sunnudagur, 31. maí 2009

Meira frá Berlín

Stjórnmálamenn og almenningur á Íslandi sjá ekki ástæðu til að ræða gengi gjaldmiðilsins þessa dagana. Það er enginn skortur á greinum í blöðum eða fréttum í fjölmiðlum sem fjalla um skuldir heimila og fyrirtækja en samhengi þess við gengi gjaldmiðilsins er sjaldnast nefnt. Mér finnst þetta vægt frá sagt stórundarlegt mál.

Ég var að koma frá Berlín. Keypti 400 evrur í flugstöðinni til að taka með mér. Þær kostuðu 72.000 krónur. Hefðu kostað 34. - 46.000 ef að gengið væri á bilinu 85 - 115 eins og raunin var hér einhvern tíma fyrir ekki löngu síðan. Semsagt meira en 100% hærri kostnaður af því að kaupa eyðslueyri í þessari útlandaferð en fyrir örstuttu síðan. Berlín var ekki dýr þegar horft er á verðið í evrum, en nokkuð annað er upp á tengingnum þegar umreiknað er í íslenskar krónur. Morgunverðurinn á hótelinu kostaði t.d. 13 evrur á manninn, ekki há upphæð í evrum en með gengi upp á 180 krónur eru það 2.340 krónur fyrir morgunverð á manninn, tæplega 5.000 krónur fyrir morgunverð á dag u.þ.b. 20. þúsund fyrir tvo í fjóra daga - fyrir morgunverð á hóteli.

Sama er uppi á tengingnum hjá okkur einstaklingunum á þessu litla heimili mínu í okkar daglega lífi á Íslandi vorið 2009. Höfuðstóll skuldarinnar á íbúðinni sem var 12 milljónir þegar lánið var tekið vorið 2004 stendur núna þetta á bilinu 23 - 24 milljónir. Skuldir litla fyrirtækisins sem sambýlismaður minn á hlut í er u.þ.b. 100% hærri í dag en þær voru fyrir nokkrum mánuðum síðan. Dóttirin sem var búin að skipuleggja Interrail ferð til Evrópu í haust verður að hætta við vegna þess að Evrópa er einfaldlega of dýr.

Allt er þetta vegna gengis gjaldmiðilsins sem er ónýt íslensk króna. Gjaldmiðillinn sem er búin að gera mér lífið leitt frá því ég man eftir mér á að halda áfram að eyðileggja líf dóttur minnar að því er virðist ef að stjórnmálamenn á Íslandi fá einhverju ráðið.

Og af hvaða ástæðu? Jú af þeirri ástæðu að "sjálfstæðið", "fullveldið" er svo mikils virði! Þið ættuð að skammast ykkur allir saman!

Dóttir mín viðhafði þau orð í Berlínarferðinni að hún tryði því ekki að þingmenn á Íslandi myndu ekki leyfa okkur að kjósa um það að ganga til aðildar við Evrópusambandið eftir að fyrir lægi hvað þar væri í boði. Þar hitti hún naglann á höfuðið eins og svo oft áður. Hún 19 ára gamall unglingurinn vill ekki trúa því fyrr en í fulla hnefana að íslenskir stjórnmálamenn ætli að standa í vegi fyrir því að hún fái að eiga valkosti um framtíð sína í þessu landi. Hún trúir því ekki að íslenskir stjórnmálamenn nútímans ætli henni þá framtíð að búa í samfélagi átthagafjötra. Átthagafjötra sem hún veit að móðir hennar og forfeður og mæður hafa þurft að búa við.

Ég vil trúa henni. Ég vil taka undir með henni að það geti hreinlega ekki verið að stjórnmálamenn á Íslandi sumarið 2009 taki þá ákvörðun að kjósa einangrun og höft fyrir komandi kynslóðir í þessu landi.

Gengi gjaldmiðils okkar er aðalatriði. Gengi gjaldmiðilsins hefur skert lífskjör okkar stórkostlega á nokkrum mánuðum. Gengi gjaldmiðilsins hefur fært líf mitt aftur til þess tíma sem mig langar ekkert til að upplifa aftur - fortíðarinnar þar sem litið var á utanlandsferðir sem bruðl á gjaldeyri.

