Öðruvísi mér áður brá – forseti íslenska lýðveldisins, alþjóðasinninn sem ég hlustaði á í andakt forðum daga er andhverfur Evrópusambandinu og ekki nóg með það – heldur fer að dæmi andspyrnumanna og gefur hræðsluáróðri byr undir báða vængi með því að tala um “skriffinnana í Brussel”, “lýðræðishalla” og fleira í sama dúr – Ólafur Ragnar Grímsson sem til margra ára var fyrirmynd mín um “alvöru alþjóðasinna”!
Ég er svo undrandi að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Hvaða “lýðræðishalla” eru menn að tala um og hvaða “skriffinna” eru menn að tala um? Halda menn að Íslendingar séu sérfræðingar og fyrirmyndir annara þjóða hvað varðar lýðræði, eða er sérstakur skortur á “skriffinnsku” hér á landi??? Það stendur í mér af tilhugsuninni einni saman! Hvaðan hafa réttarbætur síðastliðins áratugar komið til Íslands – ef ekki erlendis frá? Hversu mörg lög hafa ekki verið “leiðrétt” til hagsbóta fyrir okkur almenning á Íslandi einmitt vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu? Hvar væri “litli maðurinn” á Íslandi staddur í dag ef blessaður umheimurinn hefði ekki haft umtalsverð áhrif hér og séð til þess að rétta hag hans þegar íslenskt réttarkerfi hefur algjörlega brugðist honum? Það veit sá sem allt veit að oftar en einu sinni hef ég þakkað guði fyrir að til séu æðri dómstólar en Hæstiréttur Íslands undanfarinn áratug, og öryggi mitt er margfalt meira einmitt vegna þess að ég veit að velferð mín er ekki alfarið undir íslenskri stjórnskipan komin, eða ef út í það er farið forsætisráðherra þeim sem nú situr!
Hvað er lýðræði og þar af leiðandi “lýðræðishalli”? Í bók Gunnars G. Schram, Stjórnskipunarrétti segir m.a. “Íslensk stjórnskipun er lýðræðisleg”, síðan telur hann upp þá þætti sem styðja þessa fullyrðingu svo sem að allir þegnar þjóðfélagsins kjósa æðstu valdhafana, þ.e. löggjafarvaldið í leynilegum kosningum, ríkisstjórnin ber ábyrgð og er undir eftirliti lýðræðiskjörinna fulltrúa á Alþingi. Framkvæmdavaldinu ber að fara að lögum, þegnarnir hafa rétt til að láta í ljós skoðun sína… og síðast en ekki síst “Dómstólarnir eru sjálfstæðir og eiga einungis að dæma eftir lögunum, en eru ekki bundnir við nein fyrirmæli af hálfu framkvæmdarvaldshafa”. Að síðustu segir hann “Lýðræði er að vísu teygjanlegt hugtak og túlkað með mismunandi hætti. Varla verður þó um það deilt að atriði þau sem áður eru nefnd, séu meginkjarni lýðræðishugtaksins”. Þá vitum við það og erum þar með væntanlega öllu nær um hvað lýðræði er og þar með væntanlega lýðræðishalli. Lýðræði er ekki það eitt að menn hafa frelsi til að kjósa valdhafana – þá sem setja reglurnar sem farið skal eftir. Lýðræði er hugtak sem nær yfir marga þætti samtímis. Hvað sýnist mönnum svo – eru Íslendingar fyrirmyndir annarra þjóða hvað ofangreinda þætti varðar? Þið verðið að fyrirgefa mér en ég vil leyfa mér að draga það stórlega í efa.
Hvernig var komið fyrir dómstólum hér á landi í upphafi síðasta áratugar, fyrir áhrif hvaðan var íslenskri dómskipan breytt í þá veru að tekinn var upp aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði með lögum 1992? Fyrir áhrif hvaðan voru íslensku stjórnsýslulögin sett? Fyrir áhrif hvaðan hafa umtalsverðar breytingar átt sér stað í íslenskri löggjöf og dómsniðurstöðum undanfarinn áratug. Fyrir áhrif hvaðan hefur íslenski launþeginn öðlast aukinn rétt? Fyrir áhrif hvaðan hafa íslenskir neytendur öðlast aukinn rétt? Og svo mætti lengi áfram telja en einhvers staðar verður að láta staðar numið - hverju má þakka þessa þróun ef ekki erlendum áhrifum? Mér er sama hvort rekja megi áhrifin til mannréttindasáttmála Evrópu (sem raunar hefur verið tekinn í lög hér á landi nú) og þar með Mannréttindadómstólsins, Evrópuréttarins og þar með Evrópudómstólsins eða tilskipana Evrópusambandsins. Það er svo morgunljóst hverjum þeim sem fylgst hefur með þróun samfélagsins að sú öra þróun sem orðið hefur á réttarfarinu til hagsbóta fyrir almenning síðastliðinn áratug hefur í flestum atriðum orðið vegna þess að við höfum verið knúnir til þess en ekki vegna þess að íslenski löggjafinn hafi fundið þá þörf hjá sér. Hvað er ég að segja með þessu? Ég er að segja það með þessu að lýðræði á Íslandi hefur batnað að miklum mun vegna erlendra áhrifa síðastliðinn áratug, lýðræðið hefur batnað vegna þess að löggjöfin og þar með það réttarumhverfi sem við – þegnarnir - búum við hefur batnað.
Á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað hefur ríkisstjórn Íslands, með forsætisráðherra í broddi fylkingar á ýmsan hátt reynt að hindra lýðræðið. Þannig hefur Davíð Oddsson margsinnis reynt að kæfa umræðu þjóðarinnar um grundvallarmálefni síðustu misserin. Helst hefur mátt á honum skilja að hann vildi banna umræður íslensku þjóðarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Þar með hefur hann reynt að koma í veg fyrir að þegnarnir láti í ljós skoðun sína, sem er ein af grundvallarstoðum lýðræðisins. Honum líkaði ekki heldur að menn töluðu opinskátt um verðbólguástandið, þeir sem leyfðu sér að spá öðruvísi fyrir um framtíðarhorfur þjóðarskútunnar en honum þóknaðist voru látnir finna fyrir því og hreinlega lagðir niður! Þá hefur hann leynt og ljóst reynt og jafnvel haft áhrif á dómstóla í úrskurðum sínum og þarf ekki að líta lengra en til vinnubragða hans við skipan nefndar til að túlka Öryrkjadóminn svokallaða og ekki vakna síður spurningar við lestur Vatnseyrardómsins, var það sjálfstæður úrskurður og óháður vilja framkvæmdavaldsins? Forsætisráðherra þjóðarinnar hefur ekki getað leyft sér algjört einræði en hann hefur svo sannarlega teygt sig miklu lengra í þá átt en eðlilegt er í þjóðfélagi sem vill kalla sig lýðræðisþjóðfélag, að ég tali nú ekki um þjóðfélag sem telur sig hafa efni á að vera fyrirmynd annara ríkja hvað varðar lýðræði. Nei má ég þá frekar biðja um blessaða “skriffinnana” í Brussel.
Bifröst 18, apríl 2002 Birt á vef skólafélagsins Hrafnaspark
Signý Sigurðardóttir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli