mánudagur, 30. ágúst 2010

Lýðræði í stað sérhagsmunagæslu - takk!

Andstæðingum aðildar að Evrópusambandinu er að því er virðist ekkert heilagt. Þar á bæ er leyfilegt að ljúga opinberlega eins og ekkert sé. Skemmst er að minnast grófrar auglýsingar Samtaka ungra bænda sem beinlínis héldu því fram blákalt að Evrópusambandið hefði á skipa her.

Í dag mátti lesa stutta grein eftir Gunnar Braga Sveinsson í Fréttablaðinu þar sem hann heldur því fram að engar undanþágur fáist í samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Hvað eiga svona innistæðulausar fullyrðingar að þýða á sama tíma og Íslendingar eru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Eru sérhagsmunir einstakra aðila sem eiga sterkt bakland í ákveðnum stjórnmálaflokkum svo viðurkenndir hér á landi að það sé viðurkennt og sjálfsagt að ljúga opinberlega? Kallar Gunnar Bragi Sveinsson fullyrðingar sínar í þessa veru „upplýsta umræðu"?

Hefur Gunnar Bragi Sveinsson kynnt sér það hvernig íslenskir stjórnmálamenn og stjórnsýsla meðhöndla regluverk ESB á grundvelli EES? Veit hann að hér á sér stað algjörlega gagnrýnislaus og aðhaldslaus innleiðing á ESB reglugerðum og tilskipunum allan ársins hring ár eftir ár? Í hverjum málaflokknum á fætur öðrum? Meira að segja í landbúnaði og sjávarútvegi?

Þar á bæ eru sko ekki samþykktar neinar undanþágur. Nei íslensk lögfræðingastétt innan embættismannakerfisins túlkar allt ESB regluverk þröngt og kemst upp með það. Einmitt vegna þess að pólitísk íhlutun er engin. Stjórnmálamenn og flokkar hafa lengst af þvegið hendur sínar og láta gagnvart almenningi á Íslandi eins og þetta komi þeim ekki við því þetta komi frá ESB.

Ef eitthvað er ábyrgðarleysi - þá er það þetta. Fullkomið ábyrgðarleysi.

Að það skuli ekki vera nóg það sem hér hefur gerst síðustu tvö ár til að menn læri að svona gengur þetta umhverfi ekki áfram lengur er fullkomlega ófært. Icesave og tryggingasjóður innistæðueigenda ættu að vera nægilegur lærdómur til að menn átti sig á því að EES er ekki valkostur. Annað hvort er það full aðild að ESB eða ekki. EES er skammtímasamningur og algjörlega óásættanlegur til framtíðar fyrir þjóð með snefil af sjálfsvirðingu.

Alþingi Íslendinga samþykkti þann 16. júlí 2009 með 33 atkvæðum gegn 28 að leggja fram umsókn um aðild að ESB. Það er lágmarkskrafa að þó að Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkurinn séu ekki við völd fái lýðræðið að hafa sinn gang.

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Viðvarandi virðingarleysi – staða til að verja?

Sat áhugaverðan vinnufund í gær á vegum Sterkara Ísland. Var söguleg stund fyrir mig persónulega þar sem ég var í fyrsta skipti virkur þátttakandi í stórum hópi fólks sem öll áttum það sameiginlegt að vera eindregnir stuðningsmenn fullrar aðildar Íslands að ESB. Mikil breyting frá því að sitja fundi fáeinna sérvitringa um Evrópusambandsaðild vorið 2003 eins og heimild er til um hérhttp://signysig.bloggar.is/blogg/405850/Flokkspolitik__truarbrogd

Fékk að heyra margt áhugavert á fundinum en eitt fannst mér meira lýsandi en margt annað. Sjálfstæðiskona sem mér láðist því miður að taka niður nafnið á sagði okkur af því að hún hefði að hluta til alist upp í Sviss. Hún hefði gert að leik sínum að kaupa tiltekna tegund af sultu í hvert einasta skipti sem hún sótti landið heim. Þessi sultukrukka kostaði alltaf það sama. Ár, eftir ár, eftir ár keypti hún sömu tegund af sultu og hún kostaði það sama ár, eftir ár, eftir ár.

