fimmtudagur, 9. maí 2002

Pólitísk umræða – ungt fólk – sjálfhverfa/þröngsýni/víðsýni!

Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála félaga ritstjóra vors sem bað um meiri skrif um háskólasamfélagið hér á vefnum.  Á meðan ég nýt þeirra forréttinda að fá að skrifa um það sem mér sýnist ætla ég að forðast það eins og heitan eldinn að minnast á Bifröst og samfélagið hér – hvers vegna?  Vegna þess að ég er þess fullviss að það er nákvæmlega það sem þetta samfélag þarf á að halda, það er það sem öll samfélög þurfa á að halda, lítil og smá.  Við þörfnumst ekki sjálfhverfu og þröngsýni, við þörfnumst mest af öllu víðsýni – að hugsa lengra en nef okkar nær.  Við þörfnumst þroska, við þörfnumst þess að horfa á hlutina í samhengi, við þörfnumst heimspeki, hugsjóna – annarra heldur en þeirra að græða sem mesta peninga í dag!  Við þörfnumst upphafningar á “andlegum þroska” fyrst og fremst. Sá þroski mun aldrei nást ef umræðan kemst aldrei á hærra plan en lesa má um í “Séð og heyrt”.  

Ég hef satt að segja haft áhyggjur af þessu málefni lengi, ég skelfist þá hugsun ungs fólks í dag að því komi ekkert við annað en það sjálft.  Því komi ekkert við hvað gerðist í fortíðinni eða hvað er að gerast annars staðar í samtíðinni, eða hvað framtíðin ber í skauti sér.  Það er stundum eins og það eina sem það kæri sig um að hugsa um sé  það sjálft.  Ég hef oft velt þessu umræðuefni upp og er þá oft afgreidd sem “gömul nöldurskjóða”.  Ungt fólk hafi alltaf verið upptekið af sjálfu sér og þannig muni það alltaf vera.  Vissulega er mikið til í því en ég er samt sannfærð um að sjaldan hafi ungt fólk verið jafn “sjálfhverft” og það er í dag.  Hvar eru hugsjónir þess og hverjar eru þær?   

Ég skelfist þá hugsun ungra kvenna að jafnréttismál séu “hallærisleg” málefni sem þær þurfi ekki að hafa áhyggjur af.  Þær halda margar hverjar að þær eigi heiminn og þurfi ekki að taka tillit til eins eða neins.  Guð hjálpi þeim þegar þær fara að reka sig á, að þetta sem þær héldu að væri svo einfalt reynist svo kannski ekki svo einfalt.  

Ég skelfist þröngsýni ungra karlmanna sem eru sannfærðir um að þeirra sé sannleikurinn!  Ég skelfist líka samfélag sem ýtir undir þessa skoðun þeirra!  

Ég skelfist þá einu hugsjón sem upprennandi  kynslóð virðist hafa – “peninga”!

Ég vona að ég kalli yfir mig stríð með skrifum sem þessum því mér þykir vænt um ungt fólk – sem og annað fólk!  Það er einmitt kjarni málsins.  Mig langar til að færa umræðuna yfir á annað plan.  Ég hef ekki áhuga á kjaftasögum eða “lágkúru” mannsins.  Ég hef miklu meiri áhuga á getu hans til að hugsa og segja það sem í honum býr.  

Mér verður oft hugsað til bóka Steingríms Hermannssonar þar sem rekur m.a. heimsóknir sínar til bænda í afskekktum sveitum á Ströndum.  Á þessum tíma þegar ekkert var sjónvarpið, ekkert net, jafnvel ekki alltaf útvarp kom hann í heimsóknir til manna sem fylgdust vel með því sem var að gerast í umheiminum.  Hann gat rætt við þessa menn og þeir höfðu skoðanir á því sem var að gerast í öðrum heimsálfum.  Hversu stórt hlutfall okkar veit brot af því sem þessir menn vissu á þá?  Spurning sem gaman væri að geta nálgast svar við en er væntanlega ekki hægt úr þessu.  

Það er vissulega fyrir löngu síðan kominn tími til að efla þjóðfélagsumræðu  á meðal alls almennings hér á landi og hvar er það betur við hæfi en á Bifröst þar sem andi Jónasar frá Hriflu svífur yfir vötnum!

Eflum því pólitíska umræðu – látum hana endilega verða umræðu en ekki einræðu einstakra aðila!  