Framtíð okkar, tækifæri til skamms tíma og lengri tíma eru öll undir því komin hvernig tekst að vinna okkur út úr gjaldmiðilskrísunni. Ekkert mál er jafnmikilvægt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu, svo einfalt er það.

Þess vegna eiga Framsóknarmenn, Samfylkingarfólk, Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Borgaraflokkur að tala um hvernig þeir ætli að vinna okkur út úr þessu máli. Alþingi á ekki að vera tala um neitt annað en nákvæmlega þetta mál. Ekkert er jafnmikilvægt fyrir lífskjör okkar í þessu landi, hvort sem litið er skamms eða lengri tíma.

Íslensk króna hefur runnið sitt skeið. Svo einfalt er það. Hvernig ætla menn að leysa þann vanda til framtíðar?

Lausnir óskast!

þriðjudagur, 26. maí 2009

Á söguslóðum í Berlín

Var að koma frá Berlín. Gaf dóttur minni ferð til borgar í Evrópu í útskriftargjöf, hún valdi Berlín. Engin tilviljun þar á ferð, en hún hefur eins og móðirin brennandi áhuga á stjórnmálum og sögu. Í því samhengi er Berlín sannarlega suðupottur.

Það var satt að segja ískyggilegt hversu oft mér datt staða íslenskra stjórnmála í dag í hug í þessari ferð um söguslóðir nasismans og síðar kommúnismans.

Við fór á DDR safnið - safn um Austur Þýskaland kommúnismans. Við fórum í 4ra tíma gönguferð með leiðsögn um Berlín og nasista í síðari heimsstyrjöldinni og við fórum í 6 tíma ferð með leiðsögn til Sacsenhausen, vinnubúða nasista í nágrenni Berlínar. Óhugnanleg saga og erfið en hefur um leið að geyma ótrúlega mikilvæg skilaboð til okkar nútímamanna. Hvað ber að varast í samfélagi okkar?

Þar er mér efst í huga hjarðhegðun. Hjarðhegðun og fylgispekt heillar þjóðar við uppreisnarseggi í kjölfar efnahagslegrar niðurlægingar. Þjóðerniskennd. Það skelfilega fyrirbæri sem enginn lýsir betur en Stefan Sweig í bók sinni Veröld sem var.

Hvoru tveggja er eitthvað sem íslensk stjórnmál eru fleytifull af þessa dagana. Það er reyndar ekkert nýtt að Íslendingar séu uppfullir af þjóðerniskennd - það hafa þeir alltaf verið - en nú keyrir um þverbak. Hjarðhegðunin er svo sem ekkert ný af nálinni heldur - en samt hefur hún aldrei birst mér jafnskýrt og nú.

Það að þjóðerniskennd og hjarðhegðun skuli vera svo rík í okkar samfélagi og nú er raunin er að mínu viti stórhættulegt ástand. Skortur á raunsæji og skynsemi stjórnmálanna er það líka.

Orð stjórnmálamanna sem hver um annan þveran tala út í eitt um að Íslendingar geti nánast hætt öllum innflutningi og framleitt allt sjálfir minnir óhugnanlega á hugmyndir kommúnistanna í Austur Þýskalandi.
Gagnrýnisleysi og fylgispekt heilu stjórnmálaflokkanna við hugtakið "sameign þjóðarinnar" er sama marki brennd. "Sameign þjóðarinnar" er stórhættulegt hugtak sem hefur verið misnotað miskunnarlaust í áróðursskyni í hátt í tvo áratugi. Ágætur maður, Helgi Áss Grétarsson benti mér raunar á það einu sinni að þessi áróður væri alveg í anda Göbbels áróðursmeistara nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Með því að endurtaka hlutinn nógu oft endar með því að almenningur fer að trúa því hversu vitlaus sem áróðurinn er.