Þessi sama kona hafði búið í Danmörku þar sem hún tók lán. Við töku lánsins fékk hún frá bankanum greiðsluáætlun um afborganir lánsins. Það vakti athygli hennar að þegar hún tók af greiða af láninu stóðust afborganir það sem henni hafði verið sagt að áætla. Hún sagðist alltaf hafa beðið eftir því að fá bakreikning í hausinn, eitthvað sem segði henni að áætlunin hefði ekki staðist og hún þyrfti að greiða meira - en ekkert kom!

Hversu ólíkt er þetta ekki því umhverfi sem við íslenskir neytendur eigum að venjast? Getur það verið að þetta sé eftirsóknarvert umhverfi? Getur verið að það sé eftirsóknarvert að búa við stöðugt verðlag? Að búa í umhverfi þar sem hægt er gera fjárhagsáætlanir sem standast í stórum dráttum?

Hversu framandi er umhverfi af þessu tagi fyrir okkur íslenska neytendur? Getur verið að það sé ekki okkar stærsta hagsmunamál að viðhalda óstjórn íslenskra efnahagsmála til langrar framtíðar?

Óstjórn þar sem það þykir ekkert tiltökumál að tilkynna um 30% hækkun gjaldskrár fyrir orkureikninginn si svona? Óstjórn þar sem bankarnir hafa þurft að taka yfir fjöldann allan af fyrirtækjum og lífeyrissjóðirnir eru svo notaðir til að bjarga frá gjaldþroti?

Er það virkilega eitthvað sérstaklega erfitt að sjá að það eru ekki hagsmunir okkar íslenskra neytenda að halda áfram á sömu braut? Að það eru ekki okkar hagsmunir að treysta þeim hinum sömu fyrir okkur áfram og við höfum treyst hingað til?

Virðingarleysið sem ég upplifi verandi íslenskur þjóðfélagsþegn eru lítil takmörk sett þessa dagana. Það þykir sjálfsagt að tala um lánasamning sem ég gerði við bankann minn með þeim hætti að það komi mér ekkert við þó að forsendurbrestur sé algjör og að það sé fullkomlega eðlileg ráðstöfun að einhver þriðji aðili út í bæ ákvarði hvernig skuli endurákvarða útreikning þessa samnings.

Það er með ólíkindum að upplifa þessa stöðu. Með ólíkindum að þetta geti þótt eðlilegt og sjálfsagt og með ólíkindum að löndum mínum geti þótt þetta í lagi og líti á það sem sitt helsta hagsmunamál að treysta þeim sömu aðilum fyrir okkur áfram og hafa keyrt okkur í þetta ástand.

Ég sem Íslendingur hef fengið nóg af óstjórn íslenskra efnahagsmála. Þegar óstjórnin hefur leitt mig inn í stjórnleysi þar sem ekki er einu sinni hægt að treysta gerðum samningum við löglega rekin fyrirtæki eins og bankastofnanir er nóg komið.

Við getum ekki kennt „útrásarvíkingum" um hækkanir Orkuveitunnar. Við getum ekki kennt „útrásarvíkingum" um glórulausar hækkanir á verði hlutabréfa stórs hluta íslenskra fyrirtækja í Kauphöll Íslands sem endaði með því að þau voru tekin yfir af bönkunum.

Við þurfum að horfast í augu við að það sem hér gerðist var miklu stærra í sniðum en svo að þar verði kennt um fámennum hópi manna. Hér var rekin glórulaus stefna sem ég sem íslenskur þjóðfélagsþegn á heimtingu á að verði endurskoðuð.

Fyrir bankahrunið 2008 virtist það mögulegt að við gætum staðið utan ESB. Eftir bankahrunið er algjörlega augljóst að við getum ekki staðið fyrir utan ESB. Að segja mér sem íslenskum þjóðfélagsþegn að umfram allt eigi ég að halda áfram að treysta sömu stefnunni áfram. Sömu mönnunum fyrir mér er fullkomin móðgun.

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Ónýtur markaður - staða til að verja?