Bifröst 8. maí 2002                                Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir

“Tómleikinn felur í sér andlegan dauða.  Hann felur í sér grafhýsi hugsjónanna sem eiga að lýsa upp veruleikann og sýna okkur hvað er raunverulega þess virði að gera.  Verði hugsjónirnar tómleikanum að bráð, missum við sjónar á því sem gefur lífinu gildi.  Missum við sjónar á gildi lífsins, höfum við engar forsendur til að setja okkur markmið og taka ákvarðanir.  Þá verðum við skeytingarlaus í hugsun og hegðun, gerum eitt í dag og annað á morgun uns ruglið og bægslagangurinn byrgja okkur endanlega sýn á heiminn.  Þá myrkvast veröldin öll eins og hún leggur sig í efnalegu sem andlegu tilliti…  …”andleg viðreisn er eina von okkar.”  

Páll Skúlason – Pælingar II 
“Blómlegt andlegt líf er forsenda góðs efnahags og bættra stjórnmála”
(birtist í Mbl. 1989)  


miðvikudagur, 1. maí 2002

Veröld sem var...

Ég ákvað að spyrja ritstjórann okkar í dag hvaða efni hann teldi áhugavert að skrifa um.  Hann nefndi til sögunnar væntanlegar borgarstjórnarkosningar og nýlegt viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson í þættinum Íslendingar á einhverri þeirra sjónvarpsstöðva sem ég hef fyrir löngu gleymt að sé til.  Fínar ábendingar fyrir annars þreyttan huga á þessum síðustu metrum misserisverkefnis… En ég er í heimspekilegum hugleiðingum í kvöld og dægurmálin geta ómögulega kveikt í mér elda. 

Ein er sú bók sem hefur haft meiri áhrif á mig en nokkur önnur sem ég hef á ævi minni lesið – hún heitir eins og titillinn hér að ofan “Veröld sem var.”  Þetta er bók sem ég vildi óska öllum heimsins börnum að lesa strax á unga aldri – og kannski er aldrei meiri þörf en einmitt nú í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í heiminum og virðist engan endi ætla að taka.

Höfundur bókarinnar, Stefan Zweig (1881-1942) austurrískur Gyðingur, rithöfundur, húmanisti og friðarsinni  - eins og hann sjálfur kallar sig skrifar þessa bók í þeim tilgangi einum að upplýsa okkur öll, sem eitt sinn vorum komandi kynslóðir – um veröld sem eitt sinn var.  Hann framdi sjálfsmorð í Brasilíu 23. febrúar 1942.  Gefum honum orðið…

“Ég er alinn upp í Vín, tvö þúsund ára gamalli heimsborg, en varð að hrökklast þaðan líkt og glæpamaður, áður en hún var gerð að þýskum útkjálkabæ.  Verk mín á frummálinu hafa verið brennd til ösku í landi þar sem þau nutu vinsælda hjá milljónum lesenda.  Þannig á ég hvergi heima, er alls staðar útlendur og þegar best lætur gestur.  Jafnvel Evrópa, það heimaland, sem mér er hjartfólgnast, er mér glötuð, þar sem hún nú öðru sinni flýtur í bræðrablóði.  Gegn vilja mínum hef ég orðið vitni að ægilegasta ósigri mannlegrar skynsemi og trylltustu sigurför villimennskunnar, sem sagan getur.  Aldrei hefur nokkur kynslóð á jafnháu andlegu þroskastigi – ég segi þetta ekki af stolti, heldur blygðun – beðið slíkt siðferðilegt skipbrot og okkar.

