mánudagur, 26. apríl 2010

Sagan færð í stílinn

Guðmundur Andri Thorsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag. Þar segir m.a. „Um hríð - áður en kvótaframsal og veðsetning hófst fyrir alvöru á tíunda áratug síðustu aldar og útgerðarmenn fóru að veðsetja allt saman til að geta farið að rífa hús í Garðabænum og byggja blokkir í Kualalumpur - voru Íslendingar svo sannarlega í öfundsverðri stöðu: þeim hafði auðnast að byggja upp allan sinn infrastrúktúr - skólakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngur, velferðarkerfi - án óbærilegrar skuldasöfnunar. Þjóðin hafði aðgang að einhverjum gjöfulustu fiskimiðum á byggðu bóli og og frábær sérþekking var í landinu á því að breyta fiskinum í raunveruleg verðmæti; þjóðin virtist vel menntuð; hún var fámenn og stéttaskipting hafði farið minnkandi áratugum saman; fáir voru ofsaríkir og fáir sárafátækir - óttalegt basl að vísu á mörgum eftir áralanga efnahagsóreiðu en samt var hér á áratugnum fyrir aldamót búið í haginn fyrir fyrirmyndarsamfélag að norrænum hætti."

Ljóst er á þessum pistli að sitt sýnist hverjum um sögu fortíðarinnar. Guðmundur Andri Thorsson hefur búið í einhverju allt öðru samfélagi en ég kannast við og tel ég mig þó hafa búið á Íslandi eins og hann. Um eitt erum við sammála - að óttalegt basl hafi verið á mörgum eftir áralanga efnahagsóreiðu.

Að Ísland fortíðarinnar hafi verið samfélag „án óbærilegrar skuldasöfnunar" og „frábærrar sérþekkingar", vel menntaðrar þjóðar sem tekist hafði að byggja upp allan sinn infra-strúktúr er vægt frá sagt framandi fullyrðing.

Skuldasöfnun, ömurleg hagstjórn, gjörspillt helmingaskiptakerfi tveggja stjórnmálaflokka er miklu nær að lýsa því samfélagi sem ég ólst upp í á Íslandi. Ég man ekki betur en öll mín uppvaxtarár hafi söngurinn um hvað hver og einn einstaklingur íslensku þjóðarinnar skuldaði mikið verið viðvarandi í öllum fréttatímum. Verðbólga mæld í tveggja stafa tölu ár eftir ár svo það eina sem dugði var að eyða peningunum jafnharðan og þeirra var aflað. Samfélag þar sem eingöngu þeir betur efnuðu höfðu efni á því að komast úr landi. Samfélag þar sem pólitíkin réði öllu um stöðuveitingar. Gjörspillt viðskiptaumhverfi þar sem raunveruleg samkeppni þekktist varla.

Guðmundur Andri Thorsson hefur rétt fyrir sér um það að kvótakerfið breytti Íslandi. Kvótakerfið hafði þær afleiðingar að til urðu sterk fyrirtæki á landsbyggðinni sem aftur hafði þær afleiðingar að styrkja þær byggðir þar sem mönnum auðnaðist að nýta sér kosti kerfisins. Til varð sterk atvinnugrein og fjárfesting sem hafði áhrif á þróun nýrra atvinnugreina. Hátæknifyrirtæki á Íslandi þróuðust fyrst og fremst á grundvelli sterks sjávarútvegs sem aftur hafði áhrif á eftirspurn eftir sérmenntun sem aftur leiddi til meiri fjölbreytni í framboði á menntun. Kvótakerfið hafði gríðarleg áhrif á þróun íslensks samfélags - það er ekki vafi. Í mínum huga áhrif til til hins betra.

Fyrir daga kvótakerfisins var sjávarútvegur á Íslandi á hausnum eins og hann lagði sig. Ofveiði og offjárfesting til að veiða takmarkaða auðlind var sú staða sem kvótakerfið varð til úr. Framsal og veðsetning aflaheimilda skipti sköpum um hagræðingu í greininni og bjó til verðmæti sem skiptu sköpum um þróun okkar samfélags.

Það getur meira en verið að það fyrirkomulag sé og hafi verið meingallað - á því ætla ég ekki að hafa skoðun - læt sérfræðingana um það - en látum ekki ekki eins og svart sé hvítt. Sjávarútvegur á Íslandi fyrir daga kvótakerfisins var ekki vel rekin atvinnugrein „frábærrar sérþekkingar". Sérþekking í greininni hefur fyrst og fremst orðið til á grundvelli kvótakerfisins hvað sem okkur annars kann að finnast um það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...