þriðjudagur, 27. apríl 2010

Reglur þeirra syndlausu

Skil ekki umræðuna um prófkjör . Gagnrýnin beinist eins og alltaf að einstaklingum, einstaklingum sem tóku þátt í leiknum. Einstaklingum sem þáðu „meira" en aðrir. Þannig virðist eins og Hallgrímur Thorsteinsson komst að orði áðan vera beðið eftir því að Steinunn Valdís og Guðlaugur Þór segi af sér og þar með sé búið að afgreiða málið.

Er það lærdómur í þessa veru sem við álítum að gagnist okkur mest til framtíðar?

Skil ekki umræðu í þessa veru. Skil ekki þá ályktun að vegna þess að sumir fengu meiri styrki heldur en aðrir að þá séu þeir sekir umfram þá sem fengu minna.

Prófkjör byggja á því að við „kjósum" einstaklinga á framboðslista flokkanna. Hvernig eigum við að kjósa einstaklinga á lista flokkana ef við vitum ekki að þeir eru til? Vitum ekki hverjir þeir eru?

Prófkjör þýðir að til að ná árangri þarftu að berjast fyrir því. Til að láta vita af þér í nútímasamfélagi þarftu að auglýsa þig, kynna þig. Að auglýsa sig, kynna sig - kostar peninga. Ef að við ætlum að viðhalda prófkjörum en um leið banna fjárframlög fyrirtækja til frambjóðenda þeirra hverjir eiga þá möguleika á að ná árangri í prófkjörum? Þekktir einstaklingar?

Við getum ekki fríað okkur ábyrgð á því að prófkjör hafa verið viðhöfð til að velja einstaklinga á framboðslista flokkanna. Prófkjör að mínu viti gera kröfu á fjárframlög til einstaklinga. Án fjárframlaga eru þau ónýtt fyrirbæri vegna þess að „lýðræði" þar sem kjósendur fá ekki kynningu á frambjóðendum er ekki lýðræði.

Prófkjör er eins og ég hef látið koma fram hér á blogginu mínu hér fyrr er ein dellan sem ritstjóri Morgunblaðsins hefur talað sem mest fyrir í áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þetta fyrirkomulag um val frambjóðenda á lista í mörg ár og alltaf var okkur talin trú um að þetta væri hið eina sanna „lýðræði".

Ég hef verið ósammála því frá upphafi og ég er það enn. Prófkjör leiddu ekki til þeirrar endurnýjunar á listum sem vonast var til - virtust lengi framan af betur til þess fallin að tryggja karlaveldið á listum flokksins. Við kjósendur höfum þó aðeins lært í þau ár sem þetta fyrirbæri hefur þróast hér á landi.

Það er hugmyndafræðin hér sem þarfnast endurskoðunar við. Alveg eins og í umræðunni um „ofurlaunin". Við leysum engan vanda með því að hengja einstaklinga fyrir tilteknar gjörðir en látum hugmyndafræðina vera. Er enn sömu skoðunar og ég var þegar ég skrifaði þessa grein hér[1] og úrdrátturinn hér að neðan er tekin úr.

Einstaklingarnir sem tóku þátt í prófkjörum - fyrir okkur - eiga það skilið af okkur að við virðum þá fyrir það. Leikreglum á ekki að breyta eftir á. Slíkt samfélag er fyrst og síðast siðlaust samfélag - bananalýðveldi. 

  • „Ætla mætti af umræðunni í dag að hugmyndir þessa manns og aðrar sem þróast hafa í kjölfarið að frammistöðu- og árangurstengd launakerfi séu óumdeild.  Fjölmiðlar sem og aðrir sem um málefnið fjalla opinberlega gera ekki  mikið af því að setja spurningamerki við aðferðina "per se" þ.e. að það sé gagnrýnivert að verðlauna vel unnið starf með sífellt auknum      peningagreiðslum.  Af mótmælum forsætisráðherra vor í fyrradag þar sem hann tók út 400.000 krónur af reikningi sínum hjá Kaupþingi- Búnaðarbanka og lokaði reikningnum í kjölfarið mátti skilja að honum ofbauð upphæðirnar sem þarna var um að ræða.  Af tali hans mátti skilja  að þeir tveir menn sem þarna voru að verki Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson væru siðlausir menn í botnlausri græðgi sinni.  Erum við íbúar samfélagsins Íslands sammála þeirri túlkun forsætisráðherra vor?  Horfum við fyrst og fremst á upphæðirnar sem þarna er um ræða?  Hver eru þá mörkin og hverjar eru leikreglurnar fyrir viðskiptalífið að fara eftir?
  • Hér finnst mér vert að stalda við og líta undir yfirborðið.  Hér sem aldrei fyrr er þörf á gagnrýnni hugsun - þess að spyrja sig spurninga og leita svara við þeim.  Það kann vart góðri lukku að stýra að vaða áfram í þeirri vissu að við séum með endanlegan sannleika í höndunum er það?  Er botnlaus peningahyggja - dýrkun Mammons það umhverfi sem við viljum búa komandi kynslóðum?  Hvert mun það leiða mannkynið?
[1] http://signysig.bloggar.is/blogg/406314/Peningar_sem_hvati_-_oumdeild_adferd

mánudagur, 26. apríl 2010

Sagan færð í stílinn

Guðmundur Andri Thorsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag. Þar segir m.a. „Um hríð - áður en kvótaframsal og veðsetning hófst fyrir alvöru á tíunda áratug síðustu aldar og útgerðarmenn fóru að veðsetja allt saman til að geta farið að rífa hús í Garðabænum og byggja blokkir í Kualalumpur - voru Íslendingar svo sannarlega í öfundsverðri stöðu: þeim hafði auðnast að byggja upp allan sinn infrastrúktúr - skólakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngur, velferðarkerfi - án óbærilegrar skuldasöfnunar. Þjóðin hafði aðgang að einhverjum gjöfulustu fiskimiðum á byggðu bóli og og frábær sérþekking var í landinu á því að breyta fiskinum í raunveruleg verðmæti; þjóðin virtist vel menntuð; hún var fámenn og stéttaskipting hafði farið minnkandi áratugum saman; fáir voru ofsaríkir og fáir sárafátækir - óttalegt basl að vísu á mörgum eftir áralanga efnahagsóreiðu en samt var hér á áratugnum fyrir aldamót búið í haginn fyrir fyrirmyndarsamfélag að norrænum hætti."