Sjálfur hef ég lifað tvær mestu styrjaldir mannkynssögunnar og meira að segja verið sitt hvorum megin víglínunnar, fyrra skiptið Þjóðverjamegin, seinna skiptið meðal andstæðinga þeirra.  Fyrir styrjaldirnar bjó ég við einstaklingsfrelsi, eins og best verður á kosið, en kynntist seinna meira ófrelsi en þekkst hefur um aldaraðir.  Ég hef bæði verið hylltur og útlægur ger, verið frjáls og ófrjáls, ríkur og fátækur.  Allir hinir válegu fákar Opinberunarbókarinnar hafa leikið lausir um mína daga:  bylting og hungursneyð, gengishrun og ofsóknir, drepsóttir og landflótti.  Ég hef með eigin augum séð hinar miklu múgstefnur vaxa úr grasi og breiðast um löndin:  fasismann á Ítalíu, nasismann í Þýskalandi, bolsévismann í Rússlandi.  En fyrst og fremst er þó þjóðernishyggjan sú erkiplága, sem eitrað hefur blóma evrópskrar menningar.  [feitletrun á ábyrgð höfundar.] Ráðþrota og varnarlaus hlaut ég að verða vitni að því óskiljanlega öfugstreymi, að mannkynið tæki upp háttu þeirrar villimennsku, er allir hugðu það löngu vaxið upp úr, og gerði sér jafnvel mannvonskuna að miði.  Fyrir okkur átti það fyrir að liggja að kynnast fyrirvaralausum árásarstyrjöldum, fangabúðum, pyntingum, stórfelldum eignaránum og loftárásum á varnarlausar borgir, en níðingsháttur af þessu tagi hefur ekki þekkst síðustu fimmtíu mannsaldrana og verður vonandi ekki umborinn af komandi kynslóðum.

Hinir frjálslyndu hugsjónamenn nítjándu aldar voru einlæglega sannfærðir um, að sá heimur, sem þeir leituðust við að skapa, væri öllum öðrum betri, og litu því með fyrirlitningu á uppreisnir, hungursneyðir og styrjaldir fyrri alda, sem þeir álitu tilheyra hinu fávísa gelgjuskeiði mannkynsins.  Nú mundu hins vegar ekki líða nema nokkrir áratugir, þangað til fullnaðarsigur yrði unninn á allri mannvonsku og ofbeldishneigð, og sannfæringin um samfelldar, viðstöðulausar framfarir var þessari kynslóð hreint trúaratriði.  Menn trúðu á framfarirnar meir en sjálfa biblíuna, og furðuverk vísinda og tækni virtust dag hvern vitna um þennan fagnaðarboðskap…Menn trúðu ekki fremur á jafn-villimannlega afturför og stríð milli Evrópuþjóða en tröll og drauga.  Feður okkar voru staðfastir í trú sinni á haldgæði sáttfýsinngar og umburðarlyndisins.  Þeir héldu í einlægni, að smám saman mundu landamæri þurrkast út, trúarágreiningur hverfa úr sögunni og mannkynið síðan lifa sem ein heild í friði og öryggi.”

Að síðustu…

“Fram að 1914 var jörðin öllum frjáls.  Allir fóru hvert á land sem þá lysti og voru um kyrrt eins lengi og þeim sýndist.  Það þurfti engin leyfi né vegabréfsáritanir, og alltaf er mér jafnskemmt við að sjá, hvað ungt fólk verður forviða, þegar ég segi frá því, að fyrir 1918 hafi ég ferðast til Indlands og Ameríku án þess að eiga vegabréf og hafa yfirleitt séð slíkt plagg.  Menn stigu inn í lestina og út aftur án þess að spyrja neins né vera krafðir sagna og þurftu ekki að útfylla eitt einasta eitt þeirra ótölulegu skilríkja, sem nú er krafist.  Manni var í þá daga ekki íþyngt með slíkri skriffinnsku.  Vegna sjúklegrar tortryggni allra gagnvart öllum eru landamærin nú orðin margfaldir garðar tollþjóna, lögreglu og hervarða, en áður fyrr voru þau ekkert annað en ímyndaðar línur, sem menn fóru yfir jafn-áhyggjulausir og Greenwich-lengdarbauginn.  Eftir stríðið tók þjóðernisstefnan að trylla heiminn, og fyrsti sýnilegi votturinn um þennan andlega faraldur var xenephobia, hatur eða að minnsta kosti tortryggni í garð útlendinga.  Hvarvetna voru menn á verði gegn útlendingum, og alls staðar voru þeir hornrekur.”

                                               Bókin er gefin út af Íslenska kiljuklúbbnum 1996
                                               Íslensk þýðing:  Halldór J. Jónsson og erfingjar
                                               Ingólfs Pálmasonar.

Látum hér staðar numið að sinni.  Kannski nennir enginn að lesa þetta, en ég reyndi þó…  Hún hefur margt að færa okkur öllum – einmitt nú í upphafi nýrrar aldar þegar þjóðernishyggjan, sá skelfilegi draugur virðist enn einu sinni eiga greiðan aðgang að huga okkar mannanna.    Mikið skelfilega höfum við lítið lært, mikið skelfilega höfum við þroskast lítið í gegnum aldirnar.  Hvað í ósköpunum þarf til?  Erum við dæmd til að fara í sífellda hringi ár eftir ár, áratug eftir áratug, öld eftir öld? 

