fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Viðvarandi virðingarleysi – staða til að verja?

Sat áhugaverðan vinnufund í gær á vegum Sterkara Ísland. Var söguleg stund fyrir mig persónulega þar sem ég var í fyrsta skipti virkur þátttakandi í stórum hópi fólks sem öll áttum það sameiginlegt að vera eindregnir stuðningsmenn fullrar aðildar Íslands að ESB. Mikil breyting frá því að sitja fundi fáeinna sérvitringa um Evrópusambandsaðild vorið 2003 eins og heimild er til um hérhttp://signysig.bloggar.is/blogg/405850/Flokkspolitik__truarbrogd

Fékk að heyra margt áhugavert á fundinum en eitt fannst mér meira lýsandi en margt annað. Sjálfstæðiskona sem mér láðist því miður að taka niður nafnið á sagði okkur af því að hún hefði að hluta til alist upp í Sviss. Hún hefði gert að leik sínum að kaupa tiltekna tegund af sultu í hvert einasta skipti sem hún sótti landið heim. Þessi sultukrukka kostaði alltaf það sama. Ár, eftir ár, eftir ár keypti hún sömu tegund af sultu og hún kostaði það sama ár, eftir ár, eftir ár.

Þessi sama kona hafði búið í Danmörku þar sem hún tók lán. Við töku lánsins fékk hún frá bankanum greiðsluáætlun um afborganir lánsins. Það vakti athygli hennar að þegar hún tók af greiða af láninu stóðust afborganir það sem henni hafði verið sagt að áætla. Hún sagðist alltaf hafa beðið eftir því að fá bakreikning í hausinn, eitthvað sem segði henni að áætlunin hefði ekki staðist og hún þyrfti að greiða meira - en ekkert kom!

Hversu ólíkt er þetta ekki því umhverfi sem við íslenskir neytendur eigum að venjast? Getur það verið að þetta sé eftirsóknarvert umhverfi? Getur verið að það sé eftirsóknarvert að búa við stöðugt verðlag? Að búa í umhverfi þar sem hægt er gera fjárhagsáætlanir sem standast í stórum dráttum?

Hversu framandi er umhverfi af þessu tagi fyrir okkur íslenska neytendur? Getur verið að það sé ekki okkar stærsta hagsmunamál að viðhalda óstjórn íslenskra efnahagsmála til langrar framtíðar?

Óstjórn þar sem það þykir ekkert tiltökumál að tilkynna um 30% hækkun gjaldskrár fyrir orkureikninginn si svona? Óstjórn þar sem bankarnir hafa þurft að taka yfir fjöldann allan af fyrirtækjum og lífeyrissjóðirnir eru svo notaðir til að bjarga frá gjaldþroti?

Er það virkilega eitthvað sérstaklega erfitt að sjá að það eru ekki hagsmunir okkar íslenskra neytenda að halda áfram á sömu braut? Að það eru ekki okkar hagsmunir að treysta þeim hinum sömu fyrir okkur áfram og við höfum treyst hingað til?

Virðingarleysið sem ég upplifi verandi íslenskur þjóðfélagsþegn eru lítil takmörk sett þessa dagana. Það þykir sjálfsagt að tala um lánasamning sem ég gerði við bankann minn með þeim hætti að það komi mér ekkert við þó að forsendurbrestur sé algjör og að það sé fullkomlega eðlileg ráðstöfun að einhver þriðji aðili út í bæ ákvarði hvernig skuli endurákvarða útreikning þessa samnings.

Það er með ólíkindum að upplifa þessa stöðu. Með ólíkindum að þetta geti þótt eðlilegt og sjálfsagt og með ólíkindum að löndum mínum geti þótt þetta í lagi og líti á það sem sitt helsta hagsmunamál að treysta þeim sömu aðilum fyrir okkur áfram og hafa keyrt okkur í þetta ástand.

Ég sem Íslendingur hef fengið nóg af óstjórn íslenskra efnahagsmála. Þegar óstjórnin hefur leitt mig inn í stjórnleysi þar sem ekki er einu sinni hægt að treysta gerðum samningum við löglega rekin fyrirtæki eins og bankastofnanir er nóg komið.

Við getum ekki kennt „útrásarvíkingum" um hækkanir Orkuveitunnar. Við getum ekki kennt „útrásarvíkingum" um glórulausar hækkanir á verði hlutabréfa stórs hluta íslenskra fyrirtækja í Kauphöll Íslands sem endaði með því að þau voru tekin yfir af bönkunum.

Við þurfum að horfast í augu við að það sem hér gerðist var miklu stærra í sniðum en svo að þar verði kennt um fámennum hópi manna. Hér var rekin glórulaus stefna sem ég sem íslenskur þjóðfélagsþegn á heimtingu á að verði endurskoðuð.

Fyrir bankahrunið 2008 virtist það mögulegt að við gætum staðið utan ESB. Eftir bankahrunið er algjörlega augljóst að við getum ekki staðið fyrir utan ESB. Að segja mér sem íslenskum þjóðfélagsþegn að umfram allt eigi ég að halda áfram að treysta sömu stefnunni áfram. Sömu mönnunum fyrir mér er fullkomin móðgun.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...