Ljóst er á þessum pistli að sitt sýnist hverjum um sögu fortíðarinnar. Guðmundur Andri Thorsson hefur búið í einhverju allt öðru samfélagi en ég kannast við og tel ég mig þó hafa búið á Íslandi eins og hann. Um eitt erum við sammála - að óttalegt basl hafi verið á mörgum eftir áralanga efnahagsóreiðu.

Að Ísland fortíðarinnar hafi verið samfélag „án óbærilegrar skuldasöfnunar" og „frábærrar sérþekkingar", vel menntaðrar þjóðar sem tekist hafði að byggja upp allan sinn infra-strúktúr er vægt frá sagt framandi fullyrðing.

Skuldasöfnun, ömurleg hagstjórn, gjörspillt helmingaskiptakerfi tveggja stjórnmálaflokka er miklu nær að lýsa því samfélagi sem ég ólst upp í á Íslandi. Ég man ekki betur en öll mín uppvaxtarár hafi söngurinn um hvað hver og einn einstaklingur íslensku þjóðarinnar skuldaði mikið verið viðvarandi í öllum fréttatímum. Verðbólga mæld í tveggja stafa tölu ár eftir ár svo það eina sem dugði var að eyða peningunum jafnharðan og þeirra var aflað. Samfélag þar sem eingöngu þeir betur efnuðu höfðu efni á því að komast úr landi. Samfélag þar sem pólitíkin réði öllu um stöðuveitingar. Gjörspillt viðskiptaumhverfi þar sem raunveruleg samkeppni þekktist varla.

Guðmundur Andri Thorsson hefur rétt fyrir sér um það að kvótakerfið breytti Íslandi. Kvótakerfið hafði þær afleiðingar að til urðu sterk fyrirtæki á landsbyggðinni sem aftur hafði þær afleiðingar að styrkja þær byggðir þar sem mönnum auðnaðist að nýta sér kosti kerfisins. Til varð sterk atvinnugrein og fjárfesting sem hafði áhrif á þróun nýrra atvinnugreina. Hátæknifyrirtæki á Íslandi þróuðust fyrst og fremst á grundvelli sterks sjávarútvegs sem aftur hafði áhrif á eftirspurn eftir sérmenntun sem aftur leiddi til meiri fjölbreytni í framboði á menntun. Kvótakerfið hafði gríðarleg áhrif á þróun íslensks samfélags - það er ekki vafi. Í mínum huga áhrif til til hins betra.

Fyrir daga kvótakerfisins var sjávarútvegur á Íslandi á hausnum eins og hann lagði sig. Ofveiði og offjárfesting til að veiða takmarkaða auðlind var sú staða sem kvótakerfið varð til úr. Framsal og veðsetning aflaheimilda skipti sköpum um hagræðingu í greininni og bjó til verðmæti sem skiptu sköpum um þróun okkar samfélags.

Það getur meira en verið að það fyrirkomulag sé og hafi verið meingallað - á því ætla ég ekki að hafa skoðun - læt sérfræðingana um það - en látum ekki ekki eins og svart sé hvítt. Sjávarútvegur á Íslandi fyrir daga kvótakerfisins var ekki vel rekin atvinnugrein „frábærrar sérþekkingar". Sérþekking í greininni hefur fyrst og fremst orðið til á grundvelli kvótakerfisins hvað sem okkur annars kann að finnast um það.

sunnudagur, 18. apríl 2010

Samfélagstilraun

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum í gær. Við það tækifæri lét hún þess getið að hún gerði það m.a. fyrir flokkinn sinn. Ég ber virðingu fyrir ákvörðun hennar en fyrir mig sem kjósanda í landinu hefði yfirlýsingin komið mun sterkar út ef hún hefði látið vera að nefna flokkinn sinn í þessu samhengi.

Það er flokkurinn hennar - Sjálfstæðisflokkurinn - sem skuldar okkur öllum borgurunum í þessu landi afsökunarbeiðni. Enginn ber jafnmikla ábyrgð og sá flokkur á því sem gerst hefur hér síðasta áratuginn. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins sem keyrði samfélag okkar í þær hæðir sem það fór og orsakaði þær hrikalegu afleiðingar sem við þurfum öll að takast á við næstu árin. „Samfélagstilraun" kallar Ingibjörg Sólrún það í nýju Tímariti Máls og menningar - lýsandi orð yfir glórulausa stefnu stjórnmálaflokks sem komið var í framkvæmd og reyndist okkur dýrkeypt. Um þetta þurfum við Íslendingar að tala.

Það er virðingarvert og skal ekki gert lítið úr því að einstakir stjórnmálamenn gangist við ábyrgð sinni. Það eitt og sér mun samt ekki breyta neinu um Ísland framtíðarinnar. Ef við viljum í raun og sann nýtt Ísland -þurfum við að láta af meðvirkninni með Sjálfstæðisflokknum og gera kröfur til þess flokks um uppgjör.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...