Lifið heil.

Bifröst 1. maí 2002                Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir

fimmtudagur, 25. apríl 2002

“Hvað er hvurs og hvað er hvað og hvað er það?”

Við þurfum breytta stefnu… sagði Þuríður Bachmann í eldhúsdagsumræðum rétt í þessu.  Fáeinum orðum síðar sagði hún eitthvað á þá leið “Vinstri hreyfingunni – grænu framboði” hefur tekist að koma fram með “nýjan” tón með vinstri stefnu sinni.  Þetta varð mér tilefni til þeirra hugleiðinga sem hér fara á eftir.  Fyrirgefið mér þó ég leyfi mér að efast um að “vinstri” stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé boðberi þeirra breytinga!

Ég er hjartanlega sammála því að við þurfum breytta stefnu – og raunar ekki nóg með það – heldur þurfum við breytta hugsun.  Nú í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar er lag til að hugsa hlutina upp á nýtt – horfa fram á við og nýta lærdóm fortíðarinnar í þeirri viðleitni.  Við þurfum að henda gömlum hugmyndum og taka upp aðrar, við þurfum að losna úr viðjum hugmyndafræði gamalla tíma, hugmyndafræði sem var eitt sinn nýttist vel en er úrelt í gjörbreyttu samfélagi nútímans.  Og hver er svo þessi nýja hugsun og hver er þessi úrelta hugmyndafræði sem hér er vikið að?

Það er ný hugsun í stjórnmálum sem ég er að vísa til, það er ný hugmyndafræði – uppstokkun spilanna sem ég er að vísa til.  Það að tala enn í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar um “vinstri” og “hægri” stefnu er úrelt hugmyndafræði og flokkar heimsins eru í mismunandi miklum vandræðum við að aðlaga sig að þessari úreltu hugsun.  Við þurfum ekki að líta lengra en til umhverfisins hér á landi, hver er til “vinstri” – hvað er “vinstri” stefna?  Hver er til “hægri” hvað er “hægri” stefna?  Ég á svo sannarlega í bullandi vandræðum með að skilgreina það.  Ég sem alin er upp á einhverju rótgrónasta framsóknarheimili landsins, en hef þó alltaf haldið mig heldur til “vinstri” hef verið í mestu vandræðum með að reyna að aðlaga mínar skoðanir þeim flokki sem mér finnst ég eigi að styðja!  Hvers lags rugl er þetta eiginlega, hvernig stendur á því að málum er svo komið að mér finnst ég eigi að styðja eitt eða annað eða aðlaga mínar skoðanir einum flokki eða öðrum – hvers lags hugarfjötrar eru þar að baki?  Það eru hugarfjötrar sem mig rennir grun í að margir eigi við að glíma þessa dagana – nema kannski helst heittrúaðir Sjálfstæðismenn sem eru svo trúir sínum að þeim munar ekkert um að kokgleypa öll sín “prinsipp” í fylgni sinni við foringjann!  

Um hvað snúast stjórnmál dagsins í dag? Hvaða mismunandi stefnu hafa stjórnmálaflokkarnir sem við getum tekið afstöðu til?  Hvaða grundvallarhugsjónir eru til staðar fyrir okkur til að berjast fyrir?  Því miður þar er fátt um fína drætti hvert sem litið er. Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru allir sem einn í tilvistarkreppu því þeir hafa ekkert lengur sem sameinar þá eða aðgreinir frá hinum. Hér sit ég við borðið mitt heima í stofu og hlusta á eldhúsdagsumræður – og hvað hafa flokkarnir upp á að bjóða til að sannfæra mig um að þeir séu þess verðir að ég eigi að kjósa þá?  Ekkert! Þeir koma hver á fætur öðrum í ræðustól, en hver þeirra hefur einhverja ákveðna afstöðu í þeim grundvallarmálum sem ég vil taka afstöðu til – enginn!  Hver hefur sett Evrópusambandsaðild á dagskrá – enginn!  Hver opnar umræðuna um að opna fyrir beinar erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi á Íslandi – enginn!  Hver þorir að taka af skarið og horfa fram á við – gefa mér framtíðarsýn – eitthvað til að trúa á – enginn!  Þarna eru þeir enn einu sinni – allir sem einn ýmist með eða á móti stóriðju, með eða á móti því sem framkvæmt hefur verið á kjörtímabilinu, þeir eru þarna enn eins og þeir voru þarna fyrir tuttugu árum, gott ef ekki þrjátíu árum, enn að deila um hversu miklu skuli varið til byggðastefnu o.sfrv., o.s.frv.  