Síðustu misserin hafa landar mínir farið mikinn í þeim fullyrðingum sínum að ekkert verra geti hugsanlega gerst en að „erlendir aðilar“ kaupi hluti í íslenskum fyrirtækjum eða komi inn í íslenskt atvinnulíf með erlent fjármagn. Svo sjálfsagðar þykja orðið fullyrðingar í þessa veru að það er nánast eins og farið sé með sannleikann þegar svona er talað.

Í gær var í fréttum að erfiðleikar Orkuveitu Reykjavíkur væru svo miklir að fyrirtækið væri nánast gjaldþrota. Ekkert nema stórkostlegar hækkanir á gjaldskrám - hækkanir upp á tveggja stafa tölu muni duga til að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Íslenskur almenningur borgar brúsann. Ef marka má fréttir í gær hefur skuldsetning fyrirtækisins tífaldast á sama tíma og tekjurnar hafa tvöfaldast. Að vísu skal geta þess að ég geri ekki ráð fyrir að fréttamennirnir hafi tekið hrun íslenska gjaldmiðilsins með í reikninginn svo væntanlega má milda þá tölu eitthvað en staðreynd miðað við stöðuna í dag engu að síður.

Í vikunni var tilkynnt um að „Framtakssjóður Íslands“ – fjárfestingarsjóður í eigu lífeyrissjóðanna – hefði keypt eignarhaldsfélagið Vestia af Landsbankanum. Með kaupunum á sjóðurinn nú fyrirtæki eins og: Icelandic, Teymi, Vodafone, Skýrr, EJS, Hug AX, Húsasmiðjuna og Plastprent. Í sumar keypti sami sjóður 30% hlut í Icelandair.

Framtakssjóður Íslands er sjóður í eigu lífeyrissjóðanna – sjóðanna sem við íslenskur almenningur höfum greitt í til að geta séð fyrir okkur í ellinni. Fjárfestingarnar eru ákveðnar án þess að við höfum verið spurð. Íslenskur almenningur borgar brúsann.

Framtakssjóður í eigu lífeyrissjóðanna er ekki eðlilegt fyrirkomulag á eignarhaldi fyrirtækja á samkeppnismarkaði og við þetta þurfa íslenskir neytendur – íslenskur almenningur að búa í einhver ár til framtíðar. Óeðlilegt viðskiptaumhverfi þar sem ekkert er eins og það á að vera. Þá er ekki nefnt að enginn veit hverju þessar fjárfestingar koma til með að skila - hverju lífeyrissjóðirnir - sjóðirnir okkar - eru að fórna til að bjarga íslenskum atvinnumarkaði frá algjöru hruni.

Er það þetta sem átt er við þegar sagt er að engum öðrum en Íslendingum sé treystandi fyrir eignarhaldi íslenskra fyrirtækja? Er það þetta sem við þurfum að verja með öllum ráðum?

Ég játa fullkomlega hreinskilningslega að mér er ómögulegt að átta mig á röksemdafærslu háværs almennings á Íslandi þessa dagana sem hrópar hátt á götum að enginn megi hér eiga neitt annað en Íslendingar.

Ég sé ekki betur að en að það sem við þurfum fyrst og fremst af öllu á að halda er erlend fjárfesting. Við þurfum að fá hingað erlenda aðila í atvinnurekstur. Því fleiri þeim mun betra, því fjölbreyttari starfsemi – þeim mun betra. Ekkert - ekkert - mundi gera Íslendingum meira gagn.

Á sama tíma og þetta er staðan hæðast Íslendingar – karlmenn í Sjálfstæðisflokknum fremstir í flokki - að ESB. Ég verð að segja að heldur fyndist mér meiri manndómsbragur á því að láta vera að hæðast að öðrum með þessa stöðu í farteskinu.

Forgangsatriði númer eitt fyrir almenning á Íslandi er í dag að tryggja með öllum ráðum fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er rétta leiðin – eina rétta leiðin – til að tryggja að hér verði einhvern tíma í framtíðinni eðlilegt viðskiptaumhverfi þar sem íslenskum fjárfestum og atvinnurekendum er veitt það aðhald sem þeir þurfa.

Það er svo augljóst að það á ekki einu sinni að þurfa að nefna það.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...