föstudagur, 16. janúar 2026

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mér finnst ég eiga erindi.

Ég hef brunnið fyrir stjórnmál í 50 ár. Að taka skýra afstöðu til mála hefur verið mín sérstaða alla tíð og mér segir svo hugur að það geti verið ágætt innlegg inn í pólitíska umræðu núna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga árið 2026.

Ég er viðskiptafræðingur að mennt –  bóndadóttir alin upp í íslenskri sveit. Hef starfað í flutningum og í þjónustu við út- og innflytjendur meira og minna. Var beinn þátttakandi í þeim gríðarmiklu breytingum sem urðu á íslensku hagkerfi á tíunda áratug síðustu aldar og í upphafi þessarar. Fylgdist í forundran með gullæðinu í byrjun aldarinnar og síðan hruninu í kjölfarið. Hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á stjórnmálum – ekki síst efnahagsmálum – og aldrei skilið almennilega að við Íslendingar teldum að við ættum umfram allt að halda í óbreytta stöðu. Hef verið sannfærður Evrópusambandssinni í a.m.k. 30 ár og byggi þá sannfæringu  á reynslu minni af alþjóðaviðskiptum.

Um fjögurra ára skeið, í aðdraganda og eftirmála hrunsins, var ég í forystu fyrir flutningagreinina á Íslandi sem forstöðumaður flutningasviðs SVÞ og átti mikil samskipti við ráðuneytin, stjórnsýslustofnanir og Alþingi. Þar barðist ég fyrir samgöngumálaflokkinn með oddi og egg og mér er til efs að sá málaflokkur hafi í annan tíma fengið aðra eins athygli.

Ég er forkur dugleg og kraftmikill einstaklingur sem læt til mín taka á hverjum þeim vettvangi sem ég starfa á og langar að gera það á vettvangi borgarmála. Fólk sem hefur starfað með mér veit að ég get flutt fjöll, ef það er það sem ég hyggst gera.

Líf mitt hefur ekki verið samfelld sigurganga – ég hef átt mín erfiðu tímabil sem ég lít nú svo á að styrki mig frekar en hitt.

Ég er áhugamaður um manneskjuna og manneskjuna í samfélaginu. Mér er annt um fólk og ég brenn fyrir stjórnmál. Ég veit að stjórnmál skipta máli. Ég trúi að skýr afstaða skipti máli og ég þori, get og vil!

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...