Ég er alin upp í sveit og frá því ég var smástelpa hefur það þetta orð dunið í orðum mínum “byggðastefna”!  Á sama tíma hafa foreldrar mínir - sauðfjárbændur upp í sveit átt sífellt erfiðara með að lifa af.  Hvers vegna?  Það skyldi þó aldrei vera að hluta þess sé að finna í því að stjórnmálaflokkarnir hafa algjörlega brugðist í því að hafa uppi vitræna umræðu um hver staðan er og í framhaldi af því skoða – hvaða möguleikar eru í stöðunni?  Stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa lengi verið “með” eða á “móti” byggðastefnu, en hafa þeir einhvern tíma reynt að komast að kjarna málsins?  Flestir stjórnmálaflokkar hafa meira eða minna hafa blaðrað út og suður um það hversu mikilvægt það sé að halda byggð í landinu og hafa hver á sinn hátt haft uppi tilburði til að “bjarga” landsbyggðinni frá hruni með misheppnuðum björgunaraðgerðum.  Ég spyr – er þetta ekki týpískt dæmi um þörf á nýrri hugsun?  Er “byggðastefna” ekki hugmyndafræði sem fyrir löngu er kominn tími til að henda á hauguna – eða getið þið bent mér á að sértækar aðgerðir misviturra stjórnmálamanna hafi gert landsbyggðinni eitthvað gott á undanförnum árum og áratugum? Umræðan um þetta málefni hefur lengi verið á skelfilegu plani án þess að við höfum nokkurn tímann komist nær nokkurri lausn.  Málflutningur krata á tímabili var þess eðlis að sauðfjárbændur voru nánast farnir að skammast sín fyrir að vera til – sauðfjárbændur voru sökudólgar fyrir öllu sem aflaga fór í þjóðfélaginu – er það góð aðferð til að leita að kjarna málsins – hefur það að hafa sökudólginn fært okkur einhverju nær lausn þess vanda sem sauðfjárbúskapur og landsmenn allir búa við?  

Allir stjórnmálaflokkar hafa meira eða minna blaðrað um nauðsyn þess að efla menntun í landinu – hafa komið fram einhverjar tillögur í því efni?  Í fjöldamörg ár hefur þjóðin nánast verið í gíslingu vegna kjara kennara. Nú í upphafi aldarinnar urðu tímamót þegar loks var gerð breyting í þá átt að lagæra þennan vanda – hverjir voru það sem unnu að þeirri lausn?  Það voru svo sannarlega ekki stjórnmálamenn, nei – þeir kusu heldur að halda fast við sinn keip þar sem þeirra samningsaðilar voru í verkfalli í nærri tvo mánuði.  Er hér ekki þörf á nýrri hugmyndafræði?  Þarf ekki að fara ofan í hvað nákvæmlega er verið að tala um þegar sagt er að þurfi að stuðla að og efla menntun og þekkingu landsmanna?  Þarf ekki að skoða hvernig er staðan í dag – hvar erum við og hvert viljum við fara?  Er ekki kominn tími til að efna til umræðu í öðru formi en slagorðaformi?  

Ögmundur Jónasson talaði fjálglega í kvöld um þörf landsmanna á betri vaxtakjörum – ég spyr er hann tilbúinn að skoða aðild að Evrópusambandinu í því tilliti?  Eða heldur hann eins og margir virðast enn halda að Ísland sé hið eina sanna eyland – ÓHÁÐ – umheiminum sem eitt og sér geti gert kraftaverk á sviði gjaldeyrismála sem annarra mála.  Hannes Hólmsteinn kom hér og hafði uppi stór orð um hugmyndir sínar að Ísland yrði ríkasta land heims, hugmyndir sínar byggði hann á því að Ísland yrði skattaparadís heimsins.  Á sama tíma er hann trúr sínum flokki – á móti beinum erlendum fjárfestingum í íslenskum sjávarútvegi!  Ég spyr – í hverju ættu erlendir aðilar svo sem að vilja fjárfesta hér ef ekki í sjávarútvegi?  Er krónan svo sterkur gjaldmiðill í samkeppni við erlenda gjaldmiðla heimsins að það sé líklegt að erlendir aðilar vilji fjárfesta í skuldabréfum hér – eða hvað á hann nákvæmlega við? 

