagsins fullkomna þá mynd.

Við höfum ekkert lært og ætlum ekki að læra neitt. Við ætlum að gera það sem við kunnum - finna sökudólga og hengja þá. Aðferð sem leysir engan vanda og býr ekki til neinar sættir.

föstudagur, 3. september 2010

Að vera sviptur mannlegri reisn

Þessi grein er orðin tveggja mánaða gömul. Er persónuleg og ég var í vafa um að rétt væri að birta hana. Skrifuð 30. júní 2010...

Ég var tvítug þegar ég tók þá staðföstu ákvörðun að ég skildi verða fjárhagslega sjálfstæð. Ég skynjaði þá þegar að fjárhagslegt sjálfstæði var grundvöllur að því að vera sjálfstæð manneskja. Ég ætlaði jafnframt ekki að eiga neitt. Það var líka ákvörðun. Ég ætlaði að lifa frjáls - minn eigin herra - án afskipta annarra og forsenda þess var algjörlega skýr í mínum huga - fjárhagslegt sjálfstæði.

Svo eignaðist ég barn - yndislega stúlku - ljós lífs míns - orðin 26 ára og allt í einu varð öryggi mikilvægur hluti af lífinu. Að vera á leigumarkaði í Reykjavík var ekki valkostur - með því var öryggi barnsins fórnað. Svo heppilega vildi til að systir mín var að koma í menntaskóla til Reykjavíkur á sama tíma svo það passaði ágætlega fyrir mig, hana og foreldra mína að þau hjálpuðu mér til að eignast húsnæði - í hverfinu þar sem ég hef búið allar götur síðan.

Stelpan mín er orðin tvítug - enn jafn yndisleg - og enn ljós lífs míns. Mér hefur tekist misjafnlega upp í lífinu eins og gengur en hefur tekist að standa við þá ákvörðun að vera fjárhagslega sjálfstæð - minn eigin herra - allar götur síðan... þar til nú...

Fyrir tveimur mánuðum stóð ég allt í einu frammi fyrir því að samningur sem ég gerði við bankann minn til bráðum 30 ára virtist ætla að leiða til þess að gera mig bæði eignalausa og gjaldþrota í einni og sömu andránni - og það án þess að ég vissi einu sinni af því að nokkuð hefði gerst fyrr en daginn sem það gerðist.

Dómur féll fyrir rúmri viku síðan. Ég hef farið varlega í að fagna enda aldrei haft áhuga á öðru en að samningurinn sem gerður var standi - af beggja hálfu. Að bankinn minn geri mér kleift að standa í skilum eins og ég hef gert frá því að lánið var tekið en hef ekki getað í tvo mánuði vegna afarkosta bankans sem er algjörlega glórulaust að ganga að.

Í dag hlustaði ég á viðskiptaráðherra tala um „sanngirni" og „réttlæti" þeirrar ákvörðunar að samningar sem fjármálastofnanir gerðu um gengistryggð lán skyldu uppreiknaðir á vöxtum sem ákvarðaðir væru einhliða af stjórnsýslustofnunum samfélagsins.

Mér sem sjálfstæðum einstaklingi kemur málið greinilega ekki við enda sek um að eiga viðskipti við bankann minn. Mannleg reisn er ekki til staðar lengur. Ég sem hóf samfelld störf á vinnumarkaði fyrir bráðum 30 árum síðan og gerðist sek um að taka heilar 12 milljónir í lán í bankanum mínum árið 2006 þegar veðið átti að vera virði 25- 30 milljóna er orðin sakamaður og komin á bekk með óreiðumönnum. Ekki vegna þess að ég hafi ekki staðið í skilum - heldur vegna þess að lánið hoppaði á einum degi upp í 24-25 milljónir á sama tíma og veðið skrapp saman í sennilega 20 milljónir.

Á sama tíma og þetta allt gengur yfir. Á sama tíma og ég upplifi stöðuga niðurlægingu vegna stórkostlegra skertra lífskjara og að vera að missa allt sem ég hef unnið fyrir allt mitt líf hlusta ég á fjölskyldu mína öðru megin og atvinnulífið hinum megin segja mér að engu megi breyta. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn séu einu flokkarnir sem treystandi sé til að stjórna landinu og allt slæmt sé ESB að kenna.

Að ræna mann sjálfsvirðingunni og sjálfstæðinu er ekki nóg. Ég hef aldrei verið sérlega einlægur stuðningsmaður Samfylkingarinnar, er einlægur andstæðingur stefnu Vinstri grænna - en þessi framkoma - sú framkoma - að segja manni að allt það sem gerst hefur allan þennan áratug sé bara í fínu lagi og þessir tveir flokkar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur beri þar enga ábyrgð fer verr í mig en flest sem ég hef áður upplifað.

Í því felst engin yfirlýsing um að ég sé einarður stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar og ákvarðana sem hún tekur. Alls ekki. Í því felst sú einlæga beiðni að þeir flokkar sem með fullkomlega opin augun og meðvitað keyrðu okkur inn í bilaðan hrunadans þessa áratugar sýni í það minnsta þá auðmýkt og virðingu að kannast við að bera ábyrgð á því sem hér gerðist.

Ég vildi aldrei þennan dans í kringum gullkálfinn og ég vildi ekki hrunið heldur. Hefði svo gjarna viljað vera laus við hvoru tveggja. En víst ég þarf að þola hvoru tveggja langar mig að biðja stuðningsmenn þessara tveggja stjórnmálaflokka að í það minnsta sýna mér þá virðingu að viðurkenna að forgangmál dagsins í dag er að taka ákvörðun um breytingar til framtíðar.

Íslensk króna er niðurlægingarafl af verstu gráðu og hefur farið verr með íslenskan almenning en réttlætanlegt getur talist. Nú er mál að linni - börnin okkar eiga skilið betri framtíð.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...