Á grundvelli hugtaksins "sameign þjóðarinnar" hefur íslenska ríkið slegið eign sinni á allt land og auðlindir sem ekki voru í einkaeignarrétti og raunar gengið miklu, miklu lengra en nokkur gat ímyndað sér. Þetta hefur ríkisvaldið gert án umræðu um hugtakið pr se. Nú stendur til að halda áfram og ríkisvaldið ætlar sér að innkalla aflaheimildir sem útgerðarmenn hafa keypt. Þetta ætlar ríkisvaldið sér að gera á grundvelli þess að almenningur er því samþykkur vegna þess hversu móttækilegur hann er fyrir þessu hugtaki "sameign þjóðarinnar".

Þetta er óhugnanleg staða og ófyrirgefanleg. Það er ófyrirgefanlegt að stjórnmálamenn séu svo móttækilegir fyrir áróðri að þeir kasti fyrir róða allri rökhyggju og skynsemi og gefi sig áróðrinum á vald. Eignarréttur er ekki "þjóðar". "Þjóð" er ekki aðili að lögum, "þjóð" er í besta falli félagsleg ímyndun eins og Guðmundur Hálfdánarson færir svo skemmtilega rök fyrir í bók sinni Íslenska þjóðríkið - uppruni og endimörk. Eignarréttur þarfnast lögaðila - kennitölu - formlegs fyrirbæris. Við eigum ágætt orð yfir það sem við öll skiljum og eigum að nota yfir eignarrétt ríkisins - "ríkiseign". Það skiljum við og vitum hvað þýðir. Þess vegna á að fjalla um eignarrétt ríkis en ekki þjóðar.

Allt bullið um að ég og Íslendingar allir eigum fiskinn í sjónum er með þvílíkum ólíkindum að það verður seint toppað. Ég á ekki fiskinn í sjónum frekar en nokkur annarr og fráleitt að halda slíku fram. Eignarréttur útgerðarmanna á kvóta er eignarréttur viðkomandi til að veiða tiltekið magn - flóknara er það nú ekki. Mér er ómögulegt að sjá hið eina sanna réttlæti sem felst í því að taka eignarrétt viðkomandi útgerðarmanna af þeim til að færa hann ríkinu. Mér er satt að segja algjörlega ómögulegt að skilja hvernig annars sæmilega skynsamt fólk getur komist að þeirri niðurstöðu að í þessari gjörð felist hið eina sanna "réttlæti". Það er undarlegt það réttlæti verð ég að segja og algjörlega í samræmi við hugmyndir kommúnista fyrri tíma - að öllu sé betur komið á forræði ríkisins.

Að síðustu - hugmyndir íslenskra stjórnmálamanna nú á dögum að hið eina sanna réttlæti sé í því fólgið að allir hafi sömu laun. Það er kannski aðeins of djúpt í árinni tekið að íslenskir stjórnmálamenn hafi gengið alveg svo langt í hugmyndum sínum en samt virðist manni ekki að það sé langt undan. Þetta var hugmyndafræði kommúnista í Austur Þýskalandi. Ég skoðaði myndir af mönnum í hinum ýmsu greinum fyrirmyndarríkisins og þeir voru allir með sömu laun.

Stjórnarskráin. Það var eitt af því fyrsta sem þýskir nasistar komu í verk. Að breyta lögum til að gera þeim auðveldara fyrir að breyta stjórnarskránni. Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki látið sér detta það í hug - en þeir létu sér samt detta það í hug á einhverjum verstu óreiðutímum sem verið hafa í íslensku samfélagi að flýta sér að breyta stjórnarskránni. Það var forgangsmál.

Ég er hér að gagnrýna alla flokka, þann flokk sem ég kaus jafnt og aðra flokka. Það geri ég af því að það er ekki vanþörf á. Það á að vera hægt að gera skýrar kröfur á stjórnmálamenn og flokka og mín krafa í þá veru snýr að skynsemi. Skynsemi og raunsæji um samfélagsleg málefni. Það er óþolandi og getur beinlínis reynst stórhættulegt til lengri tíma litið þetta óraunsæjisblaður sem einkennir íslensk stjórnmál þessa dagana.