Hér hefur verið látið vaða á súðum – vonandi hefur það skemmt einhverjum.  Ég er alla vega að láta draum minn rætast – hvort sem einhver vill taka þátt í honum með mér eða ekki!  Mig langar til að sjá og heyra breytingar.  Mig langar til að heyra menn tala um það sem skiptir máli.  Mig langar til að heyra menn þora að leita að kjarna málsins og takast á við hann.  Mig langar til að sjá stjórnmál fara að snúast um annað en það að vera “með” eða á “móti”.  Mig langar til að sjá heim þar sem stjórnmál snúast ekki um að vera til “hægri” eða til “vinstri” heldur miklu fremur um það hvað það er sem skiptir máli. Mig langar til að sjá heim þar sem slagorð og markaðssetning þeirra er ekki viðfangsefnið – heldur  innihaldið.  Mig langar til að sjá heim framkvæmda en ekki innhaldslausra orða sem engu skila.  Ég hef tækifærið til að gefa ykkur hlutdeild í þessum draumum mínum – hvað síðan gerist er ykkar að ákveða!

Bifröst 24. apríl 2002                    Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir

“Lífið er eins og aðspila á spil -
með spekingslegum svip og taka í nefið
Þótt þú tapir það gerir ekkert til –
það er nefnilega vitlaust gefið”
                        Steinn Steinarr


fimmtudagur, 18. apríl 2002

Ísland – fyrirmynd annara lýðræðisríkja?

Öðruvísi mér áður brá – forseti íslenska lýðveldisins, alþjóðasinninn sem ég hlustaði á í andakt forðum daga er andhverfur Evrópusambandinu og ekki nóg með það – heldur fer að dæmi andspyrnumanna og gefur hræðsluáróðri byr undir báða vængi með því að tala um “skriffinnana í Brussel”, “lýðræðishalla” og fleira í sama dúr – Ólafur Ragnar Grímsson sem til margra ára var fyrirmynd mín um “alvöru alþjóðasinna”!  

Ég er svo undrandi að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.  Hvaða “lýðræðishalla” eru menn að tala um og hvaða “skriffinna” eru menn að tala um?  Halda menn að Íslendingar séu sérfræðingar og fyrirmyndir annara þjóða hvað varðar lýðræði, eða er sérstakur skortur á “skriffinnsku” hér á landi???   Það stendur í mér af tilhugsuninni einni saman!  Hvaðan hafa réttarbætur síðastliðins áratugar komið til Íslands – ef ekki erlendis frá?  Hversu mörg lög hafa ekki verið “leiðrétt” til hagsbóta fyrir okkur almenning á Íslandi einmitt vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu?  Hvar væri “litli maðurinn” á Íslandi staddur í dag ef blessaður umheimurinn hefði ekki haft umtalsverð áhrif hér og séð til þess að rétta hag hans þegar íslenskt réttarkerfi hefur algjörlega brugðist honum?  Það veit sá sem allt veit að oftar en einu sinni hef ég þakkað guði fyrir að til séu æðri dómstólar en Hæstiréttur Íslands undanfarinn áratug, og öryggi mitt er margfalt meira einmitt vegna þess að ég veit að velferð mín er ekki alfarið undir íslenskri stjórnskipan komin, eða ef út í það er farið forsætisráðherra þeim sem nú situr!

Hvað er lýðræði og þar af leiðandi “lýðræðishalli”?  Í bók Gunnars G. Schram, Stjórnskipunarrétti segir m.a. “Íslensk stjórnskipun er lýðræðisleg”, síðan telur hann upp þá þætti sem styðja þessa fullyrðingu svo sem að allir þegnar þjóðfélagsins kjósa æðstu valdhafana, þ.e. löggjafarvaldið í leynilegum kosningum, ríkisstjórnin ber ábyrgð og er undir eftirliti lýðræðiskjörinna fulltrúa á Alþingi.  Framkvæmdavaldinu ber að fara að lögum, þegnarnir hafa rétt til að láta í ljós skoðun sína… og síðast en ekki síst “Dómstólarnir eru sjálfstæðir og eiga einungis að dæma eftir lögunum, en eru ekki bundnir við nein fyrirmæli af hálfu framkvæmdarvaldshafa”.  Að síðustu segir hann “Lýðræði er að vísu teygjanlegt hugtak og túlkað með mismunandi hætti.  Varla verður þó um það deilt að atriði þau sem áður eru nefnd, séu meginkjarni lýðræðishugtaksins”.   Þá vitum við það og erum þar með væntanlega öllu nær um hvað lýðræði er og þar með væntanlega lýðræðishalli.  Lýðræði er ekki það eitt að menn hafa frelsi til að kjósa valdhafana – þá sem setja reglurnar sem farið skal eftir.  Lýðræði er hugtak sem nær yfir marga þætti samtímis. Hvað sýnist mönnum svo – eru Íslendingar fyrirmyndir annarra þjóða hvað ofangreinda þætti varðar?  Þið verðið að fyrirgefa mér en ég vil leyfa mér að draga það stórlega í efa.  

Hvernig var komið fyrir dómstólum hér á landi í upphafi síðasta áratugar, fyrir áhrif hvaðan var íslenskri dómskipan breytt í þá veru að tekinn var upp aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði með lögum 1992?  Fyrir áhrif hvaðan voru íslensku stjórnsýslulögin sett?  Fyrir áhrif hvaðan hafa umtalsverðar breytingar átt sér stað í íslenskri löggjöf og dómsniðurstöðum undanfarinn áratug.  Fyrir áhrif hvaðan hefur íslenski launþeginn öðlast aukinn rétt?  Fyrir áhrif hvaðan hafa íslenskir neytendur öðlast aukinn rétt?  Og svo mætti lengi áfram telja en einhvers staðar verður að láta staðar numið - hverju má þakka þessa þróun ef ekki erlendum áhrifum?  Mér er sama hvort rekja megi áhrifin til mannréttindasáttmála Evrópu (sem raunar hefur verið tekinn í lög hér á landi nú) og þar með Mannréttindadómstólsins, Evrópuréttarins og þar með Evrópudómstólsins eða tilskipana Evrópusambandsins. Það er svo morgunljóst hverjum þeim sem fylgst hefur með þróun samfélagsins að sú öra þróun sem orðið hefur á réttarfarinu til hagsbóta fyrir almenning síðastliðinn áratug hefur í flestum atriðum orðið vegna þess að við höfum verið knúnir til þess en ekki vegna þess að íslenski löggjafinn hafi fundið þá þörf hjá sér.  Hvað er ég að segja með þessu?  Ég er að segja það með þessu að lýðræði á Íslandi hefur batnað að miklum mun vegna erlendra áhrifa síðastliðinn áratug, lýðræðið hefur batnað vegna þess að löggjöfin og þar með það réttarumhverfi sem við – þegnarnir - búum við hefur batnað.

Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur ríkisstjórn Íslands, með forsætisráðherra í broddi fylkingar á ýmsan hátt reynt að hindra lýðræðið.  Þannig hefur Davíð Oddsson margsinnis reynt að kæfa umræðu þjóðarinnar um grundvallarmálefni síðustu misserin. Helst hefur mátt á honum skilja að hann vildi banna umræður íslensku þjóðarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Þar með hefur hann reynt að koma í veg fyrir að þegnarnir láti í ljós skoðun sína, sem er ein af grundvallarstoðum lýðræðisins. Honum líkaði ekki heldur að menn töluðu opinskátt um verðbólguástandið, þeir sem leyfðu sér að spá öðruvísi fyrir um framtíðarhorfur þjóðarskútunnar en honum þóknaðist voru látnir finna fyrir því og hreinlega lagðir niður! Þá hefur hann leynt og ljóst reynt og jafnvel haft áhrif á dómstóla í úrskurðum sínum og þarf ekki að líta lengra en til vinnubragða hans við skipan nefndar til að túlka Öryrkjadóminn svokallaða og ekki vakna síður spurningar við lestur Vatnseyrardómsins, var það sjálfstæður úrskurður og óháður vilja framkvæmdavaldsins?  Forsætisráðherra þjóðarinnar hefur ekki getað leyft sér algjört einræði en hann hefur svo sannarlega teygt sig miklu lengra í þá átt en eðlilegt er í þjóðfélagi sem vill kalla sig lýðræðisþjóðfélag, að ég tali nú ekki um þjóðfélag sem telur sig hafa efni á að vera fyrirmynd annara ríkja hvað varðar lýðræði.  Nei má ég þá frekar biðja um blessaða “skriffinnana” í Brussel.

Bifröst 18, apríl 2002                                Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir


Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...