Mér ofbýður að koma heim eftir fjögurra daga ferðalag og sjá fjölmiðla uppfulla af umræðu um kvótakerfið, eins og það sé forgangsmál íslenskra stjórnmála núna í kjölfar efnahagslegs hruns. Mér ofbýður þjóðerniskennd landa minna. Mér ofbýður viljaleysi þingmanna til að horfa á hagsmuni heildarinnar og að sama skapi einbeittan vilja þeirra til að hugsa út frá hagsmunum FLOKKSINS. Mér ofbýður feimnisleysi Ragnars Arnalds og félaga hans í Heimssýn í þá veru að reyna að banna umfjöllun fjölmiðla um Evrópusambandsaðild. Allt eru þetta atriði sem gera mig pólitískari en nokkru sinni fyrr og var þó nóg fyrir. Ekki flokkspólitískari - pólitískari. Á því er grundvallarmunur.

Er ekki ástæða til fyrir okkur öll að staldra aðeins við núna og íhuga hvert við viljum fara með þetta samfélag okkar?

sunnudagur, 17. maí 2009

Löggjafarvald eða lögfræðingavald?

Það hefur oft þótt ágæt aðferð þegar stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar að greina núverandi stöðu. Þess sakna ég í umræðu Íslendinga um mögulega aðild að ESB.

Ég sakna þess að aldrei heyrist orð um það í hvaða stöðu við erum undir EES samningnum. EES aðildin og framkvæmd þess samnings er augljóslega eitt af aðalatriðum málsins. Ísland er aðili að EES og við hljótum að taka þá staðreynd með í reikninginn þegar við gerum upp hug okkar gagnvart fullri aðild að ESB.

Eitt af því sem oft er notað gegn aðild að ESB er að við megum ekki gerast aðilar af því að með því fáum við yfir okkur svo mikið reglugerðarfargan. Ég segi við þurfum að gerast aðilar að ESB vegna þess að EES er óþolandi staða til framtíðar.

Við höfum nú búið við EES samninginn í 15 ár. Með honum höfum við skuldbundið okkur til að taka við reglugerðum og tilskipunum ESB í tilteknum málaflokkum. Framkvæmd hans hefur þróast þannig að innleiðing og túlkun hefur af íslenskum stjórnvöldum verið látin lögfræðingum eftir nánast gagnrýnislaust . Látið er að því liggja að þegar ESB reglugerðir og tilskipanir eru annars vegar sé það bókstafurinn sem gildir. Með þeim hætti er gefið í skyn að engin pólitísk álitaefni séu til staðar við innleiðingu viðkomandi reglugerða og tilskipana ESB. Rétt innleiðing þeirra sé ein og aðeins ein - þröng og samkvæmt bókstafnum.

Þetta er að mínu viti óþolandi staða og krefst þess að við gerum okkur grein fyrir henni. Á grundvelli EES höfum við búið til kerfi þar sem við látum lögfræðingum innan ráðuneyta og stofnana eftir pólitíska stefnumótun í mörgum grundvallaratriðum samfélagsins.

Ég ber mikla virðingu lögfræðingum og þeirra þekkingu um það snýst málið ekki - svo það sé nú alveg klárt. Ég er aftur á móti ekki sannfærð um að það sé gott fyrirkomulag fyrir samfélagið okkar að við látum lögfræðingum sem ekki eru lýðræðislega kjörnir eftir lagasetningu. Þannig virkar þetta fyrirkomulag því miður í reynd. Ef að ESB reglugerðir og tilskipanir sem við erum skuldbundin til að taka upp eru ekki pólitísk álitaefni heldur lögfræðileg úrlausnarefni þá búum við lagsetningarvald lögfræðinga en ekki kjörinna fulltrúa.

Stjórnmálamennirnir hætta sér ekki út í að kynna sér þessar reglugerðir og tilskipanir ofan í kjölinn, þeir láta lögfræðingunum þetta eftir og segja okkur að „við verðum að taka þetta upp vegna EES". Þannig búum við Íslendingar í mörgum málaflokkum við lögfræðingavald í stað löggjafarvalds.

Þetta fyrirkomulag getur íslenskt samfélag ekki búið við til framtíðar. Um þetta þurfum við að